Hvað er ást? Hvernig er hægt að mæla hana? Í árum eða tárum? Það eru litlu hlutirnir sem fá mig til að elska hana. Finna skilkimjúka höndina á henni í stóru, siggrónu höndinni á mér. Hvernig hún fitjar upp á nefið, þegar hún brosir. Þegar ég stari laumulega á hana þegar hún er að vaska upp og ég held að hún taki ekki eftir því þangað til hún segir ,,Hvað?” nett pirruð á mér. Þegar hún dansar á nærfötunum fyrir framan spegilinn með ipodinn í eyrunum. Allir smáu hlutirnir minna mig alltaf á hvað ég er heppinn að eiga hana að og það eitt gerir hana einstaka. Þegar uppáhaldslagið hennar kemur í útvarpinu og hún byrjar að dansa. Þó við séum í Bónus. Ég skammast mín alltaf fyrir það en ég segi ekkert. Það er ást. Faðma hana bara. Það er ást.
Við sátum saman í sófanum að horfa á hryllingsmynd. Sem hún valdi. Samt hélt hún sínum fíngerðu, mjúku höndum fyrir augun allan tímann og spurði á fimm mínútna fresti: Hvað er að gerast núna?. Þetta var fyrsta andartakið sem vakti hjá mér óstjórnlega löngun til þess að segja henni að ég elskaði hana, en ég stillti mig um það. Bara búin að vera saman í þrjár vikur.
Þremur vikum seinna sagði ég það við hana. Hún var nývöknuð. Hálfsofandi og með hárið úfið eins og á hænurassi í vindi þegar ég sagðist elska hana í fyrsta skipti. Hún hálfbrosti. Syfjuð. Svefndrukkin.
Það er að elska. Ég bara elska hana, svo óeinfaldlega einfalt er það.
“Life's like a dick, it gets hard for no reason”