Sé ég ekki alfarinn og allri skynsemi frá genginn, sit ég í grasinu á ágætu sumarkvöldi og anda að mér tóbaksreyk. Muni ég rétt settist ég hérna fyrir, hvað, hálftíma? og hef keðjureykt síðan þá, með hugann á reiki um óravíddir mannlegra tilfinninga. Hversu ótrúlegt er það að ég sitji hér, öllu sýnilegur og skynjandi, kraftaverk móður náttúru? Samansafn af ögnum sem saman mynda heildstæða mynd sem skynjar og þykist vera ein hugsandi heild, þó í sannleika sagt sé ég óheppileg afleiðing eilífðar alheimsins. Þegar maður verður jafngamall og alheimurinn er ekki alls ólíklegt að einn daginn taki efnin sig saman og skynji sig, þó það sé eilítið happadrætti hversu heppin þau tilteknu efni eru.
—–
„Damn. Ekkert á þessum heldur“, sagði hún og henti skafmiðanum annarshugar til vinstri.
„Enn einn miðinn?“ spurði ég glottandi.
„Já, æj, þetta hafa ekkert verið það margir. Mig langaði bara að prófa“, sagði hún hálfafsakandi.
„Það væri nú heldur ekkert amalegt að vinna.“
„En algerlega óþarft. Ég þarf ekki meira en ég hef“, sagði hún og kyssti mig.
—–
Mannkynið virðist hafa tapað í þessu happadrætti, að minnsta kosti um sinn, og situr nú skilningsvana í hásæti sínu, þegnalaust. Alheimurinn hefur þróast til að skynja sig, og loks þegar mannkynið, og þarmeð alheimurinn, er nær en nokkurntímann að skilja sig er mannkynið nær og nær því að fatta að hinn svokallaði tilgangur sem við höfum leitað að frá aldaöðli virðist enginn vera. Við erum aðeins óheppileg afleiðing elli alheimsins, samansafn síþróandi öreinda sem hefur þann eina tilgang að ríða, visna og deyja.
—–
…og þarna lágum við, ein með alheiminum, ofurskynjandi ofurmenni, flækt saman í eilífri sameiningu holds og hjarta, lýsandi yfir ódeyjandi ást tilbiðjandi Guð sem við trúðum ekki á…
—–
Hversu óheppilegt er að skynja endanleika sjálfs síns, að þrátt fyrir skilningsskynjunarkraftaverk mannkyns hafi það aðeins leitt frá þróun sem gaf með sér dauða? Hversu óheppilegt er að geta skynjað þessi óheppilegu skilningsþróunarmistök? Mannkynið skynjar ekki aðeins umhverfið heldur sig í umhverfinu, og sig innan um sig. Hversu óheppilegt er að sú grunnforsenda lífs kynæxlunartegunda að einstaklingar laðist að hvorum öðrum hafi orðið að órökréttri tilfinningahrúgu í einu sönnu skilningsskynjunartegundinni? Við erum óskiljanlegur tilfinningagrautur sem hefur þróað með sér samfélag sem heftir stanslausar nautnir, við erum lokaðar vélar í leit að hamingju í heystakki.
—–
…við lágum í rólegheitum, vart skynjandi, ef undanskildir eru undurfagrir tónar sem léku um loftið og sameinuðu okkur þarsem við lágum andspænis hvort öðru, samanflækt því við vorum eitt og myndum ávallt vera eitt, skælbrosandi í fegurð okkar…
—–
Þráttfyrir óheppileika tilveru okkar og tilfinningaóreiðu er erfitt að hundsa það kraftaverk sem við og alheimurinn erum. Tilvera okkar er hverrar óhamingjustundar virði, því hver hamingjustund er það fallegasta sem til er, þó þetta séu að sjálfsögðu ekki annað en órökrétt orð tilfinningaveru. Sem tilfinningaveru er mér þó alveg sama, því ég get ekki ímyndað mér hamingjusnauðan og rökréttan heim fremur en annararvíddarverur sem þróuðust án tilfinninga gætu ímyndað sér kost tilfinninga.
—–
…og þarsem við lágum, sáttari en nokkur gæti nokkurntímann hafa verið, fullkomnaði hún tilfinningabombuna sem ég upplifði og hvíslaði; „Við verðum saman að eilífu, ég lofa“, og ég samsinnti henni samstundis, og orðin sváfu með okkur þá nótt og hlýjuðu okkur einsog sólin gæti aldrei gert…
—–
Ég er því fastur í óendanleika tilveru minnar þartil hún endar, og verð að vera sáttur við það þó ég nenni því ekki í bili. Öll órökvísi brostinna tilfinninga hefur ekki enn borið viti borið skilningsskynjunarundur ofurliði, en orðin brenna samt enn verr en sólin gæti nokkurntímann gert. Ég rís upp og bý mig til brottfarar, og geng í burtu með lokaaugnliti á fallega hannaðan stein með orðunum:
Hanna Mjöll Jónsdóttir
20.07.1990 – 15.05.2010