
„Æj, fyrirgefðu mér, elskan. Ég ætlaði ekki að æsa mig.“ Hanna saug upp í nefið, óviss um hvað hún ætti að segja. Sem áður starði hún bara á Einar; nýrakað, fínlegt andlitið – alltaf myndarlegur hann Einar. Tímalaus fegurð. Einari hafði alltaf þótt slíkt hið sama um Hönnu. Síðan dó hann.
Hanna, enn með tárin í augunum, horfði í kringum sig: Í kringum hana voru margir bekkir sem áttu eftir að fyllast af grátandi og syrgjandi fjölskyldumeðlimum eftir klukkutíma – syrgjandi Einar, sem var dáinn. Samt gat hún talað við hann.
„Gerðu það, Hanna. Leggstu hérna hjá mér. Viltu ekki vera með mér að eilífu?“ Hún horfði á hann. „Jú…ég held það,“ tókst henni loks að gubba upp úr sér. „Gott, gott, elskan. Komdu þá hingað og leggstu hjá mér,“ sagði hann og klappaði á botninn í bólstraðri kistunni.
„Má ég það?“ spurði Hanna eins og hún væri að spyrja mömmu sína hvort hún mætti klappa ókunnugum hundi. „Elskan mín, ég vil hafa þig hjá mér – alltaf.“ Guðrún nuddaði fingrunum inn í lófann á hægri hendinni – hún gerði það alltaf þegar hún þurfti að taka erfiðar ákvarðanir. „Ég kem þá í kistuna til þín, elskan,“ sagði hún og byrjaði að klifra upp á hana.
Miðdegissólin lýsti inn um stóran gluggann og yljaði Hönnu – of mikið fyrir hennar smekk enda var hún öll í svörtu eins og lög gerðu ráð fyrir. Þegar annar fóturinn var kominn ofan í kistuna kom séra Gulli inn í kapelluna þar sem Hanna og Einar voru.
„Hanna mín, hvað ertu að gera?“ spurði séra Gulli, rólegur eins og alltaf. Hún hrökk upp við mjúka rödd séra Gulla. „Ég, haa…æjhh…“ Hún gat ekkert sagt heldur fór bara aftur niður á gólf. „Athöfnin fer að byrja. Viltu ekki fara að koma út til þess að taka á móti gestunum sem eru að koma?“ sagði séra Gulli og fór út.
Hanna leit ofan í kistuna á fölt, líflaust andlit Einars.
Svo fallegt.