Það leið ekki á löngu þar til við stóðum fyrir framan hurðina hjá Eysteini, klukkan þrjú um nóttina. Nathan hafði samt hringt á undan.
Nathan bankaði á hurðina og stuttu seinna kom Eysteinn til dyra. Klæddur en greinilega enn krumpaður eftir svefninn. Það mátti sjá Ísabellu fyrir innan á náttbuxunum að laga til kaffi.
-Komið inn fyrir, sagði Eysteinn og opnaði hurðina betur.
Ég kinkaði kolli til Péturs sem sat á eldhúsborðinu og gekk inn í íbúðina.
-Hvað kemur til að við þurfum að gera þetta núna? Klukkan 3…um nótt? spurði Eysteinn á meðan við klæddum okkur úr áhöfnunum og dustuðum af okkur snjóinn.
-Við getum ekki tekið áhættuna á því að Nathan geti verndað mig allan daginn. Svo vill til að ég er komin með allar þær upplýsingar sem við þurfum til þess að losna við Grím og ég vildi helst losna við hann í gær, sagði ég.
Eysteinn leit út um gluggann og andvarpaði. –Ég vildi óska þess að við þyrftum ekki að gera þetta, það endaði ekki vel seinast…
Nathan tók í öxlina á honum hughreystandi. –Þetta fer allt vel í þetta skipið.
Eysteinn kinkaði hægt kolli en virtist ekki vera sannfærður.
-Kaffi? spurði Ísabella fram úr eldhúsi sem fékk drengina til þess að færa sig lengra inn. Ég dró djúpt andann, ég átti von á að losna við þennan meinvald úr lífi mínu í einn skipti fyrir öll.
Þremenningarnir komu loksins innan úr eldhúsi með kaffi við höndina og Nathan rétti mér rjúkandi heitan bolla. Við fengum okkur sæti í sófunum í stofunni og drukkum kaffið nokkra stund í þögn. Ég var vanalega hrifnari af heitu súkkulaði en þegar þreyta næturinnar lá á manni eins og mara sagði ég ekki nei við kaffibolla.
Ísabella rauf þögnina. –Hvað gerum við nú?
Eysteinn leit yfir hópinn. –Þetta er erfiður draugur sem við erum að takast á við hérna og þetta verður erfið athöfn, bæði líkamlega og andlega á okkur, og gæti skaðað okkur illa ef þetta fer á versta veg.
Ég kinkaði kolli, þetta var áhætta sem allavega ég var tilbúin til að takast á við.
-Ég var búinn að lofa því að ég myndi taka þessa ábyrgð á mig og mun standa við það, sagði Eysteinn- En þú Ísabella hefur enga ástæðu til þess að taka þátt í þessu og mér liði miklu betur ef þú myndir halda þig utan þess.
-En…ég get hjálpað! sagði Ísabella.
-Eysteinn hefur rétt fyrir sér, hjálp þín er vel þeginn en það er ekki þess virði að leggja líf þitt í hættu, sagði Nathan.
Ísabella kinkaði kolli. –Jæja þá…
-Hvernig fer þetta fram? spurði ég Eystein.
Eysteinn útskýrði það í stuttu máli en fór ekki út í öll smáatriði athafnarinnar. Ég hætti næstum við miðað við það sé ég þurfti að gera. Eftir nokkurn tíma sá ég samt fram á að þessi fórn var eitthvað sem ég var tilbúin að gera. Ef það þýddi að Grímur myndi hverfa af yfirborði jarðar.
Það var komið að því. Við gengum á eftir Eysteini og fórum niður í kjallara hjá honum. Þetta var stór kjallari, með nokkrum bókahillum og borðum en annars ekki mikið af dóti eða húsgögnum hérna niðri. Það var sprungið steingólf og aðeins einn lítinn gluggi í einu horninu sem vísaði út á garð.
-Hvernig gerum við þetta nákvæmlega? spurði ég kvíðin,þessi athöfn var alvarlegri en ég bjóst við í upphafi.
-Í fyrstu þurfum við að kalla Grím til okkar, sagði Eysteinn á meðan hann var að róta í einum af skápunum hérna niðri og dró fram steinskálar, kerti og flugbeittan hníf.
-Við verðum að kalla á hann en einnig passa upp á það að hann geti ekki skaðað okkur á meðan á þessu stendur, sagði Eysteinn og leit á Nathan sem kinkaði hægt kolli.
Með því byrjaði athöfnin.
Eysteinn tók fram nokkur kerti og raðaði þeim um hverbergið eftir sérstakri uppröðun sem hann einn þekkti og kveikti og hverju og einu með langri eldspýtu meðan hann muldraði eitthvað með sér. Ég og Nathan stóðum róleg á meðan hann vann sitt verk. Mér var hugsað til Theiu, Eysteinn virtist ekki búa yfir neinum hæfileika en hann virtist búa hinsvegar yfir mikilli vitneskju sem var það sem gaf honum kraft. Pétur kom niður af efri hæðinni og kom sér fyrir í einu horninu og fylgdist áhyggjufullur með bróður sínum.
Loks tók Eysteinn fram skál og blandaði nokkrum tegundum af hinum og þessum laufum saman og muldi þau niður, tæran vökva úr kristalflösku og loks tók hann upp hnífinn sem hann hafði verið að handfjatla áður. Hann greip í haftið og með snöggri hreyfingu skar hann á innanverðan lófann á sér sem fékk mig til að taka andköf.
-Hvað ertu eiginlega að gera? spurði ég ekki viss um að hann væri með fullu viti.
-Þetta er stór partur af athöfninni og skiptir einnar helstu máli af því að án fórnar af blóði mun hringurinn ekki vernda okkur eins og ætla væri.
Nathan gekk að Eysteini og Eysteinn tók einnig í höndina á honum og skar í lófann á honum og báðir létu ótrúlega rautt blóðið renna niður í skálina og blandast við efnin þar. Augnablik fannst mér sem eldur rynni um innihald skálarinnar en það hvarf eins fljótlega og það birtist.
-Hvers vegna Nathan en ekki ég?
-Vegna þess að í rauninni þarf Eysteinn bara að gera þetta, svaraði Nathan. –En með mitt blóð gefur það einnig aukna vörn þar sem ég er með mitt ónæmi gegn öndum hins heimsins.
-En hvers vegna ekki ég? spurði ég aftur.
-Af því að þú þarft seinna að færa fórn eins og við ræddum áður, sagði Eysteinn. –Þú getur aðeins fært eina blóðfórn í þessari athöfn.
Ég minntist þess sem Eysteinn hafði sagt við mig áðan og hryllti mig við því. En kinkaði kolli til hans til þess að sýna fram á að ég skyldi hann.
Eysteinn tók upp skálina og dýfði tveimur fingrum ofan í innihaldið og byrjaði að teikna stóran hring á steingólfið á meðan hann fór hægt með einhver orð, hvort sem það var sálmur eða særing. Rautt blóðið litaði gólfið og um leið og hann teiknaði hringinn skrifaði hann rúnir meðfram línunum. Loks þegar hann gerði síðustu rúnina, síðustu línuna spenntist andrúmsloftið hérna inn í kjallaranum. Rautt letrið á gólfinu lýstist allt upp en dofnaði svo hægt niður aftur eins og gömul glóð.
-Hringurinn er settur, sagði Eysteinn lágt og fyllti loftið aðeins af meiri spennu.
Eysteinn settist fyrir framan hringinn og benti okkur Nathan að gera slíkt hið sama. Hann lagði skálina frá sér og tók upp aðra og kveikti á þrem litlum hvítum kertum og lagði þau í þríhyrning fyrir framan sig. Hann tók fram minni skál og blað sem ég hafði hjálpað honum að skrifa á áðan. Blaðið bar nafn Gríms og ég hafði þurfti að skrifa nafn hans niður meðan ég sá hann fyrir mér. Það hjálpaði að festa nafnið við rétta manneskju. Ásamt nafninu voru rúnastafir og tákn sem Eysteinn hafði gert eftir á.
Hann byrjaði að kveikja á kertunum á meðan blaðið lá í skálinni.
-Grímur Játvarðsson ég kalla þig á þennan fund.
Eysteinn hélt áfram að kveikja á kertunum, einstaklega rólega, eins og hann hefði allan tíman í heiminum.
-Grímur Játvarðsson, ég kalla þig á þennan fund.
Kertin voru kveikt og loguðu glatt, óvenjumikið miðað við svo smá kerti. Loks tók Eysteinn blaðið upp og lagði eld að því frá kertinu sem sat við miðju.
-Grímur Játvarðsson, ég kalla þig á þennan fund.
Blaðið fauk upp í eldinum og Eysteinn sleppti því snögglega í skálina.
Svo var þögn. Þrúgandi þögn, ekkert heyrðist, ekkert bærðist.
En þá byrjuðu rúnirnar á gólfinu að lýsast upp aftur, fyrst rólega en loks mjög skært rétt eins og þær sjálfar væru logandi eldur. Sterkur vindur fyllti herbergið sem feykti hárinu á mér út um allt og eitthvað dökkt byrjaði að myndast innan hringsins. Hringurinn var gerður fyrir tvo hluti, hafði Eysteinn útskýrt fyrir mér áður, hann bæði hélt því sem við vorum að kalla á innan hringsins og hélt mætti Nathans utan hringsins sem gerði það að verkum að við gátum neytt Grím og Nathan til að vera í sama herbergi. Einnig með því að ákalla hann svona þá gátu allir þeir sem voru hluti af athöfninni séð Grím jafn greinilega og ég.
Stuttu seinna tók dökka efnið form og Grímur stóð þarna. Hann brosti þegar hann sá mig og ætlaði að ganga í átt til mín en rúnirnar fuku upp og hann gekk á ósýnilegan vegg.
Eysteinn andaði léttar þegar hann sá að hringurinn virkaði.
-Hvaða kukl er þetta sem þið hafið hér? spurði Grímur og hallaði höfðinu aðeins eins og honum væri skemmt.
-Kukl sem á eftir að senda þig þar sem þú átt heima, sagði ég kalt.
Eysteinn sagði ekkert heldur hélt áfram með verk sitt. Hann færði skálarnar úr vegi og tók fram krít og teiknaði fimmhyrning á gólfið fyrir framan sig. Hann tók fram ný kerti, fimm svört kerti sem hann lagði í hvert hornið á fimmhyrningnum. Eysteinn byrjaði að kyrja nýjar þulur.
-Ekki haldið þið virkilega að þetta galdradót eigi eftir að gera nokkurt gagn? spurði Grímur en þó mátti sjá smá óvissu í augum hans.
Nathan leit beint á Grím. –Ég mun að minnsta kosti aldrei þurfa að horfa framan í þig aftur.
-Það ertu þú sem hefur alltaf verið að trufla tengsl mín við Elísabetu hérna, sagði Grímur. –Þú minnir mig óþægnilega mikið á manneskju sem ég þekkti fyrir löngu síðan…
Nathan hinsvegar kannaðist ekkert við það en það fékk mig til að líta á Grím. Sá hann það líka? En ég hafði ekki langan tíma til að velta mér upp úr löngu horfnu lífi. Ég þurfti að fórna sjálfri mér.
Eysteinn var búinn að loka litla fimmhyrningnum með kertum og skál í miðjunni þar sem hann enn aftur hafði blandað efnum út í og það logaði lítillega í skálinni líkt og það væri glóð þar að leik.
Maginn á mér herptist saman i kvíða, ég vildi alls ekkert gera þetta. En það var góð ástæða fyrir þessu. Eins og Eysteinn hafði útskýr fyrir mér áðan.
-Ertu tilbúin? spurði Eysteinn og leit á mig stórum augum.
Ég kinkaði hægt kolli og Nathan tók í öxlina á mér.
Eysteinn tók upp stóran hníf sem var nær því að vera exi en hnífur og virtist vera flugbeittur. Ég kraup niður og Nathan tók fast í höndina á mér og hélt mér fastri. Það sem Eysteinn hafði verið sagt áður var:
-Þú ert ástæðan fyrir því að hann er fastur í þessum heimi, hann sækist eftir dauða þínum, þannig að þú verður að gefa athöfninni eitthvað sem er hluti af þér. Stór hluti af þér, það sem við köllum í rauninni lítinn dauða, þótt það verði ekki þú sjálf sem deyrð heldur hluti af líkama þínum.
Ég greip ósjálfrátt í höndina á Nathan og kreisti hana fast. –Áttu við að ég þurfti…að gefa upp líkamspart af sjálfri mér?
Eysteinn kinkaði hægt kolli. –Já, en það er ekki eins slæmt og þú heldur, við þurfum ekki að taka af þér höndina eða eitthvað…hluti af fingri ætti að nægja.
Mér fór að verða óþægilega heitt. –Hluta af fingri?!
-Ég er hræddur um það, sagði Eysteinn. –Það þarf bein, hold og blóð til að þetta virki.
Ég stóð snögglega upp. –Það getur ekki verið! Þú ert að búa þetta til, sagði ég hátt. Ég strunsaði að dyrunum. Ég ætlaði ekki að skera af mér puttann í einhverri heimskulegri athöfn!
Hinsvegar hugsaði ég minn gang og þeir náðu að sannfæra mig og þetta var eina lausnin. Ef ég losnaði við Grím var þetta ekki svo mikið mál, hversu mikið notar maður litla puttann hvort eð er?
Þetta hugsaði ég hinsvegar ekki þegar Eysteinn stóð yfir mér með öxina.
-Hvað eruð þið vitleysingarnir eiginlega að gera? spurði Grímur þarna einhverstaðar.
Eysteinn lyfti öxinni og ég barðist gegn Nathan en hann hélt mér fastri og hendinni örugglega.
-Nei, nei ég er hætt við, ég vil ekki gera þetta! sagði ég um leið og öxin leitaði niður.
Augnablikið áður en beitt blaðið féll á hold mitt var undarlega…tómt. En við tók hvítblossandi sársauki, Nathan sleppti mér og ég öskraði hærra en ég vissi að ég gæti. Nathan tók strax upp grisjur til að stoppa blæðinguna frá fingrinum á mér sem var að gera fötin mín vot af blóði. Ótrúlegt hvað blæðir úr fingrunum.
Eysteinn leit frekar grænn út en hann tók upp litla bútinn, eða öllu heldur fremstu kjúkuna á litla fingri vinstri handar. Hann henti puttanum ofaní skálina og skyndilegur reykur gaus upp úr skálinni og ég hætti að hugsa um sársauka minn. Ótrúleg alda af undarlegri orku þaut um herbergið og fyllti mig af ótta. Eysteinn stóð upp og gerði krossmark í loftinu í átt að Grími og þuldi svo upp einhverjar særingar á tungumáli sem ég held að hafi verið latína. Eldur kviknaði í skálinni og hann brann í takt við áherslurnar í særingum Eysteins. Hann byrjaði að svitna og skjálfa meðan eldurinn logaði og rúnirnar í hinum lokaða hring byrjuðu að lýsast upp. Pétur gekk að Eysteini og tók í axlirnar á honum eins og til að veita honum styrk, sem ég efaðist ekki um að hann gæti.
Ekkert af þessi virtist hafa haft áhrif á Grím þar til skyndilega byrjaði hann að öskra hvort sem það var af ótta eða sársauka.
-Hættið þessu, hættið þessu! æpti hann.
Ég skildi ekki hvað hann var að óttast í fyrstu en rauðleitar línur byrjuðu að myndast fyrir neðan fætur hans og skyndilega virtist galtómt myrkur opnast fyrir neðan hann. Eða ekki alveg galtómt, mér fannst sem stjörnur liðuðust um þar í hvaða undarlegu vídd sem þarna opnaðist. Hann leit reiðilega á mig en eins kjánalegt og það var þá veifaði ég bara til hans. Myrkrið tók hann loks og hvarf jafn snögglega. Litur rúnanna dó og þær voru bara vökvi á gólfinu á ný. Þetta var búið.
Við sátum í þögn nokkra stund.
-Hvað ef við sendum hann á vitlausan stað? sagði ég loks.
Eysteinn hristi hausinn. –Það ætti ekki að gerast, hann fór þangað sem hann átti að fara beint eftir dauðann. Við ýttum honum bara yfir línuna sem hann neitaði að fara yfir.
Ég stóð upp og gekk til Eysteins og leit í skálina. –Ekki er puttinn minn þarna ennþá?
Eysteinn gat ekki annað en hlegið. –Nei ég er hræddur um að hann sé löngu brunninn til ösku.
Ég leit á Nathan og við enduðum með því að skellihlæja líka. Þetta var búið. Loksins.
Ég og Nathan stóðum í dyrunum enn á ný, komin aftur í yfirhafnirnar okkar.
-Ég veit ekki hvernig ég get þakkað þér nóg, hvernig get ég launað þér fyrir þetta? sagði ég brosandi en þreytan farin að læðast aftan af mér.
-Ég er viss um mér muni detta eitthvað í hug, sagði Eysteinn og hló. –En það er mitt hlutskipti að vernda þá sem ég get með visku minni.
Ég brosti og kinkaði kolli.
Nathan faðmaði Eystein í kveðjuskyni og við veifuðum til Ísabellu fyrir innan.
-Drífið ykkur nú og látið laga þennan fingur, sagði Eysteinn
Ég kinkaði kolli og við drifum okkur upp í bíl og keyrðum af stað. Ég hélt grisjunni fast upp að blóðugum fingrinum sem ætlaði ekki að hætta að lita hvíta grisjuna fagurrauða. Sásaukinn var ekki eins nístandi og í fyrstu heldur nú stöðugur í takt við hjartsláttinn minn.
-Við erum alveg að koma upp á spítala, sagði Nathan hughreystandi.
-Ég er farin að vera of mikið þar upp á síðkastið, sagði ég. –Sem betur fer er mamma ekki í bænum…hvað á ég eiginlega að segja að hafi gerst?
-Segðu bara að þú hafir verið að skera þér epli eða eitthvað og brugðið við og hnífurinn lent á fingrinum, sagði Nathan með augun á hálum veginum.
-Það er rétt, víst ekki erfiðara en það finna upp á einhverri lygi, sagði ég.
-Jah, ég held að í þessu tilviki sé auðveldara að útskýra lygina en sannleikan: ég skar af mér puttann í ævafornri athöfn til þess að losa mig við draug. Hvernig hljómar það?
Ég hló í gegnum sársaukann.
-Ég vildi annars þakka þér, sagði ég sem fékk Nathan til að líta snöggt á mig. –Án þinnar hjálpar hefði ég aldrei komist svona langt…Hvað þá losnað við Grím.
Nathan brosti. –Ekkert að þakka, það er skylda mín að hjálpa þeim sem eru jafn stórskrítnir og ég.
Við komum loks upp á spítala og drifum okkur inn á bráðamóttökuna. Þar fyrir innan var starfsfólk sem var fljótt að taka í taumana enda lak óþægilega mikið blóð úr fingrinum á mér. Kvenkyns læknir tók við mér og var fljót að lýta á sárið, deyfa mig og byrja að gera að því með saumum. Hún gaf mér lyfjaseðil upp á pensilín og svo loksins mátti ég fara heim.
Ég var mjög þreytt eftir ágengi næturinnar, aum í líkamanum og þó sérstaklega fingrinum sem vantaði nú að eilífu eina kjúkuna á. Ég dottaði í bílnum og skyndilega vorum við fyrir utan hjá mér.
-Viltu að ég fylgi þér inn? spurði Nathan.
Ég hristi hausinn. –Þetta er allt í lagi. Ég er bara þreytt.
Ég þakkaði honum aftur fyrir allt saman og steig út í hvítan snjóinn. Það tók mig smá stund að fiska eftir lyklunum mínum en loks fann ég þá og snéri mér við og veifaði Nathan. Hann veifaði til baka og keyrði svo af stað. Ég gerði mér skyndilega grein fyrir því að ég vissi ekki hvort ég myndi nokkurn tíman sjá hann aftur.
Loks komst ég inn og upp í rúm og svaf friðsælasta svefni í mörg ár.
Ég gekk inn í fallegu setustofuna eins og svo oft áður, en litirnir voru örlítið kaldari núna þar sem snjórinn lá yfir garðinum. Theia sat í þykkri peysu í sófanum og horfði á mig stórum augum koma inn.
-Ánægjulegt að sjá þig aftur Elísabet, margt hefur breyst.
Ég kinkaði kolli. –Ég er tilbúin að læra á hæfileikann minn.
Theia kinkaði hægt og brosti til mín.
Ég fékk mér sæti.
kveðja Ameza