Nokkrum óáhugaverðum búðum síðan og einum kakóbolla datt hún inn í litla búð sem hún hafði aldrei tekið eftir áður. Lítil gömul kona sat bak við afgreiðsluborðið og heklaði að því er virtist bleika diskamottu.
Birna leit í kringum sig og starði á gersemarnar, búðin var full af alls konar dóti og drasli og sjarminn og kanellykt svifu í loftinu.
‘'Get ég aðstoðað þig eitthvað vinan?’' spurði gamla konan. Birna brosti ‘'Nei takk, mig langar bara að skoða mig um aðeins’', ‘'Gerðu það endilega vinan’' sagði gamla konan og byrjaði á nýrri bleikri diskamottu. Birna starði dolfallin á lampa sem leit út eins og önd. ‘'Ha Ha! Mamma myndi trompast ef ég gæfi henni eitthvað svona klikkað’' Eftir nokkra stund (og nokkurt grúsk) gróf hún upp stórgerða loðhúfu upp úr kistu sem líktist einna helst fjársjóðskistu úr sjóræningjamynd, alsetta litríkum böndum og fjöðrum. Birna hugsaði um furðufuglinn litlu systur sína sem elskaði allt svona skrítið og mundi að hún átti líka eftir að finna gjöf handa henni. Birna sneri sér við og ætlaði að spyrja gömlu konuna um verðið á húfunni en þá var hún farin. ‘'Hvert ætli hún hafi farið?’' hugsaði hún með sér og litaðist um í búðinni, bak við afgreiðsluborðið fann hún tröppur sem lágu upp á, að því er virtist, efri hæð búðarinnar. Birna kallaði upp stigann, ‘'Halló? Er einhver þarna uppi?’'. Ekkert svar. Hún áræddi að kíkja upp, kannski voru fleiri gersemar þarna uppi. Hún kom upp á rykugt ris, fullt af kistum líkt og þeirri sem hún fann húfuna í. Þarna uppi var kalt og hún heyrði skrjáf sem henni leist ekki alveg nógu vel á svo hún kom sér niður aftur en þá var gamla konan aftur á sínum stað, bak við afgreiðsluborðið að hekla bleikar diskamottur.
Hroll setti að Birnu, hana langaði út, sem fyrst. Gamla konan leit upp brosandi. ‘'Fannstu eitthvað sem heillaði?’' Birna setti upp pókerfés og svaraði ‘'Jaá, ég var að velta því fyrir mér hvað þessi húfa kostaði..’', ‘'Það sem þú vilt að hún kosti’' svaraði gamla konan.
''Hvað meinaru?'' spurði Birna með efasemdartón.
-''Svona nú, láttu nú ekki eins og alger álfur, snúast ekki jólin um kærleik til náungans og frið? Við erum með alveg einstakt kerfi á hlutunum hjá okkur, einhver kemur til okkar, finnur eitthvað sem heillar og viðkomandi fær að borga hvað sem er fyrir hlutinn, stundum skiptir fólk við okkur, kemur með aðra hluti í skiptum, kemur daginn eftir með smákökur, sumir laga jafnvel til hérna eða bjóðast til að standa vaktina við afgreiðsluborðið daglangt eða svo.''
Birna hafði aldrei nokkurn tímann á sinni 19 ára ævi heyrt um viðskipti líkt og þessi.
''Eeh….takiði kort?'' spurði hún forviða
''Nei, peninga tökum við ekki og hvað þá kort, því að innistæða á einhverjum bankareikningi segir ekki mikið til um eignir manna''
''Jahá, hérna, má ég skilja húfuna eftir hérna og koma aftur seinna í dag? Eftir svona klukkutíma eða svo?''
Gamla konan jánkaði því.
Birna velti orðum gömlu konunnar fyrir sér vandlega meðan hún rölti um bæinn og naut þess að finna skammdegið leggjast yfir borgina. ‘'Hún hefur rétt fyrir sér, þó að ég væri ríkasta manneskjan á jörðinni væri ég líklega ekki hamingjusöm nema ég væri með alla fjölskylduna mína og vini mína hjá mér. Ef ég væri svo rík að ég þyrfti ekki að vinna eða fara í skólann myndi mér leiðast alveg óstjórnlega mikið og ef ég væri ekki að hafa fyrir lífinu myndi ég ekki njóta þess líkt og ég geri nú.’'
Hún mundi eftir pirringnum sem gaus upp af og til þegar hún ‘þurfti’ eða átti eftir að redda gjöfum fyrir jólin, henni hafði alltaf fundist þetta gjafastúss svo tilgangslaust en nú sá hún að gjafirnar voru kannski ekki svo tilgangslausar, hún hafði alltaf haft fyrir því að finna gjafir sem þyggjandanum gætu líkað og hefðu ef til vill eitthvert notagildi fyrir þá en það var líka tilfinningalegt gildi í gjöfum. Hún átti enn kjólinn frá Svíþjóð sem pabbi hennar hafði gefið henni mörgum árum fyrr og þó hún passaði engan veginn í hann enn, þá þótti henni vænt um hann og hann minnti hana á pabba sinn sem var alltaf úti á sjó þegar hún var lítil en hafði svo kynnst konu á Spáni og bjó þar núna ásamt henni og nokkurra mánuða gömlum tvíburum.
Birna sneri við og rölti til baka í búðina.
''Skrítið, var hún ekki hinu megin við götuna áðan?'' sagði hún ofurlágt við sjálfa sig þegar hún kom á staðinn en velti því ekki frekar fyrir sér og gekk inn.
Hún fór beint til gömlu konunnar sem var nú búin að færa sig í huggulegan hægindastól (sem Birna minnist ekki eftir að hafi verið þar klukkutíma áður) í horninu á móti innganginum.
Hún tók af skarið. ‘'Hvernig líst þér á að ég fái að koma hingað hvenær sem mér detti í hug og fái að vera hérna, afgreiða og jafnvel endurraða og ég myndi gjarnan vilja fá að laga til og þrífa uppi á risinu ef ég mætti’'
Gamla konan horfði efins á hana. ‘'Allt þetta fyrir eina húfu?’' og kláraði enn eina bleika diskamottu.
Birna brosti í kampinn. ‘'Nei, fyrir mig, ég hef ekki gefið sjálfri mér gjöf í langan tíma’'
''Gott og vel vinan'' sagði gamla konan, sem Birna sá nú að var ekki bara gömul, hún var eldgömul, forn, sem hætti að hekla örlitla stund. Gamla konan otaði heklunálinni að Birnu, ‘'Þú mátt koma til mín og hjálpa aðeins til en bara þrisvar, á morgun, á sama degi eftir ár, og svo árið eftir en svo ekki meir, er það skilið?’'
''Já frú en mætti ég spyrja hvers vegna bara þrisvar og bara einu sinni á ári?'' spurði Birna örlítið vonsvikin.
Nú var komið að gömlu konunni að brosa í kampinn.
''Nú, það eru fleiri en þú sem þyrftu að gefa sjálfum sér gjafir á jólunum''.
Munurinn á snilld og heimsku er sá að snilldin er takmörkuð.