Í vestasta þorpi á landinu ólst ég upp og í þesum landshluta er ég á margan hátt upprunnin. Þarna hóf ég ferð mína í þetta líf en það var árið 1997 þegar ég yfirgaf þessu djúpu firði, stórbrotin fjöll og óblíða vinda. Síðastliðið sumar snéri ég aftur til þessa uppruna míns yfir skamma hríð og komst að tilgangi lífsins. Hér mun ég segja þér frá honum.
Allt sem lifir byrjaði sem ein fruma. Allar frumur eru komnar af annarri, allt til þeirrar einu sem varð til í upphafi, þannig mætti segja að allt hefur samfellt lifað frá því að fyrsta fruman hóf lífsstörf til dagsins í dag. En hvers vegna? Hvað vakti fyrir fyrsta lífsneistanum?
Það er til æva gömul inversk saga um fyrsta Guðinn. Hann var allt sem til er og vissi hve stórfenglegur hann var en hann gat ekki upplifað mikilfeng sinn, bara vitað. Alveg eins og ljóslogi í sólinni getur ekki upplifað sig sem ljós þar er ekkert myrkur. Guðinn þráði að upplifa sig svo hann skipti sér í óteljandi hluta og lét hvern hlut gleyma hver hann var í raun. Saga mín er eins og þúsunda annarra.
Mér gekk aldrei vel í skóla, hafði engan metnað og flosnaði fljótt uppúr öllu sem ég tók mér fyrir hendur. Flakkaði á milli láglauna starfa með fulla tösku af dagdraumum sem sífellt breyttu um mynd og sem ég gerði aldrei neitt í. Svo einn daginn fékk ég bréf.
Ég átti að fara aftur í litla þorðið mitt og halda uppá tíu ára fermingarafmæli með fólki sem ég hafði ekki séð í níu ár! Auðvitað fór ég. Það var hábjört sumarnótt þegar ég snéri aftur . Við bæjarmörkin tók lögreglan á móti mér, vildi vita hvort ég hefði verið að drekka og bauð mig velkomna heim. Á vellinum sem eitt sinn var kallaður Vembley og ég æfði fótbolta og frjálsar á sumrin kom ég upp tjaldinu mínu. Ég sofnaði skjálfandi af kulda með kleinuhring fastan á milli tannana full eftirvæntingar yfir morgundeginum.
Við hittumst öll á bensínstöðinni, rifjuðum upp gömul kynni og röltum svo um bæinn og nutum mannlífsins. Nóg var um að vera niður á höfn því þetta var á sjómannadegi, helstu hátíð fjórðungsins. Þennan dag datt ég í sjóinn.
Mig hefur alltaf langað að prufa að detta í sjóinn og ég gerði það á hátíð hafsins. Aldrei hef ég upplifað annan eins ótta og aldrei hef ég upplifað mig eins mikilfenglega og þegar ég klifraði uppeftir hafnarbakkanum í losti. Þegar ég loks stóð aftur á þurru landi með hjartað mitt og lungun mín að berjast óþarflega mikið við að halda mér lifandi vissi ég að tilgangur lífsins er upplifun.
Ég stóð þarna og allt hafði breyst, ég sá heiminn öðrum augum, ég sá líf mitt öðrum augum. Spurningum mínum eins og „afhverju“ og „tilhvers“ hafa nú öll svör. Eymd og sjálfsvorkunn eru ekki lengur vinir mínir og ég rek fordóma á brott því ég veit aldrei sannan tilgang náunga míns. Nú eru átta mánuður liðnir frá uppljómun minni og hulunni sem svift var frá hefur enn ekki lokast.