Ég var að finna sögu sem ég skrifaðu einhverntímann í 8. bekk minnir mig, um það hvernig ég upplifði skólann. Mig minnar að ég hafi verið beðin um að skrifa texta um það hvernig mér liði í skólanum eða eitthvað álíka. Eníveis, fannst þetta sniðugt og ákvað að pósta hérna svona upp á flippið.
——
Dunk dunk dunk.. Dunk dunk dunk.. Dunk dunk.. Dunk dunk dunk..
Strokleðrið skoppar oftast tvisvar eftir að það lendir á borðinu. Ó, hvað ég elska skólann, maður er alltaf að læra eitthvað nýtt. Ég lít á klukkuna, hún er fimm mínútur í níu. Ég er búin að sitja í íslenskutíma í 45 mínútur og það eru 35 eftir. Tvöfaldir íslenskutímar í byrjun skóla. Uppörvandi. Það eykur tilhlökkunina til að fara í skólann alveg helling. Núna var bjallan að hringja fyrir fimm mínútum og kennarinn er enþá að reyna að sussa óróann úr börnunum eftir það. Þetta suss hefur alltaf stressað mig. Ég reyndi einusinni að biðja kennara kurteisislega um að vinsamlegast að segja „þögn“ í staðin fyrir að sussa vegna þess að það stressaði mig alla upp en hún tók því þannig að ég væri að vera bæði hrokafull og að gera háð að henni. Svo bað hún mig um að hafa þögn með háðslegum tón í röddinni og horfði á mig með einhverjum svip sem ég held ég hafi séð í mynd um konu sem var andsetin af djöflinum. Ég hef aldrei aftur reynt að biðja kennara um að hætta að sussa. Það þarf ekki annað en að sitja með bakið upp að veggnum og fæturna í stólnum til þess að vera hrokagikkur og lélegur nemandi.
Ég lít aftur á klukkuna. Í þessar hugleiðingar mínar hafa farið um það bil tvær og hálf mínúta. Ég þarf að vera hérna inni í rúmlega hálftíma í viðbót og mér líður eins og ég sé að klikkast. Ég horfi upp á töflu og sé að kennarinn er búinn að skrifa niður hvað við eigum að gera í tímanum; verkefni 37 til 39 í Sagnorðum. Ég fatta skyndilega að ég er ekki búin að taka upp bókina og tek hana upp og opna. Ég hlýð að vera hræðilegur nemandi. Kennarinn er búinn að vera að biðja okkur að taka upp bókina í átta mínútur núna og ég er sú eina sem er ekki búin að því. Best að læra, ég má ekki við því að dragast meira aftur úr. Ég finn verkefnið í bókinni. Frábært, ég þarf að skrifa niður hálfa blaðsíðu af texta, til þess eins að breyta honum í þátíð. Svona mikið að skrifa bara til þess að breyta í þátíð, eyðsla á pappír. Tréð sem fór í þessa bók á skilið að lifa. Af hverju er þetta ekki bara munnlegt? Það eina sem ég fæ meira út úr því að skrifa þetta niður er skriftarkrampi og minni blýantur.
Kennarinn sussar á einhvern nálægt mér og ég hrekk við. Ég man ekkert hvað ég var að hugsa. Ég lít á klukkuna. Hún er tvær mínútur yfir níu og ég er búin með hálfa setningu af þessum skitna texta og fæ mig ekki til að halda áfram. Ég lít út um gluggan og sé þar manneskju sem er að labba í áttina að skólanum, úti í myrkrinu. Úti er allt blátt. Á nokkurra metra fresti verður samt allt gult út af ljósastaurnum.
„Elísabet Jónsdóttir“ segir einhver ákveðinni röddu „af hverju ert þú ekki að vinna?“ Ég lít hægt í augun á kennaranum „é-ég var bara að.. hérna..“ „Haltu áfram að vinna eins og allir hinir.“ Ég skrifa nokkur orð niður á greyið bókina sem var einu sinni tré. Ég lít á klukkuna, tíu mínútur yfir níu, semsagt bara tuttugu mínútur eftir. Það er svo gaman að geta hlakkað til einhvers. Ég tek upp strokleðrið. Dunk dunk dunk.. Dunk dunk.. Dunk dunk dunk.. „Elísabet Jónsdóttir viltu gjöra svo vel að hætta þessum hávaða“ segir kennarinn með tón í röddinni sem myndi örugglega drepa kettling. „Jájá“ svara ég. Af hverju hafa kennarar alltaf eitthvað á móti mér? Það er ekki ég sem er að fá endalausar lágar einkunnir eða hlaupa um í skólastofunni í miðjum tíma eða kasta strokleðri í hausinn á fólki. Ég horfi í kring um mig. Bolur bekkjarsystur minnar fangar athygli mína. Mig langar svo í svona bol. Ég horfi út um gluggann. Uppörvandi þetta skammdegi. Mig langar meira til þess að fljúga út um gluggann og gerast vampíra heldur en að halda áfram að mennta mig. Nú þegar ég veit hvernig nám er þá langar mig stundum frekar vera fórnarlamb vampíru heldur en að mennta mig. Ég sekk ofan í hugsanir.
„Elísabet Jónsdóttir, ég hélt ég væri búin að segja þér að halda áfram að vinna. Annað hvort heldur þú áfram eða ferð héðan út!“ Segir kennarinn með ógnvekjandi svip á andlitinu og hendur á mjöðmum. „J.. já“ svara ég aumingjalega og byrja að breyta bannsettum textanum í þátíð. Þegar kennarinn er kominn í hæfilega fjarlægð þá lít ég aftur á klukkuna. Hún er 23 mínútur yfir. Ég hef heldur betur verið lengi að stara út í loftið og slefa og búa til sögur í huganum. Ég finn hlýja tilfinningu í brjósti mér, bæði vegna þess að ég er glöð að það sé svona lítið eftir af tíman og svo líka vegna þess að það er svo heitt hérna inni að ég er komin með gríðarlegar áhyggjur af því að ég lykti illa eða það séu svitablettir í handakrikunum á mér.
Þegar það eru fjórar mínútur eftir af tímanum þá er fólk farið að pakka skóladótinu niður í tösku. Þar á meðal ég. Ég er alltaf fyrst. Kennarinn tekur eftir því, stendur upp og gargar á okkur að tíminn sé ekki búinn. Nó sjitt sjerlokk. Hún notar alla krafta í að öskra á okkur að tíminn sé ekki búinn og að við eigum að pakka hlutunum okkar upp aftur. Þegar hún er búin að eyða þessum seinustu fjórum mínútum í að öskra, garga, sussa og búa til hljóð og merki til að koma okkur í skilning um að tíminn sé ekki búinn þá hringir bjallan. Hún yfirgnæfir bjölluna með orðum um að við megum ekki fara og að við eigum að klára tímavinnuna og verkefni 40 heima fyrir næsta tíma. Öll gleðin sem fylgdi því að tíminn sé búinn hvarf samstundis.
Þegar ég kem út úr tíma þá kíki ég á stundatöfluna. Næsti tími er stærðfræði. Mig langar að eyða frímínútunum í að grenja. En ég hef ekki tíma, ég þarf að læra heima í náttúrufræðinni sem kemur á eftir stærðfræðinni. Ég neyðist til þess að fylgja straumnum niður í matsal, ég vil ekki verða undir hjörðinni. Þegar ég geng inn í matsalinn kem ég strax auga á vini mína. Þau sitja við sama borð og venjulega. Ég sest niður við hliðina á Lilju, brúnhærðri stúlku með bleikar strípur í augnsíðum toppnum. „Náttúrufræði“ segi ég. „Ekki aftur Elísabet, ertu alveg hætt að læra heima?“ Spyr hún mig til baka. „Nei mamma, ég bara gleymdi því í gær“ segi ég og tek upp náttúrufræði bækurnar. Hún gerir slíkt hið sama og réttir mér. Ég tek við bókunum og opna þær. Ég skrifa svörin hratt niður á blað, ég hef bara korter. Á meðan fólkið í matsalnum talar og hlær og talar.. og hlær.
Eftir tíu mínútur og fjörutíu og sjö sekúndur fær Lilja bækurnar sínar aftur. Ég er loksins búin að læra. Ég tek upp nestið mitt og borða það í flýti. Sólberjasvali og brauð með osti. Það er ekki gaman að sulla niður á sig sólberjasvala. Ég fer alltaf varlega með þá. Þegar bjallan hringir þá sting ég upp í mig það sem eftir er af brauðinu og hendi svalanum í ruslið. Það er stærðfræði í næsta tíma, ég fæ hnút í magan þegar ég geri mér grein fyrir því.
Ég kem inn í stærðfræði og sest niður.
Kennarinn er að lesa upp. „Elísabet Jónsdóttir“. „Mgh“ segi ég, með fullan munnin af brauði þannig að mylsnurnar fara út um allt. „Það á að nota frímínúturnar í að borða“ segir kennarinn fýlulega og heldur áfram að lesa upp. Ég á í miklum erfiðleikum við að tyggja. Þetta brauð er óeðlilega þurrt. Af hverju henti ég afgangnum af svalanum? Kennarinn skrifar upp á töflu hvað við eigum að gera í tímanum. Dæmi 13 – 20 í almennum brotum. Hún byrjar að tala en allur bekkurinn byrjar að tala um leið og yfirgnæfir hana. Hún byrjar þá að tala hærra til að reyna að yfirgnæfa bekkinn, sem byrjar sjálfkrafa að tala enþá hærra. Lætin hérna inni eru núna álíka og inni á einhverri fótboltabúllu þegar England skorar mark. Eini munurinn er sá að hérna lýkur hávaðanum ekki á fimm mínútum heldur fjörutíu. Ég lít á klukkuna, hún er tíu. Fimm mínútur búnar af tímanum. Ég er farin að hafa áhyggjur af grey frumunum í eyrunum á mér, þær endurnýja sig ekki.
Kennarinn er búinn að gefast upp á því að fanga athygli bekkjarins. Svo er skyndilega eins og að hún fengi hugmynd. „Krakkar mínir,“ segir hún hátt „nú ætlum við að fara yfir prófið sem þið tókuð í seinasta tíma“ þegar hún sagði þetta þá þagnaði allt. Hún gengur um og dreifir prófunum. Ég finn loksins fyrir spenningi. Þegar ég fæ prófið loksins seinust af öllum þá þori ég ekki að kíkja á einkuninna. „Fékk einhver tíu?“ Spyr einhver í bekknum. „Já, það fékk einn tíu“ svaraði kennarinn. Bekkurinn lítur á mig. Ég kíki á einkunnina. 10.0. „Gat nú verið“ hugsa ég og verð fyrir nokkurs konar vonbrigðum. Það getur ekki verið eðlilegt að verða fyrir vonbrigðum með tíu. „Ertu ekki ánægð?“ Spyr kennarinn. „Jú“ svara ég og ætla að brosa en ég er hrædd um að ég hafi litið út eins og Halldór Ásgrímsson á þessu augnabliki. Kennarinn horfir skringilega á mig, snýr sér við og gengur að töflunni.