Hvítklæddu mennirnir þrír ganga burt frá drengnum sem engist um á jörðinni og öskrar af sársauka, til föður hans sem stendur álengdar, enn með bakið í son sinn og bítur fast í fingurna.
„Herra Cretítos , þér verður gert að greiða háa sekt fyrir þetta”, sá næstum hvíthærði skapar skrifblokk í lausu lofti og grípur hana fimlega, strangur á svip.
Drýgindalegi maðurinn að nafni Cretítos snýr sér í áttina að embættismanninum, andvarpar mæðulega og spyr:„Þá það, hver er sektin að þessu sinni?”
Þungbrýnn les Crettor upp af blokkinni og fleiri orð bætast við eftir því sem hann les lengra:„Þú átt að skapa fjögurhundruð þúsund kassa fullum af glansandi rauðum og safaríkum eplum…”
Herra Cretítos yppir öxlum, smellir fingrum og samstundis birtast fjögurhundruð þúsund kassar fullir af eplum sem glansar af. Eftir fyrirhafnarlausu sköpunina, setur hann í brýnnar og krossleggur hendurnar yfir brjóstkassann, ergilegur á svip:„Var það eitthvað fleira?”
Æð þrútnar á enni Crettors sem hreytir út úr sér:„Já, að lokum áttu að skapa alla níu árganga tölublaðsins Ó, mama! Það hlakkar í honum þegar hann sér hræðslusvipinn á herra Cretítos og að hárið hans fer allt upp í loft eins og hjá tortímanda.
„Ó, mama? En er það ekki..umm svolítið gróft blað. Ég á við virkilega gróft blað.” Kökkur myndast í hálsi hans, hann togar í grasgræna skyrtuhálsmálið á sér og roðnar upp í hársrætur. Cren kinkar kolli hæstánægður á svip, eins og sá sem hefur rétt í þessu heyrt minnst á uppáhalds bókina sína en Crel gerir það þungbúinn á svip.
„Jú,” Crettor glottir grimmilega og heldur áfram að lesa upp frá blokkinni:„Þú mátt fyrir enga muni sleppa tölublaði númer sex frá árinu sexhundruð sextíu og sex sem var bannað af æðstu sköpurum þess árs, vegna þess að það var talið allt of gróft og alls ekki gleyma að raða þessu öllu í rétta tímaröð.”
Herra Cretítos lokar augunum, beinir höndunum fram fyrir sig og gerir eins og embættismaðurinn skipar. Níu tímaritastaflar birtast og á öllum fremstum forsíðum er að sjá klæðalitlar konur í vafasömum stellingum. Cretítos forðast að líta á myndirnar og spyr eldrauður í framan:„Hvert á að senda þetta allt?”
„Til Sunrise Hope,” svarar Crettor honum kuldalega, sleikir fingur og flettir um síðu í blokkinni.
„Til guðsins sjálfs!” Herra Cretítos stekkur upp og bendir til himins:„Hvers vegna þarfnast hann svona mikið af eplum og þessara sóðalegu blaða?” Það fer hrollur um hann þegar hann reynir að gera sér í hugarlund hvað gamli guðinn hyggist fyrir með öllu þessum hlutum.
Cren reynir að stela blaði númer sex frá árinu sexhundruðsextíu og sex úr bunkanum án þess að nokkur yrði þess var, en er neyddur til þess að skila því samstundis til baka og brosir vandræðalegur á svip undir hvössu augnaráði Crels og Crettors, sem segir svo kuldalega við herra Cretítos:„Það veit ég ekkert um og kemur mér ekkert við. Sendu þetta á stundinni, annars hækkar sektin.”
Herra Cretítos missir kjálkann, hristir höfuðið yfir þessu öllu saman, beinir höndunum að eplakössunum sem takast á loft, fljúga áleiðis að sjávarbláa múrnum og taka svo stefnuna á sólargult hliðið. Ljóshærði eldri maðurinn í varðturninum skoðar kassana vandlega með augunum einum saman og opnar svo hliðið. Við opnunina kemur mikill vindgustur sem feikir hárinu á embættismönnunum og herra Cretítos ásamt því að þeir eiga erfitt með að standa í fæturnar. Embættismennirnir þrír halda allir fast í húfurnar sínar.
„Flýttu þér að senda afganginn af sektinni!” Öskrar Crettor gegnum rokið. Gulur eyðurmerkursandur fýkur inn með vindinum sem gerir það að verkum að mennirnir neyðast til að loka augunum, en herra Cretítos var nú þegar með lokuð augun vegna skammarlegu tölublaðanna sem hann sendir með hraði út um opið hliðið. Um leið og síðasti staflinn er kominn í hvarf, lokast hliðið með miklum látum og fyrir innan skellur aftur á dúnalogn. Embættismennirnir og herra Cretítos anda léttar. Þeir dusta af sér sandinn og herra Cretítos brosir feginslega til Crettors en hann svarar með því að grípa blokkina á lofti og segja:„Það er hreint ekki allt búðið, herra Cretítos. Ég á eftir að lesa upp ástæðuna fyrir sektinni.”
Stynjandi sveiflar herra Cretítos höndum upp í loft:„Ég hefði haldið að þú ættir að byrja á að segja mér fyrir hvað sektin er en ekki á eftir!!“
En Crettor hunsar athugasemdina og þylur upp af blokkinni:„Það er stranglega bannað að skapa tortímendur án þess að fá leyfi og sérstaklega á þessu svæði, nánar tiltekið svæði 8 og alls ekki á destroynítadegi . Það boðar á illt að gera það. Ef þú vilt endilega skapa á þeim degi, verður þú að fá leyfi.”
„Já, ég veit. Ég asnaðist til að gera þetta vegna þess að töframaðurinn fór svo í taugarnar á mér. Ég þoli ekki þegar mennskir mannapar koma inn á okkar svæði og halda að þeir séu eitthvað merkilegri en við.” Herra Cretítos snýr sér í áttina að embættismönnunum og ætlast til að þeir taki undir með honum.
„Einungis þrír skráðir tortímendur eru og mega vera á svæði 8. Hálfi tortímandinn Anna Fíl Destroyer, hálfi tortímandinn og skaparinn Lína Afternoon Descre og ofuröflugi tortímandinn Destroy Afternoon Destroyer. Það sem meira er, tortímandinn sem þú skapaðir fór yfir mörkin. Það mega alls ekki vera fleiri tortímendur en skaparar, skilurðu það, herra Cretítos,” segir Crettor, skapar penna, párar eitthvað niður í blokkina og hunsar það sem herra Cretítos sagði.
Herra Cretítos ranghvolfir í sér augunum og hristir höfuðið yfir að maðurinn skuli tala eins hann hafi ekki sagt neitt. En hann er vanur því frá embættismönnum æðstu skaparanna svo hann andvarpar og segir:„Ég veit þetta allt. Þetta voru heimskuleg mistök…”
Kuldalega embættisröddin breytir skyndilega um tón og verður öskureið:„Heimskuleg mistök! Ég skal segja þér það, að ef einhver annar en þú hefðir framið þessi heimskulegu mistök..FÆRI HANN BEINUSTU LEIÐ Í FANGELSI! Þar sem hann yrði tekinn af lífi nánast samstundis,”Crettor klemmir augun og gnístir saman tönnum:„En þar sem þú ert einkasonur herra Cretes Rís Fíl Creator , virðulegasta vinar og hæstvirtasta embættismanns æðstu skapara, þarft þú aðeins að borga eina litla sekt (Herra Cretítos mótmælti að hér hefði verið um að ræða litla sekt en næstum hvíthærði embættismaðurinn hunsar athugasemdina) og mæta á einn lítinn fund hjá æðstu sköpurunum. Ætli þér verði ekki boðið upp á te, eða eitthvað slíkt…” Crettor hendir höndunum upp í loft og ygglir sig framan í herra Cretítos.
Herra Cretítos ber hendurnar fyrir sig og hörfar frá honum:„Það er nú alveg óþarfi að bregðast svona við. Ég sagði þér að ég gerði aðeins…”
„Heimskuleg mistök.” Líkur Crettor setningunni ergilegur fyrir hann og heldur áfram, veifandi ásökunarfingri framan í hann:„Veistu hvað margir skaparar og tortímendur eru til. Níuhundruð og þrjátíu skaparar og níuhundruð tortímendur.”
„Þá er nú ekki eins og einn tortímandi hafi bætt miklu við..”
„Ég er ekki að telja hálfu skaparana og tortímendur né æðstu skapara og æðstu tortímendur. Hvað þá alla þá sem eru staddir í varðturnunum umhverfis borgina.”
„Ó.”
„Já, einmitt. Ég taldi aðeins þá sem eru fyrir innan borgina með fulla krafta og þeir eru þrjátíu tortímendum frá því að verða jafn margir og við skapararnir. Þeir mega aldrei verða fleiri en við, annars geta þeir gert uppreisn. Það er alveg nógu slæmt að einn andspyrnuflokkur skuli vera til þarna úti, sem gerir lítið annað en að bíða eftir öðrum meðlimum. Einn daginn verða þeir nógu margir og öflugir og þá skaltu ekki voga þér að endurtaka að þetta hafi verið einhver heimskuleg mistök Mér hryllir við hvað myndi gerast ef þeir fengu HANN til að ganga til liðs við sig..” Líkur hann setningunni með ísköldum rómi.
„Hann?”
„Aðaltortímandann. Þann sem er öflugri en allir æðstu skaparar og tortímendur til samans. Hann sem er sagður vera jafn máttugur og guðinn sjálfur.”
„Ó, hann, Cretítos kinkar kolli ánægður á svip yfir að muna við hvern er átt en svo er eins og eldingu slái niður í hann og hann grípur um höfuðið:„Hjálpi okkur guðinn! Og hvar er aftur…þessi aðaltortímandi?” Fyrst um sinn er eins og Crettor trúi ekki að hann hafi spurt að hlut sem hann hélt að allir vissu um, fyrir utan eina manneskju en svo svarar hann kaldri röddu:„Innilokaður en það er aðeins tímaspursmál hvenær hann sleppur út.”
„Af hverju segirðu það?”
„Vegna þess að hann er aðeins inni vegna tæknilegs smáatriðis.”
Áhrifamikil þögn fylgir orðum Crettors þar til herra Cretítos grípur um öxl embættismannsins sem setur í brýnnar og spyr:„Hvað í hellamanía ertu að gera?”
„Guðinn góður! Heyrðirðu þetta?” Herra Cretítos herðir takið um öxl Crettors og starir í augu hans:„Heldurðu að þetta geti verið hann?”
„Skapa til að eyða. Skapa til að taka burt. Skapa til að koma í veg fyrir að draumar rætist,” sönglar lág rödd fyrir ofan þá án eiganda.
„Ég sé ekkert,” segir Crettor og lítur upp í loftið. Röddin heldur áfram og hækkar róminn svo að þeir greina að hún er komin enn nær þeim:„Skapa til að gera árás. Skapa til að stela. Skapa til að fólk hætti að hugsa sjálfstætt.”
Hvítt hár Crettors missir þann litla lit sem eftir er. Hann lítur á herra Cretítos og í fyrsta sinn má greina hræðslu í augum hans:„Þetta er ekki hann. Þetta er miklu verra.”
Há öskur heyrast að baki þeim þegar Crel og Cren eru slegnir niður sem virðist með ósýnilegu afli. Það eina sem er greinilegt eru vatnsbláar bylgjur í loftinu sem myndast, þar sem sá ósýnilegi fer um. Í varðturninum horfir ljóshærði eldri maðurinn hræddum augum á það sem er að gerast fyrir neðan. Hann hnippir í manninn með svarta stífa hárið og bendir niður á torgið, en sá svarthærði flettir aðeins um síðu í blaðinu sem hann er að lesa.
„Verra?” Tennurnar í herra Cretítos glamra.
„Það er aðeins einn af þegnum æðstu skaparana sem vogar sér að breyta og þar með guðlasta með heilaga eiðinn okkar.” Hræðslan úr augum nú hvíthærða Crettors er horfin og í staðinn er komin heilög reiði. Hann horfir fram fyrir sig og virðist sjá hvar sá ósýnilegi er staddur. Herra Cretítos pírir augun en sér ekkert, þar til að í ljós kemur fimmtán ára stúlka með rauðgult þykkt slegið hár, í rauðri blússu með fimm fjólubláum röndum, dökkgrænum buxum með svörtu belti og í ljósgulum skóm. Í hárinu er hún með köflótt hárband og fiðrildavængseyrnalokk sem hefur verið deilt í tvennt yfir eyrunum, tvo upprétta vængi, svartan vinstra megin og dökkbláan hægra megin.
„Skapa til að eyða þeim sem eru öðruvísi.” Stúlkan líkur söng sínum og með krosslagða armana og svörtum augum sínum horfir hún glottandi á mennina tvo. Í varðturninum hnippir ljóshærði eldri maðurinn fastar í unga svarthærða, ásamt því að benda á stúlkuna, en sá svarthærði flettir yfir á næstu síðu.
„Afkvæmi hans en veit ekki af því,” hvíslar Crettor eitt varðveittasta leyndarmálið sem um getur, þrátt fyrir að allir í Create viti það nema stúlkan sjálf. Herra Cretítos er starsýnt á hvar stúlkan hefur birtst og heyrir ekki orð hans, þó að hann viti leyndarmálið.
„ÞÚ!!!” Kalla þeir báðir út á sama tíma, Crettor eldrauður í framan en herra Cretítos hissa á svip.
Hún svarar engu, glottir aðeins áfram.
„Stelpubjáni, hvað hefurðu gert við mennina mína?” Crettor steytir hnefana í áttina að henni.
„Ó, ekkert sérstakt. Nema, það að þeir verða í roti í smátíma.” Glottið situr fast á vörum hennar.
„Þurrkaðu þetta leiðindaglott af andlitinu. Ef þú heldur að þú komist upp með þetta, þá skjátlast þér hræðilega!” Crettor stígur ógnandi í áttina að henni og þrátt fyrir að hann gnæfi yfir hana sýnir hún engin óttamerki. Henni virðist þvert á móti leiðast, þar sem hún skoðar fingurneglurnar á sér.
„Ó, og hvað hyggst þú gera í því?” Hún snýr sér í áttina að Crettor og í lófa hennar myndast eldingar. Með letilegri sveiflu úlnliðs síns hendir hún smáum eldingum á einkennisklæðnað hans. Crettor slær á klæðnað sinn og slekkur nýmyndaðann eldinn. Hann pírir augun reiðilega í áttina að henni en hopar engu að síður. Hann veit vel skapari eins og hann með styrkleika 50, á ekkert í skapara og tortímanda með tortímandastyrkleikann -15 en það er feikinóg til að ráða við skapara á hans reki. Það er óvanlegt að skapari hvað þá tortímandi á hennar aldri, hafi náð svo háum styrkleika strax.
Crettor hleypur í burtu og það síðasta sem stúlkan heyrir frá honum er:„Þetta er alls ekki það síðasta sem þú hefur séð af mér. Svo lengi sem nafn mitt er Crettor Malice Creator, fyrsti öryggisverndari æðstu skaparana!”
Um leið og hvíthærði embættismaðurinn er horfinn úr augnsýn, kemur í ljós stúlka á þrettándanda ári, með stutt og slétt svart hár, í skógargrænum klæðnaði á bak við rauðgulhærðu stúlkuna. Í fangi hennar er nýskapaði tortímandinn sem hún leggur varlega á jörðina. Hún fer á hnén og leggur hlustir við hjarta drengsins, sem er hættur að berjast um heldur andar þess í stað afar grunnt. Hún strýkur yfir höfuð hans og finnur fyrir köldum svita. Með svörtum augum sínum lítur hún á stúlkuna og segir grátklökknum rómi:„Ég er hrædd um að við séum alltof seinar.”
Rauðgulhærða stúlkan man skyndilega af hverju hún er þarna og fer á hnén við hlið hinnar stúlkunnar. Hún leggur fíngerðar hendur sínar yfir brjóstkassa drengsins og lokar augunum:„Ég segi þegar það er orðið of seint. Ég gefst aldrei upp.”
Þegar líkami drengsins fer að glóa af hita, ókyrrist yngri stúlkan og horfir hræddum augum á þá eldri.
„Eitrunin er komin inn í hjarta hans. Ég verð að hafa hraðar hendur ef ég á að geta bjargað honum,” segir sú eldri lágt eins og við sjálfan sig og hugsar til þess sem góðvinur hennar hafði sagt henni:„Hvað sagði Cretter aftur..? Alveg rétt!” Hún klemmir augun og þrýstir lófunum fastar að líkama drengsins, þar til öndun hans og hjartsláttur verður eðlilegur. Sú yngri hoppar upp af gleði en sú eldri opnar augun og setur upp bros sem segir:„Hvað sagði ég?”
Drengurinn opnar augun, tekur um höfuðið og spyr syfjulegri röddu út í loftið:„Hvað gerðist?”
Hann lítur á stúlkurnar tvær, embættimennina tvo sem liggja í roti á jörðinni og á föður sinn sem hefur varla hreyft legg né lið síðan Crettor, fyrsti öryggisverndari æðstu skaparana, tók til fótanna. Svipur föður hans segir þó að hann hafi vel getað hugsað sér að fylgja fordæmi hans, ef fætur hans hefðu aðeins hlýtt honum. Honum tókst þó að komast aðeins lengra í burtu frá hættulegu stúlkunni og stendur stífur upp við vegg. Hann er á svipinn eins og veggurinn sé það einasta sem haldi honum uppi. Án hans myndi hann falla niður á jörðina og brotna í þúsund mola. Í varðturninum grípur ljóshærði eldri maðurinn um höfuðið og rekur upp hljóðlaust óp á meðan sá ungi svarthærði flettir um enn eina síðuna.
Þá man drengurinn allt sem kom fyrir hann og spyr rauðgulhærðu stúlkuna björtum rómi:„Hvert er þú? Af hverju hjálpaðir þú mér?”
„Lína Descre . Af því þú þurftir hana,” svarar hún og brosir breitt.
„Ertu skapari? Annars hefðiru ekki getað læknað mig. En augun þín eru svört, eins og hjá tortímanda.” Drengurinn bendir á augu hennar.
„Ég er tortímandi en skapari líka.”
„Ha?” Drengurinn lítur á hana með stórum augum.
„Hún er eini skaparatortímandinn.”
Drengurinn lítur til skiptis á yngri stúlkuna, sem blóðroðnar og snýr sér undan og á Línu sem brosir enn breiðara.
Lína hjálpar drengnum á fætur, dustar rykið af fötum hans og spyr blíðlegri röddu:„Hvað heiturðu, vinur?”
Drengurinn sem er ekki enn vanur því að komið sé fram við hann sem persónu, lítur hnugginn niður fyrir sig og svarar dapri röddu:„Vonlaus. Það er það sem faðir minn kallaði mig. Vonlaus.”
Lína ygglir sig og lítur í áttina að föður hans sem flýtir sér að snúa sér burt frá gneistandi augum hennar:„Ég skil. Við verðum að finna eitthvað betra nafn en fyrst verðum við að koma þér á öruggan stað. Rettor eða hvað hann nú heitir, mun fljótlega koma aftur með fjölda manns til þess að reyna eyða þér aftur.”
Drengurinn stífnar upp við að heyra þær upplýsingar, færir sig nær Línu og hárin rísa í hnakkanum á honum, þegar hann heyrir skrjáfur fyrir aftan sig. Embættirmennirnir, Crel og Cren, eru vaknaðir úr rotinu og hreint ekki ánægðir að sjá. Þeir staulast í áttina til þeirra, enn slappir eftir meðferðina sem þeir fengu en í þetta sinn eru þeir vopnaðir ferns konar sprautum, tvær í hvorri hendi þeirra.
Lína reisir sig upp og ýtir drengnum að nafni Vonlaus í augnablikinu fyrir aftan sig og í skjól:„Farðu til stelpunnar þarna. Hún passar vel upp á þig.” Hvíslar hún til hans og bendir með höfðinu í átt að svarthærðu stelpunni. Vonlaus flýtir sér að fylgja fyrirmælum hennar á meðan Lína tekur sér stöðu með lófana upp og segir ögrandi við skjögrandi en reiða embættismennina:„Já, komið bara ef þið þorið.” Snarkandi eldingar hefjast í lófunum hjá henni.
Í því sem Vonlaus er á leið í öryggið, skýst ósýnileg vera framhjá Línu á ljóshraða, þannig að hárið hennar feykist til eins og í vindi. Rétt eins og í tilviki hennar eru það einungis daufar línur sem sjást til að marka hvar sá ósýnilegi fer, þó að þær séu daufari heldur en hinar sem voru hjá henni og Línu til mikillar skelfingar stefnir ókunnuga veran beint til drengsins.
„Anna! Hann er á leiðinni til Vonna!” Kallar hún hárri röddu og flýgur í áttina til þeirra. Hún hunsar alveg Crel og Cren sem standa eins og þvörur, nú þegar skotmark þeirra er farið. Svarthærða stúlkan sem ber nafnið Anna, flýgur til drengsins en áður en þær stöllurnar komast til hans, grípur eitthvað utan um hann og fer með burt. Það er gripið fyrir munninn á drengnum sem ætlar að æpa og veran freistast til þess að komast út fyrir borgarmörkin sem eru handan við sjávarbláan múrinn.
Hann er ekki að fljúga eins og ég gerði. Þetta er eitthvað allt annað. Hann er mun hraðari heldur en ég, hugsar Lína með sér þar sem hún geysist um á miklum hraða á eftir ræningjanum og drengnum. Hún sér allt í móðu, sem er ein af aukaverkunum af því að ferðast svona og getur vart greint í þá. Þar til hún sér þá handan við veggin og þar glymur við hræðilega hávært öskur og rauð viðvörunarljós byrja að blikka. Það var eitthvað grín hjá æðstu sköpurunm að láta borgarmúrinn sjálfan veina úr sársauka ef einhver vogar sér að yfirgefa hana eða brjótast inn. Það er að segja hjá þeim sem hafa einhverja kímnigáfu. En hvernig komst hann óséður inn fyrir borgarmúrinn? Rauðu blikkljósin berast frá tveimur varðturnum sem standa sitthvoru meginn við sjávarbláan múrinn.
Þá er allt orðið um seinan. Íbúarnir mega og geta fyrir engan mun stígið út fyrir borgarvegginn. Ef þeir gera það geta þeir aldrei stigið inn fyrir hann aftur. Eina ástæðan fyrir því að einhver íbúanna fer út fyrir múrinn, er í þjálfunarbúðirnar fyrir tortímendur eða alræmda fangelsið, þar sem enginn snýr aftur frá og að síðustu til að ganga til liðs við andspyrnuhreyfinguna. Embættismenn fá þó að koma inn í borgina með sérstöku leyfi en óbreyttir alls ekki. Ef þú ferð út, færðu aldrei að koma aftur og það er ekkert fyrir utan borgina nema endalaus eyðimörk og ókleif fjöll. Reyndar er hús guðsins, allra æðsta skaprans, þar úti en það má og getur enginn heimsótt hann, án þess að fá æðsta leyfi frá æðstu sköpurunum. Fyrir utan að til þess að sleppa yfir múrinn verðurðu að komast fram hjá varðturnunum og ef þú ert jafnvel svo heppinn, verðurðu að reyna brjótast út úr ósýnilegu hvelfingunni sem er eins og þak yfir Create. Um leið og þú kemst að hvelfingunni er sem mikill kraftur reyni að ýta þér til baka, þangað sem þú átt heima en þegar þú snýrð aftur verðurðu dæmdur föðurlandsvikari fyrir að reyna sleppa burt og sendur í fangelsið til aftöku.
Lína ætlaði nú samt ekki að láta það stöðva sig og hugðist fljúga yfir múrinn þegar hún heyrði kallað:„Nei Lína! Þú mátt þetta ekki!” Anna kemur í ljós og grípur fast um brjóst hennar en Lína berst um í fangi hennar:„Slepptu mér Anna, ég verð að bjarga honum. Skilurðu það ekki!?”
Rauðum ljósum er skotið frá miðjum varðturninum og þeim sem þær sjá ekki en er á svæði 23 sem er við hliðina á, svo að ljósin þekja stóran flöt en einhverra hluta vegna berast engin skot frá varðturninum frá þeirra svæði.
Lína horfir upp á varðturn þeirra svæðis og sér hvar ungi maðurinn, situr enn með fæturna upp á skrifborðinu og les blaðið í mestum rólegheitum. Inn á milli klórar hann sér í hári sínu, geispar og nuddar svört augun. Að öðru leyti sýnir hann engin viðbrögð. Eldri maðurinn bendir til skiptis út um gluggann, stappar niður fótunum og öskrar reiðilega á letilega manninn, sem sýnir engin viðbrögð. Lína veltir fyrir sér hvort að vörðurinn sé að reyna hjálpa manninum eða sé bara hreinlega svona latur.
Þar sem skotin lenda í eyðurmörkinni, upphefjast miklar sprengingar og eyðileggingar en ekkert þeirra hittir manninn.
„Jú en sjáðu. Þeir eru að koma í ljós!” Anna bendir yfir vegginn, þar sem þær svífa í lausu lofti. Fyrir neðan þær er móðan yfir ræningjanum og drengnum að dofna út og í ljós kemur maður í kóralgrænum kufli, með svart belti utan um sig miðjan og í miðjunni á því er einn hvítur hnappi. Hettan hylur augu hans og drengurinn er enn í fangi hans. Hann horfir hræddur til skiptis á stúlkurnar og ókunnuga manninn. Þó að það rigni rauðum skotum yfir manninn, sýnir hann engin óttaviðbrögð og stendur sem fastast. Hvernig sem á því stendur þá lendir ekki eitt einasta skot á manninum, sama hversu nálægt það fer. Þvert á móti virðist þau springa áður en þau lenda á honum. Það er eins og hann sé undir guðlegri forsjá eða hafi óbilaða heppni.
En Línu er sama um hugrekki mannsins, hugsanlegu guðlegu forsjá hans eða óbiluðu heppni, hún starir á klæðnað mannsins og er sem dáleidd.
„Lína?” Anna veifar hendinni fyrir framan augu hennar en fær engin svör.
Descret? Er þetta virkilega Descret. Er hann enn á lífi? Afi? Lína grípur fyrir munninn og tár myndast í augum hennar.
En Lína fær fljótt svar við þeirri spurningu þegar maðurinn lyftir upp hendinni svo að við blasir kunnuglegt merki með smá breytingu: Þrír broskallar í lóðréttri röð;
sá neðsti er svartur með skuggalegt hvítt glott, sá svarthvíti í miðjunni er með hálft svart bros og hálfa hvíta skeifu en það er krossað þvert yfir þann efsta hvíta með svarta brosið. Merki Óvini Skaparanna. Hann er einn af þeim. Andspyrnuhreyfingin! Lína þurrkar nýmynduð tárin úr augunum og Óvinur Skaparana lyftir upp hettunni og svo að það sést í svört sakleysisleg augu hans og svart úfið hárið. Hann er miklu yngri heldur en afi myndi vera. En hann er í samskonar kufli. Greinilega virðingarvottur. Lína finnur vonina sem kviknaði í hjarta hennar fjúka burt en á sama tíma vaknar önnur.
Skotum heldur áfram að rigna yfir manninn og hann sem er afar myndarlegur, með fíngerða andlitsdrætti, um tvítugt eða svo, ályktar Lína, ávarpar hana:„Við stöndum í eilífri þakkarskuld við þig. Við bíðum komu þinnar, Lína Descret,” og í kveðjuskyni setur hann hettuna á sig og brosir breitt. Lína endurgeldur brosið og getur ekki að sér gert að roðna smá við athyglina sem myndarlegi maðurinn sýnir henni. Við svo búið lætur hann sig aftur hverfa.
Hvað ertu að hugsa, Lína. Láta þig dreyma svona um mann sem er klæddur í samskonar klæðnaði og afi þinn sálugi. Það hlýtur að vera eitthvað mikið að þér! Lína slær sig fast utan undir og Anna horfir full meðaukunar á hana. Hún telur að Lína sé að refsa sér fyrir að láta hann sleppa, þrátt fyrir að hann sé vinveittur. Ef hann væri það ekki, væru þær í vondum málum. Þeim til mikillar undrunar sjá þær hann svo lengst í burtu í eyðurmörkinni, vera að hlaupa mjög hratt en ekki fljúga eins og þær. Hann staðnæmist þegar hann áttar sig á því að þær geta séð hann, strýkur hnakkann og brosir vandræðilega í áttina til þeirra.
Lína og Anna missa kjálkann og æpa upp fyrir sig:„Hann var bara að hlaupa allan tímann!”
Þá fyrst virðist varðturninn á þeirra svæði ætla taka við sér. Lína fylgist með hryllingi þegar letilegi öryggisvörðurinn stendur upp frá skrifborðinu. Hann teygir hendurnar vel upp í loft, leggur frá sér blaðið, lætur braka í hnúunum, tekur sér stöðu í turninum og miðar á andspyrnumanninn með höndunum. Ljóshærði eldri maðurinn brosir út að eyrum og hvetur hinn áfram.
„Pa..!” Lína sem ætlaði að hrópa aðvörunarorð til mannsins, er stöðvuð með því að Anna grípur fyrir munn hennar. Það eru föðurlandssvik að hjálpa einhverjum utan múrsins ef hann er ekki embættismaður eða hefur tilskilin leyfi. Þegnar eru gerðir útlægir og taldir réttdræpir ef sést til þeirra. Lína berst um og Anna á fullt í fangi með að halda henni. Hún reynir að róa hana niður með því að benda henni á að maðurinn hafi sloppið til þessa. Hún þurfi því ekki að hafa neinar áhyggjur.
Skotið sem kemur frá turninum seina, er þó það sem kemst næst því að hitta manninn og höggið er svo mikið að hann þarf að hoppa mörg skref til baka en einhverra hluta vegna kemur aðeins eitt skot þaðan.
Í varðturni hliðs 1…
Vörðurinn sem skaut skotinu sem var næst því að hitta kóralgrænklædda manninn, yppir öxlum, sest niður með fæturna upp á skrifborðið og heldur áfram að lesa blaðið. Ljóshærði eldri manninum missir kjálkann, þar til hann hefur að stappa niður fótunum og benda reiðilega út um gluggann á meðan vörðurinn sýnir engin viðbrögð frekar en fyrri daginn. Þá fær sá ljóshærði nóg, klemmir augun fast saman og lætur höndina renna yfir andlit sitt. Hann muldrar eitthvað miður fallegt og reisir höndina til höggs yfir höfði letilega öryggisvarðarins, sem er það upptekinn við lestur blaðsins að hann tekur ekki eftir neinu. Þegar höggið ríður af er það, það fast að skrifborðið fer í tvennt. Letilegi öryggisvörðurinn grípur um höfuðið og öskrar það hátt að Lína heyrir hvert orð:„ÁÁÁIIII, af hverju varstu að þessu pabbi?”
En Lína heyrir ekki það sem fram fer á eftir:„Ég skapaði þig ekki til þess þú að myndir hegða þér eins og mesti letingi, Desto! Tortímendurnir eru að sleppa!” Faðir hans bendir út um gluggann þar sem sá kuflklæddi sést hlaupa út í fjarskanum.
„Heyrðu, ekki sá ég þig reyna að handsama þá. Þú hefðir getað skapað net eða eitthvað, en þess í stað vildir þú að ég gerði alla vinnuna. Þú getur bara sjálfum þér um kennt, að hann hafi sloppið.” Desto heldur enn um höfuð sitt og horfir sár og reiður á föður sinn.
„Hann er ekki sloppinn heldur við það að sleppa,” segir faðir hans og bendir út um gluggann.
Á sama tíma fyrir framan hlið 1…
Halda skotin áfram að ríða yfir kóralgrænklædda manninn án þess að hitta, þar til hann styður á hvíta hnappinn á belti sínu. Um leið og hann snertir hnappinn hverfur hann sjónum þeirra.
Á sama tíma í varðturni hliðs 1…
(Um leið og andspyrnumaðurinn hvarf). Neeeiii! Hann er alveg sloppinn núna!” Ljóshærði maðurinn grípur um höfuðið og veifar svo fingri framan í son sinn:„Ég..Ég hélt að þú myndir ná honum. Þú varst næst því af öllum vörðunum en þess í stað hættirðu bara allt í einu. Það er eitthvað mikið að þér!”
„Ó, svo að þú berð enga ábyrgð?”
„Nei,” sagði faðir hans og krosslagði armana.
Þeir horfast reiðir í augu um stund, þar til allt i einu að þeir stökkva og klípa hvorn annan fast í kinnarnar.
Aftur fyrir framan hlið 1…
Lína er enn forviða eftir að hafa séð og áttað sig á því að andspyrnumaðurinn var einungis að hlaupa en ekki fljúga á ofurhraða og sér hann fyrir sér hlaupa út í eyðumörkinni, þrátt fyrir að hann sé orðinn ósýnilegur. Lína sér að Anna er enn jafn hissa yfir þessu og hún. En það sem er henni þó efst í huga er það, að henni finnst sem að Óvinir Skaparana hafi verið nota hana allan tímann.
Hugtök
Cre og Des: Allir skaparar útskrifaðaðir frá skaparaskólanum fá sérstakt skaparanafn ( nöfn þeirra eru mismunandi endingar við styttinguna Cre, sem er dregið af Create.), sem þeir velja sjálfir. Allir tortímendur fá sérstakt tortímandanafn þegar þeir fara frá tortímandabúðunum (nöfn þeirra eru mismunandi endingar við styttinguna Des, sem er dregið af Destroy), en þeir fá ekki að velja það sjálfir. Þeir sem hafa af einhverjum sökum hætt í skaparaskólanum, halda gamla nafninu sínu og er því nafnabreytingin tákn um útskrift og fullan aldur, sem er tuttugu ár.
Hár og útlit skapara og tortímenda: Tortímendur eru flestir með svart úfið eða stíft stingandi hár ásamt svörtum augum. Nánast enginn skaparari er með svart hár né svört augu, en þeir geta verið hvíthærðir og með hvít augu. Einungis fjórir skaparar hafa verið með svört augu, afi Línu; Descret Afternoon Creator, eigandi tortímandabúðann, fangelsisins og leiðtogi Hreinsara Heimsins; Cretes Rís Fíl Creator, æðsti skaparinn; Night Truth og meðalskaparinn Aníta S, en þau tvö síðustu eru einnig með svart hár ásamt einum skapara í viðbót, sem er neyddur til þess að fela það. Anita S. er þó ekki lengur á meðal manna og þar sem Night Truth er einn af æðstu sköpurunum, kemur nánast aldrei fyrir almannasjónir og er sú vitneskja því geymd meðal fárra. Eini tortímandinn með slétt hár er Anna Fíl Destroyer.
Vikudagarnir í þeirra heimi heita: Morning, Afternoon, Evening,Night,Dawn,Sunrise og Destroyníta; Eftir æðstu sköpurunum og fyrsta tortímanda sögunnar Destroynítu sem fór í stríð við skaparanna fyrir níhundruð sjötíu og sex árum og hafði ósigur.
Guðinn: Hér er vísað til guðs þeirra heims en þeir tala alltaf um hann með greini.
Svæðin:Borginni er skipt stór í 4 svæði sem er síðan skipt í átta 8 minni svæði, innan hver þessara fjögurra. Það er byrjað að telja frá 7 en svæði 1-6 eru fyrir utan Create og eru svæðin því 40 talsins.
Millinafn: er ættarnafn hvers skapara.
Eftirnafn: sýnir tegund hvers og eins.
Hellamanía: Staðurinn þar sem allir fara til í eftirlífinu. Eitt þeirra helsta blótsyrði.
Eftirnafn Línu er Descre en hún er kölluð Descret eftir afa sínum.
Rosa Novella