svolítið öðruvísi saga í spes stíl, ákvað að láta á þetta reyna :) Stelpur hafa eflaust meira gaman af ein strákar


Óóókei. Ekki panikka. Það hafa margir lent í flugtruflunum. Það væri bara svo andskoti auðveldara að fljúga ef ég væri ekki svona flughrædd…og maðurinn við hliðina á mér væri ekki með vindgang, hvað var hann eiginlega að borða? Hann virðist að minnsta kosti sallarólegur svo ég stend sjálfa mig að því að öfunda hann meðan vélin hristist harkalega. Er ég sú eina sem er að ofanda hérna? Ég meina, hvað ef við brotlendum? Ég vil ekki deyja…hvað myndi mamma gera án mín? Vélin er enn að hristast. Ónei, ónei, ónei!

Afhverju horfa allir svona undarlega á mig? Hvað er flugfreyjan, fyrirgefðu, flugþjónninn(sem er bara nokkuð sætur) að gera með áhyggjusvip í sætinu við hliðina á mér í staðinn fyrir manninn með vindganginn? Það er líka kona að öskra einhversstaðar í vélinni, greyið, eflaust flughrædd eins og ég. Ég held samt alltaf kúlinu, er ekki gargandi í miðri flugvél útaf smá truflunum…eða…bíddu nú aðeins við…ó nei en vandræðalegt!

Þetta var víst engin flugtruflun, vorum bara að lenda. Ég vissi það auðvitað allan tímann, það er ekkert að ástæðulausu að ég ætla að gerast leikkona. Ég er samt guðslifandi fegin að komast úr vélinni og inná völlinn. Það smellur hátt í hælaskónum mínum á flísalögðu gólfinu þegar ég labba inn á gólfið með þvílíkum þokka, ég veit maður á ekki að ferðast í hælum en hvað ef ég rekst á gamlan kærasta? Ég VERÐ að líta betur út en hann! Gólfið er samt frekar sleipt og ég verð að vanda mig virkilega til að komast slysalaust í gegnum vegabréfatékkið og út. Þarf sem betur fer ekki að bíða eftir töskum, þetta er stutt stopp og ég ákvað að þurfa engan farangur. Ég labba virðulega út um sjálfvirku dyrnar, misstíg mig, brýt hælinn á öðrum skónum og haltra skömmustulega uppí næsta leigubíl. Ég get verið svo mikil brussa.

Ég elska stórborgir…reyndar elska ég ekki borgina sjálfa, ég elska búðirnar. Og söfnin auðvitað. Ég er nú þegar búin að kaupa mér 2 ný skópör í staðinn fyrir það sem ég braut og ég er ekki einu sinni kominn hálfa leið að hótelinu. Ég veit samt ég verð að fara að haska mér svo ég komist á fundinn á réttum tíma. Ég veit ekki afhverju ég var send á þennan fund, ég hef svosem ekkert með það að gera. En ég á að mæta, spurja nokkurra spurninga, skrifa niður svörin, þykjast vera áhugasöm og fá mér einn kokteil. Svo eftir það allt saman, því miður, tek ég næsta flug beinustu leið heim aftur.

Sjitt, fundurinn er alveg að byrja.

Auðvitað var ég of sein á fundinn. Ekki nóg með það heldur reif ég skyrtuna á einhverju listaverki á leiðinni í lyftuna, meiköppið er í rusli og hárið allt úfið. En, hér er ég loksins, missti rétt af byrjuninni og næ að lauma mér inn um leið og einhver kona byrjar að tala. Ég skil ekkert hvað hún er að tala um, enda er ég ekkert að hlusta. Ég skil samt alveg óvenju lítið, er hún að tala annað tungumál?

Fokkfokkfokk.

Nú er ég loksins komin á RÉTTAN fund þar sem fólk talar mitt tungumál. Ég spyr menningarlegu spurninganna minna og hripa niður svörin í flýti á meðan ég reyni að líta út eins og ég hafi brennandi áhuga á málefninu, en staðreyndin er sú að ég vil drífa mig út og ná einni útsölu áður en flugvélin fer í loftið. Þessi fundur er bara svo lengi að líða.

Útsalan er alveg eins guðdómleg og ég hugsaði mér. Ég gæti verið hérna í marga daga! Ég veit alveg ég hef ekki mikinn tíma en ég get flýtt mér í gegn, finn vonandi eins og einn sætan bol. Maður á aldrei of mikið af bolum, ekki skóm heldur, kannski ég kíkji aðeins á skónna líka. Held mig vanti líka nýja tösku…

Óóókei. Ekki panikka. Svo ég missti af fluginu, ég tek bara næsta. Hvar er annars vegabréfið mitt?