Það eru stórir partar af lífi mínu sem ég man ekki eftir. Þótt ég sé aðeins 19 ára finnst mér ég vera svo fullorðin. Ég er elst systkina minna, bróðir minn er 15 og systir mín er 5 ára. Við erum öll góðir vinir. Það má segja að heimili okkar sé fullt af hamingju, mamma og pabbi eru hamingjusöm, við erum hamingjusöm. Nei nú er ég að rugla, ég er að tala í nútíð. Við VORUM hamingjusöm. Fyrir stuttu.
Þegar ég var 14 ára voru strákar farnir að horfa á mig öðruvísi en ég var vön og ég eignaðist minn fyrsta kærasta. Hann var eldri en ég og drakk og öllum fannst hann svo sætur og töff. Sambandið var fullkomið, nema hvað ég vildi ekki sofa hjá strax. Ég var bara ekki tilbúin. En eina nóttina í útilegu með vinum okkar varð hann fullur og við tókum göngutúr útí skóg. Við gerðum ýmislegt þetta kvöld, nema sofa saman. Hann fékk nóg og hrinti mér niður, neyddi mig úr buxunum og þrýsti sér inn. Þetta var mín fyrsta og kynlífsreynsla.
Eftir að ég var hætt með kærastanum mínum tók við mikið sjokk. Ég áttaði mig á því að mér hafði verið nauðgað. Ég fór að drekka og sofa hjá hinum og þessum, og þegar ég var 15 prufaði ég að reykja hass. Hassið leiddi smám saman útí harðari efni , og stuttu eftir 16 ára afmælisdaginn minn var ég flutt að heiman, bjó hjá fólki sem ég hélt að væru vinir mínir. Líf mitt snerist um að fá næsta skammt. Ég fór að sjá fólk hrynja niður í kringum mig, vinir mínir dóu hver á fætur öðrum. Ég vildi ekki deyja svo ég fór sjálfvilgjug í meðferð.
Ég var edrú í 13 mánuði. Það voru hamingjuríkustu 13 mánuðir lífs míns. Ég bjó hjá mömmu og pabba og systkinum mínum, gekk í skóla eins og flestir jafnaldrar mínir, tók bílpróf, fór í ferðalög og leyfði mér margt. Of margt. Eftir þessa 13 mánuði drakk ég einn bjór. Allt fór niðuráleið eftir það. Í þetta skiptið byrjaði ég ekki á hassinu heldur fór beint útí hörðu efnin. Ég var ekki orðin 18 þegar ég var orðin sprautufíkill. Ég lá á botninum og sá enga leið upp. Enginn kom til bjargar. Ég fékk seinna að vita að margir reyndu að koma til bjargar en enginn náði sambandi við mig. Ég var símalaus, með engan aðgang að tölvu, heimilislaus. Ég var horfin.
Aftur tók ég ákvörðun um að snúa blaðinu við og hefja nýtt líf. Ég fór með erfiðleikum aftur í meðferð en hélst ekki lengi inni. Ég fór aftur og aftur inn og nokkrum mánuðum seinna varð ég edrú. Ég flutti aftur til foreldra minna og hélt uppá 19 ára afmælið mitt heima með nokkrum vinum og fjölskyldu. Viku seinna féll ég, degi síðar var ég horfin, mánuði síðar kom dánarfregnin í Morgunblaðinu.
Þeir partar sem ég man ekki eru partarnir sem ég vil ekki muna. Það er ekkert ljótt í himnaríki og ég get gleymt því sem ég vil. Ég ákvað að gleyma myrkustu pörtum neyslu minnar. Ég man ekki einu sinni hvernig ég dó. Opinber dánarorsök var hjartastopp sökum ofnotkunar svefnlyfja. Hljómar svosem líklegt, hvort sem það var viljandi eða ekki.
Himnaríki er ágætt, mér líður vel hérna. Ég rekst á marga krakka eins og mig daglega og við ræðum lífið og tilveruna, hvað við sjáum eftir og hvað við vildum gera aftur. Ég fylgist með fjölskyldu minni takast á við missinn, ég horfði á eigin jarðaför. Ég get ekki ennþá áttað mig á því hversu erfitt þetta var fyrir foreldra mína, að horfa uppá fíknina éta mig innan frá, fyrir systkini mín að sjá systur sína hrynja í sundur sökum næringarsskorts.
Margir lifa þetta af. Margir fara í meðferð og ná sér. En margir deyja.
Ég dó.