Sjálfsveruhughyggjumaðurinn:
Walter B. Jehovah - ég mun ekki afsaka nafn hans þar sem hann hét þetta í raun - hafði verið sjálfsveruhughyggjumaður allt sitt líf. Sjálfsveruhughuggjumaður, ef þið skylduð ekki kannast við orðið, er sá sem telur að hann sjálfur sé það eina sem raunverulega er til, að annað fólk og heimurinn almennt séu aðeins til í hugarheimi hans, og að ef hann hætti að ímynda sér það myndi það hætta að vera til.(1)
Dag einn varð Walter B. Jehovah virkur sjálfsveruhughyggjumaður. Í sömu vikunni hafði konan hans hlaupist á brott með öðrum manni, hann hafði misst vinnu sína sem skipaafgreiðslumaður, og hann hafði fótbrotið sig við að elta svartan kött til að koma í veg fyrir að kötturinn gengi í veg fyrir sig.
Í rúmi sínu á spítalanum ákvað hann að binda endi á allt saman.
Hann horfði út um gluggann og góndi á stjörnurnar og hann óskaði að þær væru ekki til. Og þær voru ekki lengur til. Síðan óskaði hann að allt hitt fólkið á spítalanum væri ekki til og spítalinn varð undarlega hljóður, jafnvel af spítala að vera. Því næst var það heimurinn allur og skyndilega var hann svífandi í tómi. Hann losaði sig við líkama sinn alveg jafnauðveldlega og steig svo lokaskrefið í því að binda enda á tilveru sína með vilja sínum.
Ekkert gerðist.
Undarlegt, hugsaði hann með sér, getur verið að sjálfsveruhughyggjunni séu takmörk sett?
“Já”, sagði rödd.
“Hver ert þú?” spurði Walter B. Jehovah.
“Ég er sá sem skapaði heiminn sem þú varst að enda við að óska að væri ekki til. Og nú þegar þú hefur leyst mig af hólmi -” það var andvarpað djúpt. “- nú get ég loksins endað mína eigin tilvist, fundið algleymi og látið þig taka við.”
“En - hvernig get ég hætt að vera til? Það er það sem ég er að reyna, skilurðu.”
“Já, ég veit”, sagði röddin. “Þú verður að fara að á sama hátt og ég gerði. Skapaðu heim. Bíddu þar til einhver í honum trúir raunverulega því sem þú trúðir og óskar að hann sé ekki til. Þá getur þú dregið þig í hlé og látið hann taka við. Vertu nú sæll.”
Og röddin hvarf.
Walter B. Jehovah var einn í tóminu og það var aðeins eitt sem hann gat gert. Hann skapaði himin og jörð.
Hann var sjö daga að því.
_____________________________________________________
(1) Þetta gæti nánast verið orðabókarskilgreining á þeirri heimspekikenningu sem heitir sjálfsveruhughyggja eða sólipsismi (e. solipsism) sem er dregið af latnesku orðunum ego solus ipsus, ég einn sjálfur.
___________________________________