Brauð
“Ímyndaðu þér að þú fáir engan mat nema rétt nóg til að halda lífi, og aldrei nóg til að verða södd. Þú hefðir enga orku né löngun til neins annars en að bíða eftir næsta brauðbita. Ímyndaðu þér að þú hefðir möguleika á að breyta þessu fyrirkomulagi. Möguleika á að lifa í vellystingum það sem eftir væri. En þessum möguleika fylgdi einnig andstæðan, möguleikinn á að fá aldrei aftur að borða. Þú myndir líða vítiskvalir síðustu daga ævinnar áður en þú sálaðist úr hungri. Og nú spyr ég þig, myndirðu ekki taka áhættuna?”
Hún leit hikandi, spyrjandi á hann. “Er ekki dauðinn betri en eilíf píning?” áréttaði hann. “Tja… jú, ég býst við því.” Hún hnyklaði brýnnar. “Hvað ertu að reyna að segja mér?” Hann leit niður, hugsi. Leit svo ákveðið beint í augu hennar. “Það sem ég er að reyna að segja þér, er að svona líður mér.” Hún lyfti annari augabrúninni. “Ertu svangur?” Hann leit niður og andvarpaði. ”Nei. Ekki líkamlega. Andlega.“ Hann þagði í langt augnablik. Leit svo alvörugefinn upp. ”Og þú ert næringin mín. Ég þoli ekki lengur að lifa sífellt hungraður með ekkert til að lifa fyrir nema næsta augnatillit, bros eða hlý orð frá þér. Ég þoli ekki lengur þetta fyrirkomulag. Og það er algjörlega undir þér komið hvort ég hlýt vellystingar… eða svelt til dauða."
—
Dyrnar
“Hvað ertu að hugsa?” spurði hún loksins, eins og til að rjúfa þögnina. Hvorugt þeirra hafði sagt neitt lengi, þó þau hafi setið þarna tvö ein enn lengur. Hann hafði margsinnis opnað munninn eins og hann ætlaði að segja eitthvað en alltaf hætt við og haldið áfram að stara til skiptis út í tómið og á hana.
Hann svaraði ekki strax, en virti hana fyrir sér og velti því fyrir sér hvort hún vildi virkilega vita það. “Ímyndaðu þér að þú hafir verið lengi ein á gangi eftir krókóttum stíg. Ímyndaðu þér að þér sé orðið kalt og að þú sért orðin uppgefin og einmana,” sagði hann, alvarlegur og sposkur á svip í senn. “Gott og vel,” svaraði hún og hnyklaði brýnnar. Hún vissi ekki hvert hann ætlaði með þetta, en skynjaði að meira bjó að baki en löngun til að segja henni sögu. ”Ímyndaðu þér að þú sért komin að dyrum,“ hélt hann áfram. ”Þær eru akkúrat mátulega háar og breiðar fyrir þig, viðurinn í hurðinni er fallegur og þú finnur ylinn streyma í gegn þegar þú leggur loppna hönd við hana.“
”Ég myndi vilja komast inn,“ sagði hún. ”En dyrnar eru læstar innan frá. Þú bankar og hleri opnast þar sem einhver horfir út á þig. ‘Viltu hleypa mér inn?’ spyrðu, ánægð með að hafa fundið svona fallegar og passlegar dyr. ‘Ég veit ekki með það,’ svarar rödd þess sem horfir á þig handan dyranna. ‘Hér hefur enginn komið lengi og ég átti ekki von á neinum. En ég skal hugsa málið.’ Að því búnu lokast hlerinn. Ætli þú verðir látin bíða lengi? Ætli biðin sé þess virði? Þú veist ekki einu sinni hvernig er umhorfs fyrir innan dyrnar. Og satt best að segja eru þetta ekki einu dyrnar sem þú hefur rekist á síðan þú lagðir af stað. Raunar eru dyrnar nánast óteljandi, hverjar einar og einustu frábrugðnar öðrum dyrum að einhverju leiti þó þú sjáir ekki alltaf muninn í fljótu bragði. En engar höfðu vakið jafn sterka löngun hjá þér til að komast inn. Flestar þeirra voru læstar, en ekki allar. Sumar stóðu jafnvel opnar eða í hálfa gátt. En það er í mannsins eðli að sækjast eftir því sem erfiðara era ð nálgast, og við allar hinardyrnar gastu fundið og marga galla. Of háar, lágar, breiðar, mjóar, þykkar, þunnar. Of mikið skreyttar hurðir fældu þig frá, því þú hefur aldrei verið glysgjörn, og ert þar að auki sannfærð um að þar búi slæmt og ágjarnt folk. Sums staðar er viðurinn fúinn, og sums staðar berst enginn ylur að innan.
“Og nú spyr ég þig,” hélt hann áfram og horfði ákveðinn í augu hennar, “myndirðu bíða fyrir utan, í kuldanum, eftir einhverju sem þú veist ekki fyrir víst að er það rétta fyrir þig, eða hvort þú fáir yfir höfuð, eða myndirðu sætta þig við einhverjar af hinum dyrunum?”
Peace through love, understanding and superior firepower.