Kæru notendur /smasögur

Fyrst af öllu vil ég óska ykkur gleði á nýju ári með þökk fyrir allt gamalt og gott.

Góð þátttaka var í keppninni og fengum við nokkrar flottar sögur til okkar. Það var gaman að lesa þær. Eins og áður hefur komið fram voru það Ritstjóri og Vefstjóri sem voru dómarar í keppninni.

—————-

Stutt umsögn verður veitt fyrir allar sögur áður en úrslit eru kynnt, en áður en lengra er haldið er ein saga sem verður að tala alveg sérstaklega um.



Hinir þöglu áhorfendur – eftir johma

Ég og Vefstjóri vorum sammála um að þessi saga, sérstaklega úr höndum 16 ára stúlku, væri fátt annað en meistaraverk. Dýptin, flæðið, stíllinn og tæknin er allt afburða og til algjörrar fyrirmyndar. Satt að segja vorum við Vefstjóri svo hugfangnir af þessari sögu að við áttum erfitt með að trúa að þetta ungur rithöfundur gæti skrifað aðra eins snilld, sem við töldum áður að væri einungis á færi mjög reyndra rithöfunda. Ef þú skrifaðir þessa sögu johma, ein og óstudd, þá verður þú án efa einn af færustu rithöfundum landsins á fullorðinsárum. Þá mælum við með að þú sýnir sem flestum hana og fáir hana birta í þínu nafni, því hún á að vekja athygli á þér sem fyrst.

Þessi saga er því miður ekki gjaldgeng í þessa keppni og keppir því ekki til úrslita þar sem hún er meira en tvöföld leyfð orðanotkun (1400+ af 600 leyfðum).

Allt of margir gerðu þessi mistök. Reglur eru reglur. Það felur í sér mikla færni í skrift að geta skrifað góða og hnitmiðaða sögu í stuttu máli - eitthvað sem við vildum fá fram. Þegar sagt er að algjört hámark sé 600 orð erum við ekki að fara leyfa 40-140% fleiri orð, þótt við gefum smá viðbót samþykki og skilning. Til hvers hefðum við þá tekið fram einhverja tölu ef við ætluðum okkur að vera það slakir á þessu? Einnig væri það ósanngjarnt gagnvart styttri sögum að aðrar sögur hefðu mun stærri striga til að vinna með.

—————-

Aðrar sögur verða teknar fyrir í stafrófsröð höfunda.



Jólaenglar – eftir Chantress

Falleg og vel skrifuð saga. Mikið af flottum vangaveltum, en hefði mátt vera meiri „saga“ að okkar mati. Einnig hefðiru mátt nota málsgreinar meira og betur. Ávalt spá í og vanda framsetningu. Skiptir rosalegu máli í ritheiminum. Sagan var þó góð og vel í anda jólasögu.



Aðfangadagsnótt í Skorradal – eftir coppur

Sniðug og nok fyndin saga með skondnum tengingum í tíma Harry Potter og öryggiskerfa. Talsvert vantaði þó upp á málfræði og orðaval. Hefði virkilega mátt fá eina góða yfirlesningu. Einnig nokkuð langdregin á köflum og hefði vel verið hætt að stytta hana án þess að tapa innihaldi og með því auka flæði.



Hugvekja – eftir FlapJack

Hugvekja var skemmtileg og vel upp byggð saga með góðu flæði. Sumar setningar voru þó of langar og hefði mátt huga betur að málfræðinni að því leyti. Við höfðum samt mjög gaman af þessari hugljúfu dulúð sem hefur einkennt góðar og gamlar jólasögur í gegnum tíðina og gaf henni því sterkan jólaanda. Því miður var þó hér um sama vanda að ræða og hjá öðrum, að sagan var allt of löng. Því er þessi saga ekki gjaldgeng til úrslita. Reglur eru reglur. Enginn vinnur keppni með því að brjóta þær, ef upp um hann er komið.



Brotnu jólakúlurnar – eftir johma

Þetta var mjög falleg saga, þótt sorgleg væri. Höfundur stendur sig líka frábærlega í að lýsa sjónarhorni lítils drengs. Almennt mjög vel skrifuð og góð saga. Hefði þó mátt styðjast betur við greinarskil. Gerum okkur þó grein fyrir takmörkunum Huga er kemur að framsetningu. Því mikilvægara er að styðjast við þau tól sem í boði eru.



Ef – eftir Pistasia

Líkt og með Brotnu jólakúlurnar, þá er hér um fallega, þó sorglega sögu að ræða. Nokkuð vantaði þó upp á flæði í henni – og var orðanotkun nokkuð skreytt, sem bætti engu við framsetninguna, þá fremur hitt. Einnig var hún, líkt og aðrar sögur, allt of löng (meira en tvöfalt lengri en leyft var) og gerði lengdin ekkert fyrir söguna. Hún hefði verið hnitmiðaðri og skemmtilegri ef höfundur hefði tekið sér tíma í að draga út sterku punktana, áherslurnar - og impra á þeim. Allt í allt þó ágætis saga. Hún er þó ekki gjaldgeng í keppnina sökum lengdar.



Einu sinni á ágústkvöldi – eftir Rhayader

Þessi saga inniheldur fallegan boðskap sem er klassískur og vel metinn partur af hverri jólasögu. Þó verður að segja að hún kom okkur dálítið spánskt fyrir sjónir. Orðaval var talsvert undarlegt og slettur drógu úr gæðum sögunnar frekar en að bæta við hana, þar sem þær áttu engan veginn við andrúmsloftið. Einnig var of mikið af smá- og tormeltum orðum. Þessa sögu hefði mátt lesa yfir með ákvörðun um hvaða stefnu skyldi taka í framsetningu, hverju skyldi reyna að koma á framfæri.



Í svuntu og bláum kjól – eftir Violet

Ein saga til viðbótar sem sýnir okkur hvað sumir þurfa að þjást mikið fremur en gleðjast á jólunum. Er hér um virkilega flotta og grípandi sögu að ræða þar sem hvert setning átti sinn stað og hefði ekki mátt missa sín. Hún dregur upp skýra mynd af vanlíðan sögupersóna og hefur frábærar lýsingar. Einnig vorum við mjög hrifnir af flottri og skemmtilegri framsetningu sem notaði þau takmörkuðu tól sem Hugi hefur til boða til þess að draga fram álagspunkta og annars konar ástand. Af innihaldsmikilli sögu að vera vantaði þó nokkuð upp á „ljósið í myrkrinu“ líkt og jólasögur hafa iðulega eitthvað af á einhverjum tímapunkti atburðarrásarinnar.


—————
Og þá eru allar sögur upptaldar
—————






******ÚRSLIT******





3. SÆTI



Jólaenglar

Þrátt fyrir að meiri áhersla hefði mátt vera á sögubygginguna var metnaðurinn á bak við söguna vel sýnilegur og vangavelturnar góðar. Jólaandinn var einnig góður og stóð því sagan fyrir sínu.


Til hamingju Chantress!




2. SÆTI



Brotnu jólakúlurnar

Frábær saga að öllu leyti. Hnitmiðuð og skörp sem hittir beint í mark. Endilega halda áfram á sömu braut!


Til hamingju johma!




/////////////////////////////////\\\\\\\\\\\\\\\\\\\\\\\\\\\\\\\\\\\\\



1. SÆTI



Í svuntu og bláum kjól !!!

Frábær saga að öllu leyti. Hnitmiðuð, skörp, þrungin – með frábæra og metnaðarfulla framsetningu á texta, eitthvað sem höfundar mega aldrei gleyma, hunsa eða leyfa falla á milli hluta.


KÆRLEGA TIL HAMINGJU VIOLET!!!!



/////////////////////////////////\\\\\\\\\\\\\\\\\\\\\\\\\\\\\\\\\\\\\



Ég og Vefstjóri þökkum mjög góða þátttöku og sögur! Við vonum að flestir taki þátt í næstu keppni á vegum stjórnenda áhugamálsins. Líkt og kom fram í tilkynningunni, við bjóðum okkur fram í dómnefnd þegar óskað er eftir því og tími leyfir.

Munið bara að halda ykkur innan reglanna næst!

Kær kveðja,
Ritstjóri og Vefstjóri
"People hardly ever make use of the freedoms that they do have, like freedom of thought. Instead they demand freedom of speech as compensation" - Kirkegaard