Brotnu jólakúlurnar
Jóhanna Margrét Sigurðardóttir
Ég horfði með aðdáunar augum á jólatréð. Ég hafði hjálpað mömmu allan daginn við að þrífa, skreyta og loks var allt tilbúið. Jólaseríurnar spegluðust á jólakúlunum svo tréð virtist enn bjartara. Það var skreytt hátt og lágt. Það hlyti að vera bjartara en nokkur viti.
,,Það er svo flott hjá okkur og fallegt. Ég þori að veðja að það muni vísa pabba þínum leiðina heim,” sagði mamma og kyssti mig á kinnina.
,,Ooojjj,” vældi ég. ,,Mamma, maður á ekki að kyssa stráka, bara stelpur og pabba.”
,,Fyrirgefðu Hrannar minn. Kinnarnar þínar eru bara svo sætar.” Hún brosti stríðnislega.
,,Ég er ekki sætur,” sagði ég, stappaði öðrum fætinum í gólfið og þurrkaði kinnina með hægri erminni. Ég glápti á tréð um stund. Það vantaði eitthvað.
,,Það vantar engilinn á toppinn.”
,,Á ég að lyfta þér svo þú getir sett hann upp sjálfur,” spurði mamma. Ég kinkaði kolli og tók utan um engilinn sem pabbi hafði komið með frá útlöndum.
Engillinn var með ljóst hár líkt og gull, í fannhvítum kjól með stóra vængi. Hann var með rjóðar kinnar, blá augu og var að spila á fiðlu af mikilli ástríðu.
Mamma lyfti mér upp og ég kom englinum varlega fyrir á topp jólatrésins.
,,Hann spilar fiðlu eins og pabbi. Spila allir englar á fiðlu? Þýðir það að pabbi er engill?”
,,Hahaha.. nei ástin mín. Þeir spila á allskonar hljóðfæri og pabbi þinn er ekki engill. Maður verður bara engill þegar maður deyr. Það er langt þangað til pabbi þinn deyr.”
,,Mun þá pabbi einhvern tímann spila á fiðlu í himnaríki?,” spurði ég íhugull.
,,Jú, ætli það ekki.”
,,Hvað ætli ég spili á upp á himnum? Og þú mamma? Þú kannt ekki á neitt hljóðfæri.”
,,Ætli við spilum ekki bara það sem við viljum. Farðu nú og leiktu þér. Ég ætla að klára að elda matinn. Mundu að setja skóinn út í glugga. Gluggagæir kemur í kvöld.”
Ég greip skóinn minn og setti hann út í glugga. Ég leit út um gluggann á stjörnubjartan himininn.
Stjörnurnar, hvítir gimsteinar sem einhver hafði dreift yfir svarta lakið er hékk yfir allri jörðinni. Skrítið að gimmsteinarnir skyldu ekki detta niður.
Ég starði út um gluggann, bíðandi eftir því að pabbi minn kæmi heim frá sjónum. Tréð var svo bjart og pabbi svo klár að hann hlyti að verða enga stund að rata aftur heim.
Allt í einu hringdi bjallan, mamma opnaði dyrnar og fyrir utan stóð svartklæddur maður.
Þá stöðvaðist tíminn.
Maðurinn talaði hljóðlega við mömmu og sagði henni að það væri best fyrir hana að setjast niður. Þau sátu niðri í stofu og töluðu saman og svo fór mamma allt í einu að hágráta. Hún grét og grét og barði manninn á brjóstkassann með krepptum hnefunum.
Fyrst vildi ég ekki trúa því sem maðurinn var að segja. Það bara gat ekki verið satt.
Maðurinn var að ljúga. Hann sagði að pabbi væri dáinn. Pabbi gat ekki verið dáinn. Pabbi gat ekki verið engill upp á himnum að spila á fiðlu. Það var langt þangað til að pabbi myndi deyja. Það sagði mamma. Mamma lýgur ekki. Hún lýgur aldrei. Maðurinn hlyti að vera að ljúga. Jólatréð átti að lýsa pabba leiðina heim. Ég öskraði á manninn og kallaði hann lygara.
,,Jú, Hrannar minn pabbi þinn er dáinn. Maðurinn segir satt. Pabbi þinn drukknaði í sjónum,” tókst mömmu að stynja upp með ekksogum. Ég horði í rauðbólgnu augu mömmu minnar og skildi.
Hjartað brast.
Jólagleðin sökk með pabba ofan í sjóinn.
Ég hljóp að jólatrénu og hrinti því svo að allar jólakúlurnar og allt skrautið skall í gólfið.
Eins og hamingjan brotnaði allt í þúsund mola.
Why be normal, when strange is much more interesting