“Þú veist hver ég er, og ég veit hver ég er. Ég dái ýmislegt, en þú elskar ýmislegt. Þú þráir eitthvað, en mig langar í eitthvað. Ég tala, en þú syngur. Þú upplifir, mig dreymir. Ég svíf þegar þú flýgur, skil meðan þú finnur og anda á meðan þú lifir. Þú hefur heyrt um sólina, og ég er nú loksins einnig sekur um slíkt, þökk sé þér. Ég myndi segjast elska þig, ef ég vissi ekki hve lítilfjörlegar tilfinningar mínar eru við hliðina á eilífri glaðværð þinni. Svo ég bið þig, viltu kenna mér að fljúga, syngja, elska og þrá? Viltu verða mín?” Ég bíð svars á tánum, andstuttur með von í hjarta.
“Mjá.”
“Hvernig leist þér á? Eru tilfinningarnar rétt stilltar?” spyr ég, þó ég viti vel hversu mætavonlaust það er að búast við svari. Ef kötturinn hafði svar var það eflaust ekki jákvætt, því hann trítlaði í burtu við spurninguna.

Tuttugu tímar í frumsýningu og ég er taugahrúga. Hvað var ég að hugsa? Ég get ekki leikið. Ég fæ sviðsskrekk við læknisviðtöl. Hvernig á ég að geta haldið kúlinu uppá sviði, þarsem áhorfendurnir eru margfalt fleiri en ég hef nokkurntímann haft? Það er ekkert mál að standa sig vel fyrir framan köttinn. Erfiðara að halda sönsum á æfingu, þó það hafi tekist með tímanum. Ég fæ engan tíma til að jafna mig á frumsýningu. Það er bara búmm, og ég verð tekinn af lífi fyrir að klúðra sýningunni. Gleymi textanum á versta stað, örugglega.

Og viti menn, fyrr en varir stend ég uppá sviði og reyni að fara með línurnar mínar en get það ekki. Ég virðist hafa týnt tungunni minni, kannski gleymt henni heima. Allavega er ég tungulaus, og áhorfendur baula á mig. Rebekka, mótleikkona mín, sparkaði í punginn á mér fyrir klúðrið og allir fóru að hlæja. Bjargaði örugglega kvöldinu fyrir þeim. 'Fyrst hann tekur ekki einu sinni tunguna með uppá svið á hann ekkert betra skilið!' heyri ég þau hugsa.

Svo er ég skyndilega í rúminu heima. Auðvitað. Martröð. En klisjukennt.

Stuttu síðar er ég mættur niðrí leikhús. Sýningasvæði er þó eflaust betra orð yfir leikhúsið okkar, því það er varla að við höfum svo mikið sem svið til að klúðra línum á. Stígur varla þrjátíu sentimetra upp frá gólfinu.

“Jæja, ertu tilbúinn fyrir kvöldið?” heyri ég sagt fyrir aftan mig. Ég sný mér við og fæ örlítinn hnút í magann. Þarna stendur Rebekka í allri sinni fegurð. Það er næsta auðvelt að túlka ást mína á karakternum hennar, ég dreg mestmegnis af eigin tilfinningum við túlkunina.
“Eins tilbúinn og ég verð. Bara sviðsskrekkur að draga mig niður.”
“Æj, ég skil þig. Það væri svo hrikalega þægilegt að geta bara slökkt á þessum fjanda.” Þetta er ótrúlegt. Hún nánast syngur. Ég kvíði fyrir kossaatriðinu á eftir. Jújú, þetta verður náttúrulega ekki alvörukoss, hún ber þumalfingur á milli varanna. Ég óttast bara að missa mig óvart í sleik við veslings puttann.

Við endum á því að æfa nokkrar senur okkar á milli, og fyrr en varir hef ég gleymt sviðsskrekknum og nýt æfingarinnar. Það er ekki fyrren leikstjórinn finnur okkur og skammar okkur fyrir að vera ekki mætt í hópeflingaræfingarnar sínar að við föttum hvað tíminn hefur liðið.

Ekki líður á löngu þartil áhorfendur eru mættir. Sviðsskrekkurinn magnast upp við kliðinn úr salnum og ég ókyrrist eilítið, þartil fíngerð hönd laumar sér í mína og kreistir svolítið. Ég lít til hliðar og þar er Rebekka. Hún gefur mér örlítið, hughreystandi bros. Skyndilega er ég tilbúinn fyrir sýninguna.

“Þú veist hver ég er, og ég veit hver ég er. Ég dái ýmislegt, en þú elskar ýmislegt. Þú þráir eitthvað, en mig langar í eitthvað. Ég tala, en þú syngur. Þú upplifir, mig dreymir. Ég svíf þegar þú flýgur, skil meðan þú finnur og anda á meðan þú lifir. Þú hefur heyrt um sólina, og ég er nú loksins einnig sekur um slíkt, þökk sé þér. Ég myndi segjast elska þig, ef ég vissi ekki hve lítilfjörlegar tilfinningar mínar eru við hliðina á eilífri glaðværð þinni. Svo ég bið þig, viltu kenna mér að fljúga, syngja, elska og þrá? Viltu verða mín?” Ótrúlegt. Lokaatriðið, lokasetningin, og ég hef núna skilað öllu klakklaust frá mér! Svo er það bara kossinn. Rebekka stígur skref nær, og svo annað, og svo…

…hún gleymdi puttanum! Eða hvað? Er þetta viljandi? Raunverulegt? Ég þræti allavega ekki. Lifi mig bara inní augnablikið, ef hún verður fúl eftirá get ég sagst hafa gert það fyrir sýninguna. Hún er allavega virkur þátttakandi í kossinum, svo hún hlýtur að vera að hugsa á þeim línum.

Svo fer tjaldið niður. Áhorfendur klappa. Kossinn tekur enda, og ég lít á Rebekku. Hún er hikandi. Ég skælbrosi, ég ræð ekki við mig, og að lokum brosir hún. Kannski þetta hafi verið viljandi.