Gulur stóð á tröppunum fyrir utan húsið sitt með kaffibolla í hendinni. Hann var, eins og alltaf, í skærgulum jakkafötum, í hvítri skyrtu innanundir og með gult, stórt bindi. Ljóst hárið hafði hann vatnsgreitt aftur á bak og greiðuna, sem líktist lúsakambi reyndar óþægilega mikið, geymdi hann í brjóstvasanum á jakkafötunum ásamt hvítri rós. Gulur hafði staðið frekar lengi á tröppunum og sötrað á kaffinu áður en Krani, sem hann hafði verið að bíða eftir, lét sjá sig. Gulur kallaði hann alltaf Krana vegna nefrennslisins sem hann virtist ekki geta losnað við og því var alltaf eins og það væri skrúfað frá nefinu hans. Krani var vandræðalegur á svipinn, eins og reyndar alltaf, og virtist hræðast Gulan, sem hann talaði þó um í daglegu tali sem sinn besta vin.
Gulur trúði ekki sínum eigin augum þegar hann sá Krana; hann var í bláum bol og rauðum kvartbuxum enda frekar gott veður úti. En þeir voru að fara í afmæli! Gulur leyndi ekkert vonbrigðunum sínum: „Af hverju ertu ekki í skyrtu? Þú ert ekkert nógu fínn svona,“ sagði hann og tókst, með erfiðismunum, að halda sér rólegum. Ef það var á annað borð hægt þá varð Krani enn vandræðalegri á svipinn. „Æjh. Ég hélt að ég þyrfti ekkert að mæta fínn. Ég hélt að við ætluðum bara að mæta, ljúka þessu af og fara.“
„Já, en þetta er afmæli og við þurfum að vera fínir,“ hvæsti Gulur á milli samanbitinna tannanna. „Já, ég bara vissi ekki…á ég að fara heim og skipta?“ Krani fékk augnaráð frá Gulum eins og Krani hefði bitið hann í stóru tána. „Nei, við erum að verða seinir. Þetta er bara þitt vandamál.“ Krana fannst hann hafa valdið Gulum vonbrigðum og saug upp í nefið. . „Fyrirgefðu. Ég get sko alveg farið heim og reddað þe– “ Krani náði ekki að klára. „Nei! Afmælið er að byrja.“ Krani sagði ekkert; hann leit bara á jörðina – rétt eins og hann hefði skammast sín. Gulur horfði lengi á hann og smám saman færðist aftur bros yfir hann. Hann tók um axlirnar á Krana, sem setti hendurnar í vasann. „Jæja, höldum þá af stað,“ sagði Gulur og fór að fordæmi Krana og stakk höndunum í vasann.
Þeir gengu þöglir um stund. Þögnin var, að Krana mati, farin að verða óbærileg og hann ákvað því að rjúfa hana: „Af hverju ætlum við eiginlega að gera þetta?“ Gulur þurfti ekkert að íhuga svarið; hann svaraði um leið og Krani hafði sleppt síðasta orðinu af tungunni: „Af því hann á afmæli.“ Krani kinkaði kollinum. . „Já, auðvitað. En geturðu sagt mér aftur hvernig við ætlum að gera þetta?“ Gulur andvarpaði en Krani fann þó ekki fyrir miklum pirringi í því; þvert á móti fannst honum vera léttir í þessu andvarpi. „Já. Við förum þarna inn, blöndum aðeins geði við fólkið, gerum þetta leiðinlega afmælissull sem alltaf er gert í afmælum – syngjum afmælissönginn og svona. Svo gerum við þú-veist-hvað og förum svo bara út. Skilurðu?“ Krani horfði hugsi á fæturna sína og svaraði Gulum svo: „Tjaa, já. En hvað ef einhver kemur upp um okkur áður en við náum að klára verkið?“
„Það er engin hætta á því, kallinn minn,“ sagði Gulur, „þetta er allt undir stjórn, treystu mér.“
Enn og aftur byrjaði þögnin að byggjast upp í kringum þá eins og þykkur veggur. Krana leið illa í þögninni og byrjaði að rífa vegginn niður. . „Hvernig heldurðu eiginlega að tilfinningin sé?“ spurði hann.
„Hvaða tilfinning?“ Krani horfði kæruleysislegur á grænu Converse-skóna sem mamma hans hafði gefið honum í fyrra. „Æj, þú veist, að deyja,“ sagði hann svo án þess að sleppa augunum af skónum. „Ég held að hún sé bara eins og að vakna eftir langan svefn – og geta ekki opnað augun.“
„Ætli það ekki…“
„En ef við gerum þú-veist-hvað við hann, förum við þá ekki til helvítis?“ spurði Krani, kærulausari en maður í Ku-Klux-Klan-kufli í norðurhluta Bronx. Gulur blés út um hálflokaðar varirnar svo þær hristust upp og niður og hló svo léttum hlátri. „Nei, að sjálfsögðu ekki. Við erum bara að gera heiminum greiða með þessu.“ Krani var sáttur við þetta svara – eða allavega þar til stór áhyggjusvipur lagðist yfir hann. „En hvað með foreldra hans? Verða þau ekkert reið ef við…þú veist…drepum hann?“ Aftur hló Gulur – í þetta skiptið hljómaði hann mun geðveikari. „Nei. Þau hata hann hvort sem er líka.“
„Ertu viss?“ spurði Krani. „Hef ég einhvern tímann ekki verið viss?“ spurði Gulur á móti og horfði ásakandi á félaga sinn, sem svaraði engu.
Þeir gengu rólega hlið við hlið án þess að segja nokkuð; hlustuðu bara á þögnina. Þegar Krani var við það að opna munninn til að rjúfa þögnina þreif Gulur í hann. „Við erum komnir,“ sagði hann. Þeir fóru inn í garðinn og gengu eftir hellulögðum göngustíg inn að húsinu. Þeir virtu fyrir sér hurðina þar til Gulur rak augun í dyrabjölluna og hringdi henni. Lag sem þeir báðir könnuðust við en hvorugur gat með nokkru móti munað hvað héti ómaði um íðbúðina um leið og Gulur hafði sleppt takkanum. Það leið ekki á löngu þar til hurðin opnaðist; það var einhver sem var greinilega nýkominn inn sem opnaði hana fyrir þeim og kláraði svo að klæða sig úr skónum. Þeir félagar pældu ekkert í því og gengu bara inn á glansandi, flísalagt gólfið á skítugum skónum.
Þegar þeir komu inn í borðstofuna mættu þeim allir gestirnir og voru við það að hefja afmælissönginn. Afmælisbarnið – ef barn mætti kalla – stóð í miðjunni með gulan hatt á hausnum. Gulur hristi hausinn þegar hann sá þetta höfuðfat.
„Hann á afmæli í dag.
Hann á afmæli í dag.
Hann á afmæli hann–“
Áður en þau gátu sagt nafn afmælisbarnsins bleytti Gulur varirnar með tungunni tók hnífinn upp úr vasanum á gulu jakkafatabuxunum og rak hann á kaf í andlitið á afmælisbarninu – rétt hægra megin við nefið, ofarlega. Ekkert heyrðist frá stráknum en mamma hans öskraði hátt þegar strákurinn féll lífvana í jörðina og lenti harkalega – ekki að það hafi skipt einhverju máli – með höfuðið á flísunum. Blóðið frussaðist, spýttist og lak út um allt. Flísarnar urðu fljótlega eldrauðar og blóðslettur skvettust á jakkaföt Guls. Allir stóðu stjarfir og enginn gerði neitt nema mamma stráksins; hún lá í hnipri yfir honum og grét. Gulur gretti sig og tók rauða servíettu af borðinu. Hann þurrkaði mest allt blóðið burt með henni og tók svo upp fulla Kristalflösku af sama borði. Hann leit á alla gestina, sem horfðu bara á hann og gerðu ekki neitt. Það var ekki skrítið þar sem þeir virtust flestir vera komnir langt á annað hundrað í árum talið – líklegast fjölskylduafmæli. „Blóðið fer víst betur úr ef ég set þetta með í þvottavélina,“ sagði Gulur og blikkaði gestina.
Hann benti Krana, sem hlýddi, svo á að koma til sín. Saman gengu þeir svo út, raulandi afmælissönginn.