Skuggaskrudda Kafli I-IV Skuggskrudda er framhald af bókinni Skuggaskræða (sem er framhald Skuggaskinna). Ég ætla enn að fela mig bak við þá afsökun að þessi saga var skrifuð fyrir nokkrum árum, eða þegar ég var á þrettánda ári.

Hafið ei grynnkar,
en sólin þó minnkar,
uns ormurinn kemur,
og illvirki fremur,
áður við komumst til hafnar.
Skuggi nú hitnar,
í óvinalandi ei kiknar,
er kristni er tekin,
fram yfir goðin,
nú haldið er heim,
á eftir fuglum,
komið við í firði,
friðurinn rofinn.
Bjartur er morgunroðinn.

FORMÁLI

Rétt áður en þú byrjar að lesa þessa bók er rétt að taka fram ýmis atriði.
Til dæmis að um þennan tíma sem söguhetjur okkar koma að landi á Íslandi, hafði Noregskonungur mikinn augastað á landinu og hafði því sent bæði Snorra og Sturlu að taka yfir landið, en báðum mistekist. Konungur hafði áfram áhuga á landinu og fjallar þessi bók um það. Margir útlagar voru á þessum tíma og voru margir hverjir ekki eins illir og þeir áttu að vera. Jafnframt gerist þessi saga á óræðum tíma og því er lítið sögulegt skipulag á Íslandi.
Š

I. KAFLI
ENN EIN SJÓFERÐIN


Jæja, Valdi,’’ sagði Baldur. Þetta var fyrsti dagur fyrsta áfangans, þeir héldu til Bretlandseyja. ,,Við erum loks á réttri leið til Íslands, með almennilegri áhöfn,’’ Valdi svaraði ekki, starði bara ofan í djúpið, nuddaði smaragðshringinn og andvarpaði. Og andvarpaði aftur. Hann hafði látið svona frá því að hann steig um borð fyrir nokkrum klukkustundum.
,,Valdi?’’ spurði Baldur.
,,Ha?’’ Valdi rankaði við sér og hristi hausinn. ,,Ha, hvað?’’
,,Heyrðirðu ekki í mér?’’ spurði Baldur.
,,Ha? Ég, nei… ég var svo… ö… djúpt hugsi,’’
,,Hvað varstu að hugsa um, svona mikilvægt?’’
,,Tja, ekkert merkilegt, bara þetta venjulega,’’
,,Svo sem?’’ Nú snerist Valdi skyndilega í vörn og hreytti reiðilega í Baldur.
,,Það kemur þér ekkert við Skuggi!’’ Svo strunsaði hann niður undir þiljur og Baldur heyrði hann sparka í tunnu fyrir neðan sig. Undarlegt, hugsaði Baldur. Hrólfur gekk til Baldurs.
,,Hvað er að Valda, hann hefur aldrei látið svona áður?’’ sagði Hrólfur við Baldur.
,,Ég veit ekki hvað gengur að honum, en ég skynja að það sé ekkert gott, ekki fyrir neinn okkar, en þú sem bróðir hans…’’
,,Nei… ég veit það ekki heldur… en… nei…’’
,,Hvað?’’ spurði Baldur. Hrólfur svaraði ekki, heldur vaggaði burt og tautaði með sjálfum sér:
,,Nei… við skiluðum báðir… allir skiluðu… líka við, ég sá hann,’’
,,Hmm, skrýtið, mjög skrýtið,’’ Baldur. Hann rölti til Arnórs og bar þetta undir hann.
,,Við komumst að því hvað þetta er á endanum, það er ég viss um,’’ var svar Arnórs og Baldur var sammála.

Spænsku sjómennirnir sem voru í áhöfn Hörundar stóðu sig vel, einn þeirra talaði jafnvel Eyjamál. Hann hét Luigi og var ítalskur. Lagt hafði verið af stað frá Spáni og eftir að hafa komið einu sinni við í smá stopp í Portúgal var haldið af stað til Englands, og þaðan gætu Baldur og hinir fengið far til Orkneyja og svo til Íslands. Hörundur hafði ekki verið fáanlegur með í þessa ferð því hann sagðist þurfa að vera eftir á Spáni að sjá um viðskiptin.

II. KAFLI
KONUNGLEGUR FUNDUR


Haraldur Noregskonungur var ekki ánægður. Bæði Snorri og Sturla bróðir hans höfðu brugðist honum og Íslendingum óx ásmegin og brátt gæti ekki einu sinni her hans tekið yfir landið. En konungur hafði fundið lausn á því, og nú stóð þessi lausn beint fyrir framan hann, því miður fyrir Harald. Konungur tók til máls.
,,Uhumm, eins og þér kannski skilst þá hef ég augastað á landi kallað…’’
,,Ísland,’’ kláraði Ragtanni fyrir hann, en hann var lausnin, tveggja-og hálfs metra hár hálfjötunn með eina ógnvænlega vígtönn sem skagaði út úr neðri gómnum. ,,Þú eyðir heilu dögunum í það að hugsa um það og á nóttunni kemur þér ekki dúr á auga vegna þess þegar þú hugsar um það og þetta land rænir þig lystinni, jú, ég held að þú hafir augastað á því,’’ Þetta kom konungi í opna skjöldu.
,,Hmm, já kannski, en það er ekki málið. Það sem ég vill að þú gerir…’’
,,Er að ná þessum guðvolaða stað undir þinn verndarvæng,’’
,,Viltu vinsamlegast ekki grípa fram í fyrir mér!’’ hrópaði konungur, óvanur svona framkomu. Ragtanni leit framan í hann, myrkur á svip en það mótaði fyrir brosvipru.
,,Ertu að ógna mér?’’ spurði hann rólega og lét braka í fingrunum. Konungi brá.
,,Tja, eh… neinei, bara. Allt í lagi þú veist hver fyrir mælin eru! Ná völdum á Íslandi, með öllum ráðum,’’
,,Og hvað fæ ég í staðinn?’’
,,Þú verður gerður landstjóri á Íslandi auk gífurlegrar upphæðar af gulli,’’ Haraldur brosti vongóður. Ragtanni togaði í skeggið sitt hugsi.
,,Og engir aðrir skilmálar?’’ spurði hann loks.
,,Nei, engir,’’
,,Hmmm, allt í lagi en mig langar í nýtt sverð,’’ sagði hann og benti á brotið sverðið sitt sem lá á borðinu fyrir framan hann. Haraldur brosti.
,,Mér datt í hug að þú myndir biðja um þetta,’’ Svo smellti hann fingrum og dyrnar opnuðust og tveir þjónar komu inn með risastórt sverð vafið í gullklæði.
,,Þetta er Vígskjólnir,’’ hélt konungur áfram. ,,Eitt af sterkustu sverðum heims og það þarf aldrei að brýna það. Eiginleikar þess…’’
,,Er þetta ekki bróðursverð Vígsækis, sverð Sigurðar sterka?’’ spurði Ragtanni áhugalaus, en augu hans horfðu gráðugum augum á sverðið í kertaljósinu, hann hafði ágirnst það í mörg ár.
,,Einmitt!’’ svaraði konungur. Ragtanni rétti út stóran hramminn og tók upp sverðið. Gullin klæðin hrundu af og í ljós kom stórt sverð. Blaðið var mjótt en digrir og sveigðir gaddar stungust út úr því fyrri hlutann en svo breikkaði blaðið aftur. Sverðið var ekkert skreytt og einungis úr dökku járni og ryðgað sum staðar, en Ragtanni lét útlitið ekki blekkja sig. Hann vissi að sverðið var ómetanlegt.
,,Jæja, en þá langar mig líka í brynju, sérsmíðaða,’’ skipaði Ragtanni. Konungurinn brosti aftur.
,,Of einfalt, of einfalt. Ég læt taka mál af þér strax á eftir,’’
,,Hmm, mig langar líka í nokkuð í viðbót!’’
,,Hvað gæti það verið?’’
,,Hermenn, ég vill fá nokkra bestu hermenn þína!’’ Konungurinn varð ráðvilltur á svip, en þegar hann sá tryllingslegt augnaráð Ragtanna vissi hann svarið.
,,Ég læt þig fá Drekasveitina, en foringi þeirra heitir Olsen, eins og þér er kannski kunnugt nú þegar,’’ Konungur hélt að Ragtanni væri búinn að frekjast, en hann hafði rangt fyrir sér.
,,Og ég vill fá bestu langskipin! Öldukljúf, Sjóorminn… öll bestu!’’ Konungurinn þorði ekki að neita honum, hann vissi hvernig jötnar voru þegar þeir reiddust, jafnvel þótt Ragtanni væri bara hálfjötunn. Hann er þess virði, hugsaði Haraldur.
,,Hmm, ja já, ég gæti kippt því í liðinn,’’
,,Og eitt enn,’’ sagði Ragtanni. Bara eitt?, hugsaði Haraldur.
,,Hvað var það?’’
,,Ég vill líka fá svolítið sérkennilegri hermenn, þá sem konungur geymir í garði sínum,’’ Konungurinn brosti lymskulega.
,,Jú, ég gæti komið því í kring,’’

III. KAFLI
UNDARLEGT ATHÆFI VALDA


Eftir tvo daga á sjó var Baldur strax orðinn alvarlega sjóveikur. Hann gat lítið sem ekkert unnið uppi á þilfari og lá mest allan daginn á dýnunni sinni og pældi í því sem þeir ætluðu að gera við komuna á Íslandi. Kannski bara hefja þar nýtt líf, hugsaði Baldur, en nei, ekki meðan ég veit hvað Bjólfur gæti verið að gera í Eyjaveldinu. Og í þessum hugsunum sofnaði hann.
*
Morguninn eftir vaknaði Baldur við það að alda skall á skipinu svo að hann rakst í borðstokkinn með höfuðið.
,,Á, þetta… arg!’’ tautaði Baldur meðan hann klæddi sig. Honum fannst hann vera frískari en í gær. Hann gekk upp á þilfar og sá þá skringilega sjón. Valdi gekk fram og aftur um þilfarið, leit öðru hvoru fram fyrir borðstokkinn og þá andaði hann léttar.
,,Ekki hér, nei ekki hér, JÚ! Hann veit um mig! Nei! Hann gæti hafa farið eitthvert annað, já bara gæti, ekkert hugsanlegt! Svona nú, kastaðu því bara! Nei, þá er engin leið til þess til þess að sanna neitt fyrir honum! Hann gæti verið að fylgjast með mér, ekki öruggur, ekkert hérna, en hvað með þarna!? Í land! Fljótt!’’ muldraði Valdi taugatrekktur og nuddaði smaragðshringinn meðan hann gekk á milli borðstokkanna.
,,Valdi?’’ spurði Baldur áhyggjufullur. Valdi leit á hann stórum augum, hræddum augum.
,,Hvað?’’ spurði Valdi og hætti að ganga um.
,,Er eitthvað að, þú hagar þér svo undarlega,’’
,,Ég? Haga mér undarlega? Fuss! Það er allt í lagi,’’ hann bandaði hendinni að Baldri. Svo gekk hann til stýrimannsins, Luigi.
,,Er stefnan í lagi?’’ spurði Valdi glaðlega, lét sem allt væri í himnalagi.
,,Uhumm, já skipstjóri, allt í fína lagi, við stefnum í vest-vest-norður,’’ svaraði Luigi undrandi.
,,Gott, gott,’’ sagði Valdi og gekk aftur niður á þilfar. En þá gerði hann svolítið undarlegt. Þegar Valdi var kominn niður á þilfar byrjaði hann að ganga frekar hratt í hringi og tautaði stöku atkvæðisorð við sjálfan sig.
,,Fástu ekki um Valda, hann hefur látið svona frá því um miðan morgun,’’ sagði Jakob við Baldur þegar hann ætlaði að reyna ná aftur tali af Valda.
,,Veit Hrólfur nokkuð hvað amar að honum?’’ spurði Baldur.
,,Nei, enginn okkar, en Hrólfur er sjálfur farinn að haga sér svolítið einkennilega,’’ hváði Jakob honum. ,,Hann situr bara og brýnir öxina sína, yrðir ekki á neinn og svarar varla þegar hann er spurður,’’ Baldur varð enn áhyggjufyllri. Hann leit í átt að nokkrum tunnum í stafla og á einni þeirra sat Hrólfur, brýndi öxina og starði beint fram fyrir sig, ómögulegt að ráða í svip hans sem samt sem áður, ólíkt því sem maður á að venjast, var gáfulegur.
*
Þeir fengu góðan meðbyr á leið til Englands og eftir þrjá daga sást til lands í fjarska.
,,Er þetta örugglega England?’’ spurði Baldur Luigi. Venjulega hefði hann spurt Valda, þó svo hann hefði róast til muna við fréttirnar um land í augsýn.
,,Tja, ekki gott að segja,’’ svaraði Luigi. ,,Gæti verið Gallía, en annars höfum við haft rétta stefnu mest alla leiðina svo það eru miklar líkur á að við lendum á réttu landi. Hörundur yrði ekki glaður ef farmurinn myndi lenda í skipum keltneskra sjóræningja,’’
,,Og við ekki glaðir að lenda í sjóræningjum,’’ sagði Baldur.
*
Það var komin nótt þegar þeir komu að höfninni. Þetta var stór höfn með mikið af ógnarstórum seglskipum, bæði til hernaðar og viðskipta. Hvítur fáni með rauðum kross blakti við hún í næturgolunni.
,,Jú,’’ hvíslaði Luigi. ,,Við erum á Englandi, þetta er Plymouth,’’ Hann stýrði skipinu í átt til hafnar, en þá kom í ljós lítill árabátur með áföstu ljóskeri. Tveir menn reru en sá þriðji stóð í skutnum og sagði eitthvað á framandi tungumáli.
,,Jú ar náv under einglishh lovs and rækts. It is ðí lovs of ðiss port ðatt sei ðatt jú möst veit hér öntil ðí sönn ræses bífor seiling tú ðis dokk!’’ hrópaði maðurinn. Baldur leit á Luigi.
,,Skilurðu hvað hann segir?’’ spurði hann.
,,Neibb, þetta er fyrsta ferð mín til Englands, en hann gæti talað frönsku,’’ Luigi leit niður á manninn. ,,Fyrirgefðu en við skiljum ekki tungumál þitt. Viltu vinsamlegast tala frönsku, spænsku eða eyjamál,’’ hrópaði Luigi niður til hans. Svo endurtók hann þetta á spænsku og á eyjamálinu. Á meðan hoppaði Valdi upp af kæti og söng trallaði en sussaði svo á sjálfan sig og sagði að hann gæti vaknað. Maðurinn í árabátnum leit framan í Luigi og byrjaði að tala frönsku.
,,Þið eruð nú undir lögum og réttum enskukrúnunnar. Lög þessarar hafnar segja að þið verðið að bíða þangað til sólin rís áður en þið megið sigla til þessarar hafnar,’’ Baldur kallaði Valda til sín þó svo hann vissi að hann gerði lítið gagn, en Valdi var orðinn sami gamli Valdi eftir að þeir komust til Englands. Þeir ráðfærðu sig við Luigi.
,,Hm, við munum hlýða því og gista hér í skipinu,’’ hrópaði Luigi niður til mannsins. Maðurinn brosti og hélt aftur til lands.
,,Við ættum að hafa okkur til smá svefns,’’ sagði Baldur. ,,Við þurfum að vakna strax í sólarupprás,’’
*
Sigurbjörn og Valdi vöktu alla við sólarupprás. Valdi hafði sofið lítið sem ekkert, merki þess að enn bjátaði eitthvað á hjá honum. Luigi stýrði skipinu í rétt lægi og borgaði hafnarverðinum smá skildinga fyrir að mega binda skipið. Því næst fór hann að tala við einhverja menn sem biðu á höfninni eftir skartgripa farminum. Baldur og hinir tóku saman farangur sinn og kvöddu ferðafélaga sína.
,,Gangi þér vel á heimferðinni!’’ sagði Baldur.
,,Já, og þakka ykkur fyrir skemmtilegt ferðalag. Gangi ykkur vel á Íslandi,’’ svaraði Luigi hlæjandi. Þannig kvöddust þeir. Arnór hafði verið að svipast um og fann gistihús. Karl hafði hinsvegar fundið fyrir þá far til Skotlands. Þeir gistu um nóttina á Hotel Blue Port.
*

IV. KAFLI
LEYNDARMÁLIÐ AFHJÚPAÐ


Strax og búið var að aferma bátinn og þeir fengið ýmsan varning í staðinn lét Luigi úr höfn og hélt aftur til Spánar. Eftir þriggja tíma siglingu kom einn sjómannanna klifrandi niður úr reiðanum.
,,Kapteinn,’’ sagði hann. ,,Það er eitthvað úti við sjóndeildarhring,’’ Luigi leit þangað sem hann benti og sá í fjarska eitthvað sem líktist ógnarstórri kryppu sem hlykkjaðist upp og niður.
,,Ég hef aldrei nokkurn tímann séð nokkuð þessu líkt!’’ fullyrti Luigi.
,,Eigum við að elta það?’’ spurði sjómaðurinn.
,,Nei, þetta gæti bara verið einhverskonar hvalur eða eitthvað þvíumlíkt,’’ svaraði Luigi og hélt áfram. Eftir tíu mínútur eða svo kom skyndilega hnykkur á bátinn og hann stöðvaðist. Nokkrir bátsverjar ultu um koll. Sjómaðurinn sem hafði verið upp í reiðanum datt niður og lenti við hlið Luigis.
,,Hvað var þetta? Rákumst við á sker?’’ spurði hann skelfdur.
,,Nei,’’ svaraði Luigi einbeittur. ,,Það eru engin sker hérna úti á rúmsjó,’’
,,Nú, hvað var þetta þá?’’ En þeir þurftu ekki að velta sér í miklum vafa lengur því upp úr hafinu skaust gífurlegur drekahaus sem felldi niður mastrið. Viðbrögð sjómannanna voru tvennskonar: hlaupa um í angist eða standa grafkyrrir og undrandi. Flestir gerðu fyrri kostinn.
,,Aaarrrggg! SJÓSKRÍMSLI!’’ Luigi hljóp niður í káetu og kom upp með nokkur spjót og skutla, en þá var sæormurinn búinn að vefja sig utan um skipið og marði það í spón.

Eftir að hafa fengið góðan nætursvefn og dágóða máltíð á Hotel Blue Port fór Baldur niður að höfn með Arnóri og Fáfni að athuga hverskonar farskjóta þeir hefðu fengið. Þetta var ósköp venjulegt kaupskip, og Baldur sætti sig við það. Hann fór aftur að hótelinu og sótti hina. Eyjólfur og Valdi gáfust aðeins á tal við skipstjórann. Þeir gengu um borð en þá stirðnaði Valdi upp og leit ofan í sjóinn, augnaráðið fjarrænt og hann byrjaði enn og aftur að nudda hringinn.
,,Hvað er að? Segðu það bara!’’ hvíslaði Arnór að Valda. Valdi lét sem hann heyrði ekki og stóð kyrr.
,,Kannski ég verði bara kyrr hér,’’ sagði Valdi loks vandræðalega og bakkaði um nokkur skref. En þá kom Hrólfur aftan að honum og tók hann undir handlegginn.
,,Onei vinurinn, þú kemur með okkur,’’ sagði hann og bar Valda undir handleggnum um borð í skipið. Valdi reyndi enga mótspyrnu. Skipstjóri kaupskipsins, James Giliam, renndi augum til Valda.
,,Er hann eitthvað vatnshræddur?’’ spurði hann efins.
,,Nei, hann er alvanur sjómaður en síðan við lögðum upp frá Spáni hefur hann látið svona,’’ svaraði Baldur. Skipstjórinn yppti öxlum og fór að skrásetja farminn. Klukkutíma síðar lögðu þeir af stað til Skotlands. Það var dagsferð og þeir fengu mest alla ferðina gott veður fyrir utan síaðasta spölinn. Þeir lögðu í höfn í Ayr, og James benti þeim strax á félaga sinn sem gæti komið þeim til Orkneyja, fyrir rétt verð. Baldur þakkaði fyrir sig og ætlaði að borga James en hann hló bara og sagði að þeim hefði verið velkomið að fljóta með. Baldur þakkaði aftur fyrir sig og þeir fóru á tal við þennan félaga James. Þessi félagi hét víst Charles og Baldur sá strax á honum að hann væri einhverskonar flagari.
,,Uhumm, sæll Charles, er það ekki?’’ spurði Baldur kurteisislega. Charles kinkaði kolli.
,,Sá er maðurinn,’’
,,Já, okkur vantar far til Orkneyja,’’ Baldur brosti vongóður. Fyrir aftan hann stóðu Arnór, Valdi og Hrólfur. Hinir voru að hjálpa við að aferma bát James. Charles glotti græðgislega. Baldur sá í augum hans að hann hélt að þeir væru einhverjir heimskir túristar sem auðvelt væri að græða á.
,,Fimm silfurskildingar, fyrir hvern haus fyrri hluta ferðar og svo þurfið þið að vinna fyrir seinni hlutanum,’’ hann brosti og lét skína í óhreinar tennurnar.
,,ÞRJÁTÍU SILFURSKILDINGAR!!! FYRIR DAGSFERÐ!’’ hrópaði Arnór móðgaður.
,,Rólegur, ekki gleyma að við þurfum bara að borga hálft fyrir Hrólf, hausinn hans er tómur!’’ flissaði Valdi og fékk um leið rokna högg á öxlina.
,,Og þið þurfið að vinna inn fyrir farinu. Svo verða það auka tíu fyrir hestinn,’’
,,Þetta er rán um hábjartan dag!’’ sagði Hrólfur og skók öxina í átt að Charles.
,,Hmm, kannski bara fimm fyrir hestinn því að þið eruð vinir James, og reynið ekki að fara neitt annað því það verða engar ferðir til Orkneyja í viku,’’
,,Arg, ég skal sko,’’ byrjaði Hrólfur og ætlaði að kasta sér á Charles sem bar fyrir sig hendurnar. En Hrólfur náði ekki snerta hann því Valdi greip í hann og hélt.
,,Rólegur, Hrólfur, hann fær að gjalda þessa, við tökum þessu,’’ sagði Valdi yfirvegaður og blikkaði Baldur. Baldur kinkaði kolli og rétti Charles þrjátíu og fimm silfurskildinga.
,,Þetta er aleigan,’’ sagði hann stuttur í spuna og gekk aftur út. Hinir fylgdu á eftir.

Þremur tímum síðar var lagt af stað frá Ayr. Charles virtist vera mjög ánægður með þessi nýjustu viðskipti sín. Baldur hafði haldið að Valdi myndi verða tregur við að fara um borð en núna hallaði hann sér fram á borðstokkinn og horfði einbeittur framfyrir sig.
,,Hvað meintirðu með að hann myndi sjá eftir því að hafa tekið okkur með?’’ spurði Baldur. Valdi andvarpaði og leit framan í hann, andlitið lýsti ótta.
,,Veistu það Baldur minn, ég vona svo sannarlega að þú komist ekki að því, já svo sannarlega,’’ Baldur fékk ekki meira upp úr Valda. Eftir nokkrar mínútur kom Charles og fór að skipa þeim til verka. Arnór og Hrólfur ætluðu að hlýða en Valdi steig fram.
,,Við þurfum einungis að vinna helminginn af ferðinni, um það var samið,’’ sagði hann rólega. Baldur horfði á andlit Charles tútna upp og roðna og svo gerði hann svolítið sem engum hafði órað fyrir. Charles dró upp hníf og þreif í Fáfni og hélt honum þétt upp að sér með hnífinn við háls hans.
,,O… ég held að þið viljið vinna svolítið,’’ sagði hann með tryllingslegan glampa í augunum.
,,Pabbi…’’ hvíslaði Fáfnir en hann barðist ekki um, hann vissi hvað beið hans þá.
,,Charles, ég er viss um að við,’’ byrjaði Baldur en þá heyrðist smellur og Charles missti hnífinn og Fáfni og greip um höndina sína.
,,Hvað í…’’ en Charles komst ekki lengra því Valdi var búinn að binda hendurnar hans með svipunni og með einni úlnliðshreyfingu bjó hann til lykkju sem hann brá um háls Charles og þrengdi að. Charles var við það að kafna og áhöfn hans hlupu skipstjóra sínum til hjálpar. Valdi dró Charles nær sér sér og hvíslaði að honum:
,,Segðu þeim að hörfa,’’ Charles gat varla andað undan svipunni svo Valdi létti aðeins á takinu svo hann gæti andað.
,,Öhuöhu, menn, látið þá í friði…’’ Valdi herti aftur á svipunni.
,,Ég ræð hér nú!’’ skipaði Valdi valdmannslega. Sjómennirnir litu á Charles sem kinkaði ákaft kolli, fjólublár af súrefnisleysi. ,,Fínt,’’ Valdi sleppti takinu á Charles sem bakkaði eins hratt og hann gat burt frá Valda en datt aftur fyrir sig.
,,Þú átt eftir að gjalda þessa,’’ stamaði hann og strunsaði burt og hélt um hálsinn. Baldur leit á Valda þar sem stóð og vafði upp svipunni.
,,Valdi, þetta var stórkostlegt! Var þetta það sem þú meintir með að hann myndi sjá eftir að taka okkur með?’’ spurði hann ákafur. Valdi leit þreytulega á Baldur.
,,Því miður ekki, því miður ekki,’’ Baldur ætlaði að fara að spyrja hann hvað hann meinti en þá stöðvaðist skipið með miklum hnykk svo allir duttu nema Valdi sem stóð grafkyrr. ,,Því miður er þetta það sem ég meinti með því,’’ Baldur sá hvar lítið tár myndaðist í hægriaugnkrók Valda. Nokkrir sjómenn stukku á fætur og litu framfyrir borðstokkinn. Charles stóð á fætur.
,,Hvað var þetta?’’ spurði hann reiður. ,,Sker? Grynningar? FISKITORFA?’’
,,Ekkert herra,’’ sagði einn sjómannanna og leit við.
,,Nú hvað var þetta þá?’’ Charles fékk svarið við spurningunni andartaki síðar þegar risastór drekahaus skaust upp úr hafinu hægra megin við bátinn og vafði sig utan um bátinn og beit mastrið af svo það féll í gruggugan sjóinn fyrir neðan. Nokkrir sjómenn duttu í sjóinn og ormurinn gleypti einn.
,,MIÐGARÐSORMUR!!!’’ öskraði Hrólfur og greip öxina sína og hjó nokkrum sinnum í orminn þar sem hann hringaði sig um skipið. Sigurbjörn kastaði spjótinu sínu áður en hann féll í yfirlið. Spjótið komst gengum hreisturbrynjuna og úr sárinu fossaði svart blóð. Ormurinn öskraði og mölvaði trjónuna á bátnum. Sjómennirnir auk félaga Baldurs réðust á orminn af öllu afli. Ormurinn varð bara reiðari við þetta og beit efri helming líkama Charles af þar sem hann faldi sig undir nokkrum kössum. Valdi stóð bara kyrr og horfði á hamaganginn og Baldri fannst einkennilegt hvernig hann hélt um baugfingur hægri handar eins og hann vildi ekki að neinn sæi smaragðshringinn. Honum fannst líka einkennilegt hvernig ormurinn horfði yfir skipið, eins og hann væri að leita að einhverju eða einhverjum. Baldur vissi ekki hvað gera skyldi en eitthvað leiddi hann áfram til ormsins þar sem Baldur horfðist í augu við hann í annað sinn.
,,Hvað viltu?’’ hrópaði Baldur eins hátt og hann gat. Hinir hættu árásunum á orminn. Ormurinn horfði fast á Baldur, öskraði svo. Eftir smá stund tók ormurinn til máls, öllum til undrunar:
,,ÞJÓFUR, TAKA HRING, VALDI!’’ hvæsti ormurinn og nokkrar eiturslettur lentu við hlið Baldurs og brenndu sig gegnum viðinn. Baldur leit á ásökunaraugum á Valda sem leit niður og tók hringinn af hendi sinni og hélt honum upp. Ormurinn gerði einhverskonar svip sem örugglega átti að vera bros, en leit út eins og dauðateygjur dýrs. Valdi hafði sig til og með miklu átaki fleygði hann hringnum út í sjó. Ormurinn sleppti taki sínu á skipinu og hvarf í djúpin á eftir hringnum. Eftir mínútu voru þeir fullvissir um að ormurinn kæmi ekki aftur. Mennirnir hlupu um skipið og skoðuðu skemmdirnar sem ormurinn hafði valdið. Baldur skoðaði leifarnar af Charles með hryllingi. Svo leit hann á Valda sem var þungbúinn en Baldur sá að einhverju fargi hafði verið af honum létt. Baldur benti honum á að koma með sér niður í káetu. Valdi hlýddi og brátt var allt föruneytið komið niður í káetu.
,,Jæja, Valdi, ég held að það sé kominn tími fyrir þig að leysa frá skjóðunni,’’ sagði Baldur og horfði stíft á Valda sem sat í stól og horfði í barm sér. Allir horfðu á Valda ásökunaraugum, jafnvel Sigurbjörn, Villi og Fáfnir. Valdi leit loks upp en horfði ekki framan í neinn.
,,Þá það,’’

,,Fyrir um tuttugu árum,’’ hóf Valdi frásögnina. ,,Já, fyrir heilum tveimur áratugum, fóru ég, Hrólfur, Sigurður sterki, já hann var vinur okkar, en enginn ofur, líka var þarna Hörundur, Haraldur Noregskonungur og Nói Orkneyjajarl og nokkrir hermenn konungs. Við vorum í Noregi á bjarnarveiðum, en Haraldur hefur mikið dálæti á þeim. Eftir tvær vikur eða svo komum við að Íshafinu mikla. Við sáum þar eyju við sjóndeildarhringinn og Haraldur sagði okkur að þar geymdi miðgarðsormur alla þá fjársjóði sem kæmu úr skipunum sem hann sökkti. Við ákváðum þá að fara og sækja nokkuð af smá glingri í eyjuna. Haraldur sagði að við þyrftum skip til þess svo við snerum aftur við til Osló. Eftir að þangað var komið lét Haraldur manna skip og við héldum út í eyna. Á eyjunni fundum við helli fullan af allskonar gersemum. Allir fylltu vasa sína af gimsteinum og gulli, tóku jafnvel með sér kistur, en ég lét mér nægja smaragðshringurinn og hálsfesti…’’ Eyjólfur greip frammí fyrir Valda.
,,Svo þú vissir það allan tíman!’’ hrópaði hann að Hrólfi.
,,Nei, en ég gat mér til um,’’ svaraði Hrólfur ásökuninni.
,,Jæja, má ég halda áfram frásögninni?’’ spurði Valdi byrstur. ,,Eins og ég var að segja, að þá tók ég hring og hálsfesti og svo fórum við um borð, tvöfalt þyngri en þegar við komum. Þegar við vorum hálfnaðir yfir Íshafið birtist miðgarðsormur, reiður yfir þjófnaðinum og ætlaði að drepa okkur en við báðum um miskunn og sögðumst skila. Allir heltu þýfinu sínu í sjóinn fyrir utan mig, ég henti bara fjárans hálsfestinni. Þá gátum við loks haldið áfram. En brátt komst ég að því að hann vissi um þennan einasta hring, enda vita svona drekar allt um fjársjóði sína. Næstu tuttugu ár sökk óvenju mikið af skipum í kringum mig og þegar árásin á Eyjaveldið var gerð missti Sigurður sterki tíu skip vegna mín, en auðvitað vissi hann það ekki annars sæti ég hér ekki núna með ykkur,’’