Bleghh… bara eitthvað stutt bull sem skaut sér upp í kollinn á mér.

-Blindrækni.

Forvitnin drap köttinn. Þetta hafði ætíð verið uppáhalds málshátturinn minn. Ég er viss um að amma kenndi mér hann þegar ég var þriggja ára. Mér fannst það ekkert fyndið á þeim tíma. Ég man að ég var að leika mér á grjóthnullungnum stóra í garðinum hjá ömmu og afa.

Grábröndóttur köttur, Perla hét hún, skaust undir bílinn hjá afa því að ég var að elta hana. Kötturinn sneri sér síðan við og teygði hausinn undir dekkið til þess að þefa af einhverju sem var fast í gúmmíinu. Þá bakkaði afi. Ég hljóp inn með grátstafinn mér í kverkum. Amma sló sér á læri og hló: “Sigurður minn. Þú veist nú að það var forvitnin sem drap köttinn”.

En nóg um mig og mína málshætti. Þetta er alls ekkert það sem ég ætlaði að segja þér frá. Ég ætlaði að segja þér frá magnaðri lífsreynslu minni þann 11.maí 1997. Afi minn, sem heitir Sigurður eins og ég, hafði dáið þann 11.maí árinu áður.

Ég var með vinnufélögum mínum, Ríkharði, Óskari og Palla-Fiat á stöðinni. Það var lítið að gera enda allir að njóta sumarsins. Það var rúmur mánuður síðan við höfðum fengið útkall og okkur var farið að leiðast þófið. Ég var jafnvel sannfærður um það á tímabili að hann Palli-Fiat ætlaði að kveikja í einhversstaðar til þess eins að hafa eitthvað að gera.

“Þarna kemur lukkudýrið okkar, fastagesturinn” sagði Óskar hátt og snjallt. Það var enginn annar en hann Búri. Óskar fór að dyrunum, hleypti Búra inn og bauð honum góðann daginn: “Ertu svangur kallinn minn? Má bjóða þér Whiskas og mjólk?”. Búri jánkaði því með snöggu Mrjá-i.

Búri var enginn venjulegur köttur. Hann var eins og hinn hændasti heimalingur og virkilega félagslyndur. Ég get samt ekki hætt að hugsa um það að kötturinn er, eða öllu heldur var, grábröndóttur.

Svona var þetta allar sunnudagsvaktirnar. Um það bil klukkustund áður en vaktin var búin kom hann Búri og heimtaði mat og félagsskap. Hann átti meira að segja kattarkassa og litla körfu með púða sem við á stöðinni höfðum splæst á hann.

Afi minn hafði líka verið slökkviliðsmaður eins og ég. Hann hafði meira að segja unnið með honum Palla-Fiat, enda voru þeir æskuvinir. Það skildist mér á ömmu. Það eina sem ég veit er að Palli-Fiat gengur alltaf með lukkuskjóðuna sína bundna við þær buxur sem hann er í og að Palli-Fiat hefur þetta viðurnefni af því að hann hefur átt þrjá Fiat bíla og eyðilagt þá alla með því að klessa þá.

En aftur að ‘Sunnudagsvaktinni miklu’. Þegar að Búri hafði lokið sér af við matinn gekk hann hægum skrefum í átt að Palla-Fiat. Skyndilega réðst hann með hrömmum og klóm á Palla og náði að krækja lukkuskjóðuna í skoltinn. Hún rifnaði auðveldlega frá buxunum þar sem að hún var fest með lopaspotta.

Kötturinn hljóp út og ég endasentist á eftir honum þar sem að ég var manna snöggastur, enda bæði hnén starfandi og ég yngstur.
Ég veit ekki hvað ég hljóp lengi á eftir kettinum en áður en ég vissi af því var ég kominn alla leið út að kirkjugarðinum.

Ég sá hreyfingu út undan mér og kom auga á Búra þar sem hann japlaði á spottanum sem bundinn var um lukkuskjóðuna hans Palla. Búri sleppti síðan skjóðunni úr kjaftinum, þefaði ákaft af pokanum, setti upp krippu, fitjaði upp á trýnið og hvarf. Þetta gerðist allt svo hratt að ég áttaði mig ekki á því.

Ég horfði á legsteininn og aðeins einn hugsun kom upp í hausnum á mér. “Að koma mönnum fyrir kattarnef”. Hehh… hræsnin í mér. Þetta hefur eitthvað með mig og mína málshætti að gera eftir allt saman. Ég mun aldrei átta mig á því hvernig þessi málsháttur skaut sér upp í kollinn.

Hvað sem því líður þá leitaði þessi hugsun ekki meira á mig fyrr en í sumar 2003. Þá hafði hann Palli-Fiat á dánarbeðinu játað fyrir mér og Ríkharði að hann hann hafði myrt afa minn. Hann sagði ekki af hverju hann gerði þetta en síðustu orðin hans voru: “Sigurður minn, nú veistu það að ég kom honum afa þínum fyrir kattarnef”.