Tek það fram að þetta er framhaldssaga sem ég gerði fyrir svona ári síðan og er að endurskrifa. Langar að sjá hvað fólki finnst - mun mjög líklega setja inn fleiri kafla ef einhver hefur áhuga xP
..
Ég var brjáluð.
Mamma mín hlaut að vera orðin geðveik.
„Þú getur ekki gert mér þetta!“ gargaði ég dramatísk á hana þar sem hún rótaði í skúffunni minni.
„Róleg elskan, þetta er bara eitt skipti. Þú hefur gott af því“
Ég öskraði af pirringi. Hún skildi ekki neitt.
„Ég á mér líf mamma! Hefurðu einhverja hugmynd um hvað það er?“
Hún reisti sig við og horfði á mig glottandi.
„Neibb“
Ég stappaði fótunum í kalt gólfið og ranghvolfdi augunum.
„Þú gerir þér grein fyrir því að frekjukast gerir mig bara enn ánægðari með að hafa ákveðið þetta?“ hún kippir hrúgu af nærbuxum úr skúffunni og hendir þeim í töskuna.
„Mamma! Ohh!“
„Elsku dramadrottningin mín,“ hún tekur um axlirnar á mér og kyssir mig á ennið „þú munt þakka mér fyrir þetta seinna“
Þetta var ein af þeim stundum sem manni langar mest til að loka sig inn í skáp og grenja eins og maður gerði sem krakki. En af biturri reynslu lærði ég eitt;
Það virkar ekki.
„Ég sé ekkert benda til þess að ég muni njóta þess!“
Mamma sleppti öxlunum á mér og kleip mig í mittið áður en hún sneri sér aftur að skúffunni minni.
„Ég fór þangað þegar ég var jafngömul og þú, og veistu hvað? Ég kynntist pabba þínum þar“
„Já, ókei, engin smáatriði takk fyrir“ ég gretti mig og ákvað svo að hætta þessari fýlu og hjálpa henni að pakka niður. Hún mundi ekki hætta við héðan af.
Og hún stóð við sitt.
Þarna sat ég, í pínulítilli rútu. Innan um gamalt fólk og tveir túristar sem sátu úti í horni og átu gular hnetur úr pappírspoka. Ég fann lyktina alla leiðina fremst. Það voru reyndar bara þrjú sæti á milli.
Já, svona lítil var rútan.
Ég mundi skyndilega eftir hvert ég var að fara og pirringurinn fékk hjartað til að slá hraðar og mér hitnaði og fann í fyrsta skipti síðastliðna tvo klukkutíma fyrir innilokunarkennd.
Með lágum smell losnaði beltið og ég stóð upp til að klæða mig úr úlpunni. Bílstjórinn gaut augunum til mín á bakspeglinum svo ég flýtti mér að henda henni frá mér og spenna mig aftur. Innilokunarkennd enn á ný.
Í tilraun til að láta mér líða betur náði ég í tónlistarspilarann minn og tróð heyrnartólunum í lítil eyrun á mér og opnaði lítinn nammipoka.
Ég hækkaði í botn og leyfði tónlistinni að yfirgnæfa óþolandi hljóðið í lélegri rútunni og tístandi hláturinn í túristakonunni. Lokaði augunum í nokkrar sekúndur.
Sekúndurnar urðu að mínútum, og klukkutímum.
Reyndar bara tveim klukkutímum. Því ég var vakin af illa sveittum bílstjóranum sem tilkynnti mér að ég væri komin heim. Ég svaraði svefndrukkin að ég ætti ekki heima þarna og hann spurði ringlaður hvort hann ætti að skutla mér aftur í bæinn.
Freistingin til að segja já var ótrúleg.
Freisting sem ég stóðst. Ég stóð á fætur, fann töskurnar mínar og leit í kringum mig fyrir utan rútuna. Gamalt skilti var við hlið rútuplansins; Velkomin til Haustvatns.
Og leiðinn helltist yfir mig.
„Vala?“
Ég var örugglega með svip morðingja þegar ég leit í kringum mig til að sjá hver hafi sagt nafnið mitt, allavega miðað við hversu hrædd á svipinn frænka mín varð þegar ég sá hana loksins.
„Já?“ svaraði ég.
Henni virtist létt.
„Ég er frænka þín, Inga, sem þú ætlar að vera hjá í sumar“
Vá. Mig langaði að stara á hana. Hún var svo sérstök í útliti ég hafði aldrei séð annað eins. Ég hafði átt von á eldgamalli konu með kryppu en fékk hana. Hún var lávaxin og fíngerð með áberandi rautt hár og stór augu. Ekki eldri en þrjátíu.
Hvað átti ég að segja þá?
„Uh… hæ?“ ég gekk til hennar og ætlaði að taka í höndina á henni en hún faðmaði mig fast. Ég var að minnsta kosti tuttugu sentímetrum stærri.
„Vá, sko!“ sagði hún og brosti.
Ég gæti svo svarið það, þetta var að brosa út að eyrum.
En þetta svar gerði mig ringlaða.
„Hvað?“
„Þú ert í fyrsta lagi risi, og í öðru lagi óhugnanlega lík mömmu þinni!“ hún klappaði í einhverskonar persónulegu hamingjuflippi.
Ég vissi ekki hvort ég ætti að vera móðguð. Risi?
„Takk kærlega. Er það jákvætt?“
„Ne…já…það finnst mér! Svona dökkhærð og krúttleg eins og mamma þín var, og virkilega hávaxin eins og pabbi þinn“
Hún setti töskurnar mínar í skottið á bílnum sínum.
„Sestu bara fram í“ hún settist sjálf í bílstjórasætið og ég hlammaði mér við hliðina á henni.
„Hvað búa eiginlega margir hérna?“ ég pírði augun á líflausan bæinn. Klukkan var ellefu um kvöld svo það kom mér ekki á óvart þó fáir væru á ferli.
En það að bókstaflega enginn væri á ferli bara hræddi mig.
„Svona… fimmhundruð manns“ hún yppti öxlum.
Ég bara hristi hausinn og tók upp gemsann minn. Inga leit spurnaraugum á hann.
„Ég þarf að láta mömmu vita að rútubílstjórinn minn hafi ekki hellt sig fullan, keyrt útaf þannig að rútan valt og allir dóu og voru síðan étnir af björnum“
„Hljómar líkt henni“ hún kinkaði kolli og leit af mér og á veginn.
Ég spjallaði frekar lengi við mömmu og var ennþá að tala við hana þegar Inga stoppaði bílinn við húsið sitt og hélt á dótinu mínu inn. Þá kvaddi ég hana og hjálpaði til við að bera úr bílnum.
„Velkomin heim, Vala. Ég get varla beðið eftir að sýna þér allt! En það er kannski betri hugmynd að fara að sofa, í bili allavega“
Hún hjálpaði mér að koma mér fyrir í gestaherberginu og fljótlega lá ég á dýnu á gólfinu og starði út um gluggann.
Svona var staðan; Ég var lengst upp í sveit, fjórum klukkutímum frá öllum vinum mínum og öllu skemmtilegu yfirleitt. Ég var föst þar næstu fimm mánuði og hafði nákvæmlega ekkert að gera nema hjálpa Ingu við búðina, kauplaust. Verst af öllu var að það var sumar, besti tími ársins til að eyða með vinum sínum, og ég mundi eyða honum í að láta mér leiðast innan um gamalt fólk og hesta.
Með þessari jákvæðu hugsun sofnaði ég.