Hefurðu fundið fyrir tilfinningahræringunum þegar þú áttar þig á því að þú ert að missa einhvern? Fundið fyrir máttleysinu sem breiðist yfir hug þinn og fær þig til þess að finnast þú vera minna en smátt. Allt sem þú segir og allt sem þú gerir er ekki eins og það á að vera. Orðin aldrei jafn tilkomumikil og í huganum og augnablikin aldrei jafn falleg og í draumunum. Ekkert sem fær manneskjuna til þess að snúast hugur og vera kyrrt um sinn. Og stundum, þó fyrir tilviljunina eina færðu þá hugsjón að þetta sé bara þú. Öll þessi tár, allar þessar kvalir, öll þessi eymd einungis af völdum heimskulegra hugsana sem eiga sér engin stoð í raunveruleikanum. Hún eða hann, jafnvel það er ekki á leið á brott (mín er hún, ég er ekki hennar). Svo vaknarðu upp frá blindninni. Ó, mikið var hún góð, þessi blindni. Draumóravelþóknun. Hlærð kannski fyrst eitt andartak þó einungis vegna þinnar eigin fávisku. Svo grætirðu því ennþá gengur hún hægum, tregafullum skrefum í burt frá þér og þú sem hafðir leyft þér að gleyma núinu í rjóma draumanna, langt ofan við stjörnurnar. Og kannski var þessi skyndilega jákvæðni, sem hafði horfið svo mörgum árum áður, aðeins orðið að veruleika til þess að afsaka það sem ekki afsakanlegt er. Eitthvað til þess að skýla aumri, hálf brotinni sál sem fann aldrei líkama sinn. Því vissulega er það óvissan sem ófeigir menn hræðast. Það sem ekki er niðurskrifað eða sést ekki í kristalkúlunum, þar sem öll framtíðin á að búa. Og kannski hefurðu aldrei fundið fyrir þessum hræringum tilfinninganna sem halda okkur á lífi eða binda enda á það. Þá hljóma þessi orð eflaust uppfull af ósanngjörnum óeirðum biturleikans. Sem þau vissulega eru á sinn einfaldasta hátt. Því miður, og þó kannski sem betur fer, er ekki allt ávallt í sinni einföldustu mynd.
Hvað ætli hún sé að hugsa? Ætli hún horfi á sitt litla líf ganga mér við hlið og í burtu frá sér? Ætli augun séu ekki jafn þurr og líflaus eins og þau voru vön að vera? Ætli hún sé enn að reyna að láta orðin mín mynda skýrar setningar? Ætli hún sé að klára óopnuðu áfengisflöskuna sína í þeim eina tilgangi að safna kröftum til að gera út um mig? Ætli hún sé að spila lagið okkar og hugsa um allt sem við áttum? Ég heyri í vinylspilaranum hennar í höfði mínu: This is the first day of my life, I‘m glad I didn‘t die before I met you. Á því andartaki hugsa ég um að snúa aftur, þegar fullkomnu orðin leika sér að huga mínum en vakna þó aftur til lífsins, dauðans eða hvað sem þetta er.
Hún stendur við gluggann í herberginu sínu og horfir á mig ganga frá sér. Ég lít ekki upp en ég veit það, því annað væri of sárt. Geng hröðum ákveðnum skrefum sem eru alveg laus við óvissu og efasemdir, skrefin sem segja meira en öll orð til samans. Vonandi að hún trúi skrefunum, sér ekki í gengum uppgerðina sem skín úr augum mínum. Skrefin sem munu eyðileggja hjarta hennar, skrefin sem munu fá hana til þess að hugsa um að lífið sé myrkur. Geng fram fyrir hornið, lít ekki til baka, hægi ekki á mér. Hún hverfur, ég hverf. Við hverfum frá hvort öðru. Að eilífu, ég lofa.
——
Inni í myrku herbergi situr stúlka. Hvorki bláeygð né brúneygð. Hvorki grátandi né hlægjandi. Þó nokkur tími síðan hann fór, kannski nokkrir dagar. Dagar sem liðu sem ár, dagar sem voru hundraðfalt lengri en hún hafði vanist. Skyndilega rís stúlkan upp og leggur léttan líkama sinn á rúmstokkinn. Þreifar eftir hjarta sínu en finnur engan slátt, engin ummerki um líf, hvað þá ást. Regnið skellur á brothættar rúðurnar og rennur niður þær líkt og tár sem rötuðu ekki á réttan stað. Gengur að nánast innantómri kommóðunni sinni og dregur upp bréf sem er stílað á þá sem komu henni, líklegast fyrir slysni, inní þennan harmmikla heim. Það var þó varla við þau að sakast. Maðurinn býr til sín eigin örlög, sinn eigin endi. Leggur bréfið sem öllu máli skiptir hljóðlega á náttborðið. Ekkert fer úrskeiðis. Loksins gengur allt saman upp, og þó fyrr hefði verið hugsar hún með sjálfri sér. Hún hafði umbreytt herbergi sínu á nokkrum dögum. Reyndi að líkja því við líf sitt, tómið. Ekkert nema meðalbreitt rúm, náttborð og kommóða. Allt hvítt. Eins og snjórinn, eins og vonin, eins og englarnir. Kannski kemst ég loks brátt á fund englanna, hugsar hún glaðlega með sér. Síðan slekkur hún ljósin, sturtar úr boxinu, kyngir, dregur sængina yfir sig og sofnar, langt frá öllum draumum.