Eitt sinn, annarsstaðar, voru jólin alltaf haldin í ágúst. Svoleiðis hafði það alltaf verið og svoleiðis myndi það alltaf vera.

„Má ég, mamma, má ég fá gulviðargreifingja?“ sagði lítill strákur í ágúst, en þó var aldrei von á játandi svari við þessari spurningu.

„Nei, Bibbi minn, kannski þegar þú verður sköllóttur,“ myndu allar mæður segja, og móðir stráksins var einsog þær.

Því það var ekki aðeins að fólk héldi jólin í ágúst, því þau voru ekki mennsk, einsog við, heldur, allavega ekki að öllu leyti, því drengir misstu allt hár við kynþroskaskeiðið og stúlkur misstu hornin við sama tilefni.

Því kippti sér enginn uppvið það, þannig séð, að hópur fólks stóð ópandi, öskrandi, og kastaði grjóti í á að giska 17 ára stúlku, því hún var orðin kynþroska og var enn með horn. Öllu heldur flykktist meira af fólki að til að henda í hana grjóti.

Þartil að ungur maður, á að giska tvítugur, fangaði athygli allra og hélt stutta ræðu.

„Margt hef ég séð skammarlegt á minni þó stuttu æfi, en aldrei neitt jafnilla múskað og þetta! Haldið þér, fólk, að þér græðið hugarró og flýjið djöfla á bruttu með slíkum látalátum? Nei, þess í stað skuluð þér vorkenna greyinu, því múskið er ekki hennar fölt, fremur en ykkar eigin leyndó og afskapanir eruð almannaeign og grjótverð, og þá á jólunum!“

Þessi orð hljóma kannski skrýtin, en fólkið skildi þau, og meira til, því pilturinn hafði ýtt á rétta hnappa og minnt fólkið á helgi jólanna, því í þessum orðum voru einmitt óvart falin skilaboð sem allir sem þau heyrðu þurftu að hlýða, og þaðanífrá börðust allir sem þessi orð heyrðu fyrir réttlæti og minntu aðra á ranglæti mismununar, því hverju höfðu þau annars verið að fagna síðastliðin tvöþúsundogtvöhundruð ár?

En af piltinum og stúlkunni var að segja að þau höfðu verið elskhugar, og héldu því áfram, og lifðu vel og lengi og eignuðust fimm börn, sem bættu öll samfélagið á sinn hátt, og útaf þessum atburði hófst öld upplýsingar og velmegunar, og allt því einu sinni á ágústkvöldi hafði ást unnið hatur, því það voru nú einu sinni jólin.