Þegar ég varð atvinnulaus í byrjun ársins ákvað ég að halda áfram með sögu sem ég byrjaði að skrifa árið 2007. Nú er ég kominn með u.þ.b. 75.000 orð (sem eru sirka 150 stykki af A4 blaðsíðum, Times New Roman, 12 pt). Og aðeins 1 og 1/2 kafli eftir óskrifaður af 9. Hinsvegar er ég kominn með vinnu núna en sagan heldur auðvitað áfram, þó hægt gangi.

Planið er að gefa söguna út… ef ég finn útgefanda. Þetta er sci-fi saga sem gerist úti í geimnum, svo það er kannski ekki skrítið þó útgefendur gætu orðið örlítið smeykir við að taka áhættuna.

Ég ætla að henda hingað inn þremur bútum úr 1. kaflanum. Þeir samanstanda af: Kynningunni á sögunni - Kynningu á aðal persónunni - Samtali á milli áhafnarmeðlima í flutningaskipi.

Endilega commentið og leyfið mér að heyra ykkar álit - öll gagnrýni er mjög vel þegin (já þið megið finna stafsetningavillur:)).

Ég vona bara að ég geti klárað söguna í ár - og þá helst í sumar. Nafnið á henni er ekki enn ákveðið :)



Kynning á sögunni - fyrsti hluti sögunnar
—-

Árið 2050 fann mannkynið göng sem lágu inn í annað sólkerfi. Göngin fundust fyrir tilviljun af könnunargeimfari frá NASA sem átti að ferðast í átt að Satúrnus. 25 árum síðar hóf NASA að rannsaka plánetur í nýja sólkerfinu og aðeins 9 ár liðu þangað til pláneta – sem var ekki svo ólík jörðinni – fannst. Vonir manna kviknuðu um að þar gæti fundist líf og fékk nýja plánetan nafnið Jodess.

Á Jodess var lofthjúpur, nægur gróður (svo súrefni var alls ekki vandamál) og svipað hitastig og á jörðinni. Vatn þakti um 25 % af plánetunni og sá mannkynið mikið tækifæri fyrir höndum. Örverur, pöddur og nokkur dýr, sem lifðu í skóglendi, fundust, en engir grænir kallar eða nokkur önnur tegund sem líktist manninum. Fegurð og framandi rautt útlit plánetunnar var ekki það sem heillaði valdamikla embættismenn stórveldanna, heldur voru það auðlindirnar. Menn sáu fram á að geta nýtt plánetuna undir ýmsan iðnað og um leið, spornað við frekari mengun á jörðinni - sem var orðið langalvarlegasta vandamálið í heiminum. Miklar líkur voru á að nýja plánetan hefði miklar olíuauðlindir og talið var öruggt að hún hefði jarðvarma víðsvegar, sem auðvelt var að komast í.

Á næstu 15 árum frá því NASA fann Jodess voru komnar upp bækistöðvar á plánetunni og byggingarnar risu hver á fætur annarri. Búið var að styrkja lofthjúpinn svo mikið að engin geislun frá sólinni komst þar í gegn sem mennirnir þoldu ekki.

Mörgum árum síðar – 2152 – hafði stórt samfélag fest rætur sínar á Jodess. Þar bjuggu um 1,6 milljónir manna og unnu langflestir þar við iðnaðarstörf. Jarðvarminn var nýttur fyrir allskonar vinnslu; svo sem álframleiðslu úr aloxíðríku málmgrýtinu sem fannst á Jodess. Kjarnorkuver risu vegna vaxandi eftirspurnar á orku, olían var nýtt, námur spruttu upp hver af annarri og allt sem taldist hættulegt fyrir jörðina, var unnið á Jodess og var síðan stór hluti framleiðslunnar fluttur til jarðar.



Aðalpersónan kemur við sögu - kemur strax á eftir kynningunni
—-

05:10, 14.01.2190.
Við hliðina á tvíbreiðu rúmi, inni í dimmu herbergi, uppi á viðarklæddu náttborði, hringdi vekjaraklukka látlaust. Hún hafði hringt í um 10 mínútur þegar maður nokkur rumskaði, þar sem hann lá í rúminu, og tók svo skyndilega kipp eins og hann hefði allt í einu uppgötvað að hann ætti að vera mættur eitthvert. Þrátt fyrir að maðurinn starði á klukkuna í nokkrar sekúndur þurfti hann að hugsa sig um. Eftir miklar pælingar þá loks áttaði hann sig á því að klukkan var ekki nema 05:10 og var því ekki að hafa miklar áhyggjur. Eftir að hafa lamið hressilega á klukkuna, þar sem hún var umkringd innrömmuðum andlitsmyndum af tveimur ungum drengjum, stóð hann upp úr rúminu og hóf dauðaleit af fötunum sínum.

Þetta var flugmaðurinn – og brátt flugstjórinn – Ewin. 32ja ára gamall, frekar rólyndis maður, um 180 sentímetrar að hæð og einhleypur. Fullkomin blanda.

Hann nennti ekki á fætur frekar en venjulega eftir svo langt og gott frí. Enda var hann ekki vanur að þurfa að vakna svona rosalega snemma. Eina leiðin til að geta vaknað svona snemma var að skella sér í kalda sturtu. Eftir leitina miklu fann hann loksins fötin, hrúgaði þeim saman, stakk þeim undir aðra höndina og labbaði inn á baðherbergið án þess að hafa fyrir því að loka hurðinni á eftir sér. Við honum blasti ófögur dökkhærð, rauðeygð spegilmynd sem átti þó eftir að batna eftir sturtuna.

Ewin bjó einn í 50 fermetra blokkar íbúð sem hann þurfti ekki að borga af, vinnuveitandinn sá um það. Íbúðin samanstóð af einu svefnherbergi, einu baðherbergi og stofu. Hún var staðsett á Íslandi rétt við höfuðstöðvar NASA. Orkufreka fyrirtækið – sem var jafnframt ríkasta hlutafélag í heimi – var með stærstu höfuðstöðvar sínar á Íslandi vegna jarðvarmans sem það nýtti í starfsemi sína.

Hann skellti sér í heita sturtu – í þetta skiptið – og skolaði af sér svitann eftir langan- og alltof þægilegan svefn, því það voru langir dagar framundan. Nokkrum millilítrum af sjampói síðar, og enn fleiri af vatni, fór hann inn í eldhúsborðslausa eldhúsið og fékk sér eitt orkustykki og þambaði vatn með. Hvaða einhleypi maður þurfti eldhúsborð þegar hann eyddi mesta hluta tímanum sínum annarstaðar en heima hjá sér? Þá næst fékk hann sér flúor svo andfýlan kæfði ekki alla í vinnunni.

Þreyttur og passlega úldinn, þrátt fyrir sturtuna, gekk Ewin í átt að hvítum skáp, stimplaði inn númer í litla tölvu sem staðsett var á skápshurðinni svo hann opnaðist sjálfkrafa. Í skápnum voru útiföt. Hann valdi það hlýjasta sem hann fann því kuldinn úti var skelfilegur. Útiskórnir voru á sínum stað og þá var bara að drífa sig í vinnuna.



Matartími hjá áhafnarmeðlimum flutningaskipsins Freka, sem er á leið til Jodess - kemur frekar seint í 1. kaflanum
—-

Svartir borðstólar, stórt svart matarborð, svartir sófar – inni í þokkalega notalegu herbergi. Þetta kölluðu menn stofuna. Þarna voru heimsmálin rædd og lúnir skrokkarnir nærðust.

09:30.
Áhöfnin saman komin við matarborðið við mikinn kliður og hlátur í mönnum, allir nema Ewin. Erlendur var í sérstaklega góðu skapi þennan morgun. Væntanlega var tilhlökkunin fyrir því að hætta í starfinu svona gríðarlega mikil.

Fyrir matartímann voru nýliðarnir alltaf látnir standa upp frá matarborðinu og segja frá sjálfum sér í stuttu máli og svara nokkrum spurningum frá forvitum áhafnameðlimum. Fyrir suma gat það reynst erfitt að standa fyrir framan nokkrar hræður og kynna sig, en fyrir aðra var það ekkert mál.

Eini nýliðinn þarna inni var hún Sigga, ef nýliða mætti kalla. Hún var þarna í allt öðrum tilgangi en allir aðrir sem höfðu snætt við matarborðið, en var þó gert að kynna sig fyrir öllum áður en einhver biði sig fram til að ná í matinn.

„Gjörðu svo vel Sigríður,“ sagði Erlendur. Hún leit á glottið hans, frekar vandræðaleg og vissi alveg hvað stæði til – þeir voru búnir að segja henni frá öllu. Hún stóð upp, augljóslega stressuð, en lét sig hafa það. Erlendur sat við hliðina á henni gat hann ekki annað en gjóað augunum að afturendanum á henni, og virtist sem hver einn og einasti karlmaður við matarborðið hafi gert það sama.

„Ég heiti Sigríður, þið megið kalla mig Siggu. Ég er 24 ára gömul og eins og einhverjir hérna vita er ég að læra félagsvísindi í Háskólanum í Reykjavík. Sjálf er ég úr Reykjavík.“

Hún ætlaði að setjast aftur niður í sætið en þá heyrðist kliður frá áhöfninni. Menn vildu vita meira. „Abbabb abb, þú ert rétt að byrja,“ sagði David og Sigga hætti strax við að setjast.

„Hvað ertu að fara að gera á Jodess?“ spurði Erlendur.

„Ég er að fara að vinna verkefni. Ég ætla að búa þar í nokkurn tíma og skrá niður allar upplýsingar varðandi hegðun fólksins sem býr þar.“

„Af hverju Jodess?“ hélt Erlendur áfram.

„Ehh, af hverju ekki… Margir hafa átt heima þar nánast alla sína ævi og má ætla að hegðun þeirra sé farin að breytast eitthvað frá hegðun manna á jörðinni vegna fjarlægðarinnar þar á milli.“

„En þú hefur væntanlega fræðst mikið um Jodess, ekki satt?” spurði Linda frekar sérkennileg á svipinn.

,,Jú, alveg töluvert. Í náminu er mikið fjallað um samfélagið á Jodess. Félagsfræðingar og aðrir nemar, eins og ég, hafa farið á Jodess í svipuðum tilgangi.“

„Það þarf sérstaka sál til að búa þar,“ sagði Erlendur.

„Sérstaklega ef þú ert ekki upp alin þar. Og þess vegna hafa sumir aðkomumenn gefist upp,“ heyrðist í Baldwin.

„Ég hef heyrt af því en ég lít á þetta sem áskorun. Glæpir hafa minnkað undanfarið og löggæslan verið hert þar síðustu mánuðina. Auk þess mun ég búa á fínu hóteli sem er vel varið fyrir glæpum, en ekki inni á verkamannasvæðum eins og flestir aðrir sem fara í sama tilgangi og ég.“

„En hefurðu ekki áhyggjur af einhverju öðru en glæpum?“ spurði Linda aftur.

„Nei ekki beint, en eins og ég segi, þetta er bara áskorun og ekkert annað.“

„Takk fyrir góða kynningu Sigga, þú mátt setjast.“ sagði Erlendur svo hún þyrfti ekki að standa fyrir framan matarborðið það sem eftir var dagsins.

„Takk.“ Sigga tyllti sér og var þungu fargi af henni létt.
,,En þar sem þú hefur væntanlega meiri þekkingu á ýmsu varðandi Jodess heldur en við sem erum lokuð inni í geimskipi flest alla daga, þá gætirðu kannski frætt okkur um það hvort einhver hafi rannsakað þessa yfirnáttúrulegu sýn sem margir virðast taka eftir sem þar búa, miðað við það sem fjölmiðlarnir segja?” spurði David.

„Jú, það hefur verið reynt í öðrum vísindagreinum. Menn hafa lagt fram ákveðnar tilgátur, tekið viðtöl og jafnvel hafa rannsakendurnir sjálfir orðið fyrir því að heyra eða sjá margt sem kemur saman við frásagnir fólks. Engin hefur þó dáið ennþá.“

„Við höfum aldrei fengið að sjá neitt,“ sagði Erlendur hneykslaður.

„Þið stoppið líka svo stutt, það gæti verið ástæðan. Margir hafa verið á Jodess í þó nokkurn tíma áður en þeir fara að sjá eða heyra eitthvað óeðlilegt í kringum sig. Einn kennari í skólanum mínum sagði nokkrum nemendum frá sinni lífsreynslu eftir að hafa verið á Jodess í nokkrar vikur. Hann var að vinna að svipaðri rannsókn og ég er að fara að vinna að. Hann sagðist ekki hafa orðið fyrir ofsjónum eins og margir vilja kannast við, en hann kvaðst oft hafa heyrt raddir sem voru greinilega ekki að bjóða hann velkominn.”

„Þetta er draugasögum líkast.“ sagði David, en hann hafði lesið mikið um þessi skrítnu fyrirbæri í fjölmiðlum, eins og svo margir. Á tímabili var þetta heitasta umræðan í deiglunni. Nú var eins og fólk væri farið að lifa með þessu á Jodess og fjölmiðlar voru nánast hættir að fjalla um ofskynjanir og ofsjónir. Þetta var orðið eðlilegt fyrir þá sem bjuggu þar.

„Ég skal ekki segja, ætli þetta sé ekki eins og allt bullið sem viðgengst á jörðinni? Draugar, huldufólk og allir guðirnir sem eiga að vera til. Svo margir vilja meina að þeir hafi séð eitthvað yfirnáttúrulegt, svo við nánari athugun, þá koma eðlilegar skýringar í ljós.“ sagði Hans, „öll okkar vísindaframför, allt það sem við höfum áorkað í að skapa þekkingu á heiminum, á jörðinni, á dýrunum í kringum okkur og okkur sjálfum, þá virðist vera sem ákveðinn hópur manna skuli alltaf hundsa þá þekkingu og reyna að troða einhverju yfirnáttúrulegu, óútskýranlegu bulli inn í lífsmynstrið okkar og reynir þannig af aftra vísindalegum framförum í stað þess að taka þátt í að komast að sannleikanum. Meira að segja núna, árið 2190, er þessi hópur ennþá til. Svo ég spyr, er þetta ekki bara upphafið á nýju kjaftæði annarstaðar í veröldinni heldur en á jörðinni?“

Hans gat leift sér að vera harðorður í garð trúarinnar þar sem engin í áhöfninni var mjög trúaður. Venjulega gat það snert tilfinningar fólks, þrátt fyrir að um lífskoðanir væru að ræða. Hann vissi auðvitað ekki með Siggu. Hann var mikill efasemdamaður. Það kom þó öllum á óvart að hann skildi hafa tjáð sig við matarborðið því hann var ekki vanur að tjá sig fyrir framan margmenni, og hvað þá með þessum hætti. Fólk þekkti hann oftast sem frekar undirgefinn mann sem lét fara lítið fyrir sér. Hann var ekki mikið að tjá sínar skoðanir við aðra og hafa fyrir því að rökræða um hin og þessi málefni. Menn voru ekki bara hissa á því, heldur voru menn einnig hissa á að hann hafi vilja koma með í ferðina, en það var annar handleggur.

„Það er mjög einkennilegt ef þetta stenst ekki, það eru svo ótrúlega margir sem hafa svipaðar sögur að segja frá Joess. Yfir 80 % þeirra sem búa þar, eða hafa búið þar, segjast hafa orðið fyrir ofskynjunum. Þá tala þeir um raddir eða jafnvel segjast menn hafa séð allskonar hvítar verur. Og allar frásagnirnar eru mjög svipaðar,“ sagði Sigga.

„Og við megum ekki gleyma því að hlutfall sjálfsmorða á Jodess eru töluvert algengari en á allri Jörðinni,“ sagði Linda.

„U.þ.b. tvöfalt fleiri,“ heyrðist í Siggu.

„En við megum ekki gleyma því að þar býr urmull af fátækum Asíubúum við slæm skilyrði,“ sagði Hans.

„Við getum auðvitað ekkert útilokað,“ sagði Braun. „Það þarf ekki að vera að það séu til yfirnáttúrulegar verur á jörðinni, í sólkerfinu okkar, eða þá í nokkrum þeim vetrarbrautum sem umlykja okkur. Og í raun tel ég að svo sé ekki. En þessi göng sem við fundum, liggja á stað sem enginn getur kortlagt, og við vitum í raun ekkert í hvaða heim við erum komin. Og því vill maður ekki vera eins skeptískur á þessar frásagnir.“

„Það er kannski rétt,“ sagði Hans, „Sigga – í bakaleiðinni – þá lætur þú okkur bara vita ef þú sérð eða heyrir eitthvað sem þú telur hafa verið draugur.“ Hans brosti, en var jafnframt að meina það sem hann sagði.

Eftir örlitla þögn notaði Erlendur tækifærið til að brjóta upp umræðuna svo hún héldi ekki áfram út í hið óendalega: ,,jæja, hver kemur með mér að ná í matinn?”

,,Ég skal hjálpa þér,” heyrðist í Baldwin.