15. kafli


Það er eitthvað við það að þurfa að hafa áhyggjur af öðrum. Ég persónulega höndla það miklu frekar ef ógnin steðjar að mér, það er einhvernvegin innan míns valds, ég stjórna ennþá og útkoman liggur bara á herðum mínum og manneskjunnar sem er að eltast við mig. En þegar öðru fólki er blandað inn í málið þá fyrst fara hlutirnir að verða flóknir, maður getur ekki fylgst með öllum sem maður elskar og séð til þess að ekkert slæmt hendi þá.

Þessar hugsanir fóru í gegnum hugann á mér þar sem ég stóð undir heitri vatnsbununni í sturtu. Ég vissi ekki hvað ég átti að gera, hvernig gat ég komið í veg fyrir að eitthvað slæmt myndi koma fyrir vini mína?

Ég starði á farsímann minn þar sem ég þurrkaði á mér hárið. Átti ég að hringja í Nathan? Var það að fara að gera eitthvað gang? Hann gat ekki vitað hvort Grímur ætlaði að gera vinum mínum eitthvað eða ekki. Í stað þess að hringja í Nathan hringdi ég í Alísu.

-Halló? sagði röddin á hinum endanum.

-Hæ, Alísa þetta er Elísabet.

-Ó hæ, hvað segist, hvernig er hausinn? sagði Alísa.

-Hausinn er ágætur en ég þarf að biðja þig um að hafa hægt um þig í dag og fara varlega, sagði ég.

-Nú? Hvað er í gangi?

-Grímur sendi mér óbeina hótun í garð vina minna, og ég er hrædd um að þú sért ein af þeim og hefur lent í klónum á honum áður, sagði ég.

Alísa þagði nokkra stund. –Allt í lagi, ég fer varlega.
-Láttu mig vita ef þú verður vör við eitthvað undarlegt eða sér hann, viltu gera það?

-Já ég geri það, Elísabet, farðu einnig varlega, sagði Alísa áhyggjufull.

Ég greiddi í gegnum hárið á mér og kláraði að klæða mig og hringdi loks í Emelíu líka.

-Elísabet! Oh-my-god, hvernig hefur þú það?

-Ég er lifandi eins og sést og hausinn er miklu betri en í gær, sagði ég.

-Oh vá ég var svo hrædd um að þú myndir vera föst á spítalanum að eilífu eftir þetta brjálaða hrun!

-Hvernig hefur þú það annars? Allt gott? spurði ég meðan ég rótaði í gegnum sokkaskúffuna í leit af tveim eins.

-Já já allt gott héra, er bara heima með Antoni, svo ætlar Baldur að koma hingað í kvöld, viltu kíkja yfir?

Ég hugleiddi það nokkra stund, ég þurfti samt að hitta Nathan seinni partinn.

-Ég sé til hvernig mér líður þá og tala við þig, sagði ég loks.

-Allt í góðu, sagði Emelía og við kvöddumst svo.

Það væri ágætis hugmynd að kíkja til þeirra í kvöld þá gæti ég allavega haft auga með þeim þrem, í það minnsta gæti ég hring aftur til Emelíu um kvöldið og athugað með þau.

Þetta voru mínir nánustu vinir, fólkið sem ég hafði mestar áhyggjur af og ég efaðist stórlega um að Grímur færi að eltast við vini mína úr skólanum.

Ég fór inn til mín og settist við tölvuna að reyna að finna eitthvað gagnlegt um…eitthvað, mér fannst ég vera gjörsamlega hjálparvana. Ég heyrði mömmu fara fram í sturtu enda var komið fram yfir hádegi, hún þurfti brátt að fara í flug.

Ég missti hjartað út úr mér eitt augnablik af ótta við flugið þegar ég mundi aftur að Grímur hafði verið að hóta vinum mínum en ekki fjölskyldu, ég andaði aðeins léttar.

-Elísabet? kallaði mamma innan af baðherberginu þar sem hún var að þurrka á sér hárið.

-Já? sagði ég og labbaði inn á bað.

-Viltu ekki keyra mig á flugvöllinn á eftir, þá getur þú líka verið með bílinn um helgina.

-Jú, endilega.

Ég var með bílpróf en ég var sjaldan á bíl, Bjarki leyfði mér ekki að snerta bílinn sinn og mamma var alltaf á bílnum sínum í vinnunni.

Stuttu seinna fór ég og mamma út og ég keyrði hana á flugvöllinn sem var alveg smá spölur.

-Heyrðu ég skildi eftir pening handa þér á eldhúsborðinu, sagði mamma um leið og hún kyssti mig bless. –Farðu vel með þig og ekki vera að reyna neitt á þig, líkami þinn er ennþá að jafna sig.

-Já mamma, sagði ég og brosti. –Það verður allt í lagi með mig.

Ef foreldrar vissu af því þegar við lygum þá værum við í vondum málum.

Ég hækkaði í tónlistinni, veifaði mömmu einu sinni þar sem hún gekk inn á flugvöllinn og keyrði svo heim á leið.
Nathan sat fyrir framan tröppurnar mínar þegar ég lagði fyrir framan húsið mitt.

-Fyrirgefðu, ertu búinn að sitja hérna lengi? sagði ég og hryllti mig yfir kuldanum sem var í loftinu.

-Ekki mjög, sagði hann. –Ég gerði ráð fyrir að það væri ekki langt í þig.

Ég opnaði hurðina og hann stóð upp fyrir aftan mig og ég fann óþægilega mikið fyrir því hve nálægt hann var.
Hlýjan tók vel á móti okkur þegar við gengum inn og ég hengdi upp jakkann minn en hélt treflinum um hálsinn, það var hrollur í mér.

-Hvað segirðu? Fannstu eitthvað gáfulegt? spurði ég þar sem ég tyllti mér við borðið inní eldhúsi og Nathan elti mig þangað.

Hann lagði umslag á borðið og fékk sér sæti. –Ég fann nokkra menn sem gætu passað við lýsingar þínar á Grími, sumir eru með ljósmyndir, aðrir ekki.

Ég spurði hann næstum af hverju hann hafði verið að hafa fyrir því að prenta út ljósmyndir en mundi svo að hann sá Grím ekki eins og ég gerði það. Sennilega meira eins og skugga en manneskju.

Ég leit yfir skjölin og ljósmyndirnar.

-Engin af þessum ljósmyndum passa við hann en það sakar örugglega ekki fyrir mig að lesa yfir hin blöðin, sagði ég.

Nathan rótaði um í eldhúsinu mínu og setti kaffi á könnuna á meðan ég las yfir þær upplýsingar sem hann hafði aflað.
Ég andvarpaði og lagði blöðin aftur á borðið þar sem Nathan rétti mér kaffibolla.

-Takk, sagði ég og fékk mér sopa. –Ég er hrædd um að ég viti bara ekki nóg um hann Grím okkar, þessar upplýsingar tengjast allar einhverju sem þessir menn voru, ég veit ekkert hver Grímur var. Ég veit ekki neitt.

-Það var það sem ég var hræddur um, ég var að vona að hann væri einhver á þessum ljósmyndum, sagði Nathan og blaðaði í gegnum myndirnar.

-Svo er ekki, sagði ég. –En hvað getum við gert til þess að afla meiri upplýsinga um hann?

Nathan leit hvasst á mig. –Kemur ekki til greina, sagði hann.

-Hvað? Ég sagði ekki neitt.

-Ekki erfitt að ímynda sér hvað þú ert að hugsa, þú ert ekki að fara að hitta hann aftur! Honum er ekki treystandi og það eina sem hann vill er líf þitt!

Ég andvarpaði aftur og greip fastar um kaffibollann. –Hann hafði samband við mig í morgun.

-Elísabet! Ég sagði þér að hringja í mig! sagði Nathan.
-Hann var ekki hérna sjálfur en hann skildi eftir skilaboð til mín, sagði ég. –Hann hótaði að fara aftur á eftir vinum mínum.

Ég leit upp í græn augun á Nathan. –Ég veit ekki hvað ég á að gera.

Reiðilegur svipur Nathans mýktist og hann slakaði á. –Ertu búin að hafa samband við nánustu vini þína?

-Já, ég talaði við þau og þá var allt í lagi með þau, ég sagði Alísu að hringja ef hún yrði vör við eitthvað…

Skyndilega heyrði ég eitthvað brotna frammi. Undrandi stóð ég upp og ætlaði að athuga hvað þetta var. Nathan tók í handlegginn á mér.

-Þú ert ekki að fara neitt ein, sagði hann.

Ég horfði á hann eins og hann væri algjör kjáni. –Grímur gæti ekki verið hérna svona nálægt þér.

Samt sem áður elti hann mig þar sem ég gekk inn í stofu og sá að glas sem hafði staðið á stofuborðinu lá nú í molum á gólfinu.

-Oh, vesen, sagði ég og snéri mér við til að fara að ná í kúst en rak þá augun í spegilinn.

Grímur stóð í speglinum brosandi eins og hann var vanur og lagði fingur á háls eins og hann væri að skera sjálfan sig á háls. Svo var hann horfinn. Ég greip í Nathan.

-Hann var hérna, hvíslaði ég óttaslegin.

Hjartað ætlaði út úr brjóstkassanum á mér þegar síminn minn byrjaði skyndilega að hringja í buxnavasanum mínum. Þetta var Emelía.

-Já? sagði ég í símann.

-E-e-elísabet?

-Já, Emelía hvað er í gangi? spurði ég þar sem ég heyrði grátinn í röddunni hennar. Mér leist illa á þetta.
-Það gerðist s-s-voldið…, hélt hún áfram.

-Emelía, sagði ég röddin mín ótrúlega róleg miðað við það að ég bjóst við því versta. –Hvað gerðist?

Ég heyrði að Emelía brast í grát, ég heyrði einhverjar raddir fyrir aftan hana og svo var síminn tekinn af henni.

-Hæ Elísabet, Anton hér, sagði röddin.

Það var í það minnsta allt í lagi með hann.

-Hvað er í gangi? spurði ég aftur.

-Það er Baldur, hann lenti í bílslysi, frændi hans hringdi í mig. Við erum á leiðinni upp á spítala.

-Ég kem með ykkur, sagði ég lágt.

Ég efaðist ekki um það að Grímur hafði haft eitthvað með þetta bílslys að gera, það kom mér á óvart að hann hafði valið Baldur og mér leið strax mjög illa. Við vorum ekki búin að þekkjast lengi og þetta er það sem hann fær í skiptum fyrir vináttu okkar?

-Allt í lagi, sagði Anton sem var ótrúlega rólegur miðað við hvað þetta var góður vinur hans. Sjokkið ekki búið að leggjast á hann ennþá. –Við hittum þig fyrir utan eftir 10 mínútur, en ég ætla að vara þig við, þetta er víst slæmt.
Ég tók ekkert sérstaklega eftir því en hendurnar á mé skulfu þar sem ég lagði á og setti símann aftur í vasann.

-Hvað gerðist? spurði Nathan áhyggjufullur.

Munnurinn á mér var þurr, ég þurfti að kyngja nokkrum sinnum áður en ég gat komið frá mér orði.

-Hvað gerðist eiginlega? Hver var þetta? spurði Nathan.

Ég sagði ekkert nokkra stund heldur horfði bara fram fyrir mig og leit á glerbrotin sem lágu núna út um allt gólf. Ég þurfti nokkra stund til þess að ná tökum á tilfinningum mínum. Hann hafði gert þetta aftur, ráðist á fólk sem skiptir mig máli í stað þess að ráðast beint gegn mér. Ég þoldi það ekki. Ég var hrædd um Baldur en það var ekki tilfinningin sem fór í gegnum mig þetta augnablik, eitthvað sterkara og dekkra en það þaut í gegnum mig. Ég var reið.

Hann hafði engan rétt til þess að gera þetta, ég vissi það núna að það þýddi ekkert að fela sig bakvið Nathan. Það voru ekki margir hlutir í stöðunni, en hvað sem ég gerði varð ég að hitta Grím. Til að fá hann til að stoppa, til að koma í veg fyrir að hann myndi særa fleiri. Annað hvort yrði ég að ná að eyða honum, sem ég gat auðvitað ekki án upplýsinga um hann sem var vandamál, eða gefa honum það sem hann vildi. Var ég tilbúin til þess að leggja allt undir?

Ég leit upp til Nathans. –Það var Baldur vinur minn, hann lenti í bílslysi, ég er að fara upp á spítala.

-Ég kem með þér, sagði hann.

Ég leit á hann ekki viss hvort ég vildi hann með mér eða ekki. Hann virtist skilja það.

-Þá kemst Grímur í það minnsta ekki nálægt herberginu hjá Baldri. En ég þarf ekkert að koma með þér inn, sagði hann.
Ég kinkaði kolli, ég var ekki tilbúin að útskýra nærveru Nathans fyrir vinum mínum.

Þó áður en við hlupum út sópaði ég saman glerbrotunum svo að ég myndi ekki gleyma þeim þarna.

Við fórum á bílnum hans Nathans og ef þetta hefði ekki verið aðstæðurnar hefði ég sennilega kosið að hann keyrði hægar. Við vorum komin á undan inn að spítala og ég óskaði þess að mamma hefði verið hérna, það hefði verið miklu auðveldara.

Nathan fór að athuga málið meðan ég beið eftir Antoni og Emelíu.

-Hann er á slysa- og bráðadeild, við getum farið þangað þegar þau eru komin, sagði Nathan.

Ég kinkaði kolli og stóð áfram til að bíða eftir hinum. Þau komu eftir nokkrar mínútur á druslunni hans Anton. Emelía hljóp upp tröppurnar til mín og faðmaði mig með tárvot augu. Ég hafði ekki rétt til þess að fella tár, þetta var allt saman mín sök og að leggjast niður og gráta var ekki að fara að bæta stöðuna. Ég kinkaði bara kolli til Antons þegar hann kom upp að mér og hann til baka, ég held að við höfum bæði verið að reyna að halda uppi venjulegu andliti, og þá hjálpaði ekki að fá fólk til að faðma mann, það gerði mann bara veikari fyrir.

Við gengum inn á bráðadeildina og töluðum við læknaritarann í glerinu sem vísaði okkur að herberginu. Anton og Emelía höfðu ekkert sagt í sambandi við Nathan sem gekk rétt á eftir okkur. Við stóðum fyrir framan lokaða hurðina ekki alveg tilbúin til þess að ganga þangað inn ennþá. Nathan fékk sér sæti fyrir framan herbergið og Anton að lokum opnaði.

Hvítt herbergi blasti við eins og flest sjúkrahúsaherbergi, hann var einn í herberginu. Baldur var óeðlilega fölur þar sem hann lá í rúminu í öndunarvél og tengdur í alls kyns snúrur. Hann leit illa út, búið að búa um greinileg sár hér og þar og guð veit hvað. Við þrjú stóðum sem frosin í hurðinni, það var hræðilegt að sjá hann svona, átti hann eftir að…lifa þetta af?

Frændi og frænka Baldurs sátu á stólum við rúmið áhyggjufull og sorgmædd á svip.

Anton tók fyrsta skrefið og fór og heilsaði frænda og frænku Baldurs. Ég hinsvegar gekk einstaklega hægt að rúminu hans Baldurs og leit á hann. Hvítleitt andlitið var blautt af svita og ljósbrúnt hárið límdist við ennið á honum. Það var erfitt að horfa upp á þetta, þetta var sennilega það versta sem Grímur hafði gert til þessa. Ekki einu sinni ég hafði lent svona illa í því og ég var manneskjan sem hann ætlaði sér að drepa.

-Hvernig gerðist þetta eiginlega? heyrði ég Anton spyrja frænda Baldurs.

-Hann var að keyra heim af píanóæfingu og skyndilega fékk bíl í hliðina, það var hringt í okkur nokkru síðar. Hann er búinn að fara í eina aðgerð en þeir munu taka hann aftur inn. Hann er með einhver brot og innvortis blæðingar, mikið meira veit ég ekki.

Þarna kom það aftur, þessi dökka reiði sem fór í gegnum mig og settist við hjartað í mér. Ég vissi ekki hvort ég ætti að gráta eða öskra, þetta kom allt niður á mig, þetta var allt útaf því að hann kynntist mér. Hvað ef hann myndi aldrei spila á píanó aftur? Hvað ef hann myndi ekki vakna aftur, eða einfaldlega ekki hafa það af og deyja og það væri ekkert sem ég gæti gert í því?! Þetta var enginn galdur eða bölvun sem mátti aflétta, Grímur hafði ekki þurft annað en sekúndu til að hafa áhrif á bílinn sem keyrði á hann.

Andskotinn, andskotinn, andskotinn.

Ef Grímur væri ekki draugur myndi ég koma hálsinum á honum milli handanna á mér og halda fast. Það hlaut að vera hægt að gera eitthvað þótt við værum ekki með fullt nafn hans eða aðrar upplýsingar um hann.

Eftir að hafa setið þarna og spjallað létt í langan tíma og að líta í sífellu á Baldur gafst ég upp.

-Ég ætla að fara að koma mér heim, sagði ég og tók í höndina á frænda og frænku Baldurs.

Emelía kom og faðmaði mig einu sinni enn. –Við hringjum í þig ef eitthvað breytist, hún kyngdi. –Til hins betra eða verra.

Ég gekk út og lokaði hurðinni varlega fyrir aftan mig og dró djúpt inn andann. Nathan sat rólegur á stól með kaffibolla og leit upp til mín þegar ég gekk út. Þurfti maðurinn ekki að vinna?

-Jæja? sagði hann góðlega þótt þetta orð merkti í sjálfu sér ekki neitt, nema kannski til að fá einhver viðbrögð frá mér.

-Förum heim til mín, sagði ég einfaldlega.
Nathan kinkaði kolli og stóð upp, henti plastglasinu í nálæga ruslatunnu og gekk rólega á eftir mér út.
Ég sagði ekki neitt, hausinn á mér var of fullur af pælingum, ásökunum og tómleika.

Við settumst upp í bílinn og keyrðum þögul þar til að ég braut þögnina.

-Er enginn önnur leið? Verðum við að finna þessar upplýsingar til þess að geta losað okkur við Grím? spurði ég og snéri mér að Nathan.

-Ég er hræddur um það, við þurfum í það minnsta fullt nafn hans til þess að geta náð taki á sálu hans…annars endar þetta bara illa.

-Þannig það er hægt að kveða hann niður án þess að nota fullt nafn? spurði ég æst.

-Nei, sagði Nathan ákveðinn. –Það er ekki hægt, ég og Eysteinn erum þegar búir að komast að því að það er í raun og veru ekki hægt.

-Er það eitthvað hættulegra? Getum við ekki reynt á það? spurði ég áköf.

-Nei! sagði Nathan nánast reiðilega og svo rólegri. –Nei, við munum ekki reyna á það, það er hættulegra og það er óþarfa að stofna lífi þínu eða okkar í mæri hættu en þau eru í nú þegar.

Ég þagnaði. Ef þetta var svona hættulegt þá gat ég alls ekki beðið Nathan og Eysteinn til að leggja sig í hættu, ég var nú þegar búin að stofna fólkinu í kringum mig í hættu.

Ég andvarpaði og lagði höfuðið á bílarúðuna þar sem við keyrðum framhjá heiminum. Það var farið að dimma enda komið fram yfir kvöldmat. Skyndilega flaug eitthvað smátt framhjá bílnum og ég reisti mig upp til að sjá það betur. Lítil hvít snjókorn flugu framhjá og byrjuðu að reyna sitt besta við að hylja jörðina alla.

-Það er kominn vetur.

Við stoppuðum loks heima hjá mér og ég bauð Nathan inn úr kuldanum. Hann hringdi á skyndibitastað til að senda einhvern kvöldmat til okkar. Ég var samt sem áður ekkert sérstaklega svöng.

-Ég ætla að fá að vera hérna á sófanum hjá þér í nótt ef þér er sama, sagði hann þegar við vorum búin að koma okkur fyrir inn í stofu með kínverskan mat og bíómynd sem ég var ekki að fylgjast með. –Mér líður miklu betur ef ég veit að Grímur er ekki að fara að koma hingað og gera þér eitthvað í nótt.

Ég kinkaði kolli. –Já það væri gott.

Eyðilagði planið mitt en ég gat svosem unnið í kringum hann.
kveðja Ameza