Gulir armar eldsins
Í gegnum rykfallið loftið stíga gulir armar eldsins. Viður snarkar og lykt af brennandi heyi ber ofurliði gegn ferskri graslyktini í dalnum. Einmanna tilfinning yfirtekur mig líkt og það séum bara ég, hugsanir mínar og eldurinn eftir í heiminum. Ég skelf. Finn fyrir nístings kulda bæði utan sem innan. Kulda sem ég hafði einu sinni fundið fyrir áður og kulda sem fór um mig síðast þegar sál mín var ung. -Ég sé ennþá tárið falla niður hvíta kinnina. Rólega en samt svo yfirþyrmandi-.
Ég hef staðið lengi á sömu grænu þúfuni, stjarfur og hreyfingalaus. Ég skelf. Finn fyrir þunga líkamans. Hvernig aðdráttaraflið togar sífellt í mig. Það fær mig ekki til að hreyfa mig.
Ég klæðist mistóna sótgráum bol sem fyrir stuttu var hvítur og í ljósum buxum með grasgrænu á hnjánum eftir að hafa dottið við þúfuna þegar ég flýtti mér út úr brennandi húsinu. Axlaböndin lafa sitthvoru megin við mjaðmirnar og finn hvernig buxurnar eru lausar um mig.
Grátt hár mitt sveiflast lítillega þegar heitt loftið frá eldinum skellur á því, til og frá og í augun sem ég píri svo ég sjái betur eldinn. Lausir hárlokkarnir trufla mig ekki, ég hef hugann við annað, eldhafið sem stækkar og gulir armar þess teygja sig lengra í átt til himins.
Eldurinn hefur náð í hlöðuna, lykt af brenndu gúmmíi, dekkjum í tugatali sem höfðu staðið óhreyfð í nær tuttugu ár gnæfir yfir svæðinu. Hlaðan sem ég byggði, hlaðan sem blóð mitt og sviti fór í að reisa er eyðilögð.
Kuldinn fer yfir mig. -Ég sé tárið falla. Rólega, samt yfirþyrmandi, renna niður hvíta og kyrrláta kinnina, í örvæntingu í leit sinni að svæði til að nema staðar á. Tárið stoppar í dæld við munninn. Dæld sem eitt sinn mótaði fyrir spékoppa-.
Ég stend stjarfur á þúfuni, horfi á eldhafið og sýni engin svipbrigði. Finnst eins og tíminn standi í stað. Svitinn lekur niður kyrrlátt andlit mitt, frá enni og niður á höku. Ég finn fyrir söltu bragðinu. sem minnir á sjóinn. Minnir á þegar báturinn skellur á öldunum og dropi lendir upp í mig.
Í gegnum þétta þokuna heyri ég í sírenum. Þær nálgast mig óðfluga og finn hvernig hljóðið verður hærra og stigmagnast með hverri sekúndu. Mér finnst biðin endalaus.
Húsið hrynur líkt og tilveran. Allt sem gerir mig mannlegann hverfur. Ég breytist í vofu sem svífur í fortíðina. -Sé tárið liggja í dældinni við munninn og um leið sé ég móður mína liggja í rúminu með ljósu lokkana á koddanum. Ég sé veggi herbergisins sem köld dagsbirtan lýsir upp. Blátóna skuggi föður míns lendir á rúmteppinu. Ég lít á örvæntingafullt andlit hans, hrukkurnar við augun rembast við að fella ekki tár. Um mig fer kalda tilfinningin sem ég finn ekki aftur fyrren nú-.
Skært sírenuhljóðið hættir og í gegnum grátt og rykmettað loftið hlaupa fjórar rauðklæddar verur í átt að mér, hver með sinn svarta hjálm.
Þær komu of seint. Eftir eru aðeins kolaðar spýtur sem standa uppúr rústum hússins líkt og gaddar, eitursprotar sem stinga sál mína og misþyrma henni með köldu eitri sem lamar hverja taug. Skilja eftir sig brennimark eilífðar óhamingju og sorgar. Gulir armar eldsins hafa unnið sigur á mér.
Þetta er fyrsta smásagan og jafnframt fyrsta greinin mín.