Riddari réttlætis nýtur ei hvíldar,
rök dauðans jafnvel hörfa,
þeir seku synda sinna gjalda,
þegar ný kemur hefndaralda.
þegar blóbönd bresta og svik fara á stjá,
traustið rúið og heiður farinn frá,
þá fer Skugginn af stað.
gegnum eld og ís,
þá gríman rís,
og sá grímuklæddi sannar
að gegnum heiminn ótta hann spannar.
í landi ísa og elda,
þeir finna sig ofurselda,
og hann kom með brandinn á lofti,
og leiðir nú á ný
lýð svikna manna,
sem munu sig sanna,
gegn herskörum spilltra granna
FORMÁLI
Eyjaveldinu er stjórnað aðallega af konungi en einnig er þarna þing. Á þingi eru tuttugu þingmenn kosnir af konungi og þrír þingmenn sem hver og einn Eyjahöfðingi kýs fyrir sig. Svo eru fimm ráðherrar: sjómálaráðherra, stríðsmálaráðherra, landbúnaðar-ráðherra, lýðsmálaráherra og stjórnmálaráðherra. Þá eru það fjörutíu og fjórir þingmenn allt í allt. Einnig mega liðsforingjar og herforingjar sitja þingfundi.
Kóngsey er höfuðeyjan og næststærst. Þar eru fjórar borgir: Næturborg, Áttaþorp, Slétta og svo höfuðborgin Ægisborg. Loks eru fimm þorp: Tindabær, Tangi, Konungshöfn, Kóngabær og Urtuþorp. Kóngsey var ekki alltaf höfuðeyjan en eftir Konungsbyltinguna svokölluðu fyrir þúsund árum (tvö þúsund árum séð frá 21. öldinni) hrifsaði konungur öll völd frá þingi og fluttist á Kóngsey þar sem hún fékk nýtt nafn og nefndist Kóngsey(Fugley var víst ekki nógu konunglegt nafn).
Gráey er stærsta eyjan af þeim átta sem hafa sitt eigið ráð og fulltrúa á þingi í Eyjaveldinu. Hún var fyrst um sinn nefnd Silfurey vegna þess að hún var talinn heimili Skugga en þegar Kóngsbyltingin braust út breyttist nafnið. Á Gráey eru þrjár borgir: höfuðborgin Eikarþorp (sem er bara slétta með mikið af dreifðum bæjum), Ódáðavirki og Gráströnd. Minni bæjirnir eru: Vopnafjara, Litla-Gallía og Fiskiskagi.
Hafey er þriðja stærsta eyjan. Hafeyjar íbúar hafa lengi barist fyrir sjálfstæði frá Eyjaveldinu en enginn konungur hefur tekið það í mál enda mikilvæg eyja með góð fiskimið. Helstu borgirnar þar eru höfuðstaðurinn Ármannshöll og Stórustaðir. Svo eru einnig þorp eins og Húnahöll, Bölbæn, Gráannastaðir, Hershöll, Bóndabær og Gunnarból. Gunnarsból og Bóndabær eru á Litlu-Hafey.
Mosey er minnsta eyjan og hefur lengi verið Hafey þyrnir í augum að svo lítil eyja fái sinn eigin fána og menn á þing. Á Mosey eru tvo þorp: Afkimi og höfuðstaðurinn Grámannsborg.
Smáraey er næstminnst og standa eyjarnar tvær saman um að halda réttindum sínum. Smáraey er talin hafi orðið sér eyja í Kóngsbyltingunni. Þar er eingungis ein borg: Smárabær. En íbúar Smáraeyjar eru flestir mjög ríkir og geta því vel staðið undir sköttum og sannað að Smáraey geti áfram verið með sinn eigin fána.
Sóta er nánast óbyggileg eldfjallaeyja. Þar er einungis borgin Musteri sortans þar sem þúsundir munka hafast við. Sóta er eyja munka sem telja heiminn gerðan úr dýrslegum öndum og gera allt ti þess að geta tamið andana. Þingið hefur reynt að útrýma þessum söfnuði sem talinn er halda mannfórnir en söfnuðurinn er valdamikill og ríkur og tekst þannig að halda velli. Munkarnir trúa aðallega að hæsta fjallið á eyjunni, Sóta, sé inngangur í gangverk alheimsins og þaðan komi andarnir.
Karlaeyjar er eyjaklasi austur af Kóngsey. Karlaeyjar eru ekki sagðar beinn hluti af eyjaveldinu vegna þess að fæstir þar þurfa að borga skatt. Það er vegna þess að flestir útlagar geta flúið til Karlaeyja og þar eru þeir ekki lögdræpir, að minnsta kosti erfiðara að ná til þeirra. Það er hinsvegar ekkert sældarlíf að búa þessum hömrum og aðeins er hægt að stunda almennilegt bú á þremur stöðum: Vindaskjóli(aðal felustaður útlaga), Bjargi og Klettaey sem er höfuðstaðurinn. Flestar eyjarnar eru óaðgengilegar vegna brattra hamra og skerja. Aðeins bestu sjómenn á bestu skipum geta siglt gegnum Karlaeyjar.
Fiðurhöfði er fjórða stærsta eyjan, samt sem áður fámennur staður, líklega vegna þess að það er fyrsti viðkomustaður afrískra sjóræningja. Það eru fjögur þorp á Fiðurhöfða: Kötuþorp, höfuðstaðurinn Höfðinn, Lundabjarg og Austurhöfn.
I. SKUGGA ER ÞÖRF
Arnór og Fáfnir sátu saman og sungu þegar barið var að dyrum. Arnór gekk af stað og renndi frá slagbrandinum. Dyrnar fuku upp og í ljós kom tötraklæddur hermaður. Hann féll rennblautur á Arnór sem reysti hann við.
,,Skugga,’’ stundi hann. ,,Skugga er þörf,’’
,,Skugga?’’ spurði Arnór forviða. ,,Hvað viltu honum?’’ Hermaðurinn leið út af. ,,Hey! Einhver! Ég þarf hjálp!’’ hrópaði Arnór. Nokkrir gengu til hans.
,,Ég sæki ábreiðu fyrir hann!’’ sagði Sigurbjörn sem var meðal þeirra sem höfðu komið.
,,Hvað gerðist? Hver er þetta?’’ spurði Fáfnir. ,,Ég veit ekki, en mig grunar að hann sé frá Eyjaveldinu,’’ sagði Arnór og horfði yfir skyrtuna sem hékk yfir hringabrynju. Skyrtan var rifin og með bótum nokkrum staðar en Arnór gat séð bláu og hvítu rendurnar og smá af sverðinu sem prýddu fána Gráeyjar. ,,Og ég held hann sé frá Gráey,’’
,,Hvað svo sem því líður verðum við að koma honum inn í hitann!’’ sagði Valdi sem kominn var fyrir aftan þá og hjálpaði Arnóri að bera meðvitundarlausan manninn. Þeir létu hann niður á bekk einn við langeldinn. Sigurbjörn kom með ábreiðu og lagði yfir. Fleira fólk hópaðist í kring um þá til þess að sjá gestinn.
,,Hver er þetta?’’ spurði Áshildur.
,,Hermaður úr Eyjaveldinu,’’ sagði Arnór og losaði hjálminn af höfði mannsins. ,,Áshildur, gætirðu fengið nokkrar ambáttir til þess að hlúa að sárum hans?’’ Áshildur kinkaði þegjandi kolli.
Arnór vakti gegnum nóttina og fylgdist með sofandi gestinum. Hann var með hitasótt og næringarskort auk fjölda smáskráma. Búið var að setja hann í ný, hrein og þurr föt en þau gömlu hengu úti í horni. Hann hafði ekki rumskað alla nóttina. Hvað gæti dregið hermann úr varðliði Gráeyjar hingað? Að leita að Skugga? Hugsaði Arnór og kveikti í pípu. Reykurinn liðaðist hægt um kyrran bæinn meðan stormurinn gnauðaði úti fyrir.
,,Morguninn hliðvörður,’’ var það fyrsta sem Arnór heyrði þennan dag. Hann opnaði augun og sá Valda standa yfir sér.
,,Mmff, hvað viltu?’’ muldraði Arnór og kúrði sig ofan í ábreiðu sína á gólfinu, en Arnór hafði látið eftir lokrekkju sína fyrir gestinn.
,,Vinur þinn er að vakna, og ég held að hann myndi vilja tala við þig,’’ sagði Valdi. Arnór reif sig upp af gólfinu og dreif sig í buxur. Loks leit hann á komumann sem lá í rúmi Arnórs. Hann var enn náfölur og í svitabaði. Arnór gekk til hans og leit framan í veiklulegt andlitið. Maðurinn var með augun hálfopin og Arnór gat séð rauðar æðarnar í þrútnum augunum.
,,Þessi maður hefur augljóslega lagt að baki langa leið,’’ sagði Áshildur fyrir aftan þá. ,,Hann þarf að hvílast og því skulu þið ekki vera að atast í honum,’’ Skyndilega rumskaði maðurinn. Allir litu á hann.
,,Skuggi… verða að finna… Skuggi,’’ muldraði hann með máttlausum vörum.
,,Fljótt, finnið eitthvað að drekka!’’ skipaði Heiðrún og einn húskarl fór og sótti bikar með vatni. Heiðrún bar hann varlega að vörum mannsins. Fyrst virtist hann ekki vilja drykkinn en þegar Arnór og Valdi reistu hann upp teygaði gesturinn drykkinn af áfergju. Þegar bikarinn var tómur lagðist hann út af.
,,Við ættum að gefa honum ró,’’ sagði Áshildur ströng og mannskapurinn hörfaði burt.
,,Nei,’’ heyrðist þá sagt veiklulegum rómi. Arnór sneri sér við og sá að sjúklingurinn var með opin augu og barðist við að reisa sig upp aftur í rúminu. Arnór stökk til og hjálpaði honum. ,,Þakka þér, hliðvörður,’’ muldraði maðurinn og brosti.
,,Hvernig veistu hver ég er?’’ spurði Arnór.
,,Það er aðeins einn sem er svo skjótur að hjálpa sjúklingi á fætur,’’ sagði maðurinn og Arnór minntist atviks fyrir mörgum árum þar sem hann lá einn fárveikur í rúmi og gat ekki drukkið vegna þess að hann gat ekki reist sig við. ,,Ogso þekkja allir yfirvaraskeggið þitt,’’ Arnór strauk skeggið.
,,Hvaðan kemurðu?’’ spurði Arnór. ,,Gráey?’’ Maðurinn kinkaði kolli.
,,Ég leita Skugga, er hann hér?’’ spurði maðurinn.
,,Á þessu landi, já,’’ var svar Arnórs. ,,Hví þarfnastu hans?’’ Maðurinn hóstaði ægilega og spýtti út úr sér slímugum hráka.
,,Afsakið… ég þarfnast ekki Skugga, Eyjarnar þarfnast… þarfnast… hans,’’ voru loka orð hermannsins áður en hann sofnaði aftur.
,,Hvers vegna þarf hann Skugga?’’ spurði Valdi.
,,Ég hef ekki minnstu hugmynd… og þó,’’ svaraði Arnór og minntist nú nýja konungs Eyjaveldisins. ,,Látið mig vita strax og hann vaknar aftur!’’
Arnór gekk aftur heim í langhús Hornafjarðar með tvo fiska á bakinu og Fáfnir elti hann. Þeir höfðu verið að veiða í vök úti við sjó. Brátt sá Arnór einhvern koma hlaupandi á móti þeim. Það var Sigurbjörn ljóðbrók.
,,Hann er…‘‘ byrjaði Sigurbjörn móður eftir hlaupin en Arnór var þegar búinn að færa Fáfni fiskana og hlaupinn af stað. Hann skaust fram hjá Koli þræl sem stóð í bæjardyrunum og næstum hnotinn um Bessa sem lá á gólfinu nagandi rifinn roðskó. Bessi hrökk við og urraði en Arnór skeytti ekki um hann og leit um. Hleri, Valdi, Heiðrún og Áshildur stóðu í hnapp við eina lokrekkjuna. Arnór gekk á milli þeirra og sá að gesturinn sat uppréttur og þambaði einhvern drykk úr hrútshorni.
,,Aaahhh,‘‘ stundi hann þegar hornið var tómt og strauk um munninn sinn. ,,Þakka þér… Heiðrún. Ég finn kraftinn strax koma aftur,‘‘ Hermaðurinn hallaði höfðinu aftur og lygndi aftur augun. Eftir smá stund hristi hann hausinn til og leit á fólkið í kringum sig. Augu hans staðnæmdust á Arnóri. ,,Þú,‘‘ sagði hann. ,,Heitir Arnór Grímsson,‘‘
,,Mikið rétt,‘‘ svaraði Arnór blæbrigðalausri röddu. ,,Og hver ert þú aðkomumaður er barst merki Gráeyjar yfir brynju þinni?‘‘ Maðurinn pírði augun á Arnór.
,,Ég heiti Kampur sonur Bolla sonar Kamps og er fyrrverandi hliðvörður við Gráey,‘‘ svaraði Kampur hárri raust.
,,Fyrrverandi…?‘‘ spurði Arnór.
,,Jhaá,‘‘ svaraði Kampur og stundi. ,,Ég tók við stöðu Garðars sonar þíns sem tók við stöðu þinni sem yfirhliðvörður Gráeyjar. En ég var ósáttur við einn skattheimturiddarann er beitti ofbeldi þá er eigi borguðu nóga af hinum óvenju háu sköttum, og stakk hann með spjóti mínu er hann ætlaði að veita Guðrúnu Baldurskvongu kinnhest mikinn…‘‘
,,Ég þakka þér fyrir það, Baldur hefði verið í þakkarskuld við þig,‘‘ sagði Arnór.
,,Hefði…?‘‘ spurði Kampur með varúð í röddinni.
,,Haltu bara áfram,‘‘ skipaði Arnór og hafði um leið svarað óspurðri spurningu Kamps.
,,Megi hann drekka mikinn mjöð í Valhöll,‘‘ hvíslaði Kampur en hélt svo áfram: ,,Ég var rekinn í útlegð af nýjum eyjarhöfðingja; Matúlfi Hansasyni. En áður en ég fór fól byltingin mér verkefni um að finna Skugga og…‘‘ skyndilega hætti hann. ,,Ég hef sagt of mikið.‘‘
,,Neeei, svona nú! Hvernig endar sagan? Þetta er svo spennandi!‘‘ sagði Valdi með uppgerðar kátínu í röddinni. Arnór teig heiftarlega á tána hans.
,,Hví mælirðu svo?‘‘ spurði Arnór og horfði rannsakandi á hann. Kampur svaraði engu en horfði á móti Arnóri. Eftir nokkra stund bugaðist Kampur loks.
,,Ég get ekki sagt það, ykkur er ekki treystandi,‘‘ Kampur sneri höfðinu og horfði á vegginn gegnt sér.
,,Ekki treystandi? Heyrðu mig nú…‘‘ sagði Hrólfur byrstur.
,,Rólegur tuddi, ekki mauka hann alveg strax,‘‘ sagði Valdi.
,,Þegiði báðir tveir!‘‘ sagði Arnór skipandi en leit svo á Kamp. ,,Hvað er þessi bylting? Og afhverju þarfnist þið Skugga svo mikið?‘‘ Kampur þagði lengi við. Loks mælti hann:
,,Ég skal tala við þig í einrúmi, Arnór Grímsson, við skulum mælast úti fyrir,‘‘
,,Jájá, við fáum ekkert að vita!‘‘ stundi Heiðrún frekjulega.
,,Ég þarf að sinna þessum sjúklingi enn, hann mun falla í yfirlið ef þið hættið þessum yfirheyrslum ekki, hann má ekki fara út!‘‘ sagði Áshildur.
,,Hvað er í gangi? Hvað er gerast!?‘‘ spurði Hleri undrandi og reiður í senn. Arnór leit á Áshildi.
,,Ef að við fáum ekki að fara út einir, farið þið öll út,‘‘ sagði hann rólega og skipandi. Enginn hreyfði sig. ,,Núna!‘‘ hrópaði hann. Án orða drifu þau sig út og tóku aðra íbúa með sér. Jafnvel Hleri sleppti því að kvarta og haltraði út. Brátt var bærinn auður og Arnór og Kampur voru einir, auk Bessa.
,,Jæja, ég verð víst að gera hreint fyrir mínum dyrum,‘‘ sagði Kampur í uppgjafartón.
,,Bíddu aðeins,‘‘ sagði Arnór og læddist að dyrunum, opnaði þær hægt og leit út. Hann sá að Valdi, Hrólfur, Eyjólfur og nokkrir aðrir höfðu raðað sér upp við húsvegginn með eyrað upp við hann. Þegar þeir tóku eftir því að Arnór horfði á þá hrukku þeir við og drifu sig í burtu. Valdi tvísté vandræðalegur.
,,Eh, júbb, veggurinn er traustari en skíðgarður Ásgarðs,‘‘ sagði hann og bankaði í vegginn. ,,Jæja, best að við.. förum og athugum veggi fjárhúsanna, já, jhaaaaá, jæja, ahamm,‘‘ Hann og Hrólfur stauluðust burt. Arnór gekk aftur inn fyrir og dró stól að lokrekkju Kamps.
,,Get ég núna…?‘‘ spurði Kampur en Arnór greip fram í fyrir honum.
,,BURT!‘‘ öskraði hann og dauft fótatak heyrðist úti fyrir. ,,Jú, en talaðu lágt ef þú vilt ekki að orð þín fari út fyrir mín eyru,‘‘ Kampur kinkaði kolli.
,,Byltingin sagði mér að þér væri treystandi, þó að ég ætti frekar að beina orðum mínum til Baldurs ef ég þá fyndi ykkur nokkurn tíman,‘‘
,,Hvaða byltingu ertu að tala um?‘‘ spurði Arnór.
,,Byltingin?! Silfurstings… æjá, þú veist vitanlega ekkert um nýliðna atburði Eyjaveldis,‘‘
,,Endilega, fræddu mig,‘‘
,,Silfurstingsbyltingin. Ég er hér á vegum Silfurstingsbyltingarinnar, eða Byltingin eins og hún er kölluð í daglegu máli. Eftir Bjólfur falskóngur tók til starfa hafa byrjað stanslausar árásir þeldökkra manna úr austri á Eyjaveldið, tilgangslausar að því er virðist og herir Bjólfs veita nánast enga mótspyrnu. Og eftir hverja árás margfaldast tilgangslausir skattar á íbúa Eyjaveldis,‘‘ Kampur gerði hlé á máli sínu. ,,Byltingin telur að falskóngur sé að nýta sér þessa nýju óvini til þess að halda herlögum í Eyjunum og þar með tefja þingið í að finna réttborinn konung…‘‘
,,En það er enginn réttborinn konungur, ætt Jörmundar dó með honum,‘‘ sagði Arnór rólega.
,,Jáh, einmitt, það er það sem Bjólfur vill láta þig halda,‘‘ sagði Kampur með hæðni í röddinni. ,,Heriður, foringi Byltingarinnar, fór fyrir nokkru á fund aldraðrar fyrrverandi fóstru Jörmundar er gætti hans í æsku. Ef hún er ekki að ljúga, er Hákon hálfbróðir Jörmundar!‘‘
,,Bíddu, bíddu, bíddu? Átti Jörmundur hálfbróður!?! Og Hákon hver?‘‘ spurði Arnór æstur.
,,Hákon var traustasti herforingi Jörmundar og Jörmundur hafði oft mælt með honum sem eftirmanni sínum. En nú vitum við það sem enginn nema látin móðir Jörmundar og fóstra hans vissu, að Hákon og Jörmundur áttu sömu móður!‘‘ Þetta sló Arnór alveg út af laginu.
,,E-en hvernig?‘‘
,,Sko, faðir Jörmundar heitins varði eitt sinn tveimur árum með her sínum í tilgangslausri leit að landi lengst í vestri. Meðan hann var í burtu ól Kandóra drottning, móðir Jörmundar, óskilgetinn son og færði í fóstur til valdamikillar vinafjölskyldu. Þessi sonur er Hákon en ég efa að hann vita það jafnvel sjálfur,‘‘
,,Þá er þetta einfalt mál, þið látið fóstruna bera vitni um þetta og fósturforleldra Hákons, ef þau eru á lífi, og Hákon getur sest í hásæti!‘‘ sagði Arnór. Kampur hristi höfuðið brúnaþungur.
,,Ef Verðandi vildi hefði hún spunnið vefinn svo, en því miður er það ekki svo einfalt,‘‘ sagði Kampur daufur í dálkinn. ,,Bjólfur lét nefnilega handtaka Hákon eina nóttina og færa til hafnar í skip nokkurt nafnlaust og með óskreytt segl. Skipið sigldi síðan til austurs og við óttumst að Hákon hafi verið tekinn af lífi þar,‘‘ Þeir þögðu og Arnór íhugaði stöðuna.
,,Þú komst hingað í leit að Skugga,‘‘ sagði Arnór loks. Kampur kinkaði kolli.
,,Við teljum Skugga einan geta bjargað Eyjaveldinu úr þessari stöðu,‘‘ sagði hann.
,,En hví leitarðu hans hér?‘‘ spurði Arnór.
,,Lengi leitaði ég fregna af hinni grímuklæddu hetju og fann fyrstu fréttir á Spáni og rakti slóð fregna hans hingað, þar sem fley mitt brotnaði í spón sker út fyrir ströndina og ég neyddist til þess að synda nokkra metra og ganga fleiri hundrað álnir í hinu versta veðri áður en ég fann bæinn. Og sjá, Óðinn hefur leitt mig hingað. Ég vona að þú þykist vita hvar Skuggi sé.‘‘ Kampur leit vongóður á Arnór.
,,Hann hefur verndað okkur á ferðum vorum undanfarið, það er rétt, en ekkert hefur til spurst í margar vikur,‘‘ sagði Arnór. ,,Kannski hefur hann farið eitthvert annað?‘‘
,,Tja, ég þarf hvort svo sem hann hefur farið til Miklagarðs eða Múspells að finna hann. En hvað hyggst þú gera?‘‘
,,Við höfum hafið nýtt líf hér í Hornafirði,‘‘ sagði Arnór. ,,Auk þess gætum við ekki snúið aftur, Bjólfur hefur séð til þess,‘‘
,,Ekki endilega,‘‘ sagði Kampur með glampa í augunum. ,,Ef að þið færuð til Eyjaveldisins aftur gæti ritari konungs ógildað skógargöngu tilskipunina,‘‘
,,Hvað meinarðu?‘‘ spurði Arnór áhugasamur.
,,Aðalritari konungs, Lellingur, er ekki traustasti afkomandi Asks og Emblu. Byltingin hefur oft borgað honum fyrir hitt þetta, til dæmis bjargaði hann mér frá aftöku með því að tefja fyrir réttarhöldunum með óvenju mikilli pappírsvinnu,‘‘
,,Lellingur, ég kannast við hann. Sonur Geirs herforingja, megi tröll éta minningu þess níðings, Lellingur er latur og lifði á auðæfum stórrar ættar sinnar. Er hann í röðum Byltingarinnar?‘‘
,,Onei, það er hann sko ekki. En ef við eigum engin önnur úrræði mútum við honum. Hingað til virðist hann hafa haldið sér saman en hann er óveður sem skollið gæti á okkur á hverri stundu. En þið gætuð notfært ykkur… góðvild hans og látið ógilda skógargöngutilskipunina,‘‘ Arnór hugsaði sig um.
,,Er viðræðum okkar lokið?‘‘ spurði hann.
,,Tja, já, en, en þú hlýtur að vera með fleiri spurningar!‘‘
,,Þær mega bíða. Þú ert enn þreyttur og veikur eftir sundsprettinn, og þessar yfirheyrslur mínar draga úr þér allan styrk. Við tölum betur saman á morgun,‘‘ Arnór gekk út og sagði mönnum að óhætt væri að koma inn.
,,Afhverju?‘‘ spurði Valdi undrandi.
,,Ég hef tekið ákvörðunina og fer eftir nokkra daga,‘‘ svaraði Arnór yfirvegaður.
,,En hví? Þið hafið ekkert að óttast hér á Íslandi!‘‘ sagði Valdi.
,,Ég mun fara aftur til Eyjaveldis. Ég get ekki snúið baki við föðurlandi mínu á slíkum ófriðartímum,‘‘
,,Þú ert ruglaður, þessi nýi gestur hefur gefið þér gott höfuðhögg meðan við vorum ekki að horfa,‘‘ Valdi og Arnór stóðu með fætur hálfa í snjó og voru að gera við vegghleðsluna er umlukti bæinn. Dagur var liðinn frá því að Kampur hafði talað við Arnór um stöðu mála í Eyjaveldinu.
,,Þér má vel finnast það, en ég hef tekið ákvörðun um að snúa aftur. Ég get ekki hugsað til þess að Bjólfur fái sínu framgengt án réttlætis,‘‘ Arnór beygði sig niður og rótaði í snjónum eftir steinhellu sem fallið hafði úr veggnum. Valdi hristi hausinn.
,,Jæja þá, ég skal láta menn mína útbúa skip fyrir þig. Hvað heldurðu að Fáfnir eða Sigurbjörn segi?‘‘
,,Ég hef þegar rætt við Fáfni og hann hefur fallist á að verða eftir hér,‘‘
Þremur dögum síðar var langskip tilbúið við skiplægið. Arnór reið Þyt upp að skipalæginu. Sigurbjörn, Eyjólfur, Valdi, Hrólfur, Heiðrún og Fáfnir voru þegar komin þangað. Arnór steig af baki og lét þræl teyma Þyt um borð.
,,Jæja,‘‘ sagði Arnór. ,,Þá kveð ég ykkur og þakka…‘‘
,,Æj, enga væmni við komum með!‘‘ hreytti Valdi út úr sér. Arnór gapti.
,,Og með hvaða fyrirvara ætlaðirðu að…?‘‘
,,Við höfum þegar sett pinkur okkar um borð,‘‘ sagði Heiðrún.
,,Þú losnar ekki við okkur auðveldlega,‘‘ sagði Eyjólfur og skein í hálftannlausann góminn.
,,En Fáfnir, ætlar þú að koma með?‘‘
,,Já frændi, ég ætla að hjálpa til við að berjast gegn falskonungi,‘‘ svaraði Fáfnir.
,,Jæja, ætli það ekki, en ég vara ykkur við að möguleikinn á við verðum allir teknir af lífi er mikill, og ég vill ekki hafa það á samviskunni að hafa ekki sagt ykkur það,‘‘ sagði Arnór alvarlegur í bragði. Allir kinkuðu kolli og gengu um borð. Arnór hinsvegar hristi hausinn en sá síðan hvar Kampur kom haltrandi að honum.
,,Arnór Grímsson, þú ert mikill maður að gefa upp friðsamt líf á þessu fallega landi til þess að berjast fyrir réttlæti. Þegar ég hef náð fullum bata mun ég halda áfram leitinni að Skugga,‘‘ sagði Kampur og hneygði sig.
,,Þakka þér Kampur, þú ert ei minni maður að hafa lagt upp í hjafn viðamikla leit að jafn óræðri veru. En ég get sagt þér það að ef að Skuggi vill ekki finnast, finnst hann ekki og öfugt. Vertu nú sæll,‘‘