Smásaga fyrir keppnina Svik.
Frumraun mín í svona sögum:
,,Góðan dag,‘‘ sagði Arri og svitnaði, honum fannst þetta alltaf jafn erfitt. ,,Ég heiti Arnólfur Pétur Erlingsson, tuttugu og fjögurra ára læknanemi. Ég…‘‘ Arri hikaði og leit af áheyrendunum niður á skyrtuklædda bringu sína. Hann virti fyrir sér nisti sitt er hékk fyrir utan skyrtuna. ,,Ég er fæddur og uppalinn á Akureyri. Foreldrar mínir voru bæði forandatrúar, en ég veit ekki hvort að þau hafi í raun trúað. Það var ekki fyrr en ég kom hingað, til Reykjavíkur rétt eftir útskrift mína úr grunnskóla að ég fékk veður af tilvist þessa safnaðar og því sterka starfi sem hér er rækt. Þangað til að ég kom hingað, í söfnuð Anda Forfeðra Vorra, að ég tók trú mína ekki alvarlega. Ég hafði verið í slæmum félagsskap, ég hafði leiðst út í áfengi í gegnum þá er ég hélt að væru vinir mínir. Þessi söfnuður bjargaði anda mínum,‘‘ Arri tók sér smá hlé á máli sínu og virti aftur fyrir sér nistið, gullkeðja er lítill rammi með mynd af gamalli konu hékk í. Arri brosti lítillega. ,,Þessi söfnuður frelsaði mig, hreinsaði minningu mína. Gaf mér kraftinn, til þess að bæta ráð mitt og gera veröldina í kringum mig betri. Andi minn er amma mín Erla, ég hitti hana aldrei en af öllu sem að ég hef heyrt var hún góð kona og hafði alla þá tilburði er ég vill gæða veröldinni. Takk fyrir, hrein sé minning ykkar,‘‘ Arri steig niður úr púltinu. ,,Hrein sé minning þín‘‘ muldraði söfnuðurinn á móti. Næsti ræðumaður gekk upp í púltið á eftir Arra sem muldraði kveðju til hans og hraðaði sér út úr hofinu. Honum leið vel, hann fann að minning hans væri hreinsuð. Honum fannst það að miðla reynslu sinni til nýliða söfnuðarins vera ein besta hreinsun á minningu og anda sem hann vissi. Arra langaði að vera um kyrrt í hofinu og hlusta á hina en hann þurfti að hraða sér á spítalann. Á leiðinni út úr hofinu kallaði einhver á hann. Það var vinur hans Páll, sá sem hafði komið honum inn í söfnuðinn.
,,Þú manst á morgun, Arri,‘‘ sagði Páll. ,,Trúboð, við munum ganga um alla Reykjavík og boða skilaboð söfnuðarins, veita úr sjóðnum sem við stofnuðum fyrir langveika…‘‘
,,Auðvitað, ég myndi ekki missa af því fyrir neitt,‘‘ sagði Arri en hugsaði sig svo um. ,,Jú, reyndar eitt,‘‘ Páll kinkaði kolli.
,,Andarnir verði með henni, og hrein sé minning ykkar,‘‘ sagði hann með samúð og gekk inn í hofið.
,,Hrein sé minning þín!‘‘ kallaði Arri á eftir honum og hraðaði sér inn í bíl sinn.
Læknirinn gekk inn í herbergið. Arri sat á stól við rúm móður sinnar.
,,Amma Erla, minning mín er hrein, andi þinn blessi móður mina,‘‘ hvíslaði hann og leit brosandi á lækninn sem brosti lítillega á móti.
,,Arnólfur, móðir þín er… tja, hún er ekki að fara að vakna úr dáinu,,‘‘ sagði læknirinn. Arri starði á hann.
,,Andar forfeðranna eru góðir. Ég hef gert vilja þeirra, þeir munu verða við bón minni,‘‘ svaraði Arri og beindi setningunni meira til lífvana móður sinnar sem lá hlekkjuð í snúrum og leiðslum.
,,Því miður, en skaðinn sem heili hennar hefur tekið er of mikill,‘‘ læknirinn vætti varirnar. ,,Hún gæti aldrei vaknað, nokkurn tíman,‘‘ Arri hristi hausinn.
,,Kraftaverk, trúin flytur fjöll, á morgun skaltu búast við…‘‘
,,Þú skilur ekki!‘‘ ávítaði læknirinn en róaði sig niður. ,,Heili hennar, er að slökkva á sér. Það er ekkert sem að við getum gert. Ég hef þegar talað við aðra aðstandendur, föður þinn og fleiri, og við munum taka vélarnar úr sambandi á morgun,‘‘ Arri laut höfði. Amma Erla, hrein er minning mín og… og… Arri gat ekki hugsaði skýrt. Hann vissi ekki hvað hann hafði setið lengi með þrútin augu þegar einhver leiddi varlega út úr spítalanum. Hann vissi heldur ekki hvort hann hafði gengið heim eða keyrt þegar hann lagðist upp í rúmið sitt um kvöldið, án þess að fá sér kvöldverð eða minnast andanna líkt og hann hafði gert hvert einasta kvöld. Hann leit á veginn við rúmið sitt, á myndina af ömmu Erlu, anda forföðurs er hann hafði kosið til þess að leiða sig og vernda. Amma Erla, andar forfeðranna allir… allir… ég hef ávallt gert vilja ykkar, ég hef hreinsað minningu mína… gert allt sem af mér hefur verið ætlast í söfnuðinum og meira til… ég hef verið góð manneskja… góð… með hreina, minningu. Arri heyrði sig muldra orðin í hljóði, ósjálfrátt. ,,Hvað? Hvað gerði ég rangt!?‘‘ Tár lak niður kinn hans. Ekkert, minning mín er hrein. Þeir sem hafa brugðist… Sorg Arra breyttist í reiði og hann barði af öllum krafti í vegginn. ,,Eru andarnir!‘‘ Arri greip um nistið og sleit það af sér. Hann heyrði það lenda í einu horninu. ,,Ég gaf ykkur líf mitt! Líf mitt! Og þið gáfuð ekkert til baka, bara tókuð! Þið svikuð mig!‘‘ Arri muldraði sig í svefn, og í fyrsta skipti síðan hann var sextán ára svaf hann fram að hádegi.
Arri vaknaði við hringingu gemsans síns *dinga-dingding-dinga-dingding-dinga-dingdingding*. Hann skreið fram úr rúminu og greip með latri hreyfingu símann.
,,Halló? Arri?‘‘ þetta var Páll.
,,Já. Þetta er Arri,‘‘ sagði Arri þreytulega.
,,Þú mættir ekki í morgun, við erum fyrir löngu lögð af stað og…‘‘ Arri skellti á og henti sér á rúmið. Tómleiki nagaði hann innan frá, hann fann ekki einu sinni fyrir sorg. Allir höfðu yfirgefið hann, látið hann gera skítverkin og skilið svo eftir með tómar og sárar hendur. Ættingjar mínir ætla að drepa móður mína, hinir svokölluðu vinir hafa drepið síðustu átta ár lífs míns. Löngun sem Arri hafði bælt niður í átta ár skreið hægt upp eftir hugsunum hans. Arri hafði ekki bragðað áfengi í sjö ár, andarnir vildu það ekki enda mengaði það veröldina í kringum mann. En fyrst andarnir gátu svikið hann, gat hann svikið andana. Arri stóð hægt upp úr rúminu, greip úlpuna sína og var kominn í skóna þegar bankað var upp á hjá honum. Arri dæsti og opnaði hurðina.Fyrir framan hann stóð Páll, brosandi í sparifötunum og með bók Forandanna í hendinni. Arri kipraði augun og ætlaði að loka en Páll brá fæti fyrir.
,,Arri, hleyptu mér inn, ‘‘ Arri hugsaði um þetta, hann hugsaði alvarlega um þessa setningu. Páll hafði ekki sagt neitt um anda eða forfeður, ekki boðist til þess að lesa eftirlætis erindið sitt úr bókinni. Hann hafði sagt þetta með röddu sem Arri túlkaði sem sanna vináttu og skilning. Arri opnaði hurðina og benti Páli á að koma inn.
,,… ég var á leiðinni í Ríkið þegar þú komst,‘‘ lauk Arri frásögninni. Páll hafði ekki sagt orð á meðan, einungis hlustað.
,,Arri, ég skil ekki hvað þú ert að ganga í gegnum,‘‘ sagði Páll. ,,En ég finn til með þér. Þér finnst að allir hafi yfirgefið þig, andarnir einnig, en það er ekki svoleiðis, það síðasta sem að þú þarft á þessari stundu er að halda að fleiri yfirgefi þig,‘‘ Páll klappaði honum á öxlina. ,,Þú segir þig gefa, og það er satt, þú er örlátur maður. Þú segir andana taka, en það er ekki satt,‘‘ Þeir horfðust í augu. ,,Arri, enginn hefur svikið þig, þú varst hinsvegar kominn vel á veg með það sjálfur. Ekki hugsa um hvað andarnir taka, heldur hvað þeir gefa. Þú átt íbúð, þína eigin vel hirtu íbúð á góðum stað í borginni,‘‘ Arri þagði. ,,Þú ert í læknanámi og það gengur vel, ekki satt?‘‘
,,Jú,‘‘ stundi Arri.
,,Þú átt bíl, þú átt góða ættingja og marga góða vini! Vertu þakklátur, fyrir hvað þér hefur verið gefið!‘‘ sagði Páll brosandi. Arri kinkaði kolli.
,,Ég ætti kannski… ég ætti kannski að fara upp á sjúkrahús,‘‘ muldraði hann. ,,Kveðja mömmu og…‘‘
,,Ekki kveðja,‘‘ hvíslaði Páll. ,,Heldur kalla á hana inn í andaheiminn, þar sem hún getur leiðbeint þér. Hún var góð kona, þú sagðir mér það, og lifði góðu lífi. Hún fær nú frið í handan heimum,‘‘ Arri kinkaði kolli.
,,Ég var of fljótur að dæma, áfallið… ég gleymdi því sem ég hafði lært. Takk fyrir, ég get haldið áfram núna,‘‘ Arri stóð upp og gekk út.