Athugasemdir höfunds.
Þessa sjálfstæðu smásögu er ég búinn að hafa á heilanum í smá tíma og ákvað ég loks að skrifa hana því ég er nú hvort eð er með skemmtilega ritstíflu á Orsakavöldum.

Btw. Afhverju tekur hugi ekki við indent (TAB)?



Á vængjum drekans.

Flestir kalla mig Jögga en ég heiti þó réttu nafni Jörundur. Það er ekki mikið sem ég get sagt frá sjálfum mér. Ég er lítill og nettur, hlédrægur, trúlaus, hata þriðjudagana og aðhyllist kalda rökhugsun. Þannig horfi ég allavega á sjálfan mig. Sumir vilja meina að ég sé ekki sá sem ég tel mig vera. Til að mynda vildi besti vinur minn meina að ég væri eitthvað meira. Kannski man ég bara ekki eftir mér. Kannski vissi hann betur allan tímann. En í dag get ég ekki spurt hann.
***
Ég sit hér inni í stóru herbergi. Það er frekar tómlegt. Ég hef ekki nennt því að hengja upp neinar myndir né mála veggina. Húsgögnin eru öll í hrúgu hægra megin við innganginn. Það gerir það að verkum að þú heyrir í þínum eigin andardrætti. Ég heyri til dæmis mjög vel í endurómi stuttu hljóðanna sem myndast við það að ýta niður tökkunum á ritvélinni. Ég hef ekki efni á prentara né tölvu. Fyrir mörgum árum síðan hefði ég getað átt svoleiðis undur. Í dag á ég bara grána gamla og GEM.
Ég gæti talið árin sem ég hef lifað á hrukkunum á enninu mínu. Það er samasem merki á milli hrukknanna og árana rétt eins og árhringir trjáa. Áttatíu og sjö löng ár. Ég er sáttur. Í gegnum tíðina hef ég verið frægur konsertmeistari, baráttumaður Sjálfstæðis míns,undrarafvirki, giftur þrisvar sinnum, átt sjö börn en hins vegar var ég líka svikari. Ég kom upp um mig sjálfann en sé ekki eftir því. Ég get ekki hætt að hugsa um pappakassana tvo undir skrifborðinu mínu sem eru fullir af ævafornum floppy-diskum.
***
Ég man það hvernig ég og Grétar lékum okkur saman í æsku. Það má jafnvel segja að við vorum æskuvinir. Við áttum heima í sömu götu. Hann í stóru einbýlishúsi með foreldrum sínum en ég í lítilli risíbúð ásamt föður mínum. Ég hef aldrei hitt mömmu mína, þ.e, aldrei hitt hana þannig að ég muni eftir því. Pabbi talar ekkert um það lengur. Hann sagði að hún hafi verið frábær kona en eins og ég svaraði: “Ég hef aldrei hitt hana og því veit ég ekki af hverju ég er að missa, ef ég er þá að missa af einhverju.”
***
Þau jólin er ég og Grétar vorum í öðrum bekk fékk hann hljómborð í jólagjöf. Þetta var virkilega flott hljómborð sem hafði allt. Þú gast fengið út úr því mögnuð píanóhljóð, flottar fiðlur, tilfinningaríka saxófóna og unaðslegar flautur. Þegar fram var liðið í mars var það fastur dagskrárliður hjá okkur félugunum að koma saman og æfa okkur á hljómborðið. Grétar fékk formlega kennslu hjá kennaranum sínum en ég fékk götótta, þó skemmtilega, kennslu hjá Grétari.
***
8.bekkur gekk í garð og enn spiluðum við saman. Ári áður hafði Grétar selt gamla Korg-ið sitt og fengið sér glænýtt General Evolution Music með ‘floppara og MIDI support’. Hann kom að mér og sagði, “Jöggi. Ég ætla að gefa þér hann grána gamla,”. Ég gat svarið að það vottaði fyrir söknuði í augum Grétars en hann stóð hnarreistur í baki og otaði því að mér. Ég tók við því með þökkum.
***
9.bekkur og við hittumst enn á þriðjudögunum. Eftir að ég hafði fengið grána spiluðum við alltaf dúett. Við sátum í austurenda bílskúrsins. Ég var löngu byrjaður að geta spilað eftir eyranu á því einu saman á að hlusta á Grétar. Hann var hættur að kenna mér þar sem að það var ekki þörf fyrir því. Hann tók sjálfur eitthvað ‘improvise’ námskeið. Fyndið. Ég hafði alltaf hugsað mér að bílskúrsbönd væru hávær. Það vorum við ekki.
***
1.bekkur í framhaldsskóla. Við sóttum sama skólann. Við vorum ekki í neinum tímum. Hann fór á náttúrufræðibraut en ég fór á almenna. Þriðjudagshittungurinn fór að detta út í eitt og eitt skipti. Ég varð sár yfir því. Þetta hafði haldist nánast óslitið öll þessi ár. Ástæðurnar voru margar. Ég eignaðist kærustu, mína yndislegu Kareni, foreldrar Grétars skildu, námið var erfiðara en í grunnskóla og Grétar kom út úr skápnum á seinni önninni.
***
Jarðarförin. Hún var haldin í kyrrþey. Móðir Grétars bað mig um að spila uppáhalds lagið hans. ‘Requiem for a Dream.’ Mér tókst að spila allt lagið í gegn þrátt fyrir að allir þriðjudagarnir nöguðu hausinn á mér.
***
Ári eftir jarðarförina var mér gefinn GEM-inn. Móðir Grétars gat ekki afborið að sjá enga manneskju sitja við hljómborðið. Ásamt því fékk ég tvo pappakassa fulla af disklingum. Ég vissi strax hvað þeir voru. Þau ár sem ég fékk að spila með Grétari fékk ég að vita að hann væri stöðugt að semja tónlist og setja á floppy diska sem hann gerði svo ekkert við. Hann gat samt ekki hætt því að setja inn á þá og bæta við fjöldann því að hann var viss um að einhvern tímann einhversstaðar myndi fólk dásama tónlistina. Það var rétt hjá honum.
***
Ég fór í gegnum allan fyrsta pappakassann. Ég veit ekki hvað kom yfir mig. Ég lét lögin spilast og tók þau inn á mínar hendur eftir eyranu. Seinna meir fór ég að spila þessi lög, sem voru stórkostleg smíði, undir mínu nafni. Engan grunaði neitt. Ég fékk stærri og stærri ‘gigg’. Fyndið fannst mér hvað fólk átti til með að segja hve frægt fólk yrði eftir dauða sinn. Það vildi meina að ég væri stórkostleg undantekning en ef það bara vissi. Eftir rúm átta ár kláraði ég fyrsta kassann. Ég fór að róta í þeim seinni. Ég gerði þetta næsta árið þangað til að ég fann eina merkta ‘flopparann’ sem gerður hafði verið af Grétari. Allir hinir voru ómerktir. Þegar ég las titilinn var eins og ég hefði verið sleginn fast utan undir. Á hönum stóð með fíngerðri rithönd Grétars, ‘Dragonwing’.
***
Tveimur vikum áður en Grétar kom út úr skápnum kom hann til mín og sagði :“ Veistu Jöggi, við erum öll dansarar á breiðu vænghafi . Öll komumst við ekki nógu nálægt miðjunni og þurfa því sum okkar að lyfta hnjánum ögn hærra en hinir. Þetta geta ekki allir og einn góðan veðurdag mun maður renna og flugið manns endar. Við erum jú öll á vængjum drekans. Mögnuð og goðsagnakennd vera sem fáir trúa á. Hún er ódauðleg.”
***
Þá og enn þann dag í dag botna ég ekki til fulls í þessum orðum. Sökum þeirra gaf ég mig fram og endaði ferilinn minn sem spillt tónskáld.
***
Birthgiver and darkling,
Dragonwing, dragonwing.
Loosened were my strings bound to the flight,
I fell from the edge and into the blight.
As it will be for every living thing,
Dragonwing, dragonwing.
***