Þetta var ein léttasta – og mest þroskandi – vinnan sem þeir gátu fundið handa honum. Hann átti að vera nokkuð öruggur í þessari vinnu; átti ekki að geta klúðrað neinu. Hver ætti svo sem að geta klúðrað því að skilja eftir flöskur, fullar af mjólk, á tröppunum fyrir utan íbúðarhús? Enginn, ekki einu sinni einstaklingur með slæmt tilfelli af Williams syndrome, eins og Patrik, ætti að geta klúðrað því. Einstaka sinnum átti hann að fara inn í íbúðirnar og skilja mjólkina eftir inni svo enginn óboðinn morgungestur gæti stolið henni. En það voru bara einfeldningarnir sem skildu íbúðirnar sínar eftir opnar á næturnar; hver sem er gat komist inn og gert það sem hann vildi. Allir vissu það, meira að segja Patrik, sem vissi þó ekki mikið.
Þetta var fyrsti dagurinn – eða nóttin – hans í vinnunni. Hann mætti stundvíslega þegar klukkan var við það að ganga tíu mínútur í fjögur. Mamma hans keyrði hann, því nokkuð langt var á milli heimilisins þeirra og vinnustaðarins, og ekki fékk Patrik að reyna við bílprófið. Nýorðni yfirmaður Patriks, klæddur í dökkbláan samfesting, samlitan jakka yfir og stór, svört Viking-stígvél, tók á móti honum, skælbrosandi svo glytti í gular tennurnar í gegnum tjásulegt skeggið. Hann nálgaðist Patrik rólega og rétti hendina varfærnislega í áttina að honum. Patrik leit á mömmu sína, sem brosti til hans, og tók svo lauslega í hendina á nýja yfirmanninum sínum. Hlýlegt bros yfirmannsins virkaði öruggt á Patrik svo hann fór nær honum. Yfirmaðurinn lagði hendina yfir öxli Patriks og saman gengu þeir inn í hlýja vöruskemmuna. Á leiðinni inn sneri yfirmaður Patriks sér við og blikkaði mömmu hans, svona rétt eins og til þess að fullvissa hana um að allt væri í lagi.
Þegar þeir félagar komu inn horfði Patrik bara í gaupnir sér, vissi ekki almennilega hvað hann átti að gera. Patrik fannst þögnin óþægileg; hún myndaðist oft í kringum hann og hann hélt að einn daginn myndi hún gleypa hann. Hann rauf því þögnina: „Hva heitirðuj?“ spurði hann á sinn einstaka máta. „Ég,“ sagði yfirmaðurinn og hló góðlátlega. „Ég, skal ég þér segja, heiti Sævar. En þú?“ Patrik roðnaði í kinnum og hélt áfram að horfa í gaupnir sér. „Éhh heitti, skoh, Pattrikk.“
„Nú, já. Það er gaman að heyra. Alveg eins og sonur systur minnar, hennar Erlu,“ sagði hann og blikkaði Patrik. „En hvað segirðu, vinur, eigum við að skella okkur í þetta?“ Lágt hljóð kom upp úr Patrik sem Sævar túlkaði sem já. „Komdu þá hingað til mín,“ sagði hann og klofaði yfir ógrynni af ónotuðu drasli á leið sinni út í eitt horna skemmunnar. Patrik, ennþá hálf-skömmustulegur, klofaði yfir sama drasl og Sævar á leið sinni til hans. „Jæja, kall. Sérðu þennan grip?“ spurði hann og benti á bleikt og greinilega mikið notað hjól. „Þetta hjól munt þú fá að nota núna á eftir og alltaf þegar þú ferð með mjólkina,“ sagði hann og bjóst við glaðlegum viðbrögðum frá Patrik. Honum brá því þegar Patrik svaraði honum. „Ðett’er fyrir gjellingar!“
„Ha? Hvað meinarðu?“ Patrik horfði niður á gólfið og svaraði Sævari: „Bra konur ‘jóla á sona.“ Sævar leit á hjólið. Þetta var alveg rétt hjá honum; stöngin úr stýrinu í hnakkinn hallaði niður á ská og hnakkurinn var breiðari en á flestum hjólum. Þetta var dæmigert kvenmannshjól. Sævari fannst hann sjálfur vera vitlaus; auðvitað tæki Patrik eftir því að þetta væri kvenmannshjól. „Þetta er alveg rétt hjá þér, Patrik. Ég hef eitthvað ruglast,“ laug hann sakleysislega.
„Eltu mig,“ sagði Sævar og klofaði aftur yfir allt ruslið. Patrik hlýddi. Í horninu hinum megin, þvert yfir herbergið, stóð annað hjól; svart, með réttri stöng, eins og Patrik vildi, og hörðum hnakk. „Sona ‘jól vil ég,“ sagði Patrik og það hlakkaði í honum. „Svona hjól vilt þú, já,“ endurtók Sævar og horfði hugsi út í loftið. „Jæja, komum okkur þá út og finnum mjólkina fyrir þig,“ sagði Sævar og hélt á hjólinu út, eltur af Patrik.
Þeir fóru út í dimma og kalda nóttina. Sævar lagði hjólið, sem Patrik gat ekki slitið augun af, niður á götuna svo hann gæti reitt það yfir í skemmuna þar sem mjólkin var geymd. Léttur úðinn, sem einungis sást í skini ljósastauranna, lagðist yfir þá kumpána og hristi af þeim slenið sem byrjað var að íþyngja þeim. Þeir þurftu ekki að labba lengi þar til þeir komu að skemmunni hvítu þar sem mjólkin lúrði og beið eftir mjólkurpóstinum sem átti að koma og dreifa henni.
Sævar tók stóra lyklakippu með ótal lyklum á upp úr hægri vasanum. Hann reyndi þrjá lykla í skránni áður en hún loks opnaðist. Það marraði í hurðinni þegar Sævar opnaði hana. Myrkið bauð þá velkomna en Patrik steig ekki fæti inn fyrir fyrr en Sævar kveikti ljósin. „Myrki’ gjetu gleypt mann,“ sagði Patrik við Sævar þegar hann innti Patrik að því hvers vegna hann kæmi ekki inn í myrkrið. Um leið og ljósinn kviknuðu linaðist Patrik þó og fór inn. Ljósin kviknuðu hvert af öðru inn að endanum á skemmunni og lýstu hana upp smátt og smátt. Patrik horfði orðlaus af undrum á alla mjólkina í kringum sig; hann hafði aldrei séð neitt þessu líkt. Þarna voru fleiri hundruðir – ef ekki þúsundir – mjólkurflaskna sem voru í misstórum, grænleitum körfum á víð og dreifu um skemmuna. Sævar tók eina, frekar litla körfu upp og taldi flöskurnar í huganum. „Fjörutíu og átta flöskur. Tuttugu og fjórar íbúðir, tvær flöskur í hvert. Þetta ætti ekki að geta klikkað,“ sagði Sævar án þess að slíta augun af flöskunum. Hann starði dreyminn á þær. „Þessi fullkomna lögun á flöskunum, geymir fullkominn drykk,“ sagði Sævar. Hann hélt svo áfram: „En svo drekkur fólk bara mjólkina án allrar virðingar og hendir flöskunum í ruslið…þetta er engin andskotans virðing – HVAÐ VARÐ UM HELVÍTIS LÍFSGILDIN SEM VORU HÉR ÁÐUR FYRR!“ öskraði hann á og hrökk svo upp við sjálfan sig. Hann sneri sér við og sá Patrik í hnipri á bakið fataslá sem á héngu grænir regnjakkar. „Patrik…fyrirgefðu mér, ég ætlaði ekki að missa mig svona,“ sagði hann og gekk nær Patrik. „Þúrt reiður!“ sagði Patrik. „Þúrt vondur og þúrt reiður!“ æpti hann svo að Sævari. Sævar gekk varfærnislega nær Patrik. „Patrik, fyrirgefðu. Komdu nú, förum út og gerum okkur til.“ Nú var það Patrik sem færði sig varfærnislega nær. Sævar sá hvað hreyfingarnar voru allar ósamhæfðar og fór jafnvel að efast um að Patrik gæti hjólað. „Ja, kommum útt,“ sagði Patrik. Sævar tók körfuna með mjólkurflöskunum upp og fór út í nóttina. Patrik elti.
Sævar setti körfuna niður og rétti úr sér til þess að braka í bakinu. Ohh, hvað það var gott. „Jæja, kall. Núna erum við tilbúnir. Í gamla daga hefði þér ekki verið hleypt af stað nema þú værir í hinum hefðbundna klæðnaði mjólkurpóstsins. En nú er öldin önnur. Klæðnaður skiptir engu máli – núna þarftu bara að koma mjólkinni til skila.“ Sævar tók körfuna upp og festi hana kyrfilega aftan á svart hjólið. Patrik renndi augun eftir hjólinu og um varir hans lék glott brjálæðings. „Þú manst hvert þú átt að fara? Draumabraut eitt til tólf, það er bara út götuna. Svo var búið að fara yfir þetta með þér.“
„Jaa, éhh veid,“ svaraði Patrik og steig upp á hjólið. „Bless og gangi þér vel, Patrik minn,“ sagði Sævar við Patrik. „Farðu varlega,“ hélt hann svo áfram og hljómaði eins og áhyggjufull mamma sem var að sjá á bak barni sínu einu í skólann í fyrsta skipti. Patrik kvaddi og hjólaði svo út í myrkið.
Sævar átti aldrei eftir að sjá Patrik lifandi aftur.