Í dag vaknaði ég ekki, í dag var ég vakandi þegar dagurinn byrjaði. Þegar vekjaraklukkan fór af stað, lá ég kyrr með opin augun og hlustaði á hana kalla á mig. „ Á fætur! Á fætur! Á fætur! “ heimtar hún. Ég leyfi henni að halda áfram í nokkrar mínútur, en teygi mig svo til hennar, ýti hægt en ákveðið litla takkanum á hliðinni frá „on“ til „off“. Einhverra hluta vegna er vírahnútur byrjaður að myndast í maganum á mér.
Í zombie-líku ástandi geng ég inn í eldhús og skrúfa frá krananum. Vatnið frussast hálfdónalega niður í tóman vaskinn, og kraninn myndar hátíðni-hljóð sem sker mig í eyrun. „Helvítis krani“ hugsa ég um leið og ég læt hraðsuðuketilinn undir bununa. Einstaka hugsun staulast um í kollinum, og án þess að geta komið í veg fyrir það, sé ég í einni hendingu fyrir mér framhald dagsins. Ég set ketilinn af stað. Tek mér brauðsneið úr brauðboxinu, smyr með kotasælu og strái smá sítrónupipar ofan á. Ég hlakka ekki til þess sem koma skal, vírahnúturinn virðist vera að magnast, veltast um og verða þyngri.
Í hillunni eru margir bollar, mislitir, misstórir og án alls vafa vel ég þann stærsta en jafnframt þann ljótasta. Bollinn var skapaður af lítilli manneskju í góðri trú. Litlar hendurnar mótuðu hann úr brúnum leirnum af alúð, máluðu hann í skærasta litnum með engri sérstakri hugsun. Það var einungis litagleðin sem réði ferðalagi pensilstrokanna. Mér þykir vænt um ójafnt yfirborð bollans og hálfmisheppnaða litasamsetninguna. Ég heyri vatnið ólmast um í katlinum, og fljótlega er það orðið að ilmandi tei í bollanum mínum.
Mjúkir tónar byrja strax að flæða úr hátölurum tölvunnar þegar ég sest við borðið. Ég strýk létt yfir stærstu ójöfnuna á bollanum, er orðin vön henni. Fingurnir leita ósjálfrátt að þessu innfallna yfirborði, eins og þeir séu að reyna komast heim. Meðan ég borða skima ég hratt yfir helstu fréttirnar á netinu. Lífið heldur áfram sinn vanagang og í raun breytist aldrei neitt. Sömu fréttirnar þar í dag og í gær. Hress gullaldarlögin spila á létta strengi og ég brosi þegar laglínan „I‘ve got sunshine on a cloudy day when it‘s cold outside“ skoppar úr frá hátölurunum til mín. Kannski verður dagurinn ekki svo slæmur. Hnúturinn er á sínum stað, en mér líður eins og einhver hafi bent mér á hvernig hægt væri að rekja hann upp.
Ég stend við gluggann og velti vöngum yfir því hvort sólin nái að brjótast í gegnum skýin í dag.