Þessi saga sem kemur hérna fyrir neðan er saga sem ég skrifaði á stuttum tíma fyrir skólann. Hún á ekki að vera neitt meistaraverk heldur á hún frekar að vera til skemmtunar og til þess að hlæja af. Þess vegna er ég ekki að leita að ábendingum um hvað hefði mátt fara betur og hvað var gott heldur frekar að fá að vita hvað fólki finnst um svona sögur.

Njótið


Einar gekk upp tröppurnar að stjórnarráðinu. Vá, hugsaði hann með sér, fyrsti dagurinn sem forsætisráðherra. En hann var ekki bara einhver venjulegur ráðherra. Hann var yngsti forsætisráðherra á Íslandi frá upphafi, aðeins 23 ára gamall. Hann var háskólamenntaður hag- og stjórnmálafræðingur en hafði þó unnið sem ruslamaður þangað til fyrir einu ári. Þá lét hann loksins að sér kveða í stjórnmálum með þeim afleiðingum að hann var orðinn forsætisráðherra ári síðar.

Þegar hann kom inn í fundarherbergið sá hann að öll ríkisstjórnin lá dáin á gólfinu. Einar hafði verið í bandaríska hernum í fjögur ár og því hafði þetta verið dagleg sjón þegar hann var í Írak. Hann tók upp kúst og notaði hann til að athuga hvort það væru ekki örugglega allir dánir. Hann hringdi svo í lögregluna sem kom á staðinn eftir fimm mínútur. Einar afþakkaði áfallahjálp og ákvað að rannsaka þetta dularfulla mál sjálfur. Hann fór heim til sín þar sem hann ætlaði að undirbúa rannsóknina en fékk sér fyrst ristað brauð og kakó. Og kex. Síðar um daginn fór hann aftur í stjórnarráðið þar sem hann tók fingraför og safnaði sönnunargögnum. Hann hafði öll tól til þess enda hafði hann verið í rannsóknarlögreglunni í tvö ár. Eftir að hafa sett öll sönnunargögn í tölvuna fann hann út að öll fingraförin sem hann hafði fundið tilheyrðu íraskri konu. Hann skoðaði gagnagrunn Icelandair þar sem hann fann út að konan hafði komið til landsins þremur dögum áður og átti bókað flug til Jan Mayen eftir aðeins tvo klukkutíma. Einar flýtti sér út í bíl og keyrði af stað.

Nú yrði hann að hafa hraðar hendur ef hann ætlaði að ná konunni. Á leiðinni til Keflavíkur uppgötvaði hann að þetta var leigumorðingi á vegum írösku ríkisstjórnarinnar. Ef Einar hefði ekki mætt seint á fundinn hefði hann líklega núna verið í svörtum líkpoka í líkhúsinu. Þegar hann kom út á flugvöll sá hann konuna vera að ganga að tollhliðunum. Einar hljóp á eftir henni. Einn flugvallarlögreglumaðurinn sá hann en gerði ekkert í því því hann vissi að Einar var lögreglumaður og fyrrum samstarfsmaður hans til tveggja ára. Honum hafði sjálfum fundist konan grunsamleg þar sem hún hélt á AK-47 hríðskotariffli og hafði hótað honum lífláti ef hún fengi ekki að fara með eldvörpuna sem hún fann á lestarstöð í París í gegnum tollhliðið. Koma Einars staðfesti grun hans. Þegar Einar komst í færi stökk hann á konuna og handjárnaði með handjárnunum sem litu út eins og penni svo enginn myndi fatta hver aukavinnan hans væri. Konan var sett beint í flugvél sem flaug daglega með erlenda fanga til Guantanamo flóa.

Þegar Einar kom svo loks út úr flugstöðinni eftir að hafa þurft að svara mörgum spurningum sá hann að vararíkisstjórnin beið eftir honum. Þau nenntu ekki að fara aftur til Reykjavíkur svo að þau ákváðu að halda ríkisstjórnarfundinn á kaffihúsi í fríhöfninni. Þegar Einar fór að sofa var hann nokkuð ánægður með fyrsta daginn sem forsætisráðherra og hugsaði um það hvað hann hafði náð að koma miklu í verk á þessum örfáu klukkutímum í ráðherrasæti.