Maðurinn sem var fæddur á ári apans !!!
Hvað var að? Hann vissi að hann gæti leyst vandann, hann var fæddur á ári apans. Allir vita það að þeir sem eru fæddir á ári apans eru sigurvegarar í lífinu og á öllum sviðum. Hann var óánægður með framvindu mála, fastur í tímaþröng og þar á ofan var verkefnið ekki það auðveldasta. Gabríél Eldar sat sem fastastur fyrir framan tölvuskjáinn, svitnaði, starði, klóraði, en engin hugmynd, hvað átti hann að fjalla um? Skilafresturinn var morgundagurinn. Kennarinn var búinn að síendurtaka þessa þulu: reynið nú að byrja tímalega á smásögunnum svo að þið lendið ekki í tímaþröng. Hvað gerði kappinn? Auðvitað það sem öllum einstaklingum ber að gera sem eru fæddir á ári apans, að sigra heiminn. Hann stundaði félagslífið af mikilli grimmd, var dýrkaður og dáður af öllum sem hann hitti. Allar stelpur vildu vera með honum og allir strákarnir vildu vera eins og hann. Tími sigurvegarans var misnotaður, hvað var hann að hugsa, kennaraeinkunnin í íslensku var í veði. Hann þurfti að skila smásögu, nei ekki smásögu, meistarastykki á morgun. Þessi smásaga átti að vera magnaðasta rit samtímans eða með öðrum orðum átti hún að bjarga honum frá falli í nútíma smásagnagerð . Frumlegheit og annar hugarburður þaut um huga hans, um hraðbrautir heilans. Hann byrjaði að slá inn, en ekkert virtist vera nógu gott. Hann fór að skrifa um atburði sem hann hafði upplifað í sínu innihaldsríku lífi. Allt var í fínu flæði þar til G. Eldar fór að láta hugann reika til ísskápsins, eftir tveggja tíma setu við hjálpartæki nútímans voru garnirnar farnar að gaula. Snillingur á réttri leið stóð upp frá sinni iðju og leit inn í geymslu góðgæta, en ekkert freistaði hans, það var ekkert til. Angist braust fram, hvað var móðir hans að hugsa, var það ekki í hennar verkahring að sjá til að ísskápurinn væri fullur af lostæti, alla vega einhverju ætilegu? Ekki einungis bjúgum og örðum viðbjóði. Gabbi eins og vinir hans kölluðu hann, keyrði niður tölvuna í miklum flýti. Markmið hans hafði breyst úr að klára skáldverkið í að sinna þörfum magans. Köllun magans var hlýtt með viðeigandi sjoppufæði. Búinn að þagga niður í svengdinni, þá tók önnur truflun við. Stelpan sem hann var búinn að ganga á eftir alllengi, með grasið í skónum, hrynti hurðinni á sjoppunni upp. Laufey Lilja stóð þarna í öllu sínu veldi. Að sjálfsögðu skaðaði það ekki að eyða dýrmætum tíma við að hlusta á skoðanir hennar á lífinu. Sá sem vanrækti kvenþjóðina var ekki sannur karlmaður, hvað þá sannur karlmaður fæddur á ári apans. Tímaþröngin jókst, klukkan orðin allt of margt, allt of margt til að klára fyrir kvöldið. Gabríel sá fram á að vinna örliltla næturvinnu. Næturvinna hvað var það, hann kannaðist við að vaka margar nætur fyrir vorprófin. Sestur fyrir framan hjálpartæki nútíma mannsins, byrjaður að skrifa um ferðalag hunds frá Akureyri til Ísafjarðar. Eftir ágætisbyrjun fór kumpáninn að lýjast, missti þráðinn, honum fannst eins og hugur hunds væri of flókið viðfangsefni og ekki sæmandi meistaraverki. Þungt hugsi leit hann út um gluggan og sá bara myrkrið. Of langur tími liðinn, útkoman engin. Hver var galdurinn við að skrifa eina góða smásögu? Þetta átti að vera smásaga ekki skáldsaga. Engar hömlur voru settar, hann hafði algerlega frjálsar hendur. Hver var vandinn? Dimmur glymur frá tölvunni, hann hélt áfram að berja í apparatið, ekki sáttur við tilveruna. Barinn biskupinn sat niðurbrotinn við tölvuna gráti nær. Einhver ósýnileg stífla hindraði flæði hugmynda. Svitapollurinn á gólfinu var nóg til að lýsa ástandinu. Uppgjöf var eina lausnin. Keyrði niður vinnsluvélina og ákvað að fara að sofa. Snillingurinn var búinn að vera láréttur í töluverðan tíma og þá rann fyrir honum ljós. Undraverð hugmynd!! Hvernig væri það að skrifa smásögu um mann sem ættti í erfiðleikum að skrifa smásögu? Þetta gat ekki verið einfaldara. Í miklu hasti henti hann sér fram úr rúminu og staðsetti sig fyrir framan tölvuna á nýjan leik. Ekkert var til fyrirstöðu, ekki neitt var í vegi hans til viðurkenningar. Nóbelsverðlaunin kölluðu í fjarska. Uppskriftin var sáraeinföld en samt þessi þrugna snilld sem margur átti eftir að hylla Gabríél fyrir. Hvað var auðveldara en að skrifa um daginn sem leið! Hann hamaðist á lyklaborðinu og einbeitningin var algjör. Það var augljóst að þessi skrítni dagur var honum mikill innblástur. Var það ekki satt sem var sagt í kínveskri stjörnuspá, að þeir sem væru fæddir á ári apans voru sigurvegarar í öllu sem þeir tækju sér fyrir hendur? Klukkutímar liðu sem sekúndur og skyndilega var kominn nýr skóladagur. G. Eldar var búinn að ljúka ritsmíð sinni. Hann var tilbúinn að takast á við amstur dagsins. Vistunin tókst, þessu skjali var ætlað að vera bjargvættur í skammdeginu. Allt lofaði góðu þegar morgunmatnum var skóflað í sig. Gabbi sat og hugsaði með sér hvaða föt hæfðu rithöfundi. Það var lykilatriði fyrir honum að líta virðulega út þegar hann ýtti unganum út úr hreiðrinu. Stílhreinar gráar vaðmálsbrækur, það er að segja buxur úr hreinni ull, og svört skyrta urðu fyrir valinu. Flottur einstaklingur á uppleið með bros á vör steig inn í menntastofnunina Verzlunarskóla Íslands. Ráðagerð hans var að prenta ritsnilld sína í hádegishléinu og ná þá að standast kröfu kennarans um sett tímamörk. Tímarnir flugu, bjallan hringdi út í hádegishlé. Það var komið að því að gera Gabríél Eldar að mann líðandi stundar. Með mikilli tilhlökkun hastaði snillingurinn sér inn í næstu tölvustofu. Með hlutina á hreinu kveikti hann á tölvunni. Notendanafnið 6cgaefr var stimplað inn ásamt lykilorði heimasvæðis. Ritvinnsluforritið Microsoft Word var keyrt upp. Hann tók upp disklinginn sem innihélt skjal skjalanna. Vellíðan vafði sig um G. Eldar þegar hann sá smásöguna fyrir framan sig á skjánum. Titillinn sagði allt sem segja þurfti um innihaldið, meistaraverk komandi kynslóða! Námsmaðurinn glotti út í annað þegar hann ýtti á skipanahnappinn fyrir prentun. En hvað var að? Á skjánum stóð stórum stöfum í gráum og köldum glugga: prentkvóti er uppurinn hafði samband við kerfisstjóra!!!