IV. ENDURFUNDIR
Arnór kom að landi þrem dögum síðar í Tindabæ. Á kunnuglegri bryggjunni var hann næstum riðinn um koll af reiðmanni og hrossi hans á þeysistökki. Arnór rölti af stað út úr bænum og tók þá ákvörðun að tala við Fáfni. Hann hafði nýtt síðustu skildingana sína í að kaupa sér skikkju með hettu og bar hana yfir herðum sér til þess að fela skeggjað andlit sitt fyrir einhverjum sem á hann gæti borið kennsl. Arnór rölti rólega til húss Machielle fjölskyldunnar, en Arnór þekkti þau í gegnum Baldur sem hafði hjálpað þeim þegar tollverðir höfðu hótað þeim fangelsi án ástæðu og ætluðu að taka farm þeirra. Þegar Arnór var kominn til húss þeirra, bankaði hann upp á einföldum viðardyrunum. Eftir nokkra stund kom til dyra þjónn sem leit forviða á tötralegan Arnór.
,,Herra Machielle er vant við látinn,‘‘ sagði hann yfirlætislega og bjó sig undir að loka hurðinni aftur en Arnór hindraði hann með því að leggja hönd sína á hurðina. ,,Því miður en ég má ekki gefa ölm…‘‘
,,Ég heiti Arnór Grímsson, ég býst ekki við að þið hafið átt von á mér?‘‘ Arnór leit framan í þjóninn sem horfði í forundran á tætingslegan flökkumanninn.
,,Neeei, ég veit ekki…‘‘ en þjónninn þagnaði þegar mjó rödd kvað skipandi fyrir aftan hann:
,,Trofþrór, hleyptu honum inn.‘‘ Arnór leit yfir öxl Trofþrórs og sá Fáfni standa inni í ríkulegri forstofu.
,,Ungherra Fáfnir, þú ert gestur í þessu húsi en þú getur ekki…‘‘ Nú gekk inn í forstofuna lágvaxin eldri kona í fínlegum kjól.
,,Tkrofþkó, hlýýýddu dkengnum!‘‘ skipaði hún skrollandi og reiðilegri röddu. Trofþrór hneigði sig pirraður fyrir Arnóri og hleypti inn.
,,Fáfnir, ég get ekki stoppað hér lengi en ef að allt hefur gengið eftir áætlun ættum við að komast heim í dag,‘‘ sagði Arnór þegar Trofþrór var farinn í hvarf. ,,Ég kom bara til þess að athuga hvort að ekki væri allt í lagi með þig,‘‘ Fáfnir þagði þenkjandi en brosti svo.
,,Það er allt í lagi með mig, þau hafa alið mig vel hér… og kannski fer ég bara ekkert aftur heim!‘‘ sagði hann og hló. Arnór kreisti upp úr sér nokkur ‘‘ha‘‘ og brosti. Frú Machielle hló dátt og tók um axlir Fáfnis.
,,Hkann ee íí fkínum hööndum hkér, gken viiltuu eeki kkoma gkinn fykrir?‘‘
,,Nei, ég er á förum,‘‘ sagði Arnór og hneigði sig. ,,Þakka ykkur kærlega fyrir gestrisnina,‘‘ síðan sneri hann sér við og strunsaði út á götuna. Hve ég fyrirlít svona lélegan húmor.
Arnór stikaði inn í skóginn fyrir utan Tindabæ og hunsaði slóðann sem þangað lá, Þytur vissi að slíkt væri heimskulegt að bíða við veginn. Arnór stjakaði frá sér líflegum greinum og einbeitti sér að því að komast lengra inn í skóginn, þar sem hann gæti kallað á Þyt. Hátt á himni skein hádegissólin og þar sem hún stakkst inn á milli greinanna skáru bjartir geislar hennar í augu hverrar veru er hana leit. Eftir klukkustundar gang stansaði Arnór og myndaði stút á varirnar.Hátt og hvellt hljómaði blístur hans og bergmálaði frá einu tré á annað. Eftir nokkrar mínútur í nær algerri þögn utan fugla heyrðist hestur hneggja í fjarlægð líkt og í orðalausu svari. Það hafði ekki liðið lengri tími en svo að bergmál hneggsins var enn að deyja út þegar fram úr runnaþykkni stökk litföróttur gæðingur í öllum reiðtygjum. Arnór lagði hönd á snoppu dýrsins. Nei, ekki dýr. Eitthvað miklu, miklu meira. Arnór eyddi ekki neinum orðum á Þyt sem var augljóslega áfjáður í að bera Arnór hvert sem hann fýsti. Grímuberinn var vart búinn að reka hælana að síðu hestsins þegar Þytur stökk af stað í átt til Ægisborgar.
Arnór fór sömu leið og áður, í gegnum yfirgefnu vöruskemmuna og út á götuna sem voru yfirfullar af miðdegis-örtröðinni. Hann þurfti að gæta sín sérstaklega nú í dagsljósinu að láta ekki sjást í andlit sitt en verðirnir voru þrefalt ef ekki fjórfalt fleiri á gangi um göturnar en þegar hann hafði síðast gengið um þessa götu sem frjáls maður. Þegar hann var kominn að styttunni settist hann niður við einn húsvegg og velti fyrir sér möguleikum um hvernig skildi komast inn í höllina, síðasti máti var út úr sögunni.
Klukkustund leið og Arnóri datt lítið sem ekkert í hug þegar hann sá mann ganga niðurlútan að hallargarðshliðinu. Tiltölulega fáir voru á ferli í kringum styttuna og Arnór því heyrt og séð vel hvað var á seiði.
Karjón Hrumingason, hrossaleigir í borginni, gekk niðurlútur eftir strætum Ægisborgar. Hann leit ekki við kveðjum kunningja sinni sem hann mætti, né hirti hann um að biðjast afsökunar þegar hann rakst utan í einhvern. Hver væri svo sem tilgangurinn með því? Þeir myndu bara henda honum í steininn líkt og hverjum öðrum er borgaði ekki ´´konungsgjöfina‘‘, nýja tilverutollinn sem gekk beint í vasa konungs án nokkurrar sykurhúðunar. Þó svo að honum hefði tekist að fá að borga konungsgjöfina með heyi sem hann ræktaði fyrir utan borgarmúrana hafði hann neyðst til þess að selja allt umfram hey til þess að borga húsaleiguna. Heimskulegt, það hefði verið skárra að missa húsið heldur en að vera fleygt í dýflissuna hver veit hversu lengi!?
,,STANS!‘‘ var þrumað beint fyrir nefi Karjóns sem snarstansaði og leit upp. Hann hafði næstum því gengið á hliðvörðinn. ,,Hvað gengur að þér?‘‘ Karjón muldraði einhverja afsökunarbeiðni.
,,Ég er kominn til þess að hitta borgarskattstjórann,‘‘ sagði Karjón eftir að vörðurinn hafði róast.
,,Nafn?‘‘ spurði vörðurinn þreytulega.
,,Karjón, Hrumingason,‘‘ Vörðurinn dró úr skikkju sinni þykkan bunka af papírus og fór að fletta í gegn.
,,Hmmm, nei. Þú átt engan fund með honum,‘‘ sagði vörðurinn og pírði augun meðan að hann fletti. ,,En svo virðist sem að þú eigir að skila konungsgjöf í dag.‘‘ Karjón laut höfði undan augnarráði varðarins.
,,Þess vegna einmitt kom ég, ég get ekki borgað…‘‘
,,Jájá! Hvað ertu þá að væla í mér? Ég get ekkert gert við þig, ekki fyrr en þessum degi er lokið.‘‘
,,Tja, en ég hélt að ég gæti samið…‘‘
,,Karjón Hrumingason?‘‘ vörðurinn hunsaði Karjón og leit aftur á blaðið. ,,Það stendur hér að þú borgir konungsgjöf með heyi.‘‘
,,Þ-það er satt. Eitt vagnhlass af heyi á tveggja mánaða fresti.‘‘ Karjón var orðinn frekar óöruggur. Fyrr í dag hafði hann upphugsað þvílíka skammarræðu yfir þeim sem hann myndi þurfa að rífast um þetta við. Hann hafði upphugsað öll rök sem hann þyrfti og mótrök og jafnvel áætlað örlítil átök þar sem hann stæði upp úr. En þar sem hann stóð þarna einn í skinntreyju, buxum og skóm, án nokkurs vopns og nauðasköllóttur, gegnt hávöxnum verðinum, vopnuðum atgeiri í hönd, sverði í slíðri og skildi auk gull í saumaðrar skikkju þorði hann ekki að standa uppi í hárinu á neinum.
,,Og þú rekur hestaleigu, ekki satt?‘‘ vörðurinn leit á Karjón og lyfti augnabrún.
,,J-jú…‘‘
,,Nú þá hlýturðu að eiga hey!‘‘
,,Já en ef ég gef konunginum allt heyið á ég ekkert eftir handa mínum hrossum!‘‘
,,Einfalt mál. Ef að við fáum ekki heyið handa okkar hrossum deyja þau. Þú lætur okkur fá hey. Þá vantar þín hross hey. Þú lætur okkur fá hrossin.‘‘
,,E-en ég get ekki rekið hestaleigu án hesta!‘‘ Karjón var farinn að hrópa og vörðurinn lagði niður pappírana til þess að grípa atgeirinn.
,,Þú getur heldur ekki rekið hestaleigu í fangelsi. Ég hef leyfi til þess að ráðstafa þessu svona. Og eftir að þú lætur okkur fá hrossin skal ég persónulega láta ráða þig í vinnu hjá konungi!‘‘ vörðurinn brosti í meðaumkun en Karjón kipraði augun og leit undan. ,,Mér þykir fyrir þessu, Karjón, en ég þarf líka að hafa vinnu. Heldurðu að mér finnist það skemmtilegt að kúga út úr þér skatt? Ég þarf líka að fá peninga til þess að lifa líkt og flest allir hér í borginni,‘‘ Karjón svaraði ekki heldur snerist á hæli og muldraði eitthvað um að hann kæmi með heyið rétt strax.
Þegar Karjón hafði snúið aftur heim til sín hóf hann að pakka niður fötum í flýti. Þeir munu sko ekki taka af mér lifibrauð mitt, fjölskyldu… ég skal ganga í Byltinguna og-… Karjón sleppti skikkjunni sem að hann hélt á og starði út um gluggann á mannþröngina á götunni. Til hvers? Ég er enginn hermaður, hvað þá að ég gæti hýrst í einhverjum rökum moldarhelli á Mosey eða hvar svo sem Silfurstingsmeðlimir hafa bæli sitt. Karjón leit blákalt framan í staðreyndirnar og gekk eftir gangi sem leiddi inn í hesthúsið. Í konungsvinnunni get ég að minnsta kosti hlíft konunni við sumum sköttum og tollum, um sinn að minnsta kosti. Karjón gekk inn í hesthúsið og leit yfir hrossin sín. Þau voru þar öll þrjátíu, engin í útleigu enda lítil ferðamennska eftir viðskiptabönnin og einokunarverslun konungs. Ég er að taka rétta ákvörðun. Hann gekk að vöruskemmu sinni, þar sem hann geymdi heyið og vagninn, og hóf að fleygja heyinu aftur upp á vagninn. Það hvarflaði ekki að honum að skemma heyið á einhvern hátt enda myndi það bitna á hans eigin hrossum.
Karjón var svo gott sem búinn að fylla vagninn þegar dularfull rödd ávarpaði hann inn úr skuggunum í einu horninu.
,,Þig vantar varla hjálp við þetta?‘‘ Karjón hrökk við og beindi heygafflinum sínum út í loftið.
,,Hv-hver er…‘‘
,,Þar?‘‘ grímuklædd vera sveipuð skikkju gekk fram á sjónarsviðið. ,,Ég held að þú vitir það,‘‘ Karjón stirðnaði í sporunum þegar hann gerði sér grein fyrir við hvern hann var að tala; sjálfan Skugga.
,,Hva- hvað…‘‘
,,Vil ég?‘‘ Skuggi gekk rólega í átt að Karjóni sem byrjaði að fikra nær hurðinni sem leiddi út á götuna. ,,Ekkert nema viðskipti, af góðu sortinni.‘‘ Karjón gekk eitt skref aftur á bak. Tvö. Þrjú. Og hann var kominn með aðra höndina á hurðarhúninn.
,,Hvers konar… viðskipti?‘‘ spurði Karjón ofurvarlega en kippti svo í hurðina og ætlaði að rjúka út, en hurðin var læst. Lykillinn! Hugsaði Karjón í æðiskasti, ég var með hann rétt áðan!
,,Þau sem krefjast þess ekki að þú rjúkir út úr húsi í miðjum viðræðum. Ætlarðu að setjast hérna niður hjá mér eða þarf ég að láta þig liggja?‘‘ Skuggi var augljóslega orðinn óþolinmóður. Karjón gafst upp á að reyna að brjóta niður hurðina og fikraði sig ofurvarlega nær þessari myrku goðsögn. ,,Ágætt, þú ert skynsamur maður Karjón,‘‘ Skuggi teygði út hönd undan skikkjunni og kastaði til hans stórri pyngju. Karjón greip hana með naumindum og opnaði varlega, án þess þó að sleppa augunum af Skugga. Loks áréð hann að líta niður. Pyngjan var full af skínandi gullpeningum, nýslegnum með mynd af Bjólfi Rútssyni konungi Eyjaveldisins.
,,Jæja þá, hvað viltu?‘‘ spurði Karjón með uppgjafartón.
,,Ég vill bara að þú farir með heyið til hallarinnar,‘‘ svaraði Skuggi og benti á pyngjuna í hendi Karjóns. ,,Og það gæti verið að þú fyndir meira svona ef að enginn kjaftaði frá neinu,‘‘ Karjón hugsaði sig um.
,,S-saga þín Skuggi, þú ert morðingi, svikari og þjóf-þjófur. Hvernig get ég treyst…‘‘
,,Íhugaðu þetta: hverjir hafa borgað þér meira í gegnum ævina, kóngsmenn eða ég? Auk þess sem að ég er með sverð og get leitað hvert sem er annað!‘‘ Karjón íhugaði þetta, Skuggi hafði jú borgað honum meira þennan eina dag fyrir ekki neitt heldur en hann hafði nokkurn tíman tapað á kóngsmönnum auk þess sem að það væri án efa óráðlegt að hlýða ekki verunni með sverðið.
,,Jæja þá. Ég skal fara með hey-bíddu, afhverju viltu svona mikið að ég fari með heyið?‘‘ spurði Karjón undrandi. Afhverju ætti ein mesta goðsögn Eyjaveldisins að hafa áhyggjur af starfsferli mínum?.
,,Skiptir ekki máli, drífðu þig bara!‘‘ skipaði Skuggi og fylgdist með Karjóni taka kipp og spenna tvo hesta fyrir vagninn.
Karjón stýrði vagninum gegnum mannþröngar götur Ægisborgar. Hann fylgdist grannt með heyinu enda hafði hann einum of oft lent í heyþjófum hérna úti á miðjum götum um hábjartan dag. Skuggi hafði horfið jafn snögglega og hann hafði birst eftir að Karjon hafði lagt af stað. Í stað þess að fara eftir venjulegu götunni að aðalinngangi hallarinnar fór hann eftir fjölfarnari götum sem leiddu að vörumóttöku hallarinnar. Hann blandaði sér í vagnamergðina sem spannaði nær alla götuna sem var ekki sú stysta né sú þrengsta. Allir komnir til þess að greiða konungi það sem konungur átti. Eftir nokkrar stundir komst Karjón að hliðverðinum sem veitti honum ekki minnstu athygli.
,,Ehm, ég er kominn til þess að borga hinum mikla Bjólfi…‘‘ byrjaði Karjón en vörðurinn bandaði að honum höndinni pirraður.
,,Hey? Farðu þá með það í heygeymsluna!‘‘ sagði hann úrillur og gaf bendingu um að halda áfram. Karjón sletti taumunum og hélt af stað inn í móttökusal hallarinnar.
Karjón byrjaði að afferma heyið í fóðurgeymslunni þegar eitthvað stórt og svart skaust út úr heyinu og lenti á honum. Í angist sinni reyndi hann að öskra en veran lá ofan á honum og hélt fyrir munninn. Karjón leit á böðulgrímu Skugga sem, eins og flestar aðrar grímur, brá ekki svip. Eftir smá stund gafst Karjón upp á að berjast um. Skuggi tók hönd sína af munni hans og stóð upp.
,,Gott,‘‘ hvíslaði hann og leit í kringum sig í leit að verði. Einn slíkur gekk framhjá opnum dyrunum. Skuggi sneri grímu sinni aftur að Karjóni sem stóð hægt upp og hélt um hálsinn. ,,Ég þarf hjálp við svolítið.‘‘ Þykk leður pyngja sveiflaðist líkt og pendúll milli hanska klæddra fingra Skugga og glamraði fallega í.
Lellingur sat í gullskreyttum hægindastól fyrir framan íburðarmikið skrifborð og skrifaði bréf til ýmissa dömuleiguhúsa þegar hann heyrði hurðina opnast hægt. Hjartað tók kipp, rétt eftir að hafa stoppað í nokkrar sekúndur, en Lellingur einbeitti sér að því að líta ekki upp.
,,Já?‘‘ sagði hann einfaldlega og setti eins mikið vald og hann mögulega gat í þessa aumu rödd hans sem var nýbúin að lagast eftir mútur. Hann einbeitti sér að því að skrifa á blöðin ýmsar beiðnir en nokkrir svitadropar máðu burt blekið. Það skánaði ekki þegar rödd heyrðist beint fyrir aftan hann:
,,Að skrifa ástarbréf?‘‘ Lellingur hrökk við og leit aftur fyrir sig. Hann vissi ekki hvort var verra, að óttast að Skuggi sé inni í herbergi manns eða að vita að Skuggi sé inni í herbergi manns. ,,Veistu, ég held að fáar konur yrðu hrifnar af þessu sem þú skrifar um þarna, en ef að þú settir það í bundi mál…‘‘ Lellingur stökk upp úr sæti sínum og reif til sín blöðin.
,,Skuggi! Eh, gaman að sjá þig…‘‘
,,Þegiðu! Þú veist að það er alveg rosagaman að sjá mig,‘‘ Skuggi rétti út höndina. ,,Lausnarpappírana,‘‘ Lellingur brosti.
,,Ég er þegar búin að senda þau! Strax og ég heyrði að það eina sem eftir væri af Humbaki væri fingur útbjó ég pappírana. Sendi þau með sérlegum hraðboða mínum nú í morgun!‘‘ Lellingur brosti og lagði frá sér bréfin á borðið. ,,Svo, eh, viltu fara eða…?‘‘
,,Má ég fá afritið?‘‘ spurði Skuggi og gekk nær honum ógnandi. Augu Lellings flöktu og hann rótaði eitthvað í skúffunum. Loks hélt hann nokkrum blöðum á lofti og rétti Skugga sem leit hugsi yfir þau. Þetta var bréf er sagði til um lausn Valda og áhafnar hans auk ógildingu á útlegðar tilskipun konungs. Skuggi snerist á hæli og gekk varlega að dyrunum.
,,Og meðan ég man…‘‘ kallaði Lellingur á eftir honum. Skuggi leit ekki við en hægði á sér. ,,Ég var búinn að útbúa veislu handa þér og ég vil ómögulega að þú farir án þess að fá þér smakk af veitingunum!‘‘ En ömurlegt og alls ó-ógnandi, hugsaði Skuggi pirraður og setti hönd á hjöltu Silfurstings. Útundan sér sá hann Lelling sleikja varirnar lítillega áður en hann öskraði:
,,VERÐIR!!!‘‘ Glamur í sverðum og spjótum heyrðist fyrir utan og inn um dyragættina ruddust verðir. Því miður fyrir þá var Skuggi löngu búinn að lyfta nöktu sverði sínu og með ómannlegum hraða hjó hann höfuð af þeim fyrsta er kom að honum. Flestir verðirnir voru með sverð en engan skjöld. Þegar þeir gerðu sér í raun grein fyrir að þetta væri Skuggi hörfuðu þeir, en treystu samt á fjölda sinn.
,,Ahaha!‘‘ hló Lellingur brjálæðislega. ,,Ég var búinn að gera ráð fyrir þér!‘‘ Meðan Skuggi afvopnaði og skar á helstu æðar líkama varðanna barðist hann við að segja ekki döh. Skuggi henti sér á einn vörðinn er stökk á móti honum með sverð sitt á lofti og stakk í gegnum hann og fleygði á verðina sem stóðu í hnapp og kviðu þess er kæmi að þeim. Þar sem Skuggi var búinn að teppa innganginn tímabundið með þessu nýjasta líki greip hann tækifærið og sagði:
,,Já, ég líka!‘‘ síðan skaut hann hendi niður í pyngju fasta við belti sitt og dró fram lítinn stein með rún. Á sama tíma og hann henti henni á gólf gangsins sem verðirnir stóðu á þrumaði hann:
,,Kaun! Eldr skal svíða!‘‘ Þegar rúnin snerti gólfið gaus samstundis upp eldhaf á ganginum fyrir framan vistarverur Lellings. Skuggi skellti í flýti hurðinni og sneri sér að Lellingi sem greip í fáti bréfahníf. Skuggi hristi hausinn góðlátlega.
,,Lellingur, ég er ekki bréf! Og þó, ég er jú innsigli dauða þíns!‘‘ Skuggi gekk hægt upp að Lellingi sem skalf og beindi litla skörungnum að Skugga. ,,Og áður en ég stimpla þennan skítlega pakka til Heljar, ætla ég að gefa þér hollráð,‘‘ Lellingur kastaði viðvaningslega að honum hnífnum en Skuggi þurfti ekki einu sinni að færa sig til þess að verða ekki fyrir honum. ,,Lærðu að tala almennilega undir rós,‘‘ Lellingur féll niður á hnén og reyndi með kjökri að grípa í föt Skugga sem sparkaði til hans. Aðalritari konungs Eyjaveldis var ekki nema hrúga af óþroskuðu kjöti á gólfinu. Skuggi beygði sig niður, greip í hann og með örlitlu átaki fleygði hann grenjandi unglingnum í rúðuna sem brotnaði undan honum. Hann hirti ekki um að horfa á eftir líkinu en þurrkaði blóð af sverðinu á rúmfötum Lellings og hraðaði sér síðan út úr herberginu, en hann heyrði í fjarska hóp af mönnum nálgast. Eldurinn hafði dáið út og engir verðir sjáanlegir. Skuggi sá að eldurinn hafði sviðið mest allan ganginn og jafnvel lengra. Næst skal ég ekki setja jafnmikið af eldvatni, hugsaði Skuggi sem hafði hellt niður olíu á allan ganginn áður en hann gekk inn til Lellings en Karjón hafði fundið olíuna fyrir hann.
Arnór gekk eftir göngum hallarinnar, spenntur og óttaðist að Lellingur hefði í raun ekki sent út neinar opinberar tilkynningar um sakleysi Arnórs.
Ótti hans virtist vera á rökum reistur þegar skipandi karlmannsrödd kvað við fyrir aftan hann.
,,Bíddu nú við! Hvaða umrenningur er á ferð í höll sjálfs Bjólfs!‘‘ Arnór sneri sér hægt við og sá u.þ.b. tíu manna varðflokk auk kapteins koma á móti honum eftir ganginum. Arnór ræskti sig.
,,Ég, ég er Arnór Grímsson. Fyrrverandi hliðvörður við Gráeyjarhlið og syðri borgarhlið Ægisborgar. Ég…‘‘
,,Arnór? Þú átt að vera í útlegð!?‘‘ þrumaði kapteinninn undrandi. ,,Hvernig komstu inn í höllina?‘‘
,,Ég er frjáls maður!‘‘ Arnór rétti úr sér. ,,Ég koma hingað til þess að taka formlega við ógildingar pappírunum.‘‘ Kapteinninn virtist hugsi.
,,Ég skil. Það þarf víst ekki að láta varðliðskaptein vita af slíku. Ég skil. Gott að fá þig aftur, Arnór!‘‘ kapteinninn laut höfði en leit síðan á menn sína. ,,Komið! Þessi uppþot stöðva sig ekki sjálf!‘‘ Þeir marseruðu framhjá Arnóri. Hann gekk rólega á eftir þeim í átt að hallar útganginum. Höllin hafði breyst mjög frá því að hann hafði verið þarna síðast. Það var ekki það að höllin væri í niðurníðslu líkt og götur borgarinnar, heldur var eins og lífskraftur mannvirkja þar hefði verið færður hingað inn í höllina og skreytt með dýrustu listmunum. Arnór efaði þó að þeir hefðu verið dýrir fyrir Bjólf og hermenn hans. Þegar hann var kominn fram í anddyrið sá hann hvar fleiri varðflokkar voru að yfirgefa höllina. Arnór beið þangað til að þeir voru farnir og gekk svo að vörðunum sem gættu útgangsins. Þeir voru klæddir í ríkulega einkennis búninga með merki Kóngseyjar, konungs og Ægisborgar. Þeir báru atgeira og stóra ferhyrnda skildi. Arnór kannaðist við þá báða, enda gamlir vinir hans úr verðinum. Hann gekk til þeirra rólega.
,,Ef að þið mynduð hleypa mér út væri það ágætt,‘‘ sagði hann og hafði bréf Lellings tilbúin í höndinni. Verðirnir kinkuðu kolli letilega en tóku svo viðbragð og litu steinrunnir á Arnór.
,,Já, þetta er ég, Arnór. Hérna er ég með bréf sem ógildir skógargöngudóm Bjólfs,‘‘ Arnór rétti að þeim bréfin en þeir störðu bara.
,,Arnór… gaman að sjá þig aftur. Hvernig, hvernig komstu inn? Ég man ekki eftir að hafa…‘‘
,,Það eru fleiri en einn inngangur á þessari höll,‘‘ Arnór brosti. ,,Og sömuleiðis.‘‘ Án frekari umhugsunar opnuðu verðirnir fyrir honum stórar dyrnar og Arnór gekk út úr höllinni, frjáls maður.
Arnór sat á hesti sínum u.þ.b. kílómetra frá veginum sem lá að Löngubrú. Eftir veginum sá hann koma hóp af mönnum og ganga út á brúna. Arnór þurfti ekki einu sinni að hugsa það, og Þytur brokkaði á eftir þeim.