Það fyrsta sem ég man eftir er þungt högg á hægra lærið, ég leit niður og sá að ég hafði hlaupið á handriðið hjá kirkjutröppunum. Af hverju var ég að flýta mér svona? Ég leit til suðurs og sá ástæðuna koma hlaupandi á eftir mér, svartklæddur maður á fimmtugsaldri sem mundaði byssu og var tilbúinn að skjóta. Ég hljóp af stað niður tröppurnar og ég rétt gat séð handriðið við hliðina á mér springa í sundur um leið og ég fann eitthvað skella á hendinni á mér, það var flís úr handriðinu. Ég tók snögga beygju til hægri og hljóp inn stíginn fyrir ofan hótel KEA og kom mér niður fyrir aftan úrsmiðinn í Hafnarstrætinu. Ég var orðin nokkuð móður en ég sá ekki svartklædda manninn. Ég var rétt búinn að ná andanum þegar lítil stúlka í fallegum prinsessukjól kom labbandi til mín. Ég leit í kringum mig til að sjá hvort svartklæddi maðurinn væri nokkuð að koma, því ég óttaðist að litla stúlkan gæti slasast. Litla stúlkan rétti út höndina og bauð mér karamellu sem hún hélt á, ég þáði karamelluna og sagði henni að ég hefði sjaldan séð fínni stúlku en hana. Þá brosti hún og sagði ”Ég er að fara í leikhús í fyrsta skipti með mömmu minni að sjá Kardemommubæinn.” “Þú verður þá að drífa þig af stað svo þú verðir ekki of sein.” sagði ég. “ Já, mamma fer örugglega að halda að ég sé týnd, bless manni” sagði hún. “Bless… og takk fyrir karamelluna og skemmtu þér vel.”
Ég áttaði mig allt í einu að ég hafði gleymt mér í samræðum við stúlkuna og brjálæðingurinn með byssuna hlyti að fara að finna mig, ég ákvað því að koma mér burt. Ég leit upp á stíginn og sá engan. “Nú er tækifærið” sagði ég við sjálfan og gekk af stað, en tók þó aldrei augun af stígnum. Þegar ég var kominn að horninu var ég orðinn viss um að hann hefði týnt mér og hlaupið fram hjá, nú gæti ég hlaupið upp í gegnum bæinn og komist upp á lögreglustöð, þar yrði ég óhultur. Ég gekk meðfram veggnum, leit einu sinni enn upp á stíginn og skaust fyrir hornið. Ég rak í rogastans og starði bókstaflega inn í hlaupið á byssunni. Ég leit fram hjá byssunni, upp eftir handleggnum og á sigur glottið sem fæddist á andliti ókunnuga mannsins í svörtu fötunum. Áður en ég vissi af sló ég, með vinstri hendi í höndina sem á byssunni hélt þannig að skotið fór rétt fram hjá mér, og barði með krepptum hægri hnefa beint í nefið á manninum. Ég hef aldrei á ævi minni slegið annan mann en ég fann greinilega að nefið brotnaði undan högginu og maðurinn æpti af undrun og sársauka og missti jafnvægið eitt augnablik. Ég vissi mæta vel þetta myndi ekki duga því hann myndi skjóta mig ef ég hlypi í burtu. Þannig ég réðist á manninn og reyndi að ná byssunni af honum. Við glímdum í smá stund og nokkur skot hlupu úr byssunni. Maðurinn var furðu sterkur miðað við byggingu og aldur og ég fann hvernig vöðvarnir brunnu af átakinu og ég öskraði. Byssan mjakaðist hægt niður á milli okkar og eitt skot hljóp úr byssunni í viðbót. Svipur mannsins var fullur af undrun og takið á byssunni losnaði er hann hneig niður dauður. Mér varð svo mikið um að ég sleppti byssunni og leit í kringum mig til að sjá hvort einhver hefði séð hvað gerðist. Þegar ég leit í átt að leikhúsinu sá ég að það lá stór bómullarhnoðri á götunni svona 50 metrum í burtu frá mér, hvað var þetta eiginlega ? Ég fann að hjartað í mér sleppti úr nokkrum slögum er ég áttaði mig á að þetta var ekki bómullarhnoðri heldur litla stúlkan í hvíta prinsessukjólnum sem lá þarna í götunni.
Ég hljóp til hennar og sá að hún hafði orðið fyrir skoti. Hún var svo lítil er hún lá þarna hreyfingarlaus, dáin. Ég kraup hjá henni og tók hana í fangið, þegar ég sneri henni við sá ég mér til skelfingar að þetta var dóttir mín sem lá dáin í fanginu á mér. Skyndilega heyrði ég smell í skammbyssu fyrir aftan mig. Ég snéri mér við og leit upp. Í annað sinn starði ég upp í byssuhlaup, en nú var það ekki svartklæddi maðurinn sem mundaði byssuna heldur konan mín. Hún horfði sár og reið á mig og sagði “Þetta er allt þér að kenna” og tók í gikkinn…

Ég vaknaði ruglaður og sveittur og það tók mig smá stund að ná áttum. Ég hafði sofnað í sófanum. Þetta var bara draumur. Dóttir mín kom til mín prinsessukjólnum sínum og spurði “Er ekki allt í lagi pabbi ?”
“ Jú, jú” sagði ég og faðmaði hana að mér, “Mig dreymdi bara illa.”
“Viltu karamellu ?” sagði hún og rétti út hendina. Ég horfði á hana í dálitla stund, brosti og þáði karamelluna.
“Mamma sagði mér að vekja þig og segja þér að það sé kominn matur.”
“Takk ástin ég er að koma” sagði ég og stóð á fætur.
Ég tók dóttur mína upp og á leiðinni inn í borðstofuna skildi ég hvað draumurinn þýddi, kyssti konuna mína og tók að hjálpa henni að leggja á borð.