Var dálítið á síðustu stundu með þetta og fór aðeins lauslega yfir. Svo er bara gaman að vita hvort fólk skilji þetta.


Stórir logar stóðu upp úr höfði hennar, þeir dönsuðu svo fallega við hnakkann í hvert skipti sem hún hreyfði höfuðið. Gulrauðar æðarnar lágu utan á rauðglóandi hraunhúð hennar. Kvenlegur vöxtur hennar var líka fullkominn rétt eins og lýsandi augu hennar sem toppuðu heildarfegurðina.
Strákarnir gerðu þvílíkt grín af mér þar sem ég starði á hana yfir sprunguna. Ást mín á henni var fáránleg, ónáttúruleg og ómöguleg. Bókstaflega.
Það mun skýrast betur síðar.

Ég tók ekki eftir þeim strax þó þær höfðu verið þarna jafn lengi og við höfðum verið hérna. Gegnsæir líkamar okkar, gegnfrosnir en viðkvæmir eins og ís, höfðu samt ekki farið framhjá þeim. Þær stóðu saman í hópum á víð og dreif um hraunið og hvísluðust á um okkur og flissuðu. Það var gullfallegt að sjá fíngerð höfuð þeirra svona þétt saman og logana sem mynduðu saman stórt bál.
Við vorum samt ekki eins, þó að við gjóuðum hvítum augunum af og til á þær frá jöklinum en enduðum alltaf á því að líta vandræðalegir undan og strjúka ísköldum fingrum okkar eftir hárlausum kollinum. Þeim fannst það svakalega fyndið og flissið heyrðist langar leiðir og við sáum bálið stækka á meðan á hláturskastinu stóð.
En þegar við fórum að venjast þessu stanslausa flissi fórum við að leika okkur að því að ögra glóandi augunum hinu megin við sprunguna. Strákarnir fengu fljótt leið á því enda gerðum við okkur fulla grein fyrir því að ef við mundum nokkurn tíman snerta þær, mundum við bráðna, og eldur þeirra slokkna. Rómantískur en endanlegur dauðdagi.

Það var samt löngu eftir að hinir fengu leið á því að stríða stelpunum sem ég tók eftir hvernig ein þeirra stóð upp úr, fegurðarlega séð. Hún virtist líka hafa tekið eftir mér.
Við eyddum dögunum saman í að stara á hvort annað. Það var ótrúlegt að fylgjast með glóandi hrauninu renna um fíngerðar sprungurnar í húð hennar. Hún virtist líka njóta þess að stara á mig þó að líkami minn væri ekki jafn líflegur. Hann var frosinn. Gegnsær. Kaldur og ómerkilegur.
Við fórum smám saman að fikra okkur nær hvort öðru þó að við vissum að sprungan aðskildi okkur. Um leið og ég heyrði hana tala varð ég ástfanginn. Þrumandi rödd hennar var svo ólík fíngerðum ískrandi röddum þeirra sem ég hafði búið með alla mína ævi. Henni fannst mín rödd fyndin og hló hátt svo það bergmálaði um allt svæðið. Hópurinn minn hvíslaðist á um okkur, það sást langar leiðir. Hún sagðist hafa heyrt það líka hennar megin en ég tók samt ekki eftir neinu.
Okkur var sama. Við vorum ástfangin.

Einn morguninn þegar við vöknuðum hafði snjór ofan af fjallinu okkar hrunið niður og ofan í sprunguna. Það var hægt að ganga á milli. Strákarnir byrjuðu strax að moka upp úr en ég stóð og horfði yfir. Hún virtist vera að hugsa það sama og ég.
Við gætum gengið yfir og verið saman að eilífu.
Tilhugsunin var betra en allt annað. Strákarnir mótmæltu þegar ég byrjaði að klöngrast yfir en þeir reyndu samt ekki að stoppa mig. Þeir vissu hvernig mér leið.
Þegar ég var komin yfir hættu allir að hreyfa sig. Allra augu voru á mér. Líka hennar.
Við réðum ekki við okkur og hálfhlupum að hvort öðru. Hún henti sér í fangið á mér og ég greip fast utan um hana. Við áttuðum okkur of seint. Líkami minn bráðnaði yfir hana og glóandi hraunið sem þakti líkama hennar storknaði og eldurinn slokknaði.
Hún var orðin að dauðum, ómerkilegum hraunklump og ég var vatnspollur undir henni. Seinna mundi ég gufa upp og hún molna.
Það var útkoman að því, þegar jökullinn varð ástfanginn af eldfjallinu.