Mér langar ekki til að vakna. Ekkert frekar en venjulega. Ég ákveð að sofa a.m.k. í 10 mínútur í viðbót.

Ég svaf í tíu mínútur kannski og svo aðrar. Einhvern finnst mér eins og vekjarakukkan eigi að vera að hringja en fyrst hún gerir það ekki; skítt með það.

Þótt ég sé búin að vera hálfvakandi í heila eilífð rumska ég ekki almennilega fyrr en ég finn hönd snerta á mér öxlina. Ég rifa augun hálfúrill.

Sorglegt andlit sem ég þekki ekki.

“Guðrún,” segir maðurinn, “við þurfum að tala saman.”

Hálfsofandi ennþá og ég er í slíku ástandi að ég gæti allt eins heitið Guðrún, en ég samsvara mér ekkert sérstaklega með nafninu.


“Ég veit ekki alveg hvernig ég á að segja þetta…” segir maðurinn og hikar. Þetta er greinilega virkilega erfitt fyrir hann.

“Ég er bara ekki eins viss lengur. Ekki eins og ég var. Þú hlýtur að vita hvað ég á við. Þú hlýtur að hafa fundið það líka.”

Ég kannast ekkert við það sem hann er að segja. Aftur á móti er ég líka í hálfgerðu móki ennþá og leyfi sjálfri mér bara að melta það sem er að ske.

“Ég held að þetta sé búið.” Segir hann og þagnar skyndilega. “Alveg. Í þetta skiptið er best að við skiljum bara.”

Ég gríp andann. Langa til að segja eitthvað! Veit ekki hvað.

Hann sér það á mér og grípur frammí fyrir mér: “Ekki núna. Þú þarft ekki að segja neitt núna. Tölum saman seinna.” Hann labbar út.


Ég er miður mín. Það er alltaf leiðinlegt að vera hafnað. Manni langar til þess að vera bestur og frábærastur í augum allra.

Mikilvægasta manneskjan í lífi allra.

Meira segja þessa manns. Loksins er ég almennilega vöknuð og ég er ekki að grínast þegar ég segist ekki muna neitt. Hver var þessi gaur! Hvar er ég!

Herbergið er ótrúlega næs og minnir mig… tja… það minnir mig satt best að segja mest á sjálfa mig. Frekar látlaust svefnherbergi og tvíbreitt rúm.

Þegar maður vaknar skyndilega minnislaus þá fattar maður ekkert endilega um leið að alla baksöguna vanti.

Það er ekki eins og maður gangi um alla daga og ryfji stöðugt upp hver maður sér.

Maður andar bara og andar allan daginn þangað til maður þarf loksins að setja eitthvað í samhengi en grípur þá í tómt.


Ég er rugluð og þótt ég sé ekkert endilega þreytt þá er eina lausnin sem mér dettur í hug að setja bara kollinn aftur á koddann og fara að sofa.

Ég get sofið endalaust. Ef maður er ráðþrota fer maður bara að sofa, raunveruleikinn verður aldrei svo grimmur að hann geti svipt mig þeirri nautn.

Það er kannski ekki réttast að segja að mig hafi dreymt það frekar en bara dottið það í hug en í huganum fannst mér skyndilega að ég skildi allt.

Ég ligg á spítala minnislaus og það er kvikindslegur húsvörður sem kemur inn á morgnanna og þykist vera maðurinn minn og vilja skilnað.

Dag eftir dag um alla eilífð hryggbrýtur hann mig. Og ég er svo vitlaus að það er alltaf jafn sárt.