Aldrei hafði ég verið jafn morgunhress.
Eða… það fannst mér.
Annað en Inga.
„Voðalega ertu lengi að vakna almennilega“ kvartaði hún.
Það var reyndar satt.
Ég hafði ekkert svar heldur starði ofan í skyrið sem var morgunmaturinn í þetta skiptið.
„Bara taka það fram, ég er í óvenju góðu skapi miðað við að það sé morgunn“ sagði ég og hrærði glottandi í skyrinu. Ég sá hana brosa útundan mér.
„Það er mikið af próteini í skyrinu, hressir þig við“ sagði hún.
Mig langaði samt ekkert í þetta skyr.
Eina skeið fyrir mömmu. Eina fyrir pabba. Eina fyrir Ingu. Eina fyrir krakkana heima. Eina fyrir krakkana hér.
Gleði teygði á munnvikunum á mér, upp á við, og endaði í brosi.
Inga horfði á mig halda áfram að stinga einni skeið í einu upp í mig, virtist ekki alveg vita hvað hún ætti að halda en var stolt að ég borðaði þetta yfirleitt svo hún sagði ekkert.
Eina í viðbót fyrir óhugnanlega bæinn hinumegin við vatnið.
Og brosið kvaddi mig.
Synd.
Ég fór með Ingu í búðina hennar eftir morgunmatinn.
Ótrúlega væmin lykt réðst á nefið á mér og lak beint ofan í saklaus lungun.
Ég hóstaði.
„Þetta venst“ sagði Inga hlæjandi meðan hún opnaði búðarkassann.
Ég hélt ekki. Ég var komin með hausverk og svimaði.
„Hvaða lykt er þetta eiginlega?“ spurði ég og gretti mig.
Hún benti á hillurnar fyrir aftan mig.
Það nægði.
Ilmkerti, ilmvötn, reykelsi, krukkur með rósablöðum og fleira væmið dót sem lyktaði sterklega.
„Jahá“
Tvær konur á aldri við Ingu gengu inn í búðina.
Tvö hæ, kinka kolli.
Þær höfðu greinilega verið að rífast. Mig langaði út.
„Vala bauðst til að hjálpa til í búðinni“ sagði Inga og blikkaði mig.
Æi nei.
Ég brosti gervilega.
„Já, hún getur skráð nýju sendinguna“ sagði önnur kvennanna án þess að hafa fyrir því að hljóma kurteis eða brosa. Hvað þá kynna sig.
Inga tók eftir því, mjög augljóslega.
Hún leit á mig og bætti upp fyrir brosið sem hafði vantað hjá vinkonu hennar.
Ég stóðst ekki að brosa ekki til baka. Marga hringi í kringum hausinn.
„Það eru átta pappakassar hérna á bakvið. Þú þarft bara að fara yfir listann og merkja við hvort allar vörurnar séu komnar, ég skal gefa þér smá seðil fyrir það svo geturðu farið út“
Og ég brosti nokkra hringi í viðbót.
„Hvar hefurðu verið?“ spurði Tara og hristi mig dramatísk.
„Búðinni“ ég sýndi henni fimmþúsund króna seðilinn sem ég hafði fengið.
Gemsinn gargaði á mig og ég setti það á minnismiða í huganum að breyta um hringingu.
Mamma heilsaði mér, fegin að ég svaraði.
„Hvernig er þarna?“ spurði hún.
Ég leit á krakkana.
Lovísa var að binda hendurnar á Davíð með lakkrísreimum, Aron notaði Álfasteininn sem hest og Karó og Ástrós léku sér að því að flengja hann og Tara var ennþá að halda ræðu yfir mér af því að ég var í búðinni hálfan daginn í staðin fyrir að vera með þeim.
Hamingjusprauta.
„Það er…ótrúlegt“ viðurkenndi ég í staðin fyrir að þrjóskast við að hafa rétt fyrir mér. Það var ekki þess virði einfaldlega.
Mamma naut þess.
„Vissi það, Haustvatn er þekkt fyrir hversu auðvelt er að festast þarna“
„Ég veit nú ekki með það, strákana hérna skortir heila“
Davíð hafði losað sig úr lakkrísreimunum og var að kyrkja Aron með þeim. Tara hoppaði fyrir framan mig eftir athygli.
„Pabbi þinn hefur ekki fengið einn ennþá en ég elska hann samt. Hefurðu farið í hestaferð kringum vatnið? Það er alveg ótrúlegt! Þú verður líka að prófa mýrina og skoða hellana fyrir aftan skóginn, það gæti orðið dagsferð en skógurinn er alveg yndisl…“
„Ég er búin að vera hérna í tvo daga, mamma“
„Ég var bara að grínast, en verð að skjótast. Elska þig!“ hún skellti á.
Ég andaði loksins.
„Vá sko! Hvað mamma þín er ofvirk! Ég heyrði hvert einasta orð, hún talaði svo hátt!“ romsaði Tara.
Augun hennar voru galopin.
Sykur.
Hún sneri baki í mig og veifaði krökkunum.
„Hey, krakkar! Eigum við að fara með Völu í mýrina í kvöld?“