ég ákvað að búa til smásögu byggða á ljóði sem ég orti fyrir nokkru..endliega segið mér hvað ykkur finnst
Húsið
Þegar ég var yngri fórum við pabbi oft í göngurferðir. Við gengum um allt, uppá klettótt fjöll, um víða dali og dimma skóga. Eitt skipti vorum við á gangi niður við sjó. Niður við sjávarmálið stóð gamalt, lágreist og dökkleitt hús. Það var nelgt fyrir alla glugga. Pabbi benti mér á það og sagði.
-Í þessu húsi er reimt.
Mörgum árum seinna eignaðist ég þetta hús. Ég nelgdi frá öllum gluggum og opnaði húsið fyrir sólskini. Angan af þangi og söltum sjó fyllti hvert herbergi og ég sofnaði öll kvöld við andardrátt aldanna. Ég eyddi heilu sumri í að koma húsinu í gott stand. Ég málaði, gerði við og lagfærði þar til að ég var orðinn ánægður.
Svo kom haustið. Dimmt og kalt sigldi það yfir dyrakamrinn og inn í húsið. Þar tók það sér bólfestu í hverjum glugga, hverri skúffu og skáp. Kvöldin urðu einmanaleg en ég reyndi að finna mér félagsskap í dýralífi fjörunnar. En smátt og smátt lagðist það í dvala og ég var eftir einn. Dagurinn styttist og loks byrjaði að snjóa.
Næturnar urðu dimmar. Ég gekk um allt húsið og tendraði ljós í hverju herbergi, en samt losnaði ég aldrei við einmanaleikann. Hann ásótti mig janfvel í draumum mínum.
Eitt kvöld, stuttu eftir jól, sat ég inni í stofu og horfði á eldinn í arninum brenna.Fyrir utan gnauðaði vindurinn og á stofuveggjunum mynduðust undarlegir skuggar, þar dönsuðu indíánar og buffalóar hlupu skelfdir yfir endalausar sléttur vestursins, glæpamenn voru hengdir og riddarar börðust við dreka. Allt í einu, í miðjum hugrenningum mínum, heyrði ég hlátur. Ekki venjulegan hlátur, þennan sem við þekkjum öll, heldur holan og fjarlægan. Ég var ekki viss um að hafa heyrt hláturinn, eða kannski ímyndaði ég mér hann bara. Ég hélt í mér andanum, hlustaði eftir hverju hljóði en heyrði ekkert nema bárurnar berja steinana í fjörunni og vælið í vindinum.
Ég lét mig síga neðar í sætið og varpaði öndinni léttar. Ég hafði greinilega látið ímyndunaraflið blekkja mig. En samt var eitthvað innra með mér sem kallaðist á við þennan hlátur. Ég reis upp og ákvað að ganga milli herbergja og ganga úr skugga um að ég væri einn. Þessi könnun mín leiddi það eitt í ljós sem ég vissi þá, að ég var einn og hafði augljóslega misheyrt eitthvað. Kannski hafði þetta bara verið már á veiðum niður í fjöru, kannski var þetta bara hjal aldanna við fjöruborðið, kannski ….
Skyndilega heyrði ég hláturinn aftur. Í þetta skiptið mun greinilegar. Hárin risu á höfðinu á mér og kalt vatn rann mér milli skins og hörunds. Hláturinn var enn jafn holur og fjarlægur en samt hljómaði hann svo djúpt inni í mér, einhvern veginn bergmálaði hann niður í kviðarholið, eins og hróp í dimmum helli. Ég gekk aftur herbergi úr herbergi, leit út um alla glugga og opnaði alla skápa. Ég var einn. En hvað var þarna og hló? Alls kyns myrkir órar og löngu dreymdar martraðir ofsóttu huga minn.
Ég gekk aftur inn í stofu. Ég settist niður og ákvað að reyna að ná stjórn á hræðslu minni. Allt var hljótt, -undarlega hljótt. Það var eins og vindurinn væri að bíða eftir einhverju og öldurnar virtust hafa sofnað. Ég stífnaði upp og hlustaði eftir öllum hljóðum. Lágt, ofurlágt, einhvers staðar langt í burtu greindi ég tónlist. Ekki nútímatónlist, ekki danstónlist heldur tónlist dragspils og fiðlu. Einhvers staðar var spilað fyrir dansi. Tónarnir svifu milli veggjanna og svæfðu mig.
Ég glaðvaknaði við skerandi öskur. Ég spratt upp úr stólnum og þaut út úr stofunni. Ég heyrði greinilega tvær mannsraddir rifast hástöfum. Þær hljómuðu svo hátt að ég hélt að þakið myndi rifna af húsinu. Ég greip fyrir eyrun, ég vildi ekki hlusta en raddirnar komust í gegnum fingurna. Inn í eyrun. Inn í hugann og ég öskraði af sársauka.
Nóttin leið. Ég gladdist við að sjá sólina rísa yfir sjóndeildarhringinn. Frostið fyrir utan hafði myndað bensínlitaðar rósir á gluggunum. Ég stóð lengi við gluggann og horfði á sólrisið. Ég tók eftir tveimur mönnum á gangi í fjörunni. Annar var mun stærri en hinn, eflaust barn og fullorðinn. Ég veifaði til þeirra en þeir virtust ekki taka eftir mér. Sá stærri benti í átt að húsinu og einhvern veginn barst tal þeirra með vindinum til eyrna minna. Hann sagði.
-Í þessu húsi er reimt.