Þetta var bara venjulegur dagur í skólanum hjá mér; ekki læra neitt og mistakast það að fá athygli sætustu stelpunnar í bekknum með því að stíga upp á borð í matarhléinu og fara með, að flestra mati, fremur misheppnað ljóð.

(Ó, mín fagra Beta,
þú ert eins og eftirseta;
ég þig á hverjum degi sé
og, nei, fæ aldrei nóg af þér.)


Eftir að ég hafði lokið við flutninginn var eins og hláturskeppni hefði sprottið upp í salnum þar sem hver hló öðrum hærra og meira. Ég horfði niðurlútur yfir hópinn og skildi, þrátt fyrir að ég segði annað við mömmu og pabba, að ég ætti enga vini. Eða, ég átti reyndar einn vin. Hann hét – eða heitir – Eiríkur og var með einhverfu á háu stigi. Hann þótti mér alltaf mjög vænt um.

Þegar skólinn var búinn tæmdi ég allt úr skólatöskunni minni í skápinn og skellti tómri töskunni á bakið. Ég hugsaði aðeins um daginn á leiðinni heim – þetta var pínu svalt hjá mér, að lesa upp ástarljóð til Betu, vinælustu og flottustu stelpunnar í öllum skólanum. Ég fengi klárlega nokkurra daga athygli út á þetta og hver veit, mögulega smá vinsældir. Ég myndi nú ekki slá hendinni á móti þeim. En því meir sem ég hugsaði um þetta því ólíklegra fannst mér þetta.

Ég kom heim þegar klukkan var nýbyrjuð að ganga fjögur. Enginn heima; mamma líklegast upptekinn á auglýsingaskrifstofunni og pabbi úti í Bandaríkjunum að ganga frá einhverjum lyfjasamningum. Stóri bróðir minn hafði svo ekki komið heim í nokkrar vikur. Mér fannst ekkert leiðinlegt að vera einn heima. Þá fékk ég kyrrð og ró til þess að lesa. Ég tók skólatöskuna af bakinu og henti henni inn í fataskápinn – þrátt fyrir að ég vissi að mamma yrði alltaf pirruð þegar ég gerði þetta. Svo fór ég inn í eldhús enda orðinn svangur. Á eldhúsborðinu stóð matardiskur íklæddur plastpoka. Á disknum voru nokkrir kanilklattar – mamma þekkti mig, hún má eiga það. Á plastpokann var límdur gulur Post-it miði:

Hendrix!
Verði þér að góðu. 3000 kall á kommóðunni fyrir pizzu í kvöld – verð seint á ferðinni.
Kv. Mamms.


Ég yrði þá einn í kvöld líka, fínt. Mér fannst alltaf jafnskrítið þegar hún kallaði mig Hendrix – hún var sú eina sem fannst ég góður á gítar. Ég hellti mér mjólk í glas og settist við eldhúsborðið. Bragðlaukarnir mínir og klattarnir dönsuðu tangó á meðan ég snæddi þá. Ég svolgraði mjólkina svo í mig í einum teyg og henti disknum og glasinu í vaskinn ofan á leirtausfjallið sem hafði farið ört stækkandi síðustu dagana.

Ég varð dasaður og þreyttur eftir matinn, og reyndar erfiðan dag, og tók mér því bókina Viltu vinna milljarð? í hönd og lagðist upp í sófa. Ég var ekki kominn langt í bókinni; Ram var nýbúinn að svara fyrstu spurningunni réttri og því nóg eftir. Ég fann að þreytan var farin að ná tökum á mér. Loks fór svo að hún náði yfirhöndinni og ég sofnaði værum blundi.

Oftast þegar ég sofnaði á daginn dreymdi mig eitthvað sem ég mundi greinilega eftir þegar ég vaknaði. Það var þó ekki málið í þetta skipti; mig dreymdi ekkert – allavega ekkert sem ég mundi eftir. Ég hrökk upp með andfælum – mér brá við eitthvað. Ég leit á úrið – úrið sem var alltaf fimm mínútum of seint: 19:43. Ég var búinn að sofa í fjóra klukkutíma og var orðinn helvíti svangur. Ég stökk á fætur og tók upp símann, sem stóð saklaus í hleðslu. Ég stimplaði inn númerið á pizzastaðnum og síminn hringdi bara einu sinni áður en einhver svaraði. Unglingspiltur sem átti í erfiðleikum með röddina sína svaraði og spurði hvað mætti bjóða mér. Ég bað bara um það sama og vanalega: skink’o’ananas. Ég gaf honum svo upp nafn og heimilisfang. Hann sagði að það væri mikið að gera en pizzan ætti að vera komin til mín innan klukkutíma. Langt í það, fannst mér, en pizzan yrði bara betri fyrir vikið.

Ég setti símann aftur í hleðsluna. Næsti áfangastaður var klósettið. Ég var að ganga í áttina að því og framhjá stigaganginum sem leiddi niður á neðri hæðina þegar ég heyrði eitthvert hljóð. Hrygluhljóð? Enginn heima nema ég svo það gat varla verið. Ég leit niður stigaganginn en sá frekar illa niður þar sem ljósið í honum var slökkt. Ég sá eitthvað neðst niðri í tröppunum – eitthvað sem hreyfðist. Ég heyrði hljóðið betur og þetta var greinilega hrygluhljóð sem kom þaðan. Mér var farið að finnast þetta frekar óhugnalegt. Ég steig niður í efstu tröppuna. Svo fór ég niður nokkrar í viðbót. Þetta sem lá neðst í tröppunum var greinilega manneskja. Fæturnir voru í tröppunum en líkaminn lá niðri á gólfinu. Persónan var í hvítum bol og gallabuxum – alveg eins og ég. Það heyrðist holt hljóð í tröppunum þegar ég steig í þær. Ég var kominn nær persónunni og það sem ég sá kom mér á óvart þrátt fyrir að ég hafi á einhvern hátt óttast þetta. Neðst í tröppunum lá ég – eða líkami minn, líflaus – með hníf upp í gegnum hökuna og upp í munn. Ég lá þarna í bol sem hafði verið hvítur áðan – eða er það núna? – en var orðinn dökkrauður núna. Ég var fullkomlega ruglaður…vissi ekkert hvað var að gerast.

Ég lá neðst í tröppunum, dauður! En samt stóð ég þarna og horfði á sjálfan mig. Mér leið hræðilega þarna inni í stigaganginum og hljóp upp – ætlaði bara að komast út. En ég komst ekki út. Þegar ég var kominn efst upp og ætlaði út úr stigaganginum var eitthvað sem lokaði útganginum – eitthvað sem ég sá ekki. Ég sá út úr stigaganginum en komst ekki út úr honum. Ég hljóp niður, kannski kæmist ég þar út. Ég kom að sjálfum mér liggjandi þar og klofaði yfir mig til þess að komast að útganginum. En þar mætti mér bara það sama; ég sá út en komst ekkert. Mér leið hræðilega þarna í kringum sjálfan mig og stökk því ofar í tröppurnar – bara svo ég þyrfti ekki að vera hjá mér. Ég sat þarna í einhverja stund – hafði ekki hugmynd um hversu lengi. Allt í einu varð allt dimmt. Bara myrkrið, ég og ég. Ég sá ekkert en fann að ég sat enn í tröppunum. Allt í einu byrjaði ljósið í stigaganginum að blikka. Þetta var hræðilegt; mér hafði aldrei liðið jafnilla um ævina. Á meðan ljósið blikkaði hvarf ég, sem lá neðst í tröppunum, og birtist á víxl. Var ég þarna eða ekki? Stundum sá ég mig, stundum ekki.

Ég gat þetta ekki lengur! Ég hljóp að efri útganginum og barði á hann – eða barði á ekkert. Hnúarnir mínir mættu samt einhverju – einhverju sem ég sá ekki. Ég barði og barði og barði…alveg þar til ég var rúinn öllum kröftum. Ég settist svo í þriðju efstu tröppuna og grét. Ég réði ekkert við mig. Ljósin hættu að blikka og myrkrið var komið aftur. Ég sat þarna í langan tíma að mér fannst. Svo kviknaði ljósið. Ég, sem áðan lá neðst niðri, var horfinn. En í tröppunni í miðjunni – númer sex frá báðum hliðum – sá ég hníf. Stóran hníf. Ég fór að honum, tók hann upp og virti hann fyrir mér. Þetta var ósköp venjulegur hnífur – gæti hafa verið í eign hermanns miðað við útlitið og stærðina. Hvað átti ég að gera við einhvern helvítis hníf og hvað var hann að gera þarna?! Ég sat lengi í tröppunum – lítið annað sem ég gat gert. Ég horfði á hnífinn; allt í einu virtist hann vera vinalegur. Hann allavega bauð mér leið út úr þessu. Ég ákvað samt að reyna einu sinni enn. Ég hljóp upp tröppurnar og barði í vegginn sem lokaði stigaganginum. Ekkert. Hann var þarna enn. Ég hljóp niður en sömu vonbrigðin spörkuðu í mig þar; þar var líka lokað.


Vonbrigðin voru þvílík og svartsýnin var byrjuð að taka yfir mig, ég réði ekkert við hana. Ég settist – eða hálfpartinn lagðist – í tröppurnar með fæturna upp á við. Ég hélt á hnífnum í höndunum og virti hann fyrir mér. Hann virtist enn vinalegri en áður. Hann var eiginlega það vinalegasta sem ég hafði nokkurn tímann augum litið. Ég lagði hann upp á hálsinum og fann kalt blaðið leika við litla skeggbroddana. Ég kemst ekkert hérna út án þess að nota hnífinn.
Ég lagði hnífsoddinn upp undir hökuna og nýtti alla mína krafta í að þrýsta honum í gegn. Ég fann hnífinn stingast upp undir góminn. Sársaukinn var þvílíkur og hrygluhljóðin ein hefðu getað gert hvern mann geðveikan. Ég féll aftur fyrir mig á gólfið svo fæturnir voru það eina sem eftir var í tröppunum. Sársaukinn fór svo hverfandi og kraftarnir mínir byrjuðu að fjara út.

Svo heyrði ég eitthvað uppi. Rétt áður en augun lokuðust sá ég eitthvað efst í tröppunum. Einhverja persónu…

Sjálfan mig?