Þegar við vorum farnir, sögðu menn við hvorn annan, “Hann sem var svo indæll og ljúfur.” eða “ Hann átti framtíðina fyrir sér.” En sannleikurinn var sá að þau vissu ekki að þetta var bara yfirskin yfir hver þeir raunverulega voru. Reiðir yfir því hvernig þeir voru í raun og veru, yfir því að alltaf þurfa að ljúga að öllum og blekkja. Það var erfitt að líta út fyrir að vera eitthvað allt annað en maður raunverulega var, allt sitt líf. En það var það eina sem þeir gátu gert.
“Hlynur Þór Jakobsson fæddist 11. júní 1976 í Reykjavík. Hann varð bráðkvaddur á heimili sínu 11. júní síðastliðinn og fór útför hans fram frá Langholtskirkju 22. júní.”
Já, nú erum við farnir. Búnir að kveðja allt sem við gátum kvatt úr þessum hluta lífsins og haldnir áfram á hinni löngu leið til endurfunda við almættið. Það munaði ekki miklu að bara annar okkar færi, en þetta hefur líklega verið besta leiðin.
Þegar við vorum litlir, rétt byrjaðir í skólanum og varla farnir að hugsa sjálfstætt, urðum við fyrir lífsreynslu sem að breytti lífi okkar. Við fórum í heimsókn til frænda okkar Þorvalds, í vinnuna. Hann vann, að okkur fannst, á mjög skrítnum stað. Við héldum að þetta væri geymsla fyrir börn eins og okkur, sem að væru föst í líkömum fullorðinna. Við komumst seinna að því að svo var ekki. Þetta var geðsjúkrahús. Það var kannski ekki rétt að leyfa litlum strákum að skoða sig um í allri þessari óhamingju og vesæld, en þetta varð til þess að við þurftum ekki að skoða okkur betur um á þessum stað þegar við yrðum eldri. Þegar við gengum framhjá börnunum á göngunum, öll í sloppum, sum búin að skera sig úr hópnum með því að sletta á hann litríkum matarleifum eða með mismunandi stór sárabindi á höndum eða fótum, fórum við að hugsa saman. Það er nefnilega allstaðar þörf til að vera öðruvísi, og þótti okkur það skrítið að á stað þar sem börn voru lokuð inni fyrir að vera öðruvísi, var gert í því að láta þau líkjast hvort öðru og þar með auka á þörf þeirra til að fá athygli. Þegar við gengum framhjá öllum þessum börnum og hugsuðum um þetta, var gripið harkalega í okkur. Fyrir aftan okkur stóð saklausasta barn sem við höfðum séð. Það var með axlarsítt hár, brúnt á lit, stórt, gróft nef sem hallaði örlítið til vinstri og lafandi neðri vör sem titraði alltaf þegar það talaði. Það sem maður tók samt einkum eftir í útliti þess voru augun. Þau voru svo einbeitt og tær, eins og þau hefðu séð allt í heiminum en gleymt því samstundis. Þetta voru sömu augu og við vorum með. Þetta stóra barn tók um axlirnar okkar með þykku höndunum með puttum sem að voru að springa í sundur því þeir voru svo þurrir, og út úr munninum kom rödd sem passaði engan veginn við þennan líkama. Skær og stingandi, eins og í óperusöngkonu. Þetta barn sagði við okkur, “Þið megið ekki vera tveir í raunveruleikanum. Við vorum tveir þarna úti og núna eru þeir að reyna að láta okkur hverfa með því að láta okkur hata hvorn annan. Ekki segja frá.” Þá var eins og einhver hefði tekið í axlirnar á barninu og byrjað að hrista það til og frá. Síðan hrundi það niður á gólfið og byrjaði að gefa frá sér nístingskalt vein. Það lá þarna á gólfinu og hristist til og frá eins og það væri í rússíbana með tilheyrandi öskrum. Þá kom Þorvaldur frændi hlaupandi og kallaði á aðra menn sem að komu samstundis með róandi sprautu. Að lokum róaðist barnið og mennirnir báru það inn í herbergi sem var innar á ganginum. Þorvaldur frændi leiddi okkur í burtu og sagði við okkur, “Ég vona að þú hafir ekki verið hræddur við hann Steinar Odd. Hann getur verið svolítið ógnvekjandi á stundum en yfirleitt er hann ljúfur eins og barn.” Þannig lauk fyrstu heimsókn okkar til Þorvalds frænda, Steinar og Odds. Í gegnum árin heimsóttum við þá reglulega með leyfi Þorvalds og sagði hann alltaf, “Þú hefur bara gott af þessu Hlynur minn. Hann getur kennt þér margt.” Við héldum þó að hann frænda okkar hafi alltaf grunað eitthvað.
Við vorum ekki eins og flestir strákar á okkar aldri. Við vorum nefnilega tveir. Og þannig voru Steinar og Oddur líka, og þeir voru jafnframt þeir einu sem við vissum um að væru eins og við. Ef að þetta væri útskýrt af lækni myndi hann segja að þetta væri geðklofi og síðan nafn sem er líklegara til að vera innihaldslýsing á smurolíu frekar en tegund af sjúkdómi. En sjúkdómur var það alls ekki. Við vorum einfaldlega bara tveir í sama líkamanum. Tvær mismunandi sálir sem að hugsa saman alla ævi. Við stjórnum auðvitað ekki líkamanum á sama tíma. Það væri skrítin sjón. Þegar að líkaminn er sofandi á nóttunni þá skiptumst við á líkamanum. Eina leiðin til þess er í gegnum draumana. Þá er hann berskjaldaðastur og sálin er laus. Við ákváðum eftir heimsóknina okkar að halda þessu leyndu fyrir heiminum. Þetta væri leyndarmálið okkar, þótt að það væri erfitt að halda því leyndu.
Það erfiðasta við að alast upp var hversu ólíkir við vorum í raun. Hlynur elskaði íþróttir, hann var iðinn við námið og var sérstaklega vel þrifinn. Ég, aftur á móti, hataði að hreyfa mig, þoldi ekki skólann og virtist aldrei geta sett neitt á réttan stað aftur. En ég hafði líka ótrúlegan áhuga fyrir dýrum. Það var bara verst að líkaminn okkar hafði ofnæmi fyrir flest öllum tegundum. Dýr voru það eina sem að ég hafði áhuga á, fyrir utan kannski bækur. Ég vissi allt um dýr og notaði hvert tækifæri þegar ég hafði stjórn yfir líkamanum til að lesa um snáka, rottur, eðlur eða fiska. Ég var gersamlega hugfanginn af öllu sem að hreyfði sig og var ekki mannkyns. Það var kannski einn ókostur, að sumum gæti fundist, um mig. Ég hataði manninn sem tegund.
Ímyndaðu þér það dýr sem þú þolir ekki mest af öllum dýrategundum, t.d. hýenu, og hugsaðu þér að í stað mömmu þinnar og pabba, sæir þú tvær hýenur sem myndu hlæja að þér í hvert sinn þegar þú spyrð þær hvað er í matinn. Þannig sé ég manninn, svona næstum því. Allir vinir mínir og ættingjar eru ekkert nema viðurstyggilegar verur sem eru sífellt að ráðgera hvernig þær geta notfært sér mig, okkur. Það versta við manninn er að hann getur hugsað. Hann er eina lífveran sem getur beitt huga sínum til að notfæra sér aðra. Ekki sérðu köngulær neyða ánamaðka í að veiða fyrir sig flugur? Þannig er maðurinn. Hann skilur ekki og hann vill ekki skilja, ef hann kýs það. En þannig er ég bara.
Við vorum báðir hylltir af gagnstæða kyninu við hvert tækifæri. Bæði vegna íþrótta afrekanna og vegna hinnar djúpu dulúðar sem að sveipaði okkur. Sumar léku eins og konum er einum lagið, eins og þeim væri nákvæmlega sama um okkur. Þá hlið af kvenkyninu sá Hlynur um. Aðrar voru mjög frakkar og sögðu beint út hvað þær vildu. Þannig konur vildi ég. Ég var mjög feiminn og lokaður, enda hafði ég nóg að hugsa um. Því miður eftirlét ég líkamann yfirleitt til Hlyns. Ég hafði ekkert gríðar gaman af því að nota orkuna mína til að hreyfa mig. Í staðinn gaf ég frekar hugsanir mínar. En ég hafði samt gaman af því að dansa. Það var óneitanlega einn veikleiki minn. Dans. Þetta frumstæða form af tjáningu milli kynja höfðaði einhvern veginn til mín. Þetta var eina hreyfingin sem að ég hafði ánægju af. Líklegast vegna þess að ég réði nokkurn veginn hvernig stúlkan sem ég dansaði við hreyfði sig. Mér fannst gaman af því að hafa völd yfir tegundinni sem að ég hataði. Völd voru þó einn mannlegi þátturinn sem að ég fyrirleit mest af öllu.
Þegar við vorum á sautjánda ári, fengu Steinar og Oddur loks að fara af spítalanum. Þeir fengu sér litla íbúð í miðbænum og unu þar vel. Rúm, sófi, klósett og örlítil eldunaraðstaða. Það er allt sem að nútímamaðurinn þarf í lítilli íbúð. En Steinar og Oddur þurftu ekki neitt af þessu. Það fyrsta sem þeir gerðu var að henda eldhús- og baðinnréttingunni á haugana. Síðan brutu þeir niður veggina og komu fyrir einni lítilli dýnu á mitt gólfið. Í fyrsta sinn sem við komum til þeirra, spurðum við þá að því hvar þeir gerðu eiginlega þarfir sínar, og elduðu matinn. “Það er fullkomnlega gott klósett hér beint fyrir utan dyrnar sem að kostar ekki meira en tíu krónur í og pylsukrá þar við hliðina á.” Þegar við komum í heimsókn til þeirra, nær alltaf eftir skólann á föstudögum, snéru þeir við einni málningarfötunni fyrir okkur til að tylla á. Oddur var listmálari. Hann gat gert ótrúlegustu myndir úr einum lit. Hann notaði aldrei fleiri en einn. Þær voru líka allar skiptar í tvennt, eins og spegilmyndir. Hann var alltaf tilbúinn með eina eða tvær nýjar myndir til að sýna okkur. Og íbúðin var hægt og hægt að fyllast af myndum. Hann hafði ekki einu sinni reynt að selja þær. “Hver væri tilgangurinn með því?” sagði hann. “Það er enginn sem skilur þær nema við og þið. Svo fáum við líka allt sem við þurfum örorkuna.” Hann Steinar var ekki ólíkur Oddi, en hann var þó feiminn. Það var yfirleitt Oddur sem talaði þótt að Steinar leiðrétti hann reglulega þegar hann sagði eitthvað vitlaust. Þetta voru góðar sálir sem vildu engum illt né að þeim yrði gert illt. En í heiminum ríkir of mikið óréttlæti sem að maðurinn hefur sjálfur innleitt. Og Steinar og Oddur urðu fyrir barðinu á því.
Þetta var kvöldið á þrjátíu og tveggja ára afmælinu þeirra. Þeir höfðu rifist mest allan daginn, því að Oddur vildi fara eitthvað út til að fagna örlítið, en Steinar, eins ófélagslyndur og hann var, vildi bara eyða enn einu kvöldinu heima í ró og næði, og láta Odd mála mynd fyrir sig. En Odd tókst að fá sínu fram og um kvöldið fóru þeir á lítinn stað nálægt íbúðinni þeirra. Þeir byrjuðu kvöldið með að fá sér tvo bjóra og pöntuðu síðan mat. Það var auðvitað deilt um hvað þeir skyldu fá sér í svanginn en Oddur réði því að lokum, eins og svo mörgu öðru. Að máltíðinni lokinni fengu þeir sér nokkra bjóra til viðbótar. Og þegar að þeir voru orðnir nokkuð vel drukknir ákvað Oddur að lauma hugmynd, sem hann hafði fengið nýverið, að Steinari. “Núna erum við búnir að lifa á þessum bótum okkar, sem eru af skornum skammti, í tæpt ár og mér finnst það ekki nóg að lifa þessu letilífi og gera ekkert nema að mála daginn inn og út. Ég legg til að við fáum okkur vinnu og reynum að gera eitthvað úr þessu lífi okkar.” Hugsaði Oddur. “Vinnu!” sagði Steinar upphátt. “Til hvers væri það, þegar við lifum í öryggi og sátt heima þar sem enginn hugsar illa til okkar?” Fólk var byrjað að horfa á þá með stingandi augum allt í kring. Þeir rifust í smástund en ákváðu síðan að koma sér út meðan þeir hefðu enn rænu. Þeir héldu samt áfram deilunum á leiðinni heim, en þeir tóku ekki eftir því að þeim hafði verið veitt eftirför. Tveir menn á þrítugsaldri, gengu hratt og öruggt á eftir þeim. Þegar að þeir voru komnir að íbúðinni sinni og á leiðinni inn tóku þeir eftir mönnunum. Þeir voru alveg upp við þá. Steinar og Oddur opnuðu hurðina og ætluðu að loka á eftir sér en þá brá annar maðurinn fæti í dyragættina og þröngvaði sér inn. “Hvað er þér á höndum í heimilinu okkar?” spurði Oddur með hvassri röddu. “Ykkar?” svaraði maðurinn. “Mér sýnist þú nú bara vera einn, kallinn.” Það var greinilegur fyrilitningartónn í röddinni hans. Nú var seinni maðurinn kominn inn, og var hann mun yngri en sá fyrri. “Er þetta einhver rugludallur?” sagði hann með glettnisrödd. “Hann veit ekkert í hvaða heimi hann er.” svaraði sá eldri. “Haltu honum!” kallaði hann og sá yngri smeygði sér fimlega bakvið þá og hélt þeim með föstu hálstaki. “Sleppið okkur!” í þetta sinn var það Steinar sem talaði, og var honum nóg boðið. Þá dró eldri maðurinn fram lítinn hníf og stakk honum samstundis á bólakaf inn í síðuna á þeim. Steinar og Oddur hnigu niður og yngri maðurinn sleppti þeim. Mennirnir byrjuðu að sparka og slá í þá af öllum krafti, og spöruðu þeir hvorki höggin né fúkyrðin. Eftir að þeir höfðu fullnægt kvalalosta sínum byrjuðu þeir að leita í íbúðinni að verðmætum. “Andskotinn! Það er ekkert hérna nema einhverjar litaklessur. Komum okkur.” En þeir fóru ekki fyrr en að þeir höfðu gengið úr skugga um það að ekki eitt málverk væri í heilu lagi. Að lokum sýndi eldri maðurinn vonbrigði sín með föstu sparki í höfuð Steinars og Odds.
Við fengum að heimsækja þá á spítalann viku síðar og var sjónin ekki fögur. Alls konar tæki tengd við alla mögulega staði á líkamanum þeirra. Þeir höfðu verið bundnir niður og gátu sig hvergi hrært. Hjúkrunarkonan sagði að sjúklingurinn hefði verið óviðráðanlegur og því hefði þurft að grípa til nauðsynlegra aðgerða. Eftir að við höfðum verið þarna um nokkra hríð byrjuðu þeir að opna augun, hægt og bítandi. Við sáum hversu glaðir þeir voru að sjá okkur, en það hafði eitthvað breyst. Augun voru svo tómleg og sorgmædd þrátt fyrir gleðina yfir að sjá okkur. Eftir nokkra stund sáum við að þeir voru að benda okkur á að taka slönguna sem kom út úr munninum á þeim. “Þeir gátu ekki bjargað honum.” Sagði hann. “Hverjum?” spurðum við. Það kom brestur í röddina. “Oddur er farinn.”
Við sáum Steinar aldrei aftur. Viku seinna var hann sendur aftur á geðhælið og endaði hann ævina stuttu seinna, mánuði fyrir nítján ára afmælið okkar.
Ég jafnaði mig aldrei á þessu og saknaði þeirra beggja mikið. Hlynur, aftur á móti, komst yfir þetta mjög fljótt. Hann hélt áfram í skólanum eins og ekkert hefði í skorist og var ekki að sjá að hann hefði orðið fyrir neinum missi. Ég veit ekki hvað leið langur tími þar til ég gat loks fengið það af mér að stjórna líkamanum aftur, en það var erfitt, svo mikið er víst. Ég þurfti næstum að læra að ganga upp á nýtt, ég var orðinn svo óvanur því að gera nokkuð annað en að hugsa. Ég reyndi að vera kátur og halda lífinu áfram. En alltaf þegar ég réði yfir líkamanum, fór ég á afvikna staði og vildi ekki vera nálægt manninum. Þrátt fyrir mótmæli Hlyns, skrópaði ég ákaft í skólanum og var nær aldrei heima þegar ég réði. Og brátt byrjuðum við að berjast um yfirráð yfir líkamanum. Þá urðu næturnar mun skrautlegri hjá okkur og oft öskruðum við upp úr svefni. Hlynur var mun sterkari en ég þar sem ég hafði lítið aðhafst í dágóðan tíma og var algerlega úr æfingu. Þess vegna var ég yfirleitt mjög þreyttur þegar ég svo loks náði líkamanum og því gerði ég frekar lítið nema að liggja og hugsa allan liðlangan daginn. Staðurinn sem ég fór oftast á var við sjóinn. Það var lítil vík með örlítilli sandfjöru, rétt utan við bæinn. Ég fór þangað í byrjun dags og lagði ekki af stað fyrr en liðið var á kvöld. Síðasta skiptið sem ég kom þangað, sá ég tvo seli synda í briminu, hlið við hlið. Þeir syntu saman og horfðu á okkur alveg þar til ég ákvað að fara. Þá skildust þeir að og hurfu hvor í sína áttina. Þetta var síðasti dagurinn sem að ég og Hlynur tilheyrðum þessum heimi.
Ég ákvað að fara til Steinars og Odds fyrst. Það tók sinn tíma að finna leiðið þeirra á þessum samkomustað látinna manna. “Einhvern tímann,” hugsaði ég með mér, “eftir þúsindir ára, verður ekkert á þessari jörð nema legsteinar og krossar. Þá verður enginn eftirlifandi af mannkyninu og dýrin verða loksins frjáls, ráfandi um á milli minnisvarða um harðstjórnendur þeirra. Nema að maðurinn verði búinn að drepa allt lifandi.” Það var að minnsta kosti eitt sem að ég var staðráðinn í. Það var að enda ekki lífið eins og Steinar. Einn, yfirgefinn og ekkert til að lifa fyrir. Ég stóð lengi við gröfina en mér datt ekkert í hug til þess að segja við þá. “Þeir eru farnir, það er ekkert sem þú getur gert.” Það var Hlyn ekkert að skapi að heilsa upp á gamla vini. En hann vissi ekki að við vorum ekki að heilsa upp á þá. Við vorum að kveðja þá.
Ég settist upp í bílinn og keyrði í dágóða stund. Hlynur spurði mig aftur og aftur hvert við værum að fara en ég svaraði honum ekki. Ég keyrði út fyrir bæinn og hélt áfram þar til það var komið myrkur. Ég stoppaði bílinn við vegkantinn og vissi að núna væri komið að leiðarlokum. “Við erum komnir.” Sagði ég upphátt. “Hvað meinarðu eiginlega.” Sagði Hlynur og ég fann á honum að honum var ekki rótt. “Hvert erum við komnir? Það er ekkert hérna.” Hann var mjög hissa og vissi ekki hvað hann átti að halda. Ég drap á bílnum en hafði kveikt á ljósunum. Ég gekk aðeins lengra og staðnæmdist og um leið kom tunglið fram úr skýjunum. Fyrir neðan okkur blasti við sjórinn, langt fyrir neðan okkur. Ég rétt greindi öldurnar berjast við hamarinn, en hljóðin frá þeim bardaga fyllti eyrun. “Þú gerir þetta ekki!” sagði Hlynur illskeyttur og reyndi að þráast við. “Þú drepur mig líka, mundu það!” En það var um seinan. Ég hafði tekið skrefið og var nú loks á leið í frelsið sem ég hafði þráð svo lengi. “Fyrirgefðu.” sagði ég á leiðinni niður. En hann heyrði það ekki. Hann var önnum kafinn við láta lífið renna frá sér og hugsa um að þetta gæti ekki verið að gerast.
“Hann er byrjaður að anda!” heyrði ég sagt úr fjarlægð. Ég fann að Hlynur var að reyna að toga mig til sín, aftur í líkamann okkar. “Nei.” hugsaði ég. “Ég vill ekki vera til lengur. Komdu með mér. Þú veist að við endum eins og Steinar og Oddur ef við lifum áfram. Við föllum aldrei inn í hópinn og eigum eftir að kveljast inn í okkur þar til við deyjum næst.” Hann hugsaði ekki neitt og ég fann að hann hafði ákveðið að koma með mér í stað þess að vera einn eftir. Hann hefði getað lifað ef hann hefði viljað það. En ég vissi að hann hafði alltaf viljað enda það, rétt eins og ég vildi það, og hann var feginn að ég tók af skarið. Þannig skildumst við að og fórum sitt hvora leiðina inn í framhaldið. Ég fann loksins fyrir því sem ég hafði beðið eftir allt mitt líf. Einmanaleikanum.