Er ljós handan við hornið? Örugglega, ég þori bara ekki að kíkja.

Úff hvað ég svitna, maður hefði átt að velja sér dekkri skyrtu, verð að muna eftir því næst. Ef það verður eitthvað næst.
Hvað ætli fólk haldi? Heh, þarna kemur stressaður maður sem veit ekkert hvað hann er að gera. Það er spurning hvort ég viti það. Ég er ekkert svo klár, er bara með gott fólk í kringum mig sem fórnar öllu fyrir mig, fyrir mig, kjánann sem hefur svo gott og hreint hjarta.
Trúið mér, mín tegund er að deyja út. Þessi heimur, þessi barátta snýst bara um völd og peninga, nöfn framan á stærstu blöðunum og slúður. Þessi gerði þetta og er því bestur, þessi afrekaði þetta og er því stórmenni. Hmmm, kannski er ég á vitlausum stað á vitlausum tíma, aah ég veit ekki, kannski.

Tvær mínútur, úff, ég er ekkert að höndla þetta. Öll þessi læti frammi, allur þessi mannfjöldi, bara til að sjá mig! Ég vona að ég missi ekki þráðinn þegar ég byrja á eftir, halda rónni maður, haltu þér heilum í gegnum þetta!
Mikið vildi ég að móðir mín hefði komist, ég veit að hún mun horfa á þetta í sjónvarpinu en samt, ég hefði viljað hafa hana hérna. Hún hefur staðið svo þétt að baki mér. Það gerði pabbi líka áður en hann dó. Það furðulega er að styrkur pabba fluttist yfir í mömmu þegar hann fór, svo hún tvíelfdist. Mamma hefur alltaf verið kjarnakona.

Mínúta eftir? Jæja, best að standa upp og koma sér fram fyrir tjöldin. Mikið agalega eru menn stressaðir í kringum mig. Þessi stórvaxni er þó furðulega rólegur. Ljósið frammi er svolítið sterkt. Verð að passa mig á að píra ekki eins og bjáni framan í fjöldann.
Jæja, læt mig gossa. Út með þig og gefðu almennilegan performans!
Fjárinn, ég gleymdi lesgleraugunum!


“Kæru herrar mínir og frúr, bjóðum velkominn forseta Bandaríkjanna!………”
—–