Rauða ljósið virðist springa í milljón eindir í regndropunum á framrúðunni. Tinna stígur létt á bremsuna og smellir rúðuþurrkunum á. Ógeðslegt veður, rok og rigning, og hversvegna um mitt sumar? Hún andvarpar lágt, orðin sein, orðin sein, segir hún við sjálfa sig og lítur á mælaborðsklukkuna.
Auðvitað þurfti hún að vakna of seint, gersamlega ignora útvarpsvekjarann og sofa út, dreyma. Hún bölvar sjálfri sér í huganum. Fyrir aftan hana heyrist hátt flaut, hún lítur í baksýnisspegilinn og strax fram fyrir sig, komið grænt.

Bíllin höktir af stað og spólar í bleytunni þegar Tinna stígur aðeins of fast á bensíngjöfina og grípur fast um stýrið. Umferðarljósin og bílarnir þjóta meðfram eins og strik þegar hún brunar yfir gatnamótin, bíll á leið á hennar akrein flautar hvellt þegar hún þýtur fram fyrir hann. Tinna lýtur aftur í baksýnisspegilinn til þess eins að sjá bílstjórann gefa henni fingurinn, djös dóni! hugsar hún með sér. Eða kannski ætti hún að hægja á sér áður en hún æki yfir einhvern. Hún stillir útvarpið og finnur FM, ooh, búin að missa af honum segir hún við sjálfa sig. Morgunnþátturinn búinn og einhver lúði tekinn við að kynna tónlist með heimskulega hressri röddu. Hún slekkur.

Næstu ljós, Tinna hægir vel á sér, hún treysti bílnum aldrei sérstaklega vel þegar rigndi og ekki núna þegar hálfgert monsúnskýfall var úti. Hún lítur aftur á klukkuna, 9:30, andskotinn ég er allt of sein! Æpir hún, æjii! Hún tekur upp gemmsann, pikkar á tvo takka og bíður með tólið við eyrað. Svara svo, segir hún lágt.
Úff ég nenni þessu ekki segir hún aftur við sjálfa sig og stígur á bensíngjöfina. Mamma er sjálfsagt ekkert heima. Hún lítur upp, fokk, rautt! Út undan augum hennar sér hún skyndilega bjart ljós nálgast á ógnarhraða, hún lítur til vinstri og sér eitt sekúndubrot sem virðist teygjast í heila eilífð, grill á bíl stefna á hurðina hjá henni. Snögglega heyrist hár hvellur og brothljóð úr öllum áttum. Nístandi sársaukinn bítur sundur taugar hennar og hún finnur eins og líkami hennar kremjist innan í köldu járni sem umlykur hana og hvert einasta bein virðist brotna í mola. Heimurinn snýst í hringi og skerandi ískur bergmálar í eyrum hennar um leið og hún horfir á malbikið nema við höfuð hennar.

Allt í einu þagnar heimurinn eins og gröf. Kaldur vindur blæs á blóðugt andlitið, hendi lafir máttlaus eins og tuska á innanvert bílþakið. Tinna opnar augun og stynur lágt, sársaukinn stingur í augun þegar hún blikkar nokkrum sinnum. Guð ég sé ekkert! hvíslar hún og reynir að lyfta höndunum. Þær svara ekki.
Fyrir utan heyrast raddir sem nálgast óðfluga, einhver þeirra kallar hátt. Shitt, er einhver lifandi þarna inni? Tinnar reynir að svara en kemur aðeins lágu hvísli úr sér. Djöfull er kalt hugsar hún með sér, henni er samt ekki kalt nema á höfðinu og hálsinum. Hún gerir tilraun til að hreyfa fæturnar og lítur á brakið sem klemmir hana fasta. Eftir nokkrar sekúndur rennur það upp fyrir henni, ég finn ekki fyrir þeim!

“Mamma” heyrist í hásri kjökrandi röddu innan úr flakinu sem virðist blæða út á malbikinu. Olíubrák leiðir að næsta niðurfalli og glerbrot eins og eftir rigningu þekja svæðið. Í fjarska heyrist í sírenu og blá blikkandi ljós birtast í gegnum rigninguna.
—–