Inngangur
Á markaðstorginu á svæði 8 í borginni Create…
„Dömur mínar og herrar, í dag eru þið svo heppin að geta orðið vitni að einskæru undri,” segir hár og grannvaxinn maður í skjannahvítri skyrtu, kolsvörtum buxum með dökkrauða skikkju flaksandi um axlirnar og pípuhatt, kolsvartan, hvílandi ofan á svörtu afrói. Með vatnsbláum augum sínum og skælbrosandi standandi á háum hvítum palli, er honum litið á mannfjöldann, sem er samankomin á torginu fyrir neðan hann. Að baki hans er hár sjávarblár múr, sem liggur umhverfis alla borgina og stórt sólargult hlið. Á miðju hliðsins er skrifaður risastór tölustafur einn, í hvítum lit. Í turni ofan á sjávarbláum múrnum og við hliðið, er brúnaþungur, ljóshærður, eldri maður, með ljóst skegg, í hvítum einkennisbúningi, að fylgjast grannt með öllu sem fram fer á torginu. Við hlið hans er ungur maður í svörtum einkennisklæðnaði, með svart stíft hár, í mestu rólegheitum að lesa blað sem á stendur Ó mama, með fæturna upp á rauðbrúnu skrifborði, sem vísar í átt til töframannsins.
Það er fallegur sólríkur dagur og mikil spenna í loftinu. Lítil börn, sem sitja á öxlum foreldra sinna, stara stóreyg á töframanninn og gera tilraun til að klifra yfir kollinn á hásæti sínu. Þau vilja fyrir engan mun, missa af einu einasta smáatriði af þessu einstæða undri. Ólíkt spennunni sem ríkir hjá smáfólkinu, geispa hinir fullorðnu og yppa öxlum. Það má lesa sömu hugsunina úr augnaráði þeirra allra:„Ekki enn einn vitleysingurinn.” Engu að síður geta þeir þó ekki annað, en fylgst með, þegar enn einum þeirra mistekst ætlunarverkið.
„Fylgist nú vel með gott fólk.” Töframaðurinn sýnir misspenntum áhorfendum sínum spilakassa. Opnar hann og viti menn, það er ekkert spil í honum. Fullorðnir áhorfendur hnykla brýnnar, á meðan þeir yngri skríkja af spenningi. Til að fullvissa fólk um að það séu engin brögð í tafli, hristir hann kassann, þar til að ljóst er að ekkert sé í honum. Hann hendir kassanum til áhorfendafjöldans og biður þá um að skoða hann. Einn stórgerður maður tekur sig til við að skoða kassann allan hringinn, utan sem innan, kremur hann, kinkar svo kolli til merkis um að allt sé lagi og hendir samþjöppuðum kassanum aftur til mannsins með pípuhattinn. Töframaðurinn stingur kassanum ofan í vasann á buxunum sínum og réttir svo fram vinstri ermina. Hann endurtekur sama leikinn, hristir ermina, þuklar innan í og brettir hana svo upp. Með uppbretta ermina, brosir hann breitt til mannfjöldans, sem endurgeldur ekki brosið, svo hann flýtir sér að halda áfram. Um leið og hann byrjar að bretta niður ermina, hrynja spil í fjöldavís niður á torgið. Börnin skríkja af gleði, en geispinn hjá þeim fullorðnu verður enn hærri.
Töframaðurinn, sem hafði vonast til þetta nýja bragð myndi falla í kramið, lætur þó ekki slá sig út af laginu nema í smástund og þrífur pípuhattinn af höfðinu. Það ríkir dauðaþögn, þar til að lítið bleikt nef stingur sér upp úr hattinum. Þegar lítil kanína með hvítt afró í stíl við dindilinn, kíkir upp úr hattinum og hnusar í allar áttir, taka börnin andköf af undrun og fylgjast dolfallin með. Hún er með hundrað gulrætur í munninum, sem hún lætur hverfa á þrjátíu sekúndum undir stóru tennurnar og maðurinn setur aðrar hundrað upp í hana.
„Haha, sjáið þið? Kanínan er með afró!” Kallar einhver bylmingsröddu. Þá ákveður afrókanínan að skríða upp úr hattinum og hoppa niður í mannfjöldann. Um stund er hana hvergi að sjá, þar til hún rís hægt og tignarlega upp á höfði eins barnsins. Barnið skríkir af kátínu, en fokreitt foreldrið þrífur kanínuna af höfði þess og hendir til töframannsins. Töframaðurinn grípur kanínuna fimlega, áður en hún fer yfir sviðið og uppsker mikið lófaklapp hjá börnunum. Hinir fullorðnu eru hreint ekki hrifnir og vona nú að þessum barnaskap fari að linna. Töframaðurinn skynjar óþolinmæðina og flýtir sér að setja kanínuna ofan í hattinn, en áður en hann fær að snúa sér að næsta atriði, heyrir hann áhorfahópinn grípa andann á lofti. Þegar hann snýr sér við, hefur risavaxið blóm vaxið upp úr stéttinni í miðri áhorfendaþvögunni.
Í miðjum vangaveltum yfir því hvernig það hefur komist þangað, kemur hann auga á drýgindalegan mann, með kuldalegt glott á vörunum, sama manninn og kramdi kassann og gerði grín að kanínunni. Maðurinn er stór og mikill rumur og ólíkt öllum öðrum, sem þurftu að líta upp til töframannsins á pallinum, lítur hann niður á hann í bókstaflegri merkingu. Þrátt fyrir kæfandi hitann í borginn, er hann íklæddur brúnum rúskinnsjakka, í grasgrænni flauelsskyrtu og um axlir hans er sveipuð síð vínrauð skikkja. Um háls hans er röndótt bindi í rauðum og svörtum litum, jafn sítt og trefill. Hann er með mikið krullað dökkbrúnt hár og alskegg í stíl, gullhring í hægra eyra, í bláum gallabuxum og þrátt fyrir stærðina, er hann með smáa fætur, í skjannagrænum skóm, með smellum á. (Hryllileg litasamsetning og fatavalið hjá honum, er dæmi um mann sem ekki hefur verslað hjá frægustu hönnuðunum, sem eru með búðina Creator Creates. En, hún heitir einmitt eftir þeirra virtasta hönnuði.)
Allir stara heillaðir á manninn og biðja hann um að gera eitthvað fleira. Drýgindalegi maðurinn hikar ekki við að verða við þeirri ósk, lokar rauðbrúnum augunum og setur sterkbyggðar hendurnar fram. Töframaðurinn, sem skilur ekki hvað hann hyggst fyrir með þessu, verður vitni að, sér til mikillar undrunar og skelfingar, að manneskja byrjar skyndilega að mótast fyrir framan augu hans. Nánar tiltekið drengur um sex ára aldur, með svart úfið hár og íklæddur fötum í samskonar lit og pípuhatturinn hans. Nema þau eru enn dekkri, ef það er þá hægt. Töframaðurinn er varla byrjaður að átta sig á, að drýgindalegi maðurinn hafi rétt í þessu skapað barn fyrir framan augu hans, þegar nýskapaði drengurinn opnar svört augun og lítur í kringum sig, með svip þess sem er nývaknaður af löngum blundi. Áhorfendafjöldinn, sem hafði verið þögull á meðan sköpunin fór fram, hrópar og kallar með fagnaðarlátum.
„Faðir?” Spyr nýskapaði sonurinn og nuddar stírurnar úr augunum.
Drýgindalegi náunginn tekur ekki undir ávarpið, heldur snýr sér þess í stað að risavaxna blóminu og segir skipandi við strákinn:„Skapaðu minni útgáfu af þessu blómi.”
„Skapa? En faðir…?”
„Ekkert, en. Ef, þú ert þess verðugur að vera kallaður sonur minn, hlýturðu að geta skapað eitt skitið blóm, ekki satt?” Áhorfendurnir hlæja dátt að sýningunni, en töframanninum, sem sýningunni var stolið frá, er ekki jafn skemmt og hann reynir að læðast burt frá mistökum sínum, áður en nokkur verður hans var. Strákurinn, sem vill allt gera til þess að þóknast föður sínum, hermir eftir tilburðum hans við að skapa hann sjálfan, líkt og hann hafi verið viðstaddur sína eigin sköpun. Hann klemmir augun fast saman og setur smáar hendurnar út í loftið, eins og hann sé að þreifa á því, andar djúpt og þrýstir með lófunum að loftinu. Svona gengur þetta í nokkurn tíma, þar til sá litli snýr sér kófsveittur að föður sínum, með tárin í augunum og segir:„Ég get það ekki. Fyrirgefðu mér, faðir.”
Drýgindalegi maðurinn, sem drengurinn kallar föður, glottir út annað og hristir höfuðið. Hann setur höndina á höfuð stráksins og segir sefandi röddu:„Nei, enda ert þú vonlaus.” Áhorfendur hlæja enn hærra, en töframaðurinn hallar sér upp að húsvegg, hugsi á svip.
„Heyrðu, manni, má ég klappa afrókanínunni?” Töframaðurinn lítur niður fyrir sig og sér litla stelpu með jarðarberjarautt hár og appelsínugul augu toga í buxnaskálmina hans. Hún brosir svo innilega að hann getur ekki neitað henni, en man þá:„Nei, því miður, ég lét hana hverfa. Hún var svo hrædd við mannfjöldann.”
Bros stelpunnar hverfur samstundis og breytist í skeifu:„Hverfa! En, af hverju gerðirðu það! Vondi, vondi, vondi maður!” Hún lemur hann með litlu hnefunum, en það eina sem meiðir hann eru vonbrigðin í rödd hennar. Litla stelpan öskrar svo upp fyrir sig og hleypur til einnar konunnar:„MAMMA! Hann lét sætu kanínuna með afróið hverfa! Hann er vondur!” Hún bendir á töframanninn, sem skilur ekki af hverju litla stúlkan áttar sig ekki á, að þetta var kanínunni fyrir bestu. En, það sem vekur enn meira furðu hans, er reiðin sem skín úr augum móður stúlkunnar og reyndar alls mannfjöldans, sem skyndilega hefur snúið sér að honum.
Drýgindalegi maðurinn tekur af skarið, bendir á hann með fingri, sem er með gullhring á og segir æstri röddu:„Ég vissi að það var eitthvað að honum. Hann er morðingi!”
„Eitthvað að mér? Heyrðu, varst þú ekki að enda við að skapa manneskju úr engu!?”
„Já, en það er líka það sem skaparar gera.”
„Skaparar? Svo þannig liggur í málinu. Bíddu, við morðingi? Ég skil ekki hvað þið eigið við. Kanínan mín er ekki dauð. Hún er bara ekki lengur hér…” En, orð mannsins virtust fara fyrir ofan garð og neðan hjá fólkinu. Það sér aðeins rautt og stefnir ógnandi í áttina að honum. Töframaðurinn bakkar í burtu frá þeim og tekur á rás, þegar það byrjar að hrópa:,,Látum morðingjann ekki sleppa!!!”
Sá eini sem hleypur ekki á eftir manninum, af eintómum misskilningi að dæma, var litli nýskapaði strákurinn, sem endurtekur fyrir munni sér orð föður síns í sífellu:„Vonlaus, vonlaus, vonlaus…” Bograndi, rótar hann í jörðinni með fingrum sínum og með þeim skrifar hann orðið í brúna moldina, sem umkringir blóm föður hans. Honum er litið upp á blómið og einbeittur á svip, skal ætlunarverkið takast í þetta sinn. Ég er ekki vonlaus. Hann þarf bara að hafa blómið sér við hlið og þá tekst honum að gera nákvæma eftirlíkingu. Hann er viss um það. Ég skal gera blóm, sem er enn stærra en blóm pabba míns! Með augun klemmd föst saman á ný og með útréttar hendurnar, setur hann allan kraftinn sinn í þetta verk. Mér skal takast það. Ég er ekki vonlaus. Alls ekki Vonlaus… Honum til mikillar gleði, finnur hann að hendurnar byrja að glóa af hita, án þess þó að það meiði hann á nokkurn hátt. Hiti, líkt og sólarljósið sé að baða hendur hans í ilvolgum hita. Hann kitlar í nefið og andar að sér brælu, sem þýðir aðeins eitt, en þar sem hann er ekki nema nýskapaður, skynjar hann ekki hættuna strax. Þvert á móti líður honum eins og hann hafi komist í snertingu við uppruna sinn og tilgang, en fljótlega rennur þó upp fyrir honum ljós. Það er eins og eitthvað sé að..brenna? Hann flýtir sér að ljúka upp augunum og honum til mikillar skelfingar, stendur blóm föður hans í ljósum logum og verður að ösku á svipstundu. Sýnin fær hann til hrökklast aftur á bak og stara á hendurnar, dauðhræddur jafnt sem heillaður yfir þeim krafti sem býr í þeim, þrátt fyrir smæð. Mínar vonlausu hendur…
Sterkbyggðar hendur eru lagðar harkalega á axlir hans. Hann lítur upp og sér bálreiðan föður sinn. Faðir hans rífur hann upp og snýr honum að sér:„Veistu, hvað þú hefur gert, VOOONLAUS?” Varir föður hans titra af reiði og æð þrútnar á enni hans, þegar litli drengurinn hristir skelkaður höfuðið. Faðir hans reisir höndina upp í loftið og þrátt fyrir að vera ekki nema nokkra mínútna löng sköpun, áttar drengurinn sig á þeirri hættu strax og lokar augunum, eins og það gæti dregið úr högginu.
En, áður en höggið ríður af, heyrir drengurinn kuldalega og skipandi rödd segja:„Þú verður að koma með okkur.”
Drengurinn opnar augun og þar sem að faðir hans er á bak og burt, skilur hann að orðin geta aðeins átt við hann einan. Sú ályktun gerir lítið til að sefa ótta nýskapaða drengsins, sem spyr biðjandi röddu, þrjá menn klædda hvítum einkennisbúningi:„Ha? Af hverju? Hvað gerði ég?” Hann dregur fljótt þá ályktun, að rjúkandi blómið sé orsökin fyrir því að þessir menn hafi mætt á svæðið og flýtir sér að bæta við:„En, þetta var slys! Ég ætlaði ekki að eyðileggja blómið!”
Í bjartri sólinni getur drengurinn ekki séð framan í þá, heldur einungis nafnspjald, sem er nælt í brjóstkassa mannsins, með kuldalegu og skipandi röddina. Það er engu líkara en að litli drengurinn fái ofbirtu í augun af nafni hans og stöðu:
Crettor M. Creator
Fyrsti öryggisverndari æðstu skaparanna
(skst : 50)
„Það er þér fyrir bestu, ef þú sýnir engan mótþróa,” heldur maðurinn að nafni Crettor svipbragðalaus áfram, eins og hann hafi ekki heyrt afsökun drengins. Hann færir sig aftar og skyggir þar með á sólina, þannig að drengurinn geti séð betur þá sem eru að ógna honum. Crettor er frekar feitlaginn með brúnhvítt yfirvaraskegg og á kolli hans hvílir hvít derhúfa, með broskalli, en á ermum hans eru þrír lóðréttir broskallar. Sá efsti er hvítur og með svart bros, sá í miðjunni er svarthvítur, hvíti helmingurinn er með hálft svart bros og sá svarti með hálfa hvíta skeifu, en sá neðsti er svartur með hvíta skeifu. Fyrir ofan hjartastað hans stendur orðið fyrsti, skýrum stöfum á hvítum einkennisbúningnum og fyrir neðan áletrunina, er nafnspjaldið sem blindaði næstum drenginn. Þegar Crettor tekur ofan derhúfuna og þurrkar svitann af enninu, kemur í ljós að hár hans er næstum hvítt, fyrir utan smáar dökkbrúnar strípur, sem hafa orðið eftir í því, líkt og brúna yfirvaraskeggið, sem á við sama vanda að glíma. Tveir ungir menn standa honum við hlið, með alveg eins derhúfu. Sá sem er vinstra megin og örlítið hærri, er með sítt gullið hár að hálfu falið undir húfunni, en sá hægra megin, er með síðan dökkbrúnan ennistopp. Með hendurnar spenntar fyrir aftan bak, standa þeir þráðbeinir með gleiða fætur. Sama broskallamerkið er á ermum þeirra og hjá Crettor og undir hjartastað þeirra beggja, eru einnig nafnspjöld, en hjá þeim gullinhærða stendur:
Crel L. Creator
Fyrsti aðstoðarmaður fyrsta öryggisverndara æðstu skaparanna
(skst: 25)
og hjá hinum dökkhærða stendur:
Cren. N. Creator
Fyrsti aðstoðarmaður fyrsta aðstoðarmanns, fyrsta öryggisverndara æðstu skaparanna
(skst: 21)
Svipur þeirra er jafn kuldalegur og hjá Crettor. Fyrir aftan þá glittir í svarta skjalatösku.
„Hvert ætlið þið að taka mig?” Crel og Cren taka undir sitthvorn handlegg drengins og lyfta honum upp, en það er þeirra eina svar. Crettor tekur fram svörtu skjalatöskuna og opnar hana. Drengurinn fellur næstum í yfirlið, þegar hann sér hundruði sprauta í henni, með svörtum bullandi vökva. Við hlið þess er stórt, svart ferkantað tæki. Crettor tekur upp tækið, dregur upp loftnet ofan á því og beinir því að drengnum:„Hann er með styrkleika -6 ,” hann dregur upp úr töskunni litla sprautu með langri nál og bullandi svörtum vökva:„Svo að þessi sprauta ætti að nægja til að eyða honum.” Hann grípur fast um vinstri handlegg drengsins.
Eyða? En, þýðir það ekki…! Hann brettir upp ermina hjá honum. Svitadropar spretta fram á andliti drengsins, þegar hann sér nálina nálgast handlegginn. Hann berst um, og líkt og fluga sem er föst í vef köngulóarinnar, þrengist gildran, svo hann hrópar örvæntingarfullri röddu:„Faðir! Faðir, hjálpaðu mér! Mér þykir þetta svo leitt með blómið! Ég skal aldrei gera þetta aftur! Þetta var alveg óvart!” Faðir drengsins snýr baki í hann og nuddar dökkbrúnt skeggið, ótt og títt. Á baksvip hans, má greina að innra með honum berjast tvenns konar hugsanir, en hann snýr sér ekki við.
Ástæðan fyrir því af hverju nálin var ekki enn farin inn í húð drengsins, er sú að hvítklæddu mennirnir eru að skeggræða um hvort að þetta sé rétt val, sem gerir það að verkum að sprautan stoppar rétt hjá áningarstað sínum.
„En, honum tókst að eyða fullvaxinni sköpun hjá heilum skapara. Ætti hann þá ekki að fá sprautu -14 eða eitthvað svoleiðis?” Spyr Crel L. Creator.
“Ég held að sprauta -6 sé alveg nóg. Hvaða hálfi tortímandi sem er, getur eytt dauðri sköpun, ef hann leggur sig allan fram. Jafnvel nýskapaður,” Crettor færir sprautuna nær.
“Humm, en þetta var ekki dauð sköpun,” segir Cren N. Creator. Crettor stoppar með nálina á lofti og horfir upp fyrir sig, hugsi á svip í örlitla stund.
Svo snýr hann sér aftur að ætlunarverki sínu og segir, eins og ekkert hafi í skorist:„Það er rétt, en þessi sprauta er feikinóg. Til að hafa hemil á honum. Svo sjáum við hvað setur.”
„PAAABBIII!!!!!” Drengurinn reynir ákaft að slíta sig úr haldi mannanna og hendur hans byrja að glóa ákaft.
„Hæstvirti herra, þú ættir að flýta þér að stinga nálinni inn. Hann er við það að tryllast,” og um leið og Cren hefur lokið setningunni fer nálin inn. Drengurinn grípur andann á lofti og hvítan í augum hans er það eina sem sést, þegar hann hættir að geta barist um.
Mennirnir sleppa honum og máttlaus skellur hann á harða jörðina.
„Verki okkar er lokið,” segir Crettor og gengur frá sprautunni í skjalatöskuna.
Í þessum heimi eru töframenn sem geta látið hluti birtast úr engu, ekki taldir merkilegir. Enda er heimur þeirra uppfullur af svoleiðis fólki sem kallast skaparar. En, ef maður eyðir eða veldur þeirri sjónhverfingu að hann hafi eytt hlut, vekur það samstundis óhug. Líkt og tegundin sem þeir vita af, búa sjálfir til, en þekkja ekki. Þeirra versti ótti og óvinur. Tortímendur
Þetta er sagan af einum þeirra, saga Línu Descret; Skapara og tortímanda
Hugtök
Afrókanína er sjaldgæf tegund af kanínu og einn daginn virtist stofninn hafa horfið af yfirborði jarðar ásamt einu heimildinni um tilvist þeirra.
Skst er skammtstöfun fyrir skaparastyrkleika, sem fer eftir aldri hvers og eins en með aukinni þjálfun, getur talan þó hækkað þó það passi ekki við aldurinn. Því hærri tala, því öflugri er skaparinn.
Styrkleiki tortímanda: Við sköpun byrjar hver tortímandi á mínus, til að sýna fram á eyðandi mátt þeirra og þar sem drengurinn var skapaður sem sex ára drengur, er hann með styrkleikann –6.
Hálfir og heilir: Þeir skaparar og tortímendur sem er undir tvítugt eru kallaðir hálfir, vegna þess að þeir eru aðeins með hálfa krafta, en um tvítugsaldurinn, sem kallast fullur aldur, fá þeir fulla krafta og eru þá kallaðir heilir. Tuttugu leggst þá við aldurinn þeirra og því er heill tortímandi með styrkleikann 0, á meðan heill skapari er með styrkleikann 20, en ekkert bætist við fullan aldur þeirra. Tortímandi með styrkleikann 0 er því fullvaxinn og heill, en skapari með sama styrkleika er nýfæddur. Eftir fullan aldur bætist síðan aldurinn aftur við með mínusmerki.
Er inngangurinn of langur? Allar athugasemdir eru vel þegnar. :)
Rosa Novella