Patrik raulaði viðlagið í Clint Eastwood eftir Gorillaz á meðan hann steig af alefli á pedalana á leið sinni að Draumabraut. Af hverju ætli hún heiti Draumabraut? Patrik hafði alltaf þótt ljósastaurarnir sveiptir vissri dulúð, hann bara kunni ekki að segja öðrum það. Leiðin að Draumabraut var ekki langt frá því þar sem Patrik tók við mjólkinni; hann þurfti bara að hjóla helminginn af Sælubraut og inn litla hliðargötu sem lá að Nægjubraut, hann hjólaði svo út hana og þá var hann kominn. En á næturnar, þegar allt var svo dimmt og hvað sem er gat verið eitthvað hræðilegt, þá virtist þetta vera frekar löng leið. Patrik, í eðli sínu myrkhræddur, var alla ferðina í fullu adrenalínflæði.
Þegar Patrik ætlaði að beygja inn í Draumabraut heyrði hann tvö öskur; það fyrra var mannlegt. En það seinna…hátt og skerandi – eitthvað ómannlegt. Patrik vissi að ekkert mannlegt gat framkallað neitt í líkingu við þetta. Það fyrsta sem Patrik datt í hug var öskur drekanna sem Nazgularnir í Hringadróttinssögu, uppáhalds myndinni hans, voru á. En svo gerði hann sér grein fyrir því að þetta öskur var mun hærra og meira skerandi. Hann stöðvaði hjólið. Hvað var þetta? Hann leit í kringum sig en sá ekkert. Svo heyrðist það aftur; sömu öskrin, ekki í sömu röð núna. Hann sneri sér við og þá sá hann það; í garðinum hinum megin við götuna…hann sá einhverja veru sem úr svo mikilli fjarlægð og í þessu myrkri virtist vera alveg svört. Hann gekk rólega nær. Yfir götuna og að garðinum.
Hann kíkti í gegnum runnann: Í garðinum stóð hávaxinn maður – örugglega yfir tveir metrar, áætlaði Patrik. Framan á manninum hékk veran og Patrik hélt að hún ætlaði að kyssa hann…alveg þar til hún opnaði munninn svo glytti í svartar og en samt sem áður glansandi tennurnar. Tennurnar voru risastórar og hvassar – Patrik hafði aldrei séð neitt í líkingu við þetta. Veran, með kjaftinn opinn, beygði sig fram að manninum, sem reyndi að ná höggi á veruna. Það fór ekki vel fyrir manninn því veran sneri höfðinu svo hendinn á manninum fór upp í hana. Maðurinn æpti fullur angistar og tók nokkur skref aftur á bak. Hann leit á hendina: Veran hafði bitið hana af neðarlega á framhandleggnum. Með hendinni fór giftingarhringurinn, sem inni í stóð Þín, alltaf, ofan í veruna. Svitinn spratt fram á enninu sem og blóðið úr hendinni, og maðurinn hvæsti að skepnunni: „Hætt?!“ Manninum fannst veran reiðast við þetta. Hún stökk aftur upp á hann og var ekkert að tvínóna við hlutina í þetta skiptið; hún læsti tönnunum utan um öxlina á honum og rykkti höfðinu aftur svo hendinn rifnaði af manninum við öxl.
Blóðið streymdi út eins og stífla hefði brostið og maðurinn limpaðist strax niður. Veran gleypti handlegginn í einum bita og réðist svo aftur að líflausum manninum. Hún reif brjóstkassann upp með höndunum og stakk andlitinu svo ofan í brjóstholið og magann. Við og við kom hún upp með innyfli og iður, og svolgraði þeim svo jafnóðan niður. Patrik lokaði augunum, hallaði sér upp að grindverkinu og lét sig renna niður í sitjandi stöðu. Hann táraðist. Hvað í andskotanum var þetta?! Hann sat þarna í smástund, hversu lengi hafði hann ekki hugmynd um. Gætu hafa verið nokkrir klukkutímar eða jafnvel bara nokkrar mínútur. Hann stóð svo upp og leit aftur inn í garðinn: Veran var þarna enn en lítið bólaði á manninum sem hún hafði verið ofan á rétt áðan; það eina sem Patrik sá var lítið hrúgald við hliðina á verunni. Maðurinn? Leifar hans?
Patrik gaf frá sér lágt snökt. Honum til mikillar skelfingar sá hann að veran leit snöggt upp og beint á hann. Gul augun lýstu í gegnum myrkrið. Það hræddi Patrik. Hann fann hvernig glóandi augun störðu beint á hann. Og það sem meira var, honum fannst eins og veran sæi beint inn í hann – inn í sálina, ef eitthvað svoleiðis var þá á annað borð til. Patrik hljóp yfir götuna og að hjólinu. Honum datt ekki í hug að mjólkin gæti hægt á honum og leyfði henni því að vera á bögglaberanum. Hann renndi því af stað á hjólinu, sem var fimmtán kílóum þyngra en það ætti að vera. Adrenalínflæðið var tífalt á við það sem það var áðan og hann hjólaði líkt og hann væri að hjóla upp úr dyngjuskál við það að fyllast hraunkviku.
Hann hjólaði og hjólaði og mæddist og mæddist. Hann leit aftur fyrir sig: Ekkert. Ekkert nema auð gatan og nokkrir kyrrstæðir bílar. Og myrkrið. Honum fannst myrkrið orðið of mikið.
Var ekki byrja að birta áðan? Veran sást hvergi. Þar til…hann heyrði öskrið aftur. Nema núna hljómaði það mun grimmilegra og ofsafengnara – eins og veran hefði orðið reiðari við máltíðina. Patrik hrylldi við tilhugsuninni. Hann leit aftur um öxl. Í þetta skiptið sá hann veruna; hún gekk róleg á eftir honum. Hún var á fjórum fótum og virtist vera jafnhá meðalmanni. Patrik furðaði sig á því hversu hægt veran fór. En hann kvartaði ekki heldur gaf í því hann var enn hræddari en fótbrotinn sauður í úlfahjörð. Hann beygði upp litla hliðargötu – hélt hann – sem lá út úr Draumabraut. Það var eitthvað sem hann hefði betur sleppt. Hann gaf í þegar hann kom í beygjuna og horfði aftur fyrir sig þegar hann kom inn þangað sem beygjan leiddi. Hann tók ekki eftir veggjunum sem hann var að hjóla á milli. Hann horfði fram fyrir sig og sá það sem hann hefði ekki einu sinni dreymt í sínum villtustu martröðum: Hann var í lokuðu húsasundi. Hann fór niður af hjólinu og sneri sér við. Hann sá ekkert. Ekkert nema myrkrið.
Svo sá hann þau…gul glóandi augun.