Ég hafði yfirleitt aldrei haft frá neinu voðalega merkilegu að segja. Ekki það að ég hafi ekki viljað það, eflaust voru margir orðnir hundleiðir á helvítis rausinu í mér alltaf hreint. Mér hafði bara aldrei tekist að láta óáhugaverða sögu hljóma áhugaverða og ég hafði aldrei lent í neinu sérstaklega áhugaverðu. Það merkilegasta sem ég hafði lent í voru fjölmörg skyndikynni, og það aðeins því ég hafði aldrei náð að halda áhuga stelpna framyfir eitt, haugafullt kvöld. Kannski var það bara óheppni, kannski var ég ágætur sögumaður, kannski hafði ég bara ekki hitt réttu stelpuna, en í augnablikinu leiddist mér bara og þráði aðeins meiri spennu, að verða aðeins áhugaverðari.

Klukkan var fjögur aðfaranótt laugardags og ég var að labba heim eftir partí. Ég óskaði af öllu hjarta að eitthvað merkilegt myndi gerast, þáþegar, eitthvað frábært, eitthvað til að krydda lífið.

En ekkert gerðist.

—–

Kvöldið eftir gerðist eitthvað hinsvegar. Ég var að labba heim úr partíi, aftur, því ég var svolítil bytta. Verst var að þetta var ekki saga sem ég gat endurtekið, því þetta var saga sem gat ekki gerst.

Ég trúði ekki eigin augum, reyndar, en ekkert benti til annars en að maður hefði birst uppúr þurru. Þarsem áður var ekkert, nema eftilvill loft, stóð alltíeinu maður, sem datt reyndar strax. Ég hikaði aðeins, leið hálfskringilega, hálfrangt, enda líklega flest rangt við að birtast úr heiðskíru lofti. En manngæskan ruddi sér fljótlega til rúms og ég hljóp til mannsins, því hann leit allsekki vel út. Skyrtan hans, sem ég hélt úr fjarlægð að væri rauðflekkótt, var ekki rauðflekkótt, heldur brúnflekkótt. Og svo var blóð í henni. Fullt af því.

Hann var við dauðans dyr. Ég beygði mig yfir hann, lyfti andlitinu, og brá svo mikið að ég sleppti takinu á honum og hausinn skall í gangstéttinni. Á hann vantaði andlitið. Það var ekki einsog einhver hefði pyntað hann með því að skera það af með ostaskera, eða eitthvað þvíumlíkt, því ég sá ekki í neina taugaenda. Ég sá hinsvegar enga andlitsmynd, enga andlitsdrætti, og í þokkabót var andlit…sleysið hans alrautt af blóði. Hann hóstaði, og hætti svo að anda.

Ég stóð upp og reyndi að ná stjórn á andardrættinum. Ég lokaði augunum og taldi rólega upp að tíu, og fann nokkra ró svífa yfir mig, nóg til að halda andliti, allavega. Þartil ég opnaði augun aftur, því maðurinn var horfinn, og ég öskraði miður karlmannlega. Tími til að telja aftur upp að tíu.

Á meðan ég taldi í huganum tókst mér að telja mér trú um að ég væri bara of fullur, ég hefði séð ofsjónir, og ég ætti að gleyma þessu. Þartil ég fann fyrir bleytu á höndunum, opnaði augun og sá að blóðið var þar ennþá. Engar ofsjónir, þetta gerðist, opinberlega samkvæmt raunveruleikanum, en þá ákvað ég að búa til minn eigin raunveruleika. Ekkert gerðist, einsog vanalega, því þannig var minn raunveruleiki.

—–

Einhverntímann síðar fann ég mér loks kærustu, Önnu. Hún var ágæt, svona sæt og skemmtileg, og við pössuðum bara nokkuð vel saman. Eftir tvö ár vorum við komin í nokkuð þægilega rútínu, fremur ómerkilega, en ekkert of leiðinlega. Ég var líka orðinn aðeins sáttari við ómerkilegheit.

Eitt síðdegið þegar ég var að koma heim úr vinnunni staldraði ég við bekk fyrir utan hjá okkur, til að reykja. Og skyndilega ákvað raunveruleikinn minn að taka sér frí og hleypa raunveruleikanum að. Þarsem áður var auð gata var skyndilega gata með Önnu minni á, örlítið ringlaðri, þartil hún sá mig, og þá byrjaði hún að öskra. “Helvítið þitt, ég hata þig, ómerkilega svín, gráðuga ógeð”, eitthvað í þeim dúr, á meðan ég stóð eilítið dasaður og starði opinmynntur á hana. Ekki lengi þó, því nokkrum sekúndum eftir að hún birtist keyrði flutningabíll á hana, og ég sá hana hendast til hliðar og hverfa jafnskyndilega og hún birtist, án þess að bílstjórinn tæki eftir neinu. Ég stóð þarna agndofa, nánast grátandi, ef ekki hefði verið fyrir sjokkið, þartil ég hrökk í kút við rödd á bakvið mig.

“Hvað ertu eiginlega að stara á?” spurði Anna, næstum því forvitin.

Og enn og aftur múraði ég fyrir raunveruleikann með ónákvæmri eftirmynd.

—–

Ári síðar vorum við á einhverju fylleríi saman og fylgdumst náttúrulega að heim. Þegar við vorum fyrir utan, við það að fara inn, tókum við samt eftir raunveruleikanum. Þarsem áður var ekkert, var skyndilega komin íbúð.

Ef ég hefði verið edrú hefði ég hundsað þetta, því ég var orðinn hundleiður á óraunverulegum raunveruleika sem átti ekki að vera til. En ég var hvorki edrú né einn og Anna var forvitin, svo við kíktum inn. Um leið og við sáum hvað var þarna hefðum við átt að hlaupa út, því þetta var engin venjuleg íbúð. Þarna var bara eitt herbergi, nokkuð stórt og mikið hærra til lofts en leit útfyrir utanfrá, og eitthvað af skrítnum vélum. Við drógumst, einsog dáleidd, að einni með nokkrum stórum, rauðum tökkum. Við litum á hvort annað, glottum eilítið og ýttum svo samstundis á sitthvorn.

Og yfir mig helltust upplýsingar og allskonar skynjanir. Ég fékk algert yfirlit yfir Önnu beint í æð, allar litlar lygar sem hún hafði sagt mér, hennar raunverulegi karakter, hvernig hún skynjaði heiminn, notalegheitin við langt bað, ótrúlegri fullnægingar en ég hafði nokkurntímann upplifað og svo framvegis. Og það allra versta var hversu góð hún var. Ég sá að það versta sem framtíðarhún hefði mögulega getað gert mér var að feika fullnægingar við fertugt. Mér hafði alltaf þótt hún næs, en þetta var ótrúlegt. Og ég fann að ég breyttist. Hún var, innst inni, góð, og það gerði mig miklu betri en hún var, á stundinni. Það gerði mig eilítið hræddan, því ég var nokkuð viss um að fyrirfram hafði ég ekki verið góður innst inni, og þorði varla að hugsa hvernig Anna myndi breytast.

“Þú myndir selja mig,” sagði hún kaldlynt. Æi. Það er slæmt. Ætli ég hefði ekki gert það, fyrst hún sá það.

Ég leit á hana, rétt til að sjá fjólurautt gasský í kringum hana, og hana hverfa og birtast strax aftur örlítið nær, en ofar, fljúgandi í loftinu beint að mér, þartil sekúndubrotum síðar að hún klessti á mig, og hendin hennar var einsog hnífur, því hún stakk mig einhvernveginn með henni, og ég fann skyndilega að ég varð einsog fyrr, jafnslæmur og ég hafði verið, á meðan ég hopaði afturábak, sá hana opinmynnta, skilningsvana og þjáða stara á mig, þartil ég rakst í eitthvað sem festi mig, sneri mér í hálfhring, ýtti mér í gegnum hlið, og ég fann skerandi sársauka í andlitinu, og hafði rétt tíma til að greina gasský umlykja mig áður en ég datt, og ég fann Önnu taka utanummig, bregða, og ég hóstaði.