Hafið þið tekið eftir því hvað skrifaðar sögur byrja alltaf stirðlega. Ein stirð setning út í bláinn og svo punktur. Næsta setning meikar pínu meira sens en bara pínu. Og svo koma þær ein af annarri og sagan fer að flæða betur. Allir rithöfundar eru eins og nývaknaðir spýtukarlar í byrjun á hverri sögu; góðir rithöfundar kunna að njóta þess, taka nokkrar léttar teygjur og fara svo á flug.
Svona fyrst að við erum orðin pínu heit þá er tvennt í viðbót um góðar sögur sem ég vil nefna… nei þrennt: Í fyrsta lagi þá vil ég meina að allar góðar sögur séu smásögur. Gerið ykkur bara í hugarlund hvernig sögur eru út í raunveruleikanum, sögur úr lífinu fjalla um einnhvern atburð og eitthvað fólk, verða að hafa punchline og mega ekki vera lengri en svo að þú getir haldið athygli fólksins við borðið í meira en mesta lagi einn kaffibolla. Langar sögur eru alltaf margar sögur; ef það er góður mórall og nógur tími, eins og kannski í bílferð norður á Akureyri, þá getur vel verið að maður treysti sér að lengja aðeins söguna. En það gerist iðulega á sama hátt: “En bíðið aðeins! Sagan er ekki búin:D Tveimur árum seinna fórum við aftur til útlanda, nema í þetta skiptið til Spánar, og getið hver voru á sama hóteli…” Ný saga. Sama sagan.
Annað sem ég vildi minnast á er að góðar sögur fjalla alltaf um rithöfunda. Það er líka allt í lagi, því rithöfundur lifir yfirleitt mjög áhugaverðu lífi. Höfundurinn að þessari smásögu situr t.d. á bekk í Central Park í New York og skrifar þetta! Pretty awesome, right? Það er engin hópur í samfélaginu sem lendir í jafnmörgum ævintýrum og rithöfundar.Sagan er alltaf um mig og hefur alltaf verið um mig.
Þriðji mikilvægi punkturinn um góðar sögur er að þær eru alltaf upplognar. Þær eru alltaf um alvöru fólk í skálduðum aðstæðum. Í raunveruleikanum gerist bara hrúga af stöffi og það er hvergi mælir sem segi þér hvað er merkilegt og hvað ekki, allt er í raun bara jafn merkilegt og allt annað, þ.e.a.s. þangað til þú ferð að fantasera. Fjórði og síðasti punkturinn: There is always a girl <3
Þetta eru reglurnar að góðri sögu og í þessari sögu set ég reglurnar og þetta er góð saga. Ég er í New York og ég sá hund í dag í andyrinu á farfuglaheimilinu sem ég gisti á. Fólk er mishrifið af hundum og ég er ekki mikil hundamanneskja en þessi var virkilega fallegur. Ég tók sérstaklega eftir því útundan mér hversu vel hann bar sig. Ég sat í tölvunni og býsnaðist yfir mikilvægum hlutum en hann sat á teppinu og virtist vera að hlusta á tónlistina. Á leiðinni út úr gistiheimilinu og út í borgina íhugaði ég hvort ég ætti að klappa honum en afráð að gera það ekki. Núna sit ég hérna í garðinum og horfi á frosið vatnið og auð tréin og hugsa um þennan hund.
Punchline-ið er að auðvitað var þetta engin hundur heldur stelpa. Hún gistir á sama hóteli í kvöld og næst þegar ég hitti hana þá mun ég tala við hana og við munum fá okkur kaffibolla þar sem ég mun segja henni kannski eina eða tvær góðar sögur. Kannski þessa. Og þessar vikur í New York verða allt öðruvísi og eftirminnlegri en ég bjóst við fyrirfram. Svona hikar maður ekki við að skálda til þess að gera sögu góða.