Hér er hrá og hálfstirð útgáfa af einhverskonar sögu sem ber ekki að taka of alvarlega nema þið endilega viljið.


—–



Hér með tilkynnist öllum sem málið varðar að flippfélagið Gróa hefur verið lagt niður af óviðráðanlegum orsökum og verður því miður ekkert af skipulögðum hitting í næsta mánuði. Öllum sem eiga möns inni hjá stjórninni skal vísa á dyr.

Með ljúfsárri illsku; Stjórn Gróu.




„Trúirðu þessu kjaftæði?“ hreytti ég útúr mér forviða, hálfsmjattandi á brauði og sneri mér að vinkonu minni.
„Jááá ég meina, þetta var góð hugmynd en þeir hafa engan metnað. Ég held að þeir séu dópistar, sko“, svaraði hún og dodsaði fljúgandi brauðmylsnur.
„Já, alveg örugglega. Þeir lykta eitthvað skringilega. Svo eru þeir alltaf að tala um eitthvað sem meikar ekki sens“, sagði ég. Við gengum rólega af stað í gegnum þvögu menntaskólafólks með drauma að tjilla í frímínútum.
„Já, vá sko. Ég heyrði þá einu sinni tala um dýr, eða sko, hvernig það væri að vera dýr, eða þúveist, hvernig það væri ef maður væri dýr, svona hugsanalega séð, sko“, svaraði hún af sinni alkunnu málheppni og hálfhrasaði um ruslatunnu.
Ég hló við. „Fávitar maður. Kemurðu út í sígó?“ spurði ég vongóður, ég hafði ekki fengið nikótín í þrjá tíma.
„Já sjör.“

Við gengum útá sígósvæðið. Þar sáum við strák sem við könnuðumst við, löbbuðum til hans og kveiktum okkur í sígarettu.

„Sæll maður, hvað segirðu?“ spurði ég af kurteisi, rétt svona til að koma þessu týpíska smolltoki á.
„Bara fínt en vá, fréttuði þetta með Gróu?“ spurði hann æstur.
„Já vá sko, það er rugl. Helvítís dópistar“, svaraði vinkona mín.
„Ég heyrði að þeir hafi ákveðið að leggja þetta niður því formaðurinn þarf að fara í fangelsi í nokkra daga í næsta mánuði. Gamall ölvunarakstursdómur. Þeir geta víst ekki skipulagt iventinn án hans, frændi hans á staðinn sko“, upplýsti hann okkur um.
„Ohh, alveg týpískt af honum. Ég skil ekki hvað hann er að gera í skóla, hann gæti alveg eins tekið sér teppi og vodkapela og krassað í undirgöngum, hann á bara eftir að verða róni“, lagði ég til málanna. Formaðurinn var bara svona týpa, ágætisgaur en það nægir ekki alltaf.

Eftir retturnar gengum við inn, hvert í sína átt, hvert í sinn tíma. Ég var í landafræði, ágætisáfangi og ég þekki einn gaur þar sem er fínt að spjalla við.

„Hæ maður“, sagði ég þegar ég settist niður, alltof seinn.
„Vá djöfull ertu alltaf seinn maður“, svaraði hann með glettni.
„Já, æj, svona er þetta maður. Var bara útí sígó núna. Hey, fréttirðu þetta með Gróu?“
„Já, alveg svekkjandi sko. Það hefði verið alltof fyndið að fá allt þetta fólk í bjórbingó.“
„Úff, satt maður. En það er ekki hægt að treysta þessum formanni.“
„Nei, satt. Varstu búinn að heyra þetta með fangelsið?“
„Já, algert rugl.“
„Ég var að fá smáviðbót við þá sögu.“
„Nú?“
„Já, formaðurinn var víst að fá tott frá þessari þarna, lettnesku sem hann var að dúlla sér með, þegar hann var stoppaður. Alveg heví mikið vesen því hann var átján en ekki hún.“
„Vaaaat, virkar kerfið þannig?“
„Já, greinilega. Djöfulsins rugl maður.“
„Satt.“

Eftir tímann labbaði ég út og rakst fljótlega á vinkonu mína aftur.

„Hæ, á ég að seeeegja þér?!“ tísti hún af æsingi.
„Hvað?“
„Sko, með formanninn og það, hann var víst ekki einn í bílnum…“
„Já, Bragi var að segja mér frá því að hann hafi verið að fá tott.“
„Það var víst meira en bara það sko, hann var að neyða hana til þess! Hún var alveg hágrátandi þegar löggan kíkti inn. Þetta var bara nauðgun, sko.“
„Ha, í alvöru?!“
„Já! Helvítis andskotans dópistanauðgaraviðbjóður“, sagði hún með fyrirlitningu. Vinkona okkar hafði verið að ganga til okkar og blandaði sér nú í umræðurnar.
„Hæ, eruði að tala um formanninn?“ spurði hún.
„Já, helvítis nauðgaraógeð“, svaraði vinkona mín. Ég sá ekki framá að fá að komast að með þær tvær að slúðra svo ég dróg mig í hlutverk hlustanda.
„Ég var að frétta frá Bjarneyju“, sagði vinkona okkar, „að þetta hafi ekki bara verið einhver venjuleg nauðgun sko, hann var að selja hana út! Bara svona mansal sko.“
„Neeeei!“
„Jú, alveg rugl sko. Hann hafði víst verið að selja eitthvað dóp en týnt einhverju af því..“
„Vá, heimskulegt.“
„Já, ekkert smá. En já, svo sko síðan var hann þá bara alveg kominn í skuld við einhverja gaura og drógst inní einhvern mansalhring og fílaði sig svo bara í botn þar. Ógeðslegt.“
„Sjitt hvað sumir eru miklir fávitar eitthvað.“
„Ég veeeit!“ sagði vinkona okkar. Ég leit á klukkuna og sá að ég þurfti að fara að drífa mig.
„Hey, stelpur, ég verð að fara til að ná strætó. Sé ykkur á morgun eða eitthvað“, sagði ég og lagði af stað.
„Ókei bææææ“, heyrði ég þær segja á eftir mér, samróma en sokknar í slúðrið um formanninn.

Tveimur stoppistöðvum eftir að ég fór inní strætó sá ég ritara Gróu stíga inn. Ég kannast aðeins við hann svo hann settist hjá mér og við fórum að spjalla.

Eftir smátjittjatt sagði hann: „Jæja…annars er ég að verða brjálaður.“
„Nú?“ spurði ég.
„Já, þú veist að við þurftum að leggja félagið niður.“
„Já, ég sá það. Leitt með það maður.“
„Já, takk, en það er víst kominn alveg heljarslúðurmaskína af stað í skólanum varðandi það.“
„Jáá…ég heyrði eitthvað með ölvunarakstur bara.“
„Já, það er svona til að byrja með rugl því hann kann ekki að keyra, manstu?“
„Æjjá. Æj, þetta slúður maður.“
„Já, og svo er fólk farið að blanda Keiru eitthvað í þetta líka.“
„Já, ég heyrði eitthvað minnst á lettnesku gelluna sem hann var að dúlla sér með, man alveg eftir henni í sjón, heitir hún Keira?“
„Tjah, já, þetta er rétt hjá þér, í vissum skilningi. Nema hvað að hún er ekki frá Lettlandi, heldur London. Ógeðslega bresk líka.“
„Æjjjáá, man það núna þegar þú segir það…þessi hreimur…hann var eitthvað ekki lettneskur svona þegar ég pæli í því.“
„Já, einmitt. Og afþví að einhverjum misminnti varðandi það hefur spunnist upp heil saga um nauðganir, mansal og dóphringi. Hann reykir reyndar stundum gras en hann getur ekki einu sinni reddað því sjálfur. Lætur alltaf aðra gera það fyrir sig.“
„Já, ég hef alveg reddað honum tvisvar eða þrisvar sjálfur.“
„Einmitt.“
„Afhverju lögðuð þið annars félagið niður?“
„Formaðurinn er að fara til Flórída að heimsækja ömmu sína á sama tíma og iventið átti að vera, og við gátum eiginlega ekki fært það svo við þurftum bara að leggja þetta niður.“
„Nú, jæja. Vesen, hefði verið fyndið að fá svona marga í bjórbingó.“
„Satt“, svarar hann og hlær létt. „Þú leiðréttir annars þennan misskilning ef þú heyrir einhvern tala um hann?“
„Já, ég geri það. En hey, ég fer út hérna maður, ég sé þig.“
„Já, pís.“

Ég dreif mig út og horfði niður á meðan ég labbaði frá stoppistöðinni og heim. Ég þyrfti virkilega að fara að sensora hverju ég trúi.