Ég leit í kringum mig en sá ekkert, móðan umlukti mig. Ég sá aðeins fáeina metra frá mér. Ég gekk áfram en þorði ekki að fara of langt. Hvítan virtist hafa áhrif á öll skilningarvit, það var næstum eins og ég liði áfram í draumi. Ég kom að lítilli lækjarsprænu og ákvað að bíða blinduna af mér. Ég settist niður á stein og horfði eftir læknum, sá vatnið renna burt og hverfa inn í hvítu móðuna. Ég þorði rétt svo að vona að ég færi að sjá til fyrr en síðar.
Ég hugsaði til baka til fjölskyldunnar á bænum. Lúkas, sem kunni ekki að lesa en gat þó þulið upp óendanlega mikið af kvæðum. Konan hans, hún Ingibjörg, sem hafði boðið mér að gista enn eina nóttina. Börnin þeirra tvö, Egill og Lína, þau voru á fjórða og fimmta aldursári og þrátt fyrir að eiga það til að rífast eins og hundur og köttur þá gátu þau látið eins og algjörir englar.
Svo var það Mummi, maðurinn sem hafði komið í heimsókn á bæinn tveimur dögum eftir að ég kom. Mér hafði ekki líkað hann. Hann var lyrgjulegur strigabassi sem virtist vís til alls. Það gengu líka sögur um það að hann byggi yfir kröftum sem væru ekki af okkar heimi. Ég vissi nú ekki hvað var til í því, en eitt vissi ég og það var það að ég þurfti ekki nema svo mikið sem líta í augun á honum og þá fór hrollur um mig.
Kvöldið áður en ég fór, urðu snörp orðaskipti okkar á milli. Hann hafði verið með einhver námæli við mig sem mér var illa við svo að ég sagði honum að vera ekki að því að stinga nefinu ofan í hvers manns kopp. Hann varð reiður og innan skamms hafði heiftarlegt rifrildi brotist út okkar á milli. Hann hafði látið þung orð falla, svo þung að þau jöðruðu við lífhótanir. En ég hafði ekki látið það á mig fá en ónotatilfinning hafði komið sér fyrir innra með mér og því ákvað ég að flýta brottförinni heim og lagði í hann daginn eftir.
Ég hafði lagt af stað snemma um morguninn, þá var aðeins rétt slæðingur efst í fjöllunum svo að ég átti von á því að ferðin yrði fljótfarin og að ég yrði komin aftur heim áður en ég vissi. Ég hafði kannski gengið í rétt tæpan hálftíma þegar allt skyggni var skyndilega horfið og ég reikaði um í tóminu sem móðir náttúra var búin að útbúa mér. Ég vissi hvorki hvað klukkan var orðin eða hvar ég var stödd, hvort ég var enn á réttri leið eða ekki. Ég stóð upp, klifraði upp á steinninn og kallaði út í tómið.
„Halló! Er einhver þarna?“ kallið fjaraði út og varð að engu. Ég beið, en fékk ekkert svar svo ég settist aftur niður óánægð með framvindu mála. Með þessu áframhaldi yrði ég föst fram á kvöld.
Eftir nokkra stund heyrði ég blístur koma frá tóminu. Í fyrstu var það lágt, svo lágt að ég heyrði það næstum því ekki. En blístrið hækkaði með hverri sekúndu og brátt heyrði ég það svo skírt og greinilega að það hefði mátt halda að sá sem blístraði stæði við hliðina á mér.
„Halló? sagði ég en blístrið hætti skyndilega. Það varð algjör þögn og ég beið eftir því að þessi ókunnugi skyldi svara mér. En eftir nokkra stund hafði enn ekki heyrst múkk og ég stóð upp, afskaplega forvitin um það hver eða hvað væri þarna. Blístrið byrjaði aftur, en nú var það lengra í burtu. Ég rann á hljóðið og gekk í þá átt sem það kom.
Ég gekk og gekk, en hikaði skyndilega. Átti ég virkilega að elta hljóðið? Var ég viss um að þetta væri ekki einhver yfirnáttúrulegur vættur eða draugur sem væri að leiða mig í gildru? Ég hafði nú aldrei verið hjátrúafull og ætíð gætt mín á því að taka öllum sögusögnum með varúð og trúa ekki öllu sem ég heyrði né las, en ég leyfði mér að efast um það hvort þetta skringilega blístur væri náttúrulegt. Ég beit á jaxlinn, óviss um það hvaða ákvörðun ég ætti að taka en hélt samt áfram.
Ég hafði gengið í fáránlega langan tíma, bæði upp í mótið og niður brekkur, yfir tún og niðri við sjávarmálið, en blístrið virtist alltaf vera jafn fjarlægt og drunginn alveg jafn þykkur og áður. Höfðu álög verið lögð á mig? Var Mummi að hefna sín eftir irringar okkar kvöldið áður? Varirnar kipruðust um leið og bölsýnin helltist yfir mig. Ef til vill voru þetta örlög mín. Að reika um í eilífri dumbu í leit að leiðinni heim. Tárin brutust fram og runnu niður kinnar mínar, ef til vill fengi ég aldrei að hitta fjölskyldu mína aftur. Ég fengi aldrei að sjá bjarta sólina, silfrað tunglið, blátt hafið eða græn engin.
Blístrið snarþagnaði og ég stansaði, óviss um það hvar ég væri niðurkomin. Þó svo að ég þekkti landið í heimasveitinni eins og lófann á mér virtist öll ratvísi hverfa um leið og móskan birtist og það var eins og ég væri stödd í allt öðrum heimi. Ég þerraði tárin og virti umhverfið fyrir mér, eða að minnsta kosti það litla sem ég gat séð. Það voru daggardropar á grasstráunum og þær fáu sóleyjar sem ég sá voru í fullum blóma. Ég gekk tvö skref áfram og teygði mig eftir einu gulu blómanna. En um leið og ég ætlaði að taka í blómið sá ég eitthvað dökkt sem lá á jörðinni rétt fyrir framan mig. Ef ég hefði verið einu skrefi aftar þá hefði ég ekki séð það. Ég gekk að því og beygði mig niður til þess að virða hlutinn fyrir mér. Þetta var tréspýta sem undarleg tákn höfðu verið skorin út í. Ég þekkti ekki táknin, en þau minntu mig á rúnartáknin sem við höfðum lært um í skólanum. Ég tók spýtuna upp en missti hana næstum því strax aftur því að blístrið ómaði allt í einu mun hærra en áður. Svo hátt að ég hélt að hljóðhimnurnar ætluðu að springa. Hendurnar á mér skulfu og ég krepptist saman og ógurlegur höfuðverkur gaus upp.
Ég leit á spýtuna og áttaði mig á því að blístrið kom frá henni. Ég lyfti spýtunni upp og braut hana á öðru hnénu. Um leið og spýtan splundraðist í tvo hluta þagnaði blístrið. Ég missti hlutana tvo úr höndunum af skyndilegu magnleysi og stóð eins og þvara, óviss um það hvað hefði gerst. En smátt og smátt byrjaði óhugnanleg hulan að hverfa. Mér leið eins og blindum manni sem hafði verið gefin sjónin á nýjan leik. Bros myndaðist á vörum mínum og ég fann ómælanlega gleði myndast innra með mér.
Smátt og smátt fór ég að kannast við umhverfið og ég áttaði mig á því að ég var ekki fjarri frá þeirri leið sem ég hafði verið á áður en brækjan hafði birst. Ég hafði örugglega verið að fylgja einhverjum ómögulegum krókaleiðum í kringum einfaldan slóðann sem ég hafði verið fyrst á. Ég leit niður á spýtuhlutana tvo og vissi vel hver átti sökina á þessu, og ég vissi líka vel að ég myndi launa honum lambið gráa. Og það tvöfalt.