Langaði að gera bréf um dauðann, fannst þetta flatt og kjánalegt hjá mér en hver veit.

———————————–


23. júní 2009.

Eygló,
ég hef satt að segja ekki hugmynd um hvernig ég á að orða hlutina, mig langaði bara að koma öllu frá mér á einn stað áður en það yrði of seint.
Ég veit ekki alveg hvar ég á að byrja. Mig langaði bara að þakka þér fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig þessi ár sem við höfum þekkst. Ég get ekki lýst því hversu mikils virði þú hefur verið mér, en ég get fullvissað þig um að þú hefur átt stóran part í lífinu mínu.
Mínar bestu minningar tengjast nánast allar þér á einhvern hátt; grunnskólagangan og öll misjöfnu grunnskólaböllin, fyrsta alvöru vinnan okkar, menntaskólaárið sem við áttum saman, bílprófið, allir rúntarnir sem við fórum saman á, öll skiptin sem við fórum versla (sérstaklega þegar þú braust spegilinn í mátunarklefanum, hahahaha) misheppnaða fylleríið okkar, allar misvel heppnuðu eldunartilraunirnar okkar, öll myndböndin sem við bjuggum til, allar myndirnar sem við tókum, öll mómentin sem við grenjuðum af hlátri; allir þeir tímar sem við eyddum saman, hvort sem við vorum að gera eitthvað sérstakt eða röltum bara og töluðum saman um allt sem var að gerast í kringum okkur; þetta er það sem er mér hvað mest virði.
Ég á eftir að sakna þín sárar en hægt er að ímynda sér. Þú átt samt eftir að hafa það gott; fara á djammið, eignast þitt eigið hús og eignast mann og börn og gera það sem þér dettur í hug og njóta þess að vera lifandi. Ég vil að þú gerir það sem þig langar til, algjörlega óháð því um hvað aðrir eru að hugsa. Þú veist að ég studdi þig alltaf og ég mun alltaf gera það.
Ég vil líka biðjast fyrirgefningar á öllu því ljóta sem ég hef sagt í gegnum tíðina. Ég meinti líklega ekki helminginn af því sem ég sagði, en ég hef alltaf átt erfitt með að stjórna kjaftinum á mér eins og þú veist.
Ekki láta neinn vaða yfir þig á skítugum skónum og í guðanna bænum, farðu að vanda betur strákavalið þitt. Ég verð ekki hérna lengur til þess að væla í þér, og ég bið þig um að hugsa áður en þú framkvæmir. Stundum þarf líka bara að bíða nógu lengi og þá koma hlutirnir til manns.
Ég er búin að vera að huga mikið um jarðaförina núna upp á síðkastið. Mig langar til að þú látir einhver lög verða spiluð, bara eitthvað gott sem fer vel í eyra.
Það er svo margt sem mig langar að gera; svo margt sem ég ætlaði mér alltaf að gera einn daginn en eins og hjá flestum þá var það eitthvað sem maður gerir “seinna.”
Núna er ég í svekkelsinu þar sem það verður ekkert “seinna” hjá mér, og mig langar að biðja þig að passa þig á þessu. Drífa sumt frekar af, því að tíminn er naumur og það er hverju orði sannara.
Ég var ekki þekkt fyrir það að hafa mikið að segja og ég held að það sé alveg satt. Mig langar að geta sagt þér hversu frábært það var að hafa þig í lífinu mínu þessi ár; langar að geta sagt þér hversu sárt ég á eftir að sakna þín og hversu ömurlegt mér finnst það að vera að fara, en ég finn aldrei almennileg orð yfir það hvernig mér líður.
Ég er ekki hrædd við það að deyja, það er örugglega dagur eftir þennan dag á nýjum stað eins og er sagt í laginu. Ég trúi ekki á Guð eins og þú veist, en ég vona að ég vakni ekki upp í jörðinni hjá rotnandi ættingjum mínum. Vonandi bara í ljósinu, eða einhverju svoleiðis.
Ég er búin að sætta mig við dauðann. Þetta verður ekkert svo slæmt.
Ég bið innilega að heilsa öllum í kringum mig, og óska öllum alls hið besta. Ég á örugglega eftir að reyna að fylgjast eitthvað með ykkur.
Dökkhærði afgreiðslumaðurinn? Hann er þinn núna, haha. Þú ættir að athuga með hann. Ég er búin að skoða það; hann er á lausu, ekki hommi, á bíl og er í vinnu.
Gerðu mér líka einn greiða: ekki fara að lita fallega hárið þitt, rauði liturinn er fer þér best.
Eitt enn; þú mátt endilega berja þessa ljóshærðu fyrir mig, slá hana einu sinni í framan frá mér. Hún getur lítið gert við höggi að handan, hahaha!
Segðu líka Baldvini frá því að ég hafi verið hrifin af honum og hafi alltaf þótt óskaplega vænt um hann, þótt hann hafi ekki viljað leyfa mér að komast nær sér heldur en upp í rúm. Ég get ekki gert honum það að fara að láta hann lesa eitthvað frá mér látinni um ást mína á honum. Það hljómar eins og beint upp úr einhverri lélegri hrollvekju.
Enn og aftur; ég á eftir að sakna þín viðbjóðslega og vona bara að ég geti fengið að hitta þig sem fyrst. Það að vera að fara að deyja er samt svo óraunverulegt, en þetta er víst hluti af lífinu. Maður fæðist, grenjar, étur, skítur, ríðir og deyr. Gott ég gerði allt. Gerðu enn betur!
Njótta augnabliksins, eins og Siggi kennari sagði svo oft. Njóttu hverrar einustu mínútu; ein sekúnda dregur þig nær dánarbeðinu. Þetta hljómar emo, en sannleikur.
Þú verður alltaf besta vinkona mín og þú mátt vita að þú ert fallegasta manneskja sem ég veit um, og líka með besta persónuleikann. Ekki gleyma mér.
Ég elska þig.
Þín,
Rebekka.

p.s. ég faldi sígarettur og áfengi inn í skáp, hirtu það áður en mamma tekur eftir því.
-knús-