II. HEIMA ER BEST
Þrír mánuðir á sjó,
Það ger menn sljó,
Matr af skornum skammt,
Þá er mjöðinn drukkinn rammt,
Land er hverg í sýn,
Nú er nauðsyn brýn,
Því menn angrar fljótt,
Að ver leng á sjó er mjög mjög ljótt!‘‘ Þetta og mörg önnur álíka leiðinleg kvæði hafði Sigurbjörn sungið og samið á hinni þriggja mánaða löngu leið föruneytisins til Eyjaveldis. Þeir höfðu fengið góðan meðbyr mestalla leiðina og sárafá óveður. Nú loks sást til lands.
,,Er þetta ekki Kóngsey, sem við sjáum þarna við sjóndeildarhringinn?‘‘ spurði Valdi.
,,Jú, við ættum að breyta stefnu og halda lengra til vesturs. Mér líst nefnilega ekki á að koma strax að landi í Kóngsey,‘‘ svaraði Arnór.
,,Stefna að Gráey?‘‘
,,Jú, það væri best að fara til Eikarþorps. En sjáirðu einhver skip skaltu halda þig fjarri þeim. Ef Kampur var ekki að ljúga eru mörg varðskip sem sigla um Skuggahaf og þeldökkir sjóræningjar geta leynst í Kóngshafi, við erum hvergi öruggir,‘‘
,,Sjóræningjar eða hermenn konungs. Veldu.‘‘ sagði Valdi og brosti eilítið.
,,Við förum um Skuggahaf, það er líka styttri leið til Eikarþorps,‘‘ sagði Arnór íhugull. Valdi yppti öxlum og hrópaði skipanir til skipverja.
Skipið sigldi inn eftir Skuggahafi og sólin var að setjast í vestri og litaði skýjaðan himininn rauðann. Valdi brá sér á tal við Arnór.
,,Skip,‘‘ sagði Valdi. ,,Það nálgast okkur stórt skip á stjórnborða,‘‘ Það var ómögulegt fyrir Arnór að lesa í rödd hans. Arnór leit við og sá að í nokkurra kílómetra fjarlægð sigldi að þeim stórt herskip á fullri ferð. ,,Hvað ættum við að gera?‘‘ Arnór hugsaði sig lengi um. ,,Flýja? Gráey er ekki svo langt undan og við gætum stungið þá a…‘‘
,,Nei, Valdi! Þeir munu þá bara handtaka okkur þar,‘‘ svaraði Arnór þungur á brún. Áhöfn skipsins hafði nú tekið eftir fylgjanda þeirra og voru nokkrir orðnir órólegir.
,,Hvað skulum við þá til bragðs taka?‘‘ spurði Valdi óþreyjufullur.
,,Allt í lagi! Ef að þetta eru ekki sjóræningjar heldur varðsveit konungs þá munu þeir líklega ekki stoppa hér lengi!‘‘
,,Ef þeir þá koma um borð,‘‘ sagði Valdi milli samanbitinna tannanna.
,,Einhverjir þarna kannast líklega við mig og þá vitanlega útlegðarskipunina sem á mér liggur, og kannski kannast þeir líka við Fáfni…‘‘
,,Afhverju ekki okkur Hrólf? Erum við ekkert merkilegir?‘‘
,,Enginn ætti að kannast við ykkur né neinn annan hérna, og við skulum nýta okkur það…‘‘
,,Það sem þú ert að reyna að segja?‘‘
,,Ég og Fáfnir felum okkur fyrir vörðunum en þið villið um fyrir þeim og komið þeim í skilning um að þið séuð bara venjulegir kaupmenn eða eitthvað!‘‘ sagði Arnór. Valdi ranghvolfdi augunum.
,,Þú. Ert. Snillingur. Og upphugsaðir þetta á svona stuttum tíma! Þú ættir að verða konungur eða eikkað!‘‘ sagði Valdi í hæðnistón og fékk að launum vænt axlarhögg. Arnór sótti Fáfni og þeir fóru báðir ofan í tvær tómar tunnur og Hrólfur setti lokin á.
,,Þröngt,‘‘ kvartaði Arnór innan úr tunnunni.
,,Sammála,‘‘ tautaði Hrólfur. ,,Þessar buxur eru alltof litlar,‘‘
Herskipið var brátt komið upp að langskipinu, Skipverjar Valda voru ókyrrir em Valdi lét fella seglin meðan herskipið var að leggja upp að síðu langskipsins. Segl herskipsins voru rauð og hvít röndóttmeð gylltri kórónu en viðurinn var dökkur og skipið virtist vera á þrem hæðum. Landgöngupallur var lagður niður til langskipsins og niður hann marseraði tugur hermanna með spjót og ferhyrnda skildi skreytta eins og seglin. Hermennirnir þustu um skipið og slógu vopn úr höndum þeirra sem einhver báru. Hrólfur þráaðist við að láta af hendi öxi sína en Valdi róaði hann. Stuttu síðar gekk niður óstöðugan landganginn feitur kapteinn, rauður einkennisbúningur hans skreyttur litlum, gylltum keðjum og skikkja hans var gullsaumuð. Tveir vígalegir þeldökkir hermenn með skörðótt bjúgsverð fylgdu honum. Kapteinninn staðnæmdist þegar hann var kominn um borð.
,,Jæja,‘‘ sagði kapteinninn djúpri röddu. ,,Hvað höfum við hér? Víkinga að norðan? Átti bara að ráðast á saklausa sjómenn Eyjaveldis?‘‘ Hann beindi síðustu orðunum til Valda sem stóð teinréttur með undarlegt glott á munninum.
,,Nenn-neih, við erum þó að vísu að norðan, en engir víkingar, onei. Við erum auðmjúkir kaupmenn, komnir hingað að…‘‘ svaraði Valdi en kapteinninn greip frammí fyrir honum.
,,Að selja hvað? Hvar er farmurinn?!‘‘ spurði hann.
,,Eeeeehhh,‘‘ Venjulega var Valdi mjög slingur en hann gat ekki upphugsað neitt í þessu. ,,Viiiiið… erum að… selja kort! Já, þau taka ekki mikið pláss og því þarf ekki mikið af kössum en…‘‘
,,Mætti ég fá að sjá þessi kort?‘‘ spurði kapteinninn ísmeygilega.
,,Thja, uhm… neeeei. Það væri hættulegt, pappírinn gæti eyðilagst í öllu þessu… salti hérna á sjónum?‘‘ Valdi brosti vandræðalega. Fífl, hugsaði Arnór. Kapteinninn virtist ekki sannfærður.
,,Jæja, ég ætti þá að leyfa ykkur að fara, en fyrst þyrfti ég að sjá verslunarleyfisbréf ykkar hér í Eyjaveldi!‘‘ skipaði kapteinninn.
,,Verslunar..?‘‘ spurði Valdi og tvísté.
,,Leyfisbréfið sem þú þarft að hafa til þess að selja vörur eða kaupa hér í Eyjaveldi,‘‘ sagði kapteinninn.
,,Já það, sko… ég týndi því. Jább, svona gerist, bara mannleg mistök og…‘‘
,,Gerir lítið til, þú ættir þá að vera á lista hjá mér yfir erlenda kaupmenn,‘‘ Kapteinninn brosti góðlátlega. ,,Pétur!‘‘ hrópaði hann eftir að hafa starað á Valda smá stund. Niður landgöngurbrúna trítlaði lágvaxinn og renglulegur strákgutti með pergamentsrúllur.
,,Hvað kapteinn Sandgeir?‘‘ spurði Pétur undirgefinn.
,,Ertu með listann yfir kaupmenn með leyfisbréf?‘‘ spurði Sandgeir en leit ekki á strákinn sem rótaði í skyndi í pergamentsrúllubunkanum. Brátt virtist hann hafa fundið eitthvað og rétti eina rúlluna til Sandgeirs.
,,Hér herra,‘‘ sagði Pétur og hörfaði aftur á bak. Sandgeir rétti úr rúllunni.
,,Nafn?‘‘ spurði hann og hrækti á þilfarið. Valdi tvísté. ,,Leyfið er stílað á þitt nafn er það ekki?‘‘
,,Eh, jú. Og ég heiti Va-…‘‘ Valda varð litið á hermennina. ,,Vaaa-rði. Varði…‘‘ Valdi lét sjón sína fljúga yfir skipið og í flýti kom hann auga á nokkra kaðla sem héngu úr mastrinu. ,,Varði… Kaðalsson. Jáh, Varði Kaðalsson,‘‘ Valdi brosti. Sandgeir lét augu sín rúlla lengi eftir listanum.
,,Neeei,‘‘ sagði hann eftir nokkurn tíma, ennþá með augun föst á listanum. ,,Enginn hér með nafninu Varði,‘‘
,,Þetta hljóta að vera einhver mistök!‘‘ sagði Valdi.
,,Þetta sagði líka sá síðasti sem var ekki með leyfi,‘‘ svaraði Sandgeir og glotti eins og hann væri að græða eitthvað á leyfisleysi Valda.
,,Uuurm, nú þegar ég man, þá var það bróður minn hérna sem skrifaði undir, ekki satt?‘‘ sagði Valdi í flýti. Allt var hljótt. Valdi gaf Hrólfi sem starði á tunnurnar sem Arnór og Fáfnir voru í olnbogaskot. Hrólfur hrökk við.
,,Ha? Hvað?‘‘ spurði hann aulalega.
,,Var leyfisbréfið ekki skrifað á þig?‘‘ spurði Valdi.
,,Hvaða leyfisbré…‘‘ Hrólfur komst ekki lengra því Valdi greip frammí fyrir honum.
,,Óhahhahahh, manstu ekki? Leeeeyyyfisbréfið?!‘‘ Valdi blikkaði hann órólega.
,,Uuuuuu… jú, leyfisbréfið!‘‘ sagði Hrólfur og þóttist fatta.
,,Og hvað heitirðu?‘‘ spurði Sandgeir.
,,Hrrr…‘‘ Hrólfi var litið á hráka á þilfarinu. ,,Hrrr… Hr-ólfur… Sighvatason,‘‘ Hrólfur kinkaði kolli. Valdi strauk á sér andlitið. Það er undarlegt að hann muni eftir að anda yfirleitt, hugsaði Arnór og blótaði í hljóði. Sandgeir leit á Hrólf ósannfærður. Hann ætlaði að opna munninn en Valdi varð á undan.
,,Hehe, já, við eru nefnilega hálfbræður með sömu móður, ihihi,‘‘ sagði hann og hló taugaóstyrkur. Sandgeir yppti öxlum og leit aftur á rúlluna. Hann var þó nokkur andartök að fara yfir listann. Loks leit hann aftur upp.
,,Neibb, það er enginn Hrólfur Sighvatason á þessum lista,‘‘ sagði Sandgeir og brosti. ,,VEEERÐIR!!!‘‘ öskraði hann síðan. Verðirnir sem studdu seig letilega við spjót sín tóku viðbragð. ,,Handtakið þessa áhöfn og færið í fangaklefana. Fleiri hermenn af herskipinu komu niður landganginn og færðu áhafnarmeðlimi í handjárn. Arnór vonaði að enginn myndi streitast á móti. Því miður varð ekki svo og hann heyrði Hrólf og Heiðrúnu hrópa einhver bardaga öskur en þau þögnuðu þegar enn fleiri hermenn þrömmuðu niður landganginn .
,,Já, hehe, nú man ég! Við erum ekki kaupmenn! Við erum bara að fara í heimsókn til veikrar frænku minnar!‘‘ heyrði Arnór Valda hrópa þegar hermennirnir drógu hann upp landganginn. Brátt var öll áhöfn farin af skipinu en Arnór sá gegnum gægjugat á tunnunni að nokkrir hermannanna voru að sigla skipinu. Arnór ákvað að taka sér blund meðan hann biði eftir að skipið færi í land, en áætlun var tekin að myndast í höfði hans.
Arnór vaknaði við að skipið stöðvaðist skyndilega. Hann heyrði hvar margir hermannanna yfirgáfu skipið og þegar allt virtist hljótt lyfti Arnór lokinu varlega af tunnunni og gægðist út fyrir opið. Skipinu hafði verið lagt að höfn, í Tindabæ að Arnóri sýndist og var allt mannlaust fyrir utan tvo varðmenn sem gengu um höfnina. Arnór reisti sig við með herkjum en hann hafði verið fastur í sömu stellingunni með hné upp við höku í fleiri fleiri klukkutíma og fékk nú gífurlegan náladofa í flestalla útlimi líkamans. Arnór fór varlega úr tunnunni, setti lokið aftur á á eftir sér og leitaði varlega í kössum sem hermennirnir höfðu fellt og hellt megnið af innihaldinu úr. Eftir nokkra stund fann hann sverðið sitt og skikkju. Arnór festi sverðið við beltið sitt og sveipaði skikkjunni yfir herðar sér. Hann leit í kringum sig og sá mörg skip, meðal annars stóra herskipið sem hafði handtekið Valda og hina félaga hans. Nú gekk hann að tunnunni sem Fáfnir var í og lyfti varlega af lokinu. Fáfnir var með hálflokuð augun og við það að sofna en Arnór potaði í hann. Fáfnir leit veiklulega upp.
,,Mhmhmhm, hvaa-,‘‘ muldraði hann og reyndi að opna augunn Arnór hristi hann ögn til.
,,Fáfnir, letiblóðið þitt vaknaðu!‘‘ hvíslaði Arnór reiðilega, en hann vissi ekki hversu langt væri í að vörður kæmi að athuga með skipi. Fáfnir opnaði augun til fulls.
,,Hv-hvað?‘‘ spurði hann veiklulega. Arnór reif hann upp úr tunnunni. Fáfnir átti erfitt með að standa í fyrstu en svo náði blóðið að flæða aftur í fætur hans og hendur. Arnór lagði hönd á öxl hans g horfði í þreytuleg augun.
,,Fylgdu mér bara, ég fer með þig í skjól til vinafólks hér í bænum og kem aftur að sækja þig… á næstunni,‘‘ sagði Arnór grafalvarlegur. Fáfnir lyfti annarri augnabrúninni. ,,Ekki óttast, ég þarf bara aðeins að sinna öðrum erindum,‘‘ Fáfnir ætlaði að segja eitthvað en Arnór hafði þegar rifið upp svarta böðulsgrímu og sett yfir höfuð sér.
Hermennirnir otuðu með spjótum sínum Valda og áhöfn hans af skipinu og út á höfnina. Nokkrir hermenn tóku sér stöðu fyrir framan hópinn og ráku þá áfram í náttmyrkrinu að stórri steinbyggingu. Einhver hljóp út úr byggingunni og brá sér á tal við Sandgeir sem reið fremstur á glæsilegum hesti. Maðurinn virtist síðan telja fangana og hljóp aftur inn. Sandgeir fór af baki og teymdi hest sinn í burtu en fangarnir voru leiddir inn í bygginguna. Þegar Valdi steig þangað inn gaus á móti honum lykt af sagga og myglu. Kalt var þarna inni og hálfloftlaust. Þau voru stödd í tiltölulega stóru anddyri og við enda veggjarins var borð með hrúgu af pappírum og nokkrum kertum en um það bil tylft varða sátu í kringum lítið borð og drukku úr könnum. Heyi hafði verið dreift lauslega um gólfið og nokkrar rottur skutust í gegnum það. Nokkrar þykkar hurðir voru við veggina. Maðurinn sem mælt hafði við Sandgeir sat bak við borðið og páraði eitthvað í flýti niður á blað. Hermaður gekk að manninum og honum var rétt lyklakyppa.
,,Klefar D-8, D-16 og D-24,‘‘ heyrðist Valdi manninn segja. ,,Og gerið það ekki handtaka fleiri, þetta eru síðustu stóru klefarnir,‘‘ Hermaðurinn virtist glotta og benti föngunum á að fylgja sér í gegnum einar dyrnar.
,,Hva, þú færð nú borgað aukalega á hvern nýjan fanga svo ekki kvarta!‘‘ sagði hann og notaði einhvern lykil til þess að taka hurðina úr lás og með herkjum tókst honum að ýta henni upp á gátt og gekk niður stiga. Ýtt var harkalega í bak Valda og hann fór á eftir hermanninum. Það var jafnvel verri lykt og kaldara niðri í kjallaranum. Hermaðurinn sem gekk á undan virtist velja einhvern lykil. Þó svo að kolniða myrkur væri þarna sá Valdi að þetta var dýflissa. Á vinstri hönd voru átján fangaklefar og flestir þeirra virtust hýsa einvherja. Klefarnir á vinstri hönd voru ívið stærri, en á hverja sjö litla klefa var einn stór. Hermaðurinn sem gekk fyrir þeim opnaði einn af stór klefunum sem var næst þeim. Valda og nokkrum öðrum var ýtt inn í hann og læst á eftir þeim. Valdi heyrði að tveir aðrir klefar voru opnaðir og svo læst aftur. Þegar verðirnir voru farnir var hljótt smá stund, en svo byrjaði Valdi glaður í bragði:
,,Og kyrjum saman…!‘‘
Skuggi læddist yfir bryggjuna hljóðlaust en Fáfnir trítlaði á eftir honum. Ef Valdi og Hrólfur voru teknir til fanga þá hljóta þeir og hin að vera í Tindabæjarfangelsi, hugsaði Skuggi. Það var skýlaust og tunglið lýsti niður á steinstéttina og stór húsin sem stóðu við höfnina. Varðmaður gekk með spjót sitt nokkrum tugum metra fyrir framan þá. Skuggi þekkti lítið til Tindabæjar en hafði þó einhverja hugmynd um hvert skyldi halda. Milli tveggja hús sem við bryggjuna stóðu var húsasund sem leiddi að breiðgötu. Skuggi og Fáfnir voru fyrir framan þessi hús. Skuggi leit á Fáfni.
,,Farðu inn eftir þessari götu og svo til hægri. Leitaðu að húsi Machielle fjölskyldunnar, það er með grasigrónu þaki og á þremur hæðum. Segðu að Arnór hafi sent þig og ekkert en. Annað hvort ég, Valdi, Hrólfur, Sigurbjörn eða Eyjólfur sækjum þig. Farðu,‘‘ sagði Skuggi og benti Fáni á húsasundið. Fáfnir ætlaði að segja eitthvað en Skuggi var þegar horfinn út í náttmyrkrið. Skuggi skaust eftir bryggjustrætinu. Vörðurinn var nokkra metra fyrir framan hann. Skuggi læddist aftan að honum. Vörðurinn tók ekki eftir Skugga sem tók um höfuð hans og sneri eldsnöggt upp á. Skuggi hafði ekki fyrir því að líta á líkið heldur greip hann í spjótið sem vörðurinn hafði misst áður en það lenti í götunni og lagði það á jörðina við hlið hans. Svo leit hann í kringum sig og í fjarska kom hann auga á bygginguna sem hann leitaði að. Hún var á nokkrum hæðum og tveir verðir fyrir utan hana. Skuggi hljóp að byggingunni og skeytti engu hvort verðirnir sæju hann koma. Þegar hann átti einungis nokkra metra eftir tóku verðirnir tveir loks eftir honum en Skuggi stökk strax að þeim og hjó af báða hausana í einu með Silfursting. Blóð skvettist yfir rúður hússins og lak í straumum niður í sjóinn nokkrum metrum í burtu. Spjót varðanna duttu með glamri niður í strætið. Skuggi henti sér upp að hlið hússins. Inni í byggingunni heyrðust raddir og vopnaglamur og eftir smá stund komu út tveir verðir til viðbótar. Skuggi sá fyrirlitningarsvip koma á andlit þeirra í tunglsljósinu.
,,Strákaaar!‘‘ öskraði einn þeirra. ,,Það er búið drepa Murta og Einar!‘‘ Fimm verðir til viðbótar þustu út.
,,Neeei, hvað er þetta hættu aðÍÞÓRSNAFNI!!!‘‘ sagði varðmaður nokkur þegar hann sá hvað gerst hafði. ,,Strákar þetta er ekkert grín, þeir eru í alvöru dauðir!‘‘ Aðrir fimm komu út og byrjuðu verðirnir að leita að árásarmanninum. Skuggi nýtti sér tækifærið og skaust inn um opnar dyrnar. Hann var staddur í heystráðu anddyri. Nokkrir kyndlar voru á veggjum og við endan var borð með stafla blöðum þar sem maður sat og skrifaði. Hann leit ekki upp úr skrifunum þrátt fyrir óp og köll varðmannanna. Skuggi gekk rólega að borðinu.
,,Hvar eru nýju fangarnir?‘‘ spurði Skuggi mjúklega. Maðurinn leit ekki upp úr blöðunum sem hann var að skrifa á en benti á hálfopna hurð á veggnum til hægri. Skuggi gekk að hurðinni og leit inn. Það var niðamyrkur og daunn þar inni Hann gekk niður rakar steintröppur og kom auga á gang með fangaklefum.
,,Valdi? Hrólfur? Sigurbjörn?‘‘ kallaði Skuggi.
,,Hérna!‘‘ hrópuðu þó nokkrar raddir. Skuggi gekk áfram og að stærri klefunum. Í þeim sem var næst útganginum stóð Valdi og lagfærði hattinn sinn.
,,Mikið var að þú komst. Við…‘‘ byrjaði Valdi en Skuggi stöðvaði hann.
,,Það mun kannski taka einhverja daga en ég get ekki frelsað ykkur núna, en ég er með áætlun. Valdi, þegar þú kemst út skaltu spyrjast fyrir um Machielle fjölskylduna og sækja Fáfni‘‘ sagði Skuggi og hvarf úr dýflissunni. Ókvæðisorð fylgdu á eftir honum. Skuggi hljóp út úr byggingunni og rotaði með kjaftshöggi einn varðanna sem beið í anddyrinu. Skuggi stökk út á strætið og sá engan vörð. Því næst tók hann á rás og hljóp að hesthúsunum við bryggjuna.