(Vil benda á síðuna mína: http://smasogursiv.wordpress.com)
Mamma bað mig að kaupa sígarettur handa sér, hún biður um það á tveggja daga fresti. Tvo pakka af Salem lights í mjúkum. Hún lætur mig alltaf fá nóg fyrir sígarettum handa mér og tvo lítra af kóki.
Stelpan sem afgreiðir mig alltaf er sæt, hún heitir Ásdís Viðarsdóttir. Ætli hún sé ekki sautján ára. Sjálfur er ég 46 ára, öryrkji. Ég gæti samt alveg unnið, ég á víst að hafa geðklofa, en ég hef ekki tekið lyfin í fleiri ár og mér tekst að blekkja geðlækninn. Hann segir að ég hafi náð ótrúlegum bata.
Ásdís er með falleg græn augu og sítt, ljóst hár. Hún brosir alltaf þegar hún afgreiðir mig, hún brosir til allra sem hún afgreiðir en ég sé það augunum hennar að hún ber meiri tilfinningar til mín en til hins almenna kúnna.
Í dag er hún í hvítum stutterma bol og þröngum svörtum buxum, ég lít á afturendan hennar að vana er hún sækir sígarettunar mínar.
Ég læt mig oft dreyma um að bjóða henni heim eftir vinnu, eða fara með henni á kaffihús í matarhléinu hennar, en svo sæt stelpa hlýtur að eiga kærasta.
“Má ég bjóða þér eitthvað fleira?” spyr hún og ég svara neitandi.
Ég á heima tveimur mínútum frá sjoppunni, samt kýs ég alltaf að keyra. Ég er feitur, með skítugt hár, það virtist alltaf vera skítugt, sama hve vel ég þvoði það og því gafst ég einfaldlega upp.
Mamma situr við eldhús borðið þegar ég kem heim. Hún var einu sinni falleg, en núna er hún gömul og hrukkött. Ég kenni sjálfum mér og bróður mínum um. Ég hætti í eðlisfræði námi við Háskóla Íslands á síðustu önninni minni og hef síðan ekki gert mikið úr mér. Ég bý enn heima. Á meðan bróðir minn þurfti endilega að vera svo sjálfselskur að deyja í flugslysi fyrir tólf árum.
Mamma grætur mikið, ég held að hún vilji alveg fara að deyja bráðum, en óheppni fylgir fjölskyldunni og því mun hún eflaust lifa í þrjátíu ár í viðbót.
Ég held að hún er að bíða eftir að ég dey, hvar væri ég án hennar?
Ég rétti henni sígarettu pakkana sína og réttir mér kaffibolla. Ég spyr hana hvort við eigum köku eða kex með því, hún svarar ekki en sækir einfaldlega Homeblast úr skúffunni.
Við kveikjum í sígarettunum okkar og fáum okkur kaffisopa, síðan sitjum við þögul. Mér líður alltaf ömurlega á kaffitíma, það er mér að kenna að mamma er enn í atvinnuleit. Hún er sextíu og tveggja ára, hún var með það góð laun og það mikinn sparað að hún gæti löngu verið komin á eftirlaun, en þökk sé mér þarf hún enn að vinna, nema hvað hún missti vinnuna fyrir einu ári.
Við erum bæði á bótum.
“Hvernig líður þér mamma mín?” spyr ég.
“Sæmilega.”
Mig langar að gera eitthvað úr mér fyrir hana, þegar ég hugsa aftur sé ég að ég hafði alla burði til þess, en ætli það sé ekki orðið of seint.
Ætli ég sé ekki fastur.
Ætli við séum ekki föst.